02.03.1977
Efri deild: 47. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2379 í B-deild Alþingistíðinda. (1769)

134. mál, almannatryggingar

Frsm. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Heilbr.- og trn. Ed. hefur fjallað um bráðabirgðalög. Þessi brbl. voru sett 6. ágúst 1976 og þau voru gefin út til breyt. á lögum nr. 95 frá 31. des. 1975, sem fjalla um sjúkratryggingagjald. Þessi lög voru sett til þess að leiðrétta mistök er höfðu orðið, þannig að lög nr. 95 1975 kváðu á um innheimtu sjúkratryggingagjalds sem hefði, ef það hefði verið framkvæmt eins og lögin ákváðu, komið til greiðslu hjá ýmsum þeim aðilum sem samþykkjendur frv. ætluðust til að væru ekki gjaldskyldir. Lögin kváðu sem sagt á um að þeim, sem ekki greiddu útsvar, bæri ekki heldur að greiða sjúkratryggingagjaldið. En þegar til framkvæmdanna kom sýndi það sig að enn verður að gera smábreytingu á þessum lögum. Því er það að heilbr.- og trn. flytur með brtt. við brbl. Hún leggur til að 1. gr. laganna orðist svo:

„Á árinu 1976 skal álagningaraðili útsvars leggja á og innheimta 1% álag á gjaldstofn útsvara og skulu sveitarfélög standa sjúkrasamlögum skil á fyrirframgreiðslu eða hlutfallslegri innheimtu þess mánaðarlega.

Eigi skal leggja gjald þetta á þá, sem ekki er gert að greiða útsvar, né heldur þá, sem vistaðir eru á elli- eða hjúkrunarheimilum, né langlegusjúklinga á öðrum sjúkrastofnunum eða í heimahúsum.

Hjá þeim öðrum, sem náð hafa 67 ára aldri á skattárinu eða áttu rétt á örorkulífeyri á skattárinu samkv. lögum nr. 67/1971, um almannatryggingar, með áorðnum breytingum, skal lækka álag samkv. 1. mgr. sem hér segir:

a) Hjá einstaklingum með tekjur til útsvars á bilinu kr. 320 100–640 000 skal álag þetta lækka um 1% af þeirri fjárhæð, sem á vantar 640000 kr. tekjumark.

b) Hjá hjónum með tekjur til útsvars á bilinu kr. 570 000 til kr. 1 140 000 skal álag þetta lækka um 1% af þeirri fjárhæð sem á vantar 1 140 000 kr. tekjumark.

e) Eftirstöðvar álags þessa, sem lækkað hefur verið samkv. ákvæðum a- og b-liða, skulu að lokinni lækkun standa á heilum hundurðum króna, þannig að lægri fjárhæð en 100 kr. skal sleppt.

Gjald þetta er háð sömu reglum og útsvar varðandi innheimtu og viðurlög.

Við ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um framlag ríkissjóð til sjúkrasamlaga samkv. 49. gr. skal taka tillit til þessa framlags til hlutfallslegrar lækkunar á framlagi ríkissjóðs.“

Heilbr: og trn. varð sammála um að mæla með samþykkt frv. með þessari breyt. sem lögð er til á þessu sérstaka þskj.