02.03.1977
Neðri deild: 54. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2380 í B-deild Alþingistíðinda. (1775)

104. mál, sauðfjárbaðanir

Frsm. (Stefán Valgeirsson) :

Virðulegi forseti. Þetta frv. var lagt fyrir á síðasta Alþ., en varð þá ekki útrætt. Frv. er samþykkt af milliþn. Búnaðarþings og kemur fram vegna þess að það hafa komið margar áskoranir um að breyta löggjöfinni um sauðfjárbaðanir í þá átt að létta böðunarskylduna.

Hv. landbn. hefur farið höndum um þetta frv. og á þskj. 340 er nál. og 9 brtt. frá n. Það eru að mestu orðalagsbreytingar og til áherslu, en efnisatriði ekki nema örfá og kem ég að því síðar.

Aðalbreytingin í frv. er í 3. gr., þ. e. a. s. að landbrh. er heimilað, að fengnum umsóknum frá sýslunefnd, að veita undanþágu frá böðunarskyldu á sérstökum afmörkuðum svæðum. En til þess að það sé leyfilegt þarf að liggja fyrir vottorð frá tilteknum aðilum um að það hafi ekki fundist óþrif í sauðfé eða geitfé á þessu svæði á undanförnum 4 árum eða lengur. Þeir aðilar, sem eiga að gefa vottorð um þetta, eru héraðsráðunautar í sauðfjárrækt og garnaveikibólusetningarmenn, gærumatsmenn og heilbrigðiseftirlitsmenn í sláturhúsum. Þetta er meginbreytingin. Lögin um sauðfjárbaðanir eru frá 1959, en smávægileg breyting var gerð á þeim lögum 1970.

Í 5. gr. er lagt til að það verði skylda, þegar um útrýmingarbaðanir er að ræða, að þá verði slíkar baðanir auglýstar tvisvar sinnum í Ríkisútvarpinu og auk þess verði ákvörðunin um böðun birt í Lögbirtingablaði.

Þá er í 10. gr. í lögunum, eins og þau eru, ákveðið að sektir samkvæmt þessum lögum megi vera frá 1000 kr. upp í 10 þús. kr. En þarna er tekin upp ný verðmiðun, að þær megi vera allt að jafnvirði 300 kg af 1. flokks dilkakjöti.

Aðalefnisatriðin í þeim brtt., sem hv. landbn. var sammála um að flytja, eru þrjú, ég sé ekki ástæðu til að minnast á fleiri. Samkv. lögunum núna á að vera búið að baða sauðfé fyrir 15. mars, en till. n. við 2. gr. er að það verði miðað við 1. mars. Lagt er til að lögin taki gildi 1. júlí í sumar og að á eftir 11. gr. komi ákvæði til bráðabirgða, sem orðist svo: „Böðun samkv. 2. gr. laga þessara skal fram fara í fyrsta sinn veturinn 1978–1979.“

Landbn. Nd. kallaði yfirdýralækni á sinn fund og ráðuneytisstjórann í landbrn. ásamt skrifstofustjóra rn. Þær breyt., sem n. var sammála um og eru á þessu þskj. og ég hef lítillega minnst á, eru fluttar í samráði við þessa aðila.