02.03.1977
Neðri deild: 54. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2385 í B-deild Alþingistíðinda. (1779)

49. mál, opinberar fjársafnanir

Frsm. (Svava Jakobsdóttir) :

Hæstv. forseti. Allshn. Nd. hefur fjallað um þetta frv. um opinberar fjársafnanir og mælir einróma með samþykkt þess með einni breytingu, en sú brtt. er prentuð á þskj. 342. Allshn. Ed. hefur fjallað um frv. og afgreitt það frá sér. Þetta frv., sem er mjög sniðið eftir löggjöf í Danmörku, miðar að því að hér komist á fastar og skýrar reglur um framkvæmd og skipulag opinberra fjársafnana. Hér er á engan hátt verið að bregða fæti fyrir heilbrigðar fjársafnanir. Hér er frekar um að ræða undirstrikun á tilvist þeirra og réttmæti, en um leið ætti að vera hægar að stemma stigu við fjársöfnunum sem engan rétt ættu á sér. Í 2. gr. frv. er kveðið á um hvernig skilgreina skuli opinberar fjársafnanir. Þá er kveðið á um leyfi til opinberra fjársafnana og hvert þau leyfi skuli sækja. Síðan er kveðið á um að skylda þá, sem standa fyrir fjársöfnunum, til reikningshalds og til að birta niðurstöður fjársöfnunar.

Brtt. allshn. er við 7. gr. og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú stendur söfnun yfir um lengri tíma en eitt ár, og skal þá með sama hætti birta opinberlega ársreikning innan 6 mánaða frá lokum hvers almanaksárs. Heimilt er lögreglustjóra að framlengja fresti þessa. Yfirlýsingu skv. 2. málsl. 6. gr. skal og birta með sama hætti.“

Allshn. þótti eðlilegt að inn í þetta frv. kæmi ákvæði um fjársafnanir er stæðu lengur en eitt ár, og er það eina ástæðan fyrir því að við leggjum til þessa breytingu.