03.03.1977
Sameinað þing: 59. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2398 í B-deild Alþingistíðinda. (1791)

65. mál, tölvutækni við söfnun upplýsinga um skoðanir manna og persónulega hagi

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Á þskj. 70 er till. til þál. um tölvutækni við söfnun upplýsinga um skoðanir manna og persónulega hagi. Flm. þessarar till. auk mín eru þeir hv. þm. Steingrímur Hermannsson, Benedikt Gröndal, Sigurlaug Bjarnadóttir og Magnús T. Ólafsson. Flm. þessarar till. eru sem sagt úr öllum starfandi stjórnmálaflokkum, og með því er að sjálfsögðu skýrt dregið fram að þetta mál er hafið yfir allar flokkspólitískar þrætur.

Þessi till. er flutt í þeim tilgangi að vekja athygli á nauðsyn þess, að einstaklingar hér á landi verði lögverndaðir fyrir því að nýjustu tölvutækni sé beitt til að koma upp safni upplýsinga um persónulega hagi þeirra. Þessi vandamál hafa verið til umræðu að undanförnu í nær öllum nálægum löndum í kjölfar þess að tölvutækni ryður sér mjög til rúms og er nú beitt með stöðugt handhægari aðferðum. Nefna má að nýlega hafa verið lögleidd í Bandaríkjunum ákvæði sem eiga að tryggja rétt einstaklingsins til einkaleyndar og verja hann gagnvart persónuskrám ríkisins, en lagabálkur þessi heitir „The Privaey Aet of 1974“, staðfestur 31. des. fyrir liðlegum tveimur árum. Í Vestur-Þýskalandi hefur mikill lagabálkur um upplýsingavernd legið fyrir sambandsþinginu um nokkurra ára skeið, en mér er ekki kunnugt um hvort hann hefur nú hlotið endanlega afgreiðslu. Í Frakklandi starfar n. að samningu lagafrv. um þetta efni. Og í Austurríki hefur forsrn. samið frv. að tölvuskrárlögum. Í Bretlandi hefur stjórnskipuð n. skilað áliti um persónuvernd við tölvuvinnslu hjá einkaaðilum og önnur n. fékk það hlutverk að fjalla um ríkisreknar tölvuskrár. Á Norðurlöndunum öllum hefur mikið verið fjallað um þessi mál. Svíar urðu fyrstir til þess fyrir nokkrum árum að setja lög um þessi efni, og nú er komin nokkur reynsla á framkvæmd þeirra laga. Norðmenn hafa einnig fjallað mikið um þessi mál og danir. Af fjölþjóðlegum stofnunum má einkum nefna Evrópuráðið, sem gert hefur tvær ályktanir um þetta efni, einnig mannréttindanefnd Efnahags- og félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna. Efnt hefur verið til sérstakrar ráðstefnu á vegum Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu, OECD, um tölvuvinnslu og persónuleynd, og í niðurstöðum þeirrar ráðstefnu var lögð á það þung áhersla, að í sem flestum löndum yrðu sett lög um tölvurekstur og persónuskrár og varði brot viðurlögum að mati dómstóla.

Án þess að fjölyrða frekar um þróun þessara mála í öðrum löndum er rétt að fara í örfáum orðum yfir það, hvaða hættur geta verið hér á ferðum og þá á hvaða sviðum.

Í fyrsta lagi er rétt að benda á að á fjármálasviðinu getur þessi hætta mjög verið á ferðinni. Það er hægt að hugsa sér að skráð sé fjármálasaga sem flestra einstaklinga með tölvutækni, t. d. þannig að skráðir væru allir vanskilavíxlar, skuldamál, sem upp kæmu í þjóðfélaginu, öll uppboð, gjaldþrotamál og annað það sem fjármál snertir. Tilgangur slíks verks væri að sjálfsögðu að tölvan gæti hvenær sem er verið reiðubúin að svara því til, hverjir væru eða hefðu einhvern tíma áður fyrr verið lánstrausts verðir. Stofnanir af þessu tagi eru til viða um heim, en hafa enn ekki farið af stað hér á landi. En rétt er að upplýsa að slík starfsemi er í undirbúningi hér á landi.

Annað svið, sem ástæða væri til að nefna, er heilbrigðissaga einstaklinganna. Þar gæti verið um að ræða skráningu allra þeirra læknisaðgerða eða veikleika sem læknavísindin hefðu komist á snoðir um að einstaklingar þjáðust af. Í þessu sambandi má að sjálfsögðu nefna upplýsingabanka um heilsufar allra landsmanna á vegum heilbr.- og trmrn. og með aðstoð Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar sem áformað hefur verið að setja upp hér á Íslandi. Hér er ekki verið að segja að slík tölvuvinnsla eigi alls engan rétt á sér og hana beri að banna, aðeins verið að benda á að hér er um að ræða nýtt svið sem verður að setja ákveðnar reglur um. Mér var sagt frá því í morgun, að í nálægu landi væri svo komið að allir lyfseðlar, sem gefnir væru út á einstaklinga, væru jafnóðum skráðir í ríkisrekinni tölvu og eins væru öll áfengiskaup einstaklinga skráð með sama hætti. Vissulega er ástæða til að veita því fyrir sér hvort slík starfsemi eigi rétt á sér. En þetta dæmi ætti að minna á að hér gætu komið upp ærið hæpin vafatilvík. Það er rétt að láta þess hér getið, að í leiðara Læknablaðsins, sem kom út á árinu 1973, var einmitt rituð grein af hálfu ritstjórnar þar sem mjög var varað við hættu af notkun slíkra upplýsingamiðstöðva um heilbrigði manna.

Þriðja sviðið, sem minna mætti á, er tryggingasaga einstaklinganna, skrá um allar bótagreiðslur, en slíkar upplýsingar geta verið óþægilegar fyrir einstaklinga síðar meir og þar er um að ræða skráningu sem verður að fara fram af talsverðri varúð.

Fjórða tilvikið gæti verið námsferilssaga. Það er tiltölulega einfalt mál að tölvufæra allar einkunnir og öll próf sem einstaklingar hafa tekið á ævinni, skrá sem sagt hegðun þeirra í skólum. Tilgangurinn kynni að vera mjög svo heiðarlegur og einfaldur. En vonandi gera flestir sér grein fyrir því, að einnig á þessu sviði gæti verið hætta á misnotkun.

Fimmta tilvikið, sem sérstök ástæða er til að nefna, er skráning skoðana manna eða skráning þeirrar félagslegu starfsemi sem þeir hafa tekið þátt í. Þarna getur auðvitað verið um hvort tveggja að ræða: skráningu á trúarskoðunum manna og pólitískum skoðunum. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þennan þátt málsins, enda hefur hann verið margræddur hér á landi, en minni bara á að þetta svið er að sjálfsögðu eitt hættulegasta notkunarsvið tölvutækninnar.

Sjötta atriðið, sem mætti hér draga fram, er sakaskrá manna. Eins og öllum er kunnugt, þá er færð ein sakaskrá í þjóðfélagi okkar, og það er sú skrá sem saksóknari ríkisins hefur undir höndum. Hún er að sjálfsögðu meðhöndluð eftir ákveðnum reglum og þær reglur fela það m.a. í sér, að ekki getur hver og einn komið og beðið um að sjá sakaskrá einhvers annars manns. Það eru aðeins opinberir aðilar sem geta gert rökstudda kröfu til þess að sjá sakaskrá manns, og hún getur verið lögð fram ef dómstóll fjallar um mál manns. Eins á að sjálfsögðu viðkomandi aðili rétt á því að sjá sakaskrá sína. En aðrir eiga ekki slíka kröfu. Það er í sjálfu sér ekkert því til fyrirstöðu að einhver einstaklingur taki sig til og stofni sakaskrá, safni öllum upplýsingum um dóma, — það eru opinber gögn, — dóma sem kveðnir eru upp hér á landi, og hann gæti á þann hátt á löngu tímabili komið upp safni upplýsinga sem jafnaðist á við hina opinberu sakaskrá.

Í þessu sambandi hlýtur svonefnd tölvuskrá rannsóknarlögreglunnar að koma til umræðu, en á þingfundi 30. nóv. s. l. varpaði ég fram nokkrum spurningum til hæstv. dómsmrh. um það efni. Ég ætla ekki að fara að reifa það mál að nýju, en ég vil hins vegar leyfa mér að minna á, að dómsmrh. átti þess ekki kost á sínum tíma að svara öllum þeim spurningum sem þá voru fyrir hann lagðar. Ég hef hins vegar óskað eftir því við hann, að hann geri tilraun til að svara þeim spurningum nú sem hann treysti sér ekki til að svara þá, vegna þess að upplýsingar voru þá ekki fyrir hendi. Ef það er rétt sem mér sýnist, að hæstv. dómsmrh. sé ekki hér nálægur, þá vildi ég eindregið mælast til þess að hæstv. forseti kallaði til hans og sendi honum boð um að þessi fsp. yrði hér lögð fram.

Meðal þeirra spurninga, sem ég varpaði þá fram, var þessi: Hvaða einstaklingar verða skráðir í tölvubanka rannsóknarlögreglunnar? Hæstv. dómsmrh. svaraði þá: Þar sem ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvaða upplýsingar verði færðar í tölvuna er ekki unnt að svara þessari spurningu að svo stöddu, en þetta er eitt þeirra meginatriða sem taka þarf ákvörðun um í sambandi við framtíðarnotkun tölvu fyrir rannsóknarlögregluna. — Hann var einnig spurður þessa: Verða þar aðeins skráðir þeir, sem fremja meiri háttar afbrot, eða einnig þeir, sem t. d. eru staðnir að minni háttar yfirsjónum í umferðinni? Og hann svaraði: Um þessa spurningu gildir það sama og þá fyrri, að ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvaða upplýsingar verða færðar í tölvuna, þó að eðli málsins skv. megi sjálfsagt segja að það sé ekki líklegt að smábrot verði þar færð til bókunar. — Hann var spurður um það, hvort einstaklingum yrði heimilt að krefjast þess að fá svar við því, hvort nöfn þeirra væru í tölvubanka lögreglunnar og hvað um þá stæði þar. Hann svaraði því, að um þetta efni yrðu settar reglur. Eins var hæstv. dómsmrh. spurður að því, hvort mönnum yrði gert kleift að koma fram leiðréttingum á röngum, úreltum eða villandi upplýsingum um þá sjálfa. Hann svaraði því til, að til þessa atriðis yrði tekin afstaða þegar mótaðar verða reglur um notkun tölvubankans. En ég tel sjálfsagt að svo verði gert, sagði hæstv. dómsmrh.

Þetta voru sem sagt fjórða, fimmta, áttunda og níunda spurning sem ég varpaði fram á þingfundinum 30. nóv. Vegna þess að nú er hæstv. dómsmrh. kominn í salinn ætla ég að endurtaka þær: Hvaða einstaklingar verða skráðir í tölvubanka rannsóknarlögreglunnar? Verða þar aðeins skráðir þeir, sem fremja meiri háttar afbrot, eða einnig þeir, sem t. d. eru staðnir að minni háttar yfirsjónum í umferðinni? Verður einstaklingum heimilt að krefjast þess að fá svar við því, hvort nöfn þeirra eru í tölvubanka lögreglunnar og hvað um þá stendur þar? Og verður þeim jafnframt gert kleift að koma fram leiðréttingu á röngum, úreltum eða villandi upplýsingum um þá sjálfa? Ég vil sem sagt leyfa mér að spyrja hæstv. dómsmrh. að því, hvort nokkuð liggi frekar fyrir um það, hvernig þessum málum verði hagað, umfram það sem hann gat upplýst á þingfundi 30. nóv. s. l.

Ég vil að lokum segja að till. sú, sem hér er til umr., hefur verið flutt tvívegis áður, en hún hefur ekki hlotið afgreiðslu. Ég hef hins vegar ástæðu til að ætla að flutningur þessarar till. hafi haft nokkur áhrif, því að á þingfundi 30. nóv. s. l., þegar dómsmrh. svaraði fyrrnefndum fsp., þá skýrði hann frá því að skipuð hefði verið n. til að undirbúa löggjöf um þetta efni. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh. að því, hvenær þessi n. hafi verið skipuð og hvenær vænta megi að hún ljúki störfum. Ég legg sérstaka áherslu á að n. ljúki störfum sem fyrst. Með hliðsjón af þessum nýju upplýsingum, sem ekki lágu fyrir þegar till. var lögð fram í haust, og kannske hefur n. ekki þá þegar verið skipuð, en um það fást væntanlega upplýsingar hér á eftir, þá vildi ég leyfa mér að flytja hér brtt. við þessa till. til þál. Brtt. þessi er flutt af sömu þm. og flytja sjálfa þáltill. Þeim þykir eðlilegt að tillgr. verði orðuð með öðrum hætti eftir að þessar upplýsingar liggja nú fyrir. Brtt. er á þá leið, að tillgr. sjálf orðist svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að leggja fyrir Alþ. í þingbyrjun næsta haust frv. til l. um verndun einstaklinga gagnvart því, að komið sé upp safni upplýsinga um skoðanir þeirra eða aðra persónulega hagi með aðstoð tölvutækni.“

Ég sé svo ekki ástæðu til þess, herra forseti, að gera frekari grein fyrir þessu máli, en vil leyfa mér að leggja til að að lokinni þessari umr. verði till. vísað til hv. allshn., en leyfi mér að leggja hér fram þessa skrifl. brtt.