03.03.1977
Sameinað þing: 59. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2410 í B-deild Alþingistíðinda. (1800)

110. mál, meðferð minni háttar mála fyrir héraðsdómstólum

Tómas Árnason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Það er viðvíkjandi þeirri skoðun sem kom fram hjá hæstv. dómsmrh. um að gera mönnum kleift að nota sér þá aðferð að fara hreinlega fram hjá þeirri meðferð mála sem nú er gert ráð fyrir um stefnu og dóm, eins og t. d. í víxilmálum og tékkamálum. Mér finnst þetta mjög athyglisverð hugmynd, að það verði beinlínis heimilað eigendum tékka og víxla að leggja þessi skjöl fram sem grundvöll fyrir aðför og uppboðskröfu í stað þess að fara gegnum almenna málsmeðferð með þessi mál. Það er staðreynd, sem hefur verið upplýst, að sá fjöldi mála, sem t. d. liggur fyrir Bæjarþingi Reykjavíkur á hverju ári á sviði víxilmála og tékkamála, er ótrúlegur samanborið við það sem tíðkast t. d. á hinum Norðurlöndunum, eins og t. d. í Osló. Mig minnir að það séu nokkur hundruð mál í Osló samanborið við nokkur þúsund mál hér í Reykjavik, — gott ef það voru ekki nokkrir tugir tékkamála og víxilmála í Osló, en fyrir Bæjarþingi Reykjavíkur nokkur þúsund. Það gefur auga leið, að dómarar við dómstólana eru önnum kafnir við það verkefni að afgreiða þessi mál, dæma þau og afgreiða þau, og það væri mikill léttir fyrir dómskerfið ef komið yrði á þeirri reglu að heimila mönnum hreinlega að leita aðfarar beint með víxilkröfur og tékkakröfur og e. t. v. fleiri kröfur, án þess að þurfa að fara með slík mál fyrir dómstólana og fá dóm. Hitt er annað mál, að það kann að vera erfiðara að koma þessu við á ýmsum sviðum, þegar um er að ræða smærri mál og þ. á m. einmitt þau mál sem þessi till. fjallar sérstaklega um, fjárkröfur yfirleitt. Það tíðkast mjög nú, eins og kunnugt er, að í veðskuldabréfum er klásúla, sem heimil er að lögum, að menn geti notað veðskuldabréfið raunverulega sem dóm, sent það beint inn til fógeta og krafist aðfarar og uppboðs á grundvelli skjalsins sjálfs. Það kann að vera að erfiðara verði að koma þessu við þegar um er að ræða ýmsar fjárkröfur sem verða vegna samskipta manna og viðskipta, en sjálfsagt að það fái athugun.

Að öllu samanlögðu tel ég að það væri mjög eðlilegt, nú þegar þessari tillögu hefur verið tekið vinsamlega af hálfu hæstv. dómsmrh., að þessu máli yrði vísað til meðferðar réttarfarsnefndar sem hefur einmitt fjallað um þessi mál á breiðum grundvelli, bæði skipan dómstóla og einnig um meðferð mála fyrir dómstólunum.