07.03.1977
Efri deild: 48. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2420 í B-deild Alþingistíðinda. (1811)

106. mál, innflutningur á olíupramma

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég mun ekki tefja afgreiðslu þessa máls með langri ræðu. Ég taldi eðlilegt að hv. þm. fengju að heyra bréf siglingamálastjóra þar sem hann gerði grein fyrir því, hvers vegna embætti hans vildi ekki mæla með því að skip þetta yrði keypt og hvers vegna hann vildi að málið kæmi til kasta Alþ. sérstaklega.

Bréfið, sem hv. frsm. samgn. las hér upp áðan, er harla ítarleg grg. og þarf raunar ekki ítarlegri. Ég tel eðlilegt að segja hér frá því, hvers vegna ég mun greiða þessu máli atkv. þrátt fyrir annmarkana sem upp eru taldir í fyrrnefndu bréfi. Hér mun vera um að ræða annað fyrsta stálskipið sem smíðað var í Svíþjóð, eftir því sem okkur hefur verið tjáð. Það var smíðað sem farþegaflutningaskip. Þegar við minnumst þess nú, að eitt farsælasta farþegaskip, sem íslendingar hafa átt, Súðin, var upprunalega byggt sem nautgripaflutningaskip, einnig í Svíþjóð, og síðan notað hér sem farþegaflutningaskip áratugum saman, þá ríkir enginn vafi í huga mínum um það, að skip, sem svíar smíðuðu úr sænsku stáli, þó fyrir 116 árum væri, til flutninga á farþegum, eigi nú að geta dugað til flutninga á olíumöl hér við land. Það er tekið fram í bréfinu, að skipið verði dregið mannlaust milli hafna og vakin athygli á því, að slíkt dregur stórlega úr líkum á því að manntjón verði á skipinu, a. m. k. meðan verið er að draga það milli hafna. Þá má e. t. v. einnig bæta því við, að þetta skip hefur sokkið áður einu sinni, og ég hygg að skýrslur muni leiða í ljós að fátítt sé að sama skipið sökkvi tvisvar. Þegar því er síðan við bætt, að raunar muni ekki vera ætlast til þess að skip þetta verði á floti, heldur að það standi á þurru landi til geymslu á olíumöl, þá dregur það enn úr líkunum fyrir því að skip þetta farist, þó aldið sé, og kemur þá raunar til álita hvort rétt sé að kalla farkost þennan skip, hvort ekki væri réttara að nefna það t. d. olíumalargám. En nafnbreyting mun væntanlega bíða þess að skipi þessu verði komið fyrir á föstum grunni.

En ég þakka sem sagt formanni samgn. fyrir upplesturinn á bréfinu, svo að þm. geti þá tekið afstöðu til efnis þess, en eins og fyrr segir mun ég greiða þessu máli atkvæði.