07.03.1977
Efri deild: 48. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2421 í B-deild Alþingistíðinda. (1814)

150. mál, fávitastofnanir

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki með einum eða öðrum hætti leggja stein í götu þessa frv. Þær fréttir, sem ég hef af þessum málum, stuðla allar að því að frv. nái sem allra fyrst fram að ganga. Þeim störfum, sem um er fjallað í frv., hefur verið gegnt sem nokkurs konar aukastarfi sem vart þolir dagsljósið að verði haldið áfram óbreyttu, með fullri virðingu fyrir þeim störfum sem þar hefur þó verið gegnt. Hér er um svo viðamikil mál að ræða, að ekki má láta dragast frekar en orðið er að þetta sé fullt starf viðkomandi skólastjóra, hver svo sem endanlega verður til þess valinn, og hann hafi til að bera þá þekkingu sem frv. gerir ráð fyrir.

En ástæðan til þess, að ég stend hér upp, er einungis til þess að minna á að brýna nauðsyn ber til að mþn. sú, sem fjallar nú um endurskoðun þessa málaflokks, breyti nafni þess skóla sem hér um ræðir, ekki einungis hér, heldur hvað öðrum lögum viðkemur. Þetta orð, fáviti, er í flestra huga sagt í lítilsvirðingarskyni um þá, sem annars jafnvel teljast heilbrigðir, ef þeir í einhverju tilteknu vita ekki nægjanlega um það mál sem til umræðu er. Það gefur algjörlega ranga hugmynd um þá mikilvægu starfsemi sem það fólk, sem á að útskrifast úr þessum skóla, þarf að veita. Ég tel mjög óviðurkvæmilegt að þetta nafn sé áfram um ófyrirsjáanlega framtíð í íslenskum lögum. En þar sem breytingin er ærið víðfeðm og snertir, eins og ég áðan sagði, mörg önnur lög, þá er nauðsynlegt að þessu sé ekki flaustrað af, heldur verður að gera ráð fyrir því að sú mþn., sem um endurskoðun þessara laga og annarra skyldra fjallar, breyti þessu niðrandi nafni um þá mikilvægu starfsemi sem þarna fer fram. Í trausti þess, að við þessari ég hygg sameiginlegu ósk okkar allra þdm. verði orðið, mun ég að sjálfsögðu styðja frv., eins og ég sagði.