07.03.1977
Neðri deild: 55. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2424 í B-deild Alþingistíðinda. (1824)

116. mál, viðbótarsamningur milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um aðstoð í skattamálum

Utanrrh. (Einar Ágústsson) :

Herra forseti. Ég leyfi mér að mæla í örstuttu máli fyrir frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til að fullgilda fyrir Íslands hönd viðbótarsamning við samning milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um aðstoð í skattamálum. Þessu frv. fylgja svofelldar aths.:

„Árið 1972 var undirritaður samningur milli Norðurlandaþjóðanna um aðstoð í skattamálum. Veitti Alþ. ríkisstj. heimild til að fullgilda þann samning með l. nr. 111 31. des. 1972. Var síðan gengið frá fullgildingu samningsins og tók hann gildi 1. jan. 1973.

Aðstoð sú, sem í samningnum felst, er einkum tvenns konar: Annars vegar gagnkvæm aðstoð við rannsókn skattamála og skipti á upplýsingum og hins vegar gagnkvæm aðstoð við innheimtu skatta. Á þeim tíma, sem liðinn er frá gildistöku samningsins, hefur nokkur reynsla fengist af ákvæðum hans og í ljósi þeirrar reynslu hafa sérfræðinganefndir unnið að gerð viðbótarsamnings. Náðist samkomulag milli þeirra um viðbótarsamning á þessu ári og er hann birtur á fskj. með lagafrv. þessu. Breytingar þær, sem í viðbótarsamningnum felast, varða allar gagnkvæma aðstoð við rannsókn og öflun upplýsinga. Mikilvægasta breytingin er fólgin í 3. gr. viðbótarsamningsins, en þar er gert ráð fyrir að fulltrúar skattyfirvalda í einu ríki geti fengið leyfi til að vera viðstaddir rannsókn í skattamálum í öðru aðildarríki.

Mun viðbótarsamningurinn væntanlega geta auðveldað skattaeftirlit.“

Eins og segir í þessum aths. er viðbótarsamningurinn prentaður sem fskj. á þskj. 139. Sé ég ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta frv., því ég hygg að það muni engum ágreiningi valda, heldur aðeins leyfa mér að leggja til að að þessari umr. lokinni verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.