07.03.1977
Neðri deild: 57. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2426 í B-deild Alþingistíðinda. (1831)

176. mál, brunavarnir og brunamál

Flm. (Ólafur G. Einarsson):

Hæstv. forseti. Á þskj. 348 flyt ég frv. til l. um breyt. á l. nr. 55/1969, um brunavarnir og brunamál. Frv. þetta er með allra einfaldasta móti. Aðeins er gert ráð fyrir breytingu á einu orði í 8. gr. laganna, þ. e. að notað verði orðið „menn“ í staðinn fyrir „karlmenn“. Fyrsta setningin í 8. gr. mundi þá hljóða svo: „Allir verkfærir menn 18–60 ára að aldri, sem heimilisfastir eru í sveitarfélagi, eru skyldir til þjónustu í slökkviliði.“

Þótt frv. sé svona einfalt hefur það í för með sér mikla breytingu frá því sem nú er um brunavarnir ef að lögum verður, þar sem þá verður heimilt að skipa konur í slökkvilið. Engin sanngirni er í því að draga lengur að konum verði heimilað með löggjöf að taka þátt í þeim slökkvistörfum sem gert er ráð fyrir í þessum lögum. Og eins og segir í grg. með frv. verður ekki heldur við það unað á jafnréttistímum, að óheimilt sé að lögum að skipa konur í slökkviliðið.

Háværar kröfur eru líka uppi nú um þessar mundir, að löggjafinn sýni þá lágmarkstillitssemi að hætta allri aðgreiningu kynjanna í löggjöfinni. Nú um þessar mundir stendur t. d. yfir mikil umræða varðandi það efni í sambandi við skattlagningu hjóna. Hér er svo drepið niður á einum stuð af mörgum í lagasafninu þar sem krafan um jafnrétti kynjanna er ekki virt.

Ástæðan fyrir því, að ég drep niður á þessum stað í lagasafninu, er sú, að ég á sæti í brunamálastjórn ríkisins og hef því orðið þess var, að það kann að geta haft áhrif í sambandi við brunavarnir ef óheimilt er að skipa konur til slökkvistarfa. En auðvitað er um miklu fleiri lög að ræða þar sem misrétti milli kynjanna er áberandi. E. t. v. væri það lausn á þessum vanda að þm. skiptu því á milli sín að lesa yfir lagasafnið og hver flytti síðan frv. til lagfæringa á því sem nú stendur í lögum og varðar þetta efni, eftir því sem hann verður var við við slíkan yfirlestur. Mér telst til að hver þm. mundi þurfa að lesa yfir u. þ. b. 50 dálka í lagasafninu ef þessi aðferð yrði viðhöfð. En það yrði að sjálfsögðu mjög misjafnt hversu auðvelt væri að færa gildandi lög í jafnréttisátt, og fer það bæði eftir aldri þeirra, en þó einkum eftir efni. T. d. yrði sá ekki öfundsverður sem fengi það verkefni að lagfæra hjúskaparlögin að þessu leyti eða gömul lög um legorð presta, svo ég nefni eitthvað. En eitthvað þarf að gera, og ég vísa í þessu sambandi sérstaklega til l. nr. 78/1976, um jafnrétti kvenna og karla. Þar segir í 2. gr.: „Konum og körlum skulu veittir jafnir möguleikar til atvinnu“ o. s. frv., í 8. gr.: „Atvinnurekendum er óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það meðal annars hvað varðar ráðningu og skipun í starf“ o. s. frv. og í 4. gr.: „Starf, sem auglýst er laust til umsóknar, skal standa opið jafnt konum sem körlum. í slíkri auglýsingu er óheimilt að gefa til kynna að fremur sé óskað starfsmanns af öðru kyninu en hinu.“ Meðan lög um brunavarnir og brunamál eru þannig orðuð sem þau eru nú verður þarna árekstur á milli þessara laga.

Ég vona, að frv. þetta fái jákvæðar viðtökur hér í hv. þingdeild, og legg til, hæstv. forseti, að því verði vísað til hv. félmn. að lokinni þessari umr.