07.03.1977
Neðri deild: 57. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2433 í B-deild Alþingistíðinda. (1835)

Umræður utan dagskrár

Jónas Árnason:

Virðulegi forseti. Það eru nú einir 4–5 dagar síðan þessum umr. utan dagskrár var frestað. Ég hafði þá beðið um orðið, ætlaði að gera athugasemd við þá fullyrðingu hæstv. menntmrh., að ég hefði slegið því fram í ræðu minni, að sérfræðingar væru alltaf til bölvunar í þjóðfélagi okkar, skólakerfi sem öðru kerfi. Það var ekki þetta sem ég sagði. Ég sagði að það væri nauðsynlegt að aðhæfa reynslu og þekkingu sérfræðinganna íslenskum aðstæðum í hverju tilfelli. Mér er kunnugt um það, að margir þeir sérfræðingar, sem nú ráða æðimiklu um framkvæmd mála í menntmrn., voru til þess ráðnir upphaflega að veita aðeins leiðbeiningar eða standa fyrir þeim athugunum sem nauðsynlegt er að gera varðandi nýjungar, og ég hef ástæðu til að ætla að till. þeirra hafi oft verið framkvæmdar án þess að verulegar athuganir hafi áður farið fram á því, hvort þær hæfðu þessu þjóðfélagi okkar.

Ég stend við það sem ég sagði um daginn, að þetta þjóðfélag er svo sérstætt, þetta þjóðfélag okkar íslendinga, að það er ekki hægt að flytja neinar kenningar, hvorki í skólamálum né yfirleitt nokkrum málum, frá útlöndum óbreyttar inn í þetta þ,jóðfélag. Heppilegast væri að við færum að treysta meira á sjálfa okkur í skólamálum sem öðrum málum. Það er að verða nokkuð hvimleitt, finnst mér, að heyra hér æ ofan í æ, þegar einhver mál eru til umr., að svona sé þetta hjá nágrannaþjóðum okkar, frændþjóðum okkar, og þess vegna hljótum við að hafa það eins. En ýmsar þær þjóðir eru að mínum dómi að ýmsu leyti eins ólíkar okkur íslendingum og nokkrar þjóðir geta verið, bæði hvað snertir þjóðfélagsháttu, en þó fyrst og fremst upplag og allt viðhorf til lífsins.

Ég vildi sem sé biðja hæstv. ráðh. að athuga það, að ég var ekki að fullyrða að áhrif sérfræðinga væri alltaf til bölvunar. Ég sagði að til stórrar bölvunar gæti orðið ýmislegt frá þessum sérfræðingum ef því væri kastað út í kerfið athuganalaust. Ég er sannfærður um að svo hefur oft orðið.

En það er nú svo, að hvenær sem þessi mál eru til umr., þá finn ég meiri þörf en endranær til þess að koma hingað í stólinn og segja eitthvað, og það er fyrir það að ég var lengi kennari og mér finnst enn að ég geti kannske miðlað öðrum einhverri visku í sambandi við skólamál. Þó skal ég játa að það er það langt um líðið síðan ég kenndi og ástandið í dag og viðhorf í skólamálum eru það breytt frá því, sem þá var, að ég er ekki dómbær á þá hluti alla. Ég get vel trúað því, að um daginn hafi menn ýmsir og kannske ég líka tekið helst til stórt upp í míg varðandi þau mistök sem þá höfðu orðið í gerð prófa. Það voru fyrst og fremst, að ég hygg við nánari athugun, tæknileg mistök. Má vist jafnvel kalla það prentvillur. Og varð úr þessu kannske háværari blástur en ástæða hefði verið til.

Aðalatriðið var það, að við, sem hér stóðum upp, vildum benda hæstv. menntmrh. á vissa hluti, sem honum mættu verða til góðs í hans starfi. Og það, sem ég gerði fyrst og fremst, var að benda honum á að það virðist ríkja oft töluverður misskilningur á milli þeirra, sem stjórna skólunum, og þeirra, sem fara með ýmsa þýðingarmestu þætti menntamálanna fyrir hönd ráðuneytisins.

Eins og ég sagði áðan, freistast maður stundum til þess að koma hér í ræðustól þegar þessi mál eru til umr. Ég las á laugardaginn var í einu dagblaðanna grein eftir ungan kennara, sem fjallar þar um prófaform sem virðist vera orðið æði-algengt, hann nefnir þetta krossapróf. Ég kynntist þessu fyrirkomulagi fyrst þegar ég fór ungur til skóla í Bandaríkjunum. Þetta höfðum við íslendingar aldrei þekkt, það var prófað allt öðruvísi uppi á Íslandi. En svo er maður allt í einu kominn í skóla þar sem lögð eru fyrir mann, tvítugan að aldri, próf sem maður hefði haldið, að tíðkuðust ekki nema í smábarnaskólum. Manni eru gefin 4 eða 5 svör, og svo setur maður kross við það sem talið er rétt. Ég vissi þess dæmi, að menn komust í gegnum þessi próf bara á skynsemi sinni, það þurfti enga þekkingu til. En það, sem gerist í þessum prófum, er það, að nemandinn þarf ekkert annað en gera krossa. Og þá kemur maður að móðurmálinu. Hér er verið að bæta við einum þætti sem stuðlar að því að spilla móðurmálinu eða hæfileika nemenda til þess að beita móðurmálinu. Það þarf ekki að svara. Það þarf bara að setja kross, næstum að segja eins og maður sé óskrifandi.

Þetta atriði og ýmis fleiri í skólakerfinu núna eru mjög þess verð að við gefum þeim gaum. Ég hef áður talað um tungumálakennsluna eins og hún tíðkast mest nú orðið. Ég skal játa það, að þegar ég var sjálfur í skóla og jafnvel þegar ég var að kenna, þá taldi ég að það væri mikil þörf á því að breytt yrði tungumálakennslunni í það horf að nemendur fengju meiri æfingu í að tala. Og þær breytingar hafa síðan átt sér stað. Nú er lögð miklu meiri áhersla á að nemandinn verði fær um að tala það mál, sem hann er að læra, heldur en áður var. En þetta hefur haft mjög alvarlegar afleiðingar, að ég hygg, að því er varðar málkennd og leikni nemenda í að tala móðurmálið og tjá hugsanir sínar. Meðan gengið var eftir því upp á gamla móðinn, að við þýddum það sem við höfðum lesið heima, þá æfðumst við líka í því að tjá hugsanir okkar og fara sæmilega með móðurmálið, — sérstaklega þó kannske vegna þess, að þeir, sem kenndu erlendu tungumálin, voru oft sérstakir snillingar í meðferð móðurmálsins, menn eins og t. d. menntaskólakennararnir Páll heitinn Sveinsson, sem kenndi frönskuna og latínuna, og Bogi Ólafsson, sem kenndi enskuna. Þessir menn voru ekki síður íslenskukennarar heldur en ensku-, frönsku- og latínukennarar. Og mér liggur nú við að segja, miðað við íslenskukennsluna eins og hún tíðkaðist þá, að maður hafi haft meira gagn af þeirri kennslu, sem þessir menn veittu manni í móðurmálinu, heldur en þeirri sem sjálfir móðurmálskennararnir veittu.

Það var auðvitað engin vanþörf á að kennsluaðferðirnar miðuðust meira við það að kenna nemendum að tala. En of mikið má af öllu gera. Betur hefði farið að gömlu aðferðinni hefði verið viðhaldið meira. En það krefst þess þá um leið, að sá sem kennir hið erlenda tungumál, kunni sæmilega móðurmálið. Og í skólamálum gildir það náttúrlega eins og annars staðar, að veldur hver á heldur. Ég álít að góður kennari nái góðum árangri, hvernig sem aðstæður eru og hvaða aðferð sem heitt er. Þetta er allt saman einstaklingsbundið eins og annað. Það er hættulegt að uppáleggja mönnum um of aðferðir við kennslu, svona skuli þetta endilega vera. Það er heppilegast að hver maður finni sína aðferð. Að vísu verður að vera eitthvert eftirlit með því að menn ræki starfið sómasamlega.

Eitt var það, sem gerðist um það leyti sem ég var búinn að kenna í ein 10 ár. Þá kom allt í einu lingvafóntískan. Þá gerðist það, að tungumálakennslan færðist svo og svo mikið yfir á apparöt. Kennarar, sem ekki vildu hafa allt of mikið fyrir lífinu, sátu bara við púltið og létu apparötin spila tiltekinn texta sem nemendur fylgdust svo með. Þarna var verið að læra framburð. Það er nú enn eitt atriðið sem væri hægt að flytja töluverðan fyrirlestur um, nauðsyn þess endilega að kenna kórréttan framburð. Í þetta er iðulega eytt óþarflega miklum tíma. Ég gæti t. d. nú trúað því, að það hefði orðið lítið úr dönskunámi eða dönskuþekkingu almennt hjá okkur í menntaskóla í gamla daga ef allt námið hefði farið í það að læra danskan framburð. Það eru ekki nema einstök tungumálaséní sem geta náð réttum dönskum framburði. Það er viðburður að heyra íslending bera það mál rétt fram.

Tungumálakennsla er sem sé að mínum dómi ekki fyrst og fremst það að kenna nemendum að tala málið, heldur opna mönnum leið til menningar annarra þjóða, bókmennta, skáldskapar og annarrar menningar.

Ég vitnaði hér í ungan mann sem hefur verið stundakennari um nokkurt árabil og er ekki ánægður með kerfið. Hann bendir t. d. á þetta krossakerfi eða þessi krossapróf, sem hann nefnir, að þau séu ekki góð, og rökstyður mál sitt af skynsemi, sýnist mér. En niðurstöður hans eru þessar:

„Það eru tillögur mínar að samræmd grunnskólapróf verði lögð niður.“ — Ég tek það fram að þetta eru hans orð, ég tek ekki undir þetta, en ég les þetta upp til þess að menn heyri hvernig ungi kennarinn hugsar. — „Það eru till. mínar að samræmd grunnskólapróf verði lögð niður og prófanefnd sömuleiðis, jafnhliða því sem dregið verði úr afskiptum rn. af skólastarfi og valdsvið þess minnkað, en kennurum og öðrum, sem við hina einstöku skóla starfa, verði veitt aukið frelsi og frumkvæði í starfi.“

Það, sem hann á við, er það sem ég var að tala um áðan, að menn fái meira frjálsræði til þess að láta persónubundna kennsluhæfileika sína njóta sín.