07.03.1977
Neðri deild: 57. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2442 í B-deild Alþingistíðinda. (1838)

Umræður utan dagskrár

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Virðulegi forseti. Það teygist nú nokkuð úr þessum umr., eins og vænta mátti. Ég fyrir mitt leyti tel að umr. utan dagskrár taki nú orðið óeðlilega mikinn tíma eða óæskilega mikinn tíma hér á hv. Alþ. Þetta segi ég þó alls ekki til að deila á einn eða neinn, allra síst til þess að deila á okkar ágætu þingforseta. Þetta er auðvitað skipulagsatriði sem þarf að koma sér niður á með sameiginlegri ákvörðun Alþingis.

Það hefur í þessum umr. verið drepið á fjölmörg atriði, óskað svara um einstök atriði, sum tiltölulega einföld, sem auðvelt er að svara í stuttu máli, en önnur líka ansi margslungin, sem kostar nokkuð mikið mál að gera grein fyrir. Svo hefur töluvert verið deilt á framkvæmd menntamálanna, hjá menntmrn. alveg sérstaklega og raunar eingöngu. Ræðutími hefur nú ekki verið takmarkaður í raun, þó að hæstv. forseti hafi reynt að biðja menn að vera stuttorða. Ég vil segja það fyrir mína parta, að ég er ákaflega fús til þess að ræða þessi mál. Ég hefði talið að það væri æskilegra, að þau væru rædd undir sérstökum dagskrárlið. En það er auðvitað ekkert aðalatriði, enda er viðtekin venja að ræða hér ítarlega um mál utan dagskrár, en það auðvitað tekur sinn tíma. En ég vona nú að virðulegur forseti sýni mér nokkra þolinmæði, þótt ég tali alllangt mál, en ég skal lofa því að fara ekki út fyrir þau atriði sem hefur borið á góma í þessum umr.

Hv. 11. þm. Reykv., sem hóf þessar umr. utan dagskrár, gerði það í tilefni af viðtali sem birtist í Morgunblaðinu við skólastjóra einn hér í bæ. Ég hliðraði mér hjá því þá að ræða efnislega um gerð og tilhögun hinna nýju prófa án þess að hafa fengið tækifæri til að undirbúa slíka frásögn. Ég vil nú leitast við að bæta úr þessu, en vil fyrst víkja örlítið nánar að upphafi þessarar umr., að þessu fyrrnefnda viðtali. Í því segir skólastjórinn að hann viti ekki gerla hvernig túlka eigi nemendaeinkunn upp úr grunnskóla. Mér finnst þetta vera alveg ástæðulaus yfirlýsing. Eins og áður var fram komið hér hjá mér, þá hafa út gengið frá rn. allmörg dreifibréf einmitt um þetta efni, auk þess sem þessu efni hafa verið gerð rækileg skil í Fréttabréfi menntmrn. Hitt er svo annað mál, að þess finnast dæmi að upplýsingar frá rn., sem sendar eru skólastjórum o. fl., hafa ekki verið látnar berast nægilega fljótt og vel áleiðis til annarra sem í skólunum starfa, til kennara og nemenda. Þetta er auðvitað mjög slæmt, og það er ekki von á hinu besta sambandi á milli aðila, við skulum segja rn. annars vegar og kennara og nemenda hins vegar, ef þeir, sem eðli málsins samkv. verða að vera milliliðir í slíku sambandi, standa ekki fyllilega í stöðu sinni. Skýringar þær, sem gefnar eru í þessu blaðaviðtali á einkunnagjöfinni, standast ekki fyllilega. Mér hefur verið bent á að þar virðist hafa verið tekið mið af einkunn frá því í fyrra, þó það komi raunar ekki heldur alveg heim og saman. En þetta kemur nú betur í ljós ef borið er saman annars vegar það yfirlit, sem ég mun gefa hér á eftir um framkvæmd prófanna og tilhögun þeirra, og svo umrædd ummæli í þessu samtali. En ég tel það nokkuð gagnrýnivert að fara þannig með staðreyndir.

Í nefndu viðtali er tekið svo til orða, að þjóðin sé ofurseld skólakerfinu. Þetta eru ummæli sem ég á ákaflega bágt með að sætta mig við, satt að segja. Alþingi íslendinga setur löggjöf um fræðslu ungmenna eins og ótalmörg atriði önnur. Síðan eru til þess kjörnir eða ráðnir menn í rn., í þessu tilviki í menntmrn., skólum, meðal sveitarfélaga o. s. frv., o. s. frv. að framkvæma þessa löggjöf. Auðvitað getur sú framkvæmd og hlýtur raunar að sæta gagnrýni frá ári til árs. En að taka svo til orða að þjóðin sé ofurseld þeirri löggjöf, sem sett er með eðlilegum hætti á Alþ. og framkvæmd af rétt kjörnum aðilum, það er hlutur sem ég kann ekki við. Og ég minni á það, að þessi ummæli hafa ekki verið borin til baka eða úr þeim dregið á nokkurn hátt. Ég vil líka minna á það og leggja á það áherslu, að því aðeins er ég að ræða þetta hér, ummæli manns sem ekki er alþm. og því ekki hér viðstaddur, að hv. 11. þm. Reykv., sem hóf þessar umr., lagði þau, einmitt þau, til grundvallar innleggi sínu hér.

Í tilefni af þeim umr., sem orðið hafa um gerð og framkvæmd samræmdra prófa í 9. bekk grunnskóla nú í vetur, hefur menntmrn. tekið saman grg. um þetta efni. Hún hefur þegar verið birt í Fréttabréfi rn. sem út kom í dag, mánudag, og verið er að senda út, þ. á m. til hv. alþm., sem að venju fá þetta Fréttabréf í hendur. Ég vil leyfa mér að fara yfir helstu atriðin í þessari grg. og vænti að ég svari með því efnislega þeirri fsp. hv. 11. þm. Reykv. sem ég hliðraði mér hjá að svara undirbúningslaust þegar hann hóf þessar umr. á sínum tíma.

Í þessari grg. er fyrst gerð grein fyrir setningu grunnskólalaga og þeirri tilhögun sem þá gilti, en ég vil til tímasparnaðar ekki fara nánar út í þann þátt grg., en síðan segir orðrétt:

„Það er almennt viðurkennt að skipulagsbreytingar, eins og þær sem felast í grunnskólalögum, nái ekki tilgangi sínum nema jafnframt eigi sér stað breytingar á innra starfi skólanna sem stefna í sömu átt. Er ljóst, ef grannt er skoðað, að lögin gera allt aðrar kröfur til skóla og starfsliðs þeirra en verið hefur, sem leiðir m. a. af aukinni einstaklingsbundinni leiðsögn og fjölbreyttara skólastarfi, og nægir að benda á 42. og 56. gr. grunnskólalaganna í þessu sambandi. Jafnframt er gert ráð fyrir minni beinum afskiptum fræðsluyfirvalda af skólastarfinu.

Meginstarf menntmrn., skólarannsóknadeildar, hefur beinst að því að veita kennurum almennar leiðbeiningar sem beina starfi skólanna í þessa átt, og má benda á gerð nýs námsefnis í mörgum greinum ásamt meðfylgjandi kennsluleiðbeiningum svo og útgáfu námsskrár sem var kynnt rækilega um allt land á s. l. ári á yfir 50 fundum með skólastjórum og kennurum. Öll þessi gögn eru fyrst og fremst ætluð til leiðbeiningar, en fela ekki í sér ákveðin fyrirmæli. Einn viðkvæmasti og vandmeðfarnasti þátturinn í þessum skipulagsbreytingum er námsmat eða próf. Það var óhjákvæmilegt að breyta bæði tilhögun opinberra prófa svo og aðferðum við námsmat á vegum skólanna sjálfra.

Í landsprófi miðskóla fólst mikil samræming á námskröfum og námsefni, enda prófað þar í & greinum með 8 samræmdum prófum. Í gagnfræðadeildum náði samræmingin einungis til íslensku, stærðfræði, dönsku og ensku, þannig að þeir, sem ekki fóru í landsprófsdeildir, áttu kost á fjölbreyttara námi en hinir. Aðrar greinar, námskröfur og námsefni voru með nokkuð ólíku móti frá einum skóla til annars. Samræmdu prófin hafa haft mikil og mótandi áhrif á skólastarfið, einkum í landsprófsdeildum þar sem möguleiki skólanna til að hafa frumkvæði og skipuleggja námið í samræmi við áhuga og óskir nemenda og kennara var í lágmarki.

Á samræmdum prófum undanfarinna ára hefur dreifing einkunna í sömu grein verið nokkuð breytileg frá ári til árs. Þá hefur einnig verið verulegt ósamræmi í einkunnadreifingunni milli greina. Þetta jafngildir því að gildi einkunna í sömu grein er mismunandi milli ára og einkunnir í tveimur greinum ekki sambærilegar.“

Þessi atriði, sem ég hef nú rakið, eru skýrð nánar í Fréttabréfinu með línuritum og texta sem línuritunum fylgir. Þá segir hér: „Inntaka nemenda í framhaldsnám hefur miðast við meðaltal einkunna og í mörgum tilvikum aðeins í samræmdum greinum.

Með tilliti til þess, hvað samræmdu prófin hafa verið mörg á landsprófi miðskóla, má ætla að þessar sveiflur hafi jafnast út og því ekki haft veruleg áhrif á meðaleinkunn nemenda úr öllum greinum. Með fækkun samræmdu greinanna hafa sveiflurnar aftur á móti mun meiri áhrif. Benda má á mörg dæmi þess að gagnfræðingar, sem tóku samræmt próf í fjórum greinum og stóðu sig mjög þokkalega í þrem þeirra, en fóru illa út úr einu prófinu af ástæðum, sem um var getið hér að ofan, náðu ekki því lágmarki, sem keppt var að.“

Þessi frásögn er einnig nánar skýrð með línuritum í Fréttabréfinu sem hv. þm. munu fá eða hafa þegar fengið.

„Við breytingu á skipan samræmdra prófa í 9. bekk var talið nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að jafna þann mun sem fram kemur í einkunnadreifingunni og hér hefur verið lýst. Ákvarðanir um möguleika nemenda til framhaldsnáms eru m. a. teknar á grundvelli þessara einkunna, og því er nauðsynlegt að þessi grundvöllur sé sá sami eða svipaður frá ári til árs og aðstaða nemenda í þessu efni sem jöfnust.

Leið til að ná þessu marki er að miða við meðaldreifingu einkunna. Þegar þannig er gefið eru úrlausnir allra nemenda, sem prófið tóku, fyrst metnar með hefðbundnum hætti og talið hvað hver nemandi hefur hlotið mörg stig í prófinu. Tiltekinn hluti þeirra, sem fær flest stig, hlýtur síðan hæstu einkunn og u. þ. b. jafnstór hluti þeirra, sem fær fæst stig, hlýtur lökustu einkunnina o. s. frv., þó þannig“ — og á það vil ég leggja áherslu — „að nemendur, sem hljóta jafnmörg stig, fá að sjálfsögðu sömu einkunn.“

Um nauðsyn nýrrar skipunar að þessu leyti segir svo m.a. í grg. okkar:

„Í grunnskólalögum er mörkuð ný stefna í skólahaldi, kennslu og námi. Þar er gert ráð fyrir að hver nemandi eigi þess kost að efla hæfileika sína og „afla sér þekkingar og leikni og temja sér vinnubrögð sem stuðli að stöðugri viðleitni til menntunar og þroska“. Í lögunum eru talin upp nokkur námssvið sem skólarnir skulu sinna, og má m. a. nefna verklegt nám og ýmsar valgreinar, verklegar og bóklegar, í efstu bekkjum grunnskóla. Þá er einnig nefnd þátttaka nemenda í atvinnulífinu um takmarkaðan tíma.

Það er augljóst að þessum skilyrðum verður ekki unnt að fullnægja nema með mun sveigjanlegri kennsluháttum en verið hefur og aukinni einstaklingsbundinni leiðsögn. Jafnmikil samræming lokaprófa og verið hefur er því útilokuð þar eð hún vinnur einmitt gegn nauðsynlegum sveigjanleika í námi og kennslu.

Margir telja einhverrar samræmingar þörf, m. a. vegna inntöku nemenda í framhaldsskóla, og með tilliti til reynslu fyrri ára verður að gera ráð fyrir henni enn um sinn. Ljóst er þó að við framkvæmd slíkra prófa verður að gæta þess:

1) að leyfa það mikinn sveigjanleika í starfi skólanna að unnt sé að ná þeim markmiðum, sem nefnd eru hér að framan, og sinna þeim viðfangsefnum sem lög gera ráð fyrir,

2) að möguleikar séu á að bera saman árangur nemenda, a. m. k. í tilteknum greinum, á landsmælikvarða.

Þessum skilyrðum virðist helst mega fullnægja með eftirfarandi hætti:

a) Samræmdum prófum verði fækkað verulega frá því sem verið hefur á landsprófi miðskóla, t. d. verði ekki prófað í fleiri en 4 greinum árlega. Gerð prófanna verði breytt á þann veg að þau prófi aðallega grundvallaratriði viðkomandi námsgreinar í samræmi við ákvæði gildandi námsskrár. Prófin geta því allt eins tekið til þeirra atriða, sem numin eru í 7. og 8. bekk, og þeirra, sem numin eru í 9. bekk og miðast ekki jafnmikið við tilteitið námsefni og verið hefur til þessa.

b) Við námslok í 9. bekk gefi skólar nemendum vitnisburð í öllum greinum sem byggður er á sérstöku prófi sem haldið er í lok námsáfanga og/eða frammistöðu nemenda á námstímanum, þar með taldar úrlausnir sérstakra verkefna sem þeir hafa leyst.

c) Ljúka samræmdum prófum fyrr en gert hefur verið.

Bent hefur verið á að skólar í dreifbýli, þar sem kennslutími er styttri en í þéttbýlinu, sitji ekki við sama borð og aðrir skólar þegar samræmd próf eru annars vegar. Sú skipan, sem hér hefur verið lýst, er sennilega eina leiðin til þess að jafna nokkuð aðstöðu skóla í þessu efni.

Með þessu móti er einnig dregið það mikið úr samræmdum prófum að áhrif þeirra á skólastarfið ætti ekki að verða óhóflega mikil. Enn fremur hafa skólarnir innan ramma gildandi laga og reglugerða verulegt svigrúm til að móta kennsluhætti sína meir í samræmi við þarfir og áhuga einstakra nemenda og nemendahópa. Af þessu leiðir að veigamestu þættir námsmatsins hljóta að verða í höndum skólanna sjálfra.“

Ég endurtek þetta: „Af þessu leiðir að veigamestu þættir námsmatsins hljóta að verða í höndum skólanna sjálfra.“

Þá vil ég aðeins víkja að gildandi ákvæðum um lokapróf úr grunnskóla. Um það segir orðrétt í grg. okkar í menntmrn.:

„Samræmd próf voru haldin á vegum menntmrn. í 5 námsgreinum í febr., þ. e. í íslensku, einu erlendu máli, stærðfræði, samfélagsgreinum og raungreinum. Dregið var um það hvort prófa skyldi í ensku eða dönsku. En samkv. viðmiðunarstundaskrá er nemendum ætlað að stunda nám í samfélagsgreinum (landafræði, sögu og félagsfræði) og/eða raungreinum (eðlis- og efnafræði og líffræði). Nemendur fengu sjálfir að ráða í hvorri greininni þeir þreyttu samræmt próf og fengu þannig aukna valkosti innan þeirra fáu samræmdu prófa sem eftir voru. Hver nemandi tók 4 próf.

Með því að færa samræmd próf fram á mitt skólaár er skólunum gefinn kostur á auknum sveigjanleika og sjálfræði um tilhögun kennslunnar á síðasta námsmissiri grunnskólans, eins og fyrr segir.

Allar úrlausnir koma beint til prófanefndar að loknu prófi og eru metnar á vegum n. Þar eru fyrst gefin stig fyrir hverja prófúrlausn á hefðbundinn hátt. Síðan eru gefnar 5 einkunnir, A, B, C, D og E. 7% þeirra nemenda, sem leystu prófin best í hverri námsgrein, fá A, næstu 24% fá B, næstu 38% fá C, næstu 24% fá D og lægstu 7% fá einkunnina E. Þessar einkunnir sýna stöðu nemandans í námsgreininni miðað við alla þá nemendur sem þreyttu prófið. Þær sýna hins vegar ekki hversu mikinn hluta prófsins nemandinn hefur leyst rétt.

Áðurnefnd hlutföll eru í samræmi við þá niðurstöðu sem samræmdu prófin hafa gefið fram til þessa.

Þá ber að leggja áherslu á að þessar tölur eru ekki r,ákvæmar þar eð nemendur, sem fá sama stigafjölda, fá sömu einkunn. T. d. er ekki ósennilegt ,að eitthvað fleiri en 7% nemenda fái einkunnina A og að í neðsta flokknum E verði eitthvað færri en 7% nemenda. Hve mikil þessi frávik verða fer eftir því hvernig sá stigafjöldi, sem nemendur fá á prófinu. dreifist.

Einnig ber að leggja áherslu á að þessi aðferð við einkunnagjöf hentar aðeins þegar nemendahópurinn er mjög stór og er því alls ekki nothæf í einstökum skólum.

Um það bil 6 vikum eftir að prófi lýkur verður skólanum tilkynnt um niðurstöður prófanna. Þá fær hver skóli upplýsingar um einkunnir nemenda sinna og stig í hverjum prófþætti. Jafnframt fær skólinn upplýsingar um það hvernig nemendur í hans skóla hafa staðið sig í einstökum prófþáttum miðað við allan nemendahópinn. Þessar upplýsingar ættu að gefa hverjum skóla nokkra vísbendingu um það hvernig nám og kennsla hefur gengið.“

Þá vil ég aðeins víkja að skólaprófunum sem svo eru nefnd. Þar segir svo í grg.:

„Grunnskólar gefa nemendum sínum einkunnir í öllum námsgreinum, kjarnagreinum — þar með talið greinum sem prófað er í á samræmdum prófum — og valgreinum. Notaður er einkunnastiginn 1–10 og gefið í heilum tölum. Við þá einkunnagjöf er miðað við það hvernig nemendum hefur tekist í náminu að ná þeim námsmarkmiðum sem stefnt er að í skólanum.

Við þessa einkunnagjöf er skólum í sjálfsvald sett að hve miklu leyti þeir byggja lokaeinkunnina á áfangaprófum, lokaprófum eða frammistöðu nemandans á námstímanum, þar með talin sérstök verkefni sem þeir hafa fengið til úrlausnar.“ Um meðaleinkunnir er þetta að segja:

„Meðaleinkunnir verða ekki reiknaðar, hvorki á samræmdum prófum né skólaprófum í 9. bekk. Mörg rök mæla gegn því að reikna út meðalgildi einkunna. Nefna má nokkur þeirra:

1) Það orkar mjög tvímælis að reikna út meðalgildi einkunna þegar einkunnirnar eiga við margvíslegar og ólíkar greinar. Spyrja mætti t. d. hvort eðlilegt eða réttlætanlegt sé að reikna meðalgildi fyrir einkunnir í stærðfræði og sögu. Hvaða merkingu hefur slíkt meðalgildi? Hvaða upplýsingar gefur slíkt meðalgildi?

2) Hætt er við að meðalgildi einkunna beini athygli nemenda, foreldra og kennara frá veikum og sterkum hliðum hvers nemanda í náminu.

3) Meðalgildi einkunna er ekki nauðsynlegt vegna inntöku nemenda í framhaldsskóla. Eðlilegt virðist að gera ráð fyrir ákvæðum um lágmarkseinkunnir í einstökum greinum.

4) Námsgreinar munu framvegis eins og hingað til hafa mismunandi margar vikustundir á stundaskrá. Þegar öllum greinum er gert jafnt undir höfði við útreikning meðalgilda einkunna við slíkar aðstæður er slíkt gagnrýni vert fyrir það að námsgreinar með fáar vikustundir vega óeðlilega þungt í samanburði við þær sem flestar vikustundir hafa.“

Þá vil ég loks aðeins víkja að inntökuskilyrðum í framhaldsskóla og segja þetta:

„Í þeirri gagnrýni, sem komið hefur fram á það prófafyrirkomulag sem hér hefur verið lýst, hefur gleymst að skoða einn mikilvægasta þáttinn, þ. e. hvernig ætlunin er að nota niðurstöður prófanna. Gleymst hefur hve stóraukinn rétt hin nýja skipan veitir nemendum til að hefja nám í framhaldsskóla. Það skýrist nánar af þeim ákvörðunum sem rn. hefur tekið um inntöku nemenda í framhaldsskóla. Þær eru á þessa leið :

Nemandi, sem lýkur námi í grunnskóla, hefur rétt til að hefja nám í framhaldsskóla ef hann hefur hlotið A, B eða C í samræmdum greinum og einkunnina 4 eða hærra í skólaprófsgreinum. Eftirfarandi frávik eru þó heimil:

a. D í tveimur samræmdum greinum, en engin skólaeinkunn undir 4.

b. D í einni samræmdri grein og ein skólaeinkunn undir 4.

c. Engin samræmd einkunn lægri en C, en tvær skólaeinkunnir undir 4.

Þetta þýðir, eftir því sem næst verður komist, að um það bil 75–80% árgangsins fullnægir að líkindum þessum skilyrðum og öðlast þannig rétt til að hefja nám í framhaldsskóla. Auk þess ber að hafa í huga að nemandi, sem ekki fullnægir framangreindum skilyrðum, getur þó hafið nám í framhaldsskóla þegar að loknum grunnskóla ef viðkomandi skóli samþykkir.“ — Þá er unnt fyrir viðkomandi skóla að taka tillit til skólaeinkunnarinnar, en hún er, eins og áður var tekið fram, bæði byggð á prófum í skólanum og frammistöðu nemandans almennt og mati skólans á henni. — „Þá hefur verið ákveðið að nemendur, sem ekki fullnægja áðurnefndum lágmarksskilyrðum um námsárangur við lok grunnskóla, geti sest í sérstakar deildir í framhaldsskólum til þess að bæta þekkingu sina á undirstöðugreinum og geti að því loknu hafið reglulegt framhaldsnám ef þeir óska og fullnægja tilteknum lágmarksskilyrðum.“

Í Fréttabréfinu er svo einnig gerð grein fyrir þeim mistökum, sem urðu við samræmdu prófin að þessu sinni, og fyrir þeim viðbrögðum sem rn. hefur gagnvart þeim. Ég hafði áður vikið að þessu atriði, rek það ekki nánar hér. En ég endurtek og árétta að ég og rn. harma þessi mistök og við erum að sjálfsögðu öll, sem þar störfum, staðráðin í því að láta slíkt ekki koma fyrir að nýju.

Ég þykist þá hafa gert grein fyrir því máli sem var tilefni til þess að hefja þessar umr. utan dagskrár. En inn í þessar umr. hafa svo komið ýmis önnur atriði. Og ég vil nú aðeins víkja að ummælum hv. þm. sem fram hafa komið í dag í þessum umr.

Hv. þm. Gunnlaugur Finnsson varpaði fram fsp. til mín. Henni get ég svarað játandi.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson vék að ýmsum atriðum. Hann sagði að Alþ. hefði áhyggjur af framkvæmd grunnskólalaganna, mjög þungar, bæði af kostnaðarhliðinni og af ýmsum öðrum atriðum. Ég kem nokkuð að framkvæmd grunnskólalaganna síðar í þessu máli. Hann nefndi dæmi um allt of dýra fjárfestingu og tók til nýbyggingarnar í Breiðholti. Það má náttúrlega alltaf deila um það, hvort lagt er of mikið í nýbyggingar við þennan eða hinn skólann, og skal ég ekki fara út í það. En ég minni á það, að það er stefna allra, sem til sín láta heyra um þessi mál, a. m. k. í orði, að reyna að auka streymi að hinum verklegu greinum. Dýrustu framkvæmdirnar í Breiðholtinu stuðla að því að unnt sé að taka við fleiri nemendum en áður í hinum ýmsu verklegu greinum, þeim greinum sem þar eru kenndar.

Hv. þm. minntist á mengjakennsluna. Ég er sömu skoðunar og hann, að það hafi verið vafasamur greiði að leggja í þá kennslu, en um það ræði ég ekki nánar hér. Aftur á móti er ég honum ekki sammála um það, að ólíklegt sé að fjölbrautaskólakerfið henti okkur íslendingum. Ég held einmitt þvert á móti að það séu miklar líkur til þess að þetta skólakerfi henti okkur hér. Þessi þjóð dreifist um þetta stóra land, býr við mjög ólíkar aðstæður. Sá mikli sveigjanleiki, sem er í fjölbrautaskólakerfinu, hefði ég haldið að hentaði okkur vel. Dæmi um mismunandi uppbyggingu fjölbrautaskóla eru þegar fyrir hendi. Hér í Reykjavík, í mesta fjölmenninu, er leitast við að byggja upp alhliða fjölbrautaskóla. Á Suðurnesjum hefur verið settur á fót fjölbrautaskóli með takmarkaðri viðfangsefnum. Ég vona það og hef enga ástæðu til annars, — ég vona að þetta fyrirkomulag eigi eftir að reynast vel og að t. d. þessir tveir skólar, sem ég nefndi, eigi eftir að gefa mjög góða raun.

Hv. þm. gagnrýndi það, að ekki væru til menntmrn. ráðnir menn með reynslu í kennslu. Þetta má deila um. En ef maður vildi eyða tíma í það, þá væri vandalaust að telja hér upp marga menn sem nú starfa í menntmrn. og hafa starfað úti í skólakerfinu um lengri eða skemmri tíma. Hitt er annað mál, og það held ég að enginn geti deilt á menn fyrir, að ráða fremur til starfa yngri menn heldur en menn sem eru langt komnir með sína starfsævi, þó að þeir hafi um leið aflað sér mikillar reynslu. En sem sagt, þarna er gert hvort tveggja, þarna eru bæði margir menn starfandi, sem hafa unnið vel í skólakerfinu og við kennslu, og svo einnig menn, sem hafa aflað sér lærdóms og reynslu á annan hátt.

Hv. þm. minntist hér á tvær greinar í blaði sem hann hafði. Ég hef þetta blað svo sem líka, það er ekki það. Honum fannst auðsjáanlega þessar greinar vera mjög góðar greinar. Mér finnst þær mjög lélegar. Hér er grein eftir kennara, Guðrúnu Helgu Sederholm. Sú grein er fyrir minn smekk allt of stóryrt og svo finnst mér í henni beinar þversagnir. Hún deilir harðlega á allt sem hún kemst yfir að nefna sem rn. hafi gert til þess að reyna að halda uppi sambandi við fólk og sérstaklega á fundi námsstjóra og á viðtalstíma þeirra o. s. frv. Hún t. d. segir um fundina, „að þarna hafi menntamálaaðallinn orðið sér enn einu sinni til skammar“ — og fer lítilsvirðingarorðum um viðtalstíma námsstjóranna. En þó leggur hún, sem rétt er, mikla áherslu á að auka tengsl rn. og þeirra sem í skólunum vinna.

Mér finnst þetta ekki góð grein. Og það er eins með þá ályktun sem hv. þm. vitnaði til og er hér á sömu opnu, — hann hefur sem sagt lesið þessa opnu, — að mér finnst hún ekki heldur góð, en allt of stórorðasöm og allt of mikið fullyrt þar til þess að hugsanlegt sé að hægt sé að standa við. Og þetta er nú samþykkt. Ja, mér finnst þetta eiginlega dæmigerð Egilsstaðasamþykkt og skal ekki fara fleiri orðum um það, en það orð er haft austanlands um þær samþykktir sem ekki eru nægilega rökstuddar.

Hv. þm. Svava Jakobsdóttir minntist nú á það, en hv. Sighvatur fór að tala um birtingu einkunna og að það hefði verið sett í reglugerð allt annað en væri í lögum. En honum hefur yfirsést að lesa 57. gr. laganna. Það er þó nauðsynlegt, þegar menn fara að tala um framkvæmd laga, að hafa aðeins gluggað í þau og sérstaklega lesið þær greinar sem menn gera að umtalsefni. En þar er þetta skýrt tekið fram, hvort sem menn eru sammála um að það sé réttmætt eða ekki, að óheimilt sé að veita upplýsingar um vitnisburði nemenda öðrum en þeim sjálfum og forráðamönnum þeirra, nema nauðsyn beri til vegna flutnings nemenda milli skóla. Þó skal heimilt að veita öðrum þessar upplýsingar vegna fræðilegra rannsókna, enda sé krafist fullrar þagnarskyldu. Ég vil af þessu tilefni vekja athygli á því, að það er oft töluverður vandi að setja reglugerðir. Í reglugerðum vilja menn gjarnan greina nánar en sagt er í lögum um framkvæmd ýmissa atriða. En þó má ekki setja ákvæði inn í reglugerð sem ekki er grundvöllur fyrir í viðkomandi löggjöf. Þarna verða menn auðvitað að fara bil beggja, en það hygg ég að hafi tekist í þessu tilviki.

Aðeins eitt atriði enn þá sem ég vildi minnast á úr ræðu þessa hv. þm. Hann er að vísu ekki hér við, en það sakar ekki svo mikið, Alþt. eru prentuð með hraði og menn fá þetta allt, sem ég hef sagt, á borðið hjá sér eftir nokkra daga. Hann var eitthvað að tala um þessa „tilraun“, og ég hef séð það í blöðum að þar er sagt að nemendur megi ekki vera „tilraunadýr“. Ég kem nú kannske aðeins að þessu síðar. En þetta er fráleitt tal. Það er ómögulegt að koma við neinum endurbótum á nokkru sviði án þess að fyrst séu gerðar einhverjar tilraunir um það hvernig endurbæturnar reynast, og á skólasviðinu er þetta alveg sérstaklega nauðsynlegt.

Jónas Árnason tók til máls og ég get verið fáorður um ræðu hans, því að í sjálfu sér erum við Jónas Árnason yfirleitt alltaf nákvæmlega sammála um þessi mál. Hann er ákaflega mannlegur, og mig langar til þess að vera það líka og það kannske skýrir hversu sammála við erum um þetta. Það má alltaf deila um það hvort menn taka of mikið tillit til erlendra fyrirmynda eður ei. Ég álít að við höfum mjög gott af því að virða fyrir okkur það, sem gerist t. d. hjá nálægum þjóðum, og nota reynslu þeirra bæði til þess að fara eftir henni og eins til viðvörunar þar sem hún ekki hefur gefist vel. En hitt má alltaf deila um, hversu til hefur tekist um að nýta sér þessa reynslu.

Út af því, sem hann minntist á móðurmálskennsluna, — og ég er honum sammála að það verður aldrei of mikil rækt við hana lögð, — þá veit ég nú kannske ekki hvort þessi kjörseðlaútgáfa af prófgögnum er svo hættuleg fyrir móðurmálið. Við verðum a. m. k., held ég, að halda okkur við kjörseðilinn svona svipað og hann er. En ég vil skjóta því hérna inn, í tilefni af því að bann minntist á móðurmálskennsluna, að það var eitt fyrsta verkefnið við endurskoðun námsefnis skólanna að taka það mál til meðferðar og endurskoða námsefni í íslensku og hefur það verið gert. En auðvitað má deila um árangurinn. (Gripið fram í: Er þessu lokið?) Því er aldrei lokið. Það verður stöðugt haldið áfram við að endurskoða hina ýmsu þætti námsskrár, og má þess vegna segja að þeim sé aldrei lokið. En það hefur verið lokið þar mjög miklum áfanga.

Gylfi Þ. Gíslason ræddi um undirbúning frv. um grunnskóla og upphaf kynningarstarfsemi grunnskólalaganna. Hún var mjög víðtæk. Þannig hefur lengst af verið unnið, hygg ég, í menntamálunum að reyna að kynna sem ítarlegast frv. áður en þau verða að lögum og síðan koma til framkvæmda. Þannig á auðvitað að vinna og þannig verður unnið eftir því sem menn hafa vit og krafta til.

Hv. þm. varpaði hér fram þeirri till. að koma á stórri ráðstefnu skólastjóra og kennara, a. m. k. fulltrúa kennarasamtaka, til þess að ræða um framkvæmdir grunnskólalaganna, um breytingar á námsefni um breytingar á prófum o. s. frv., o. s. frv. Það er auðvitað dálítill vandi að ákveða hversu stórar slíkar kynningarráðstefnur skuli vera. Við höfum haldið fjölmarga fundi um þessi efni, mætt á fjölmörgum fundum samtaka um þessi efni, en þetta er vissulega vel athygli vert, hvort ekki er rétt að koma á ráðstefnu í eitthvað líku formi og hv. þm. minntist hér á, og verður það tekið til nánari yfirvegunar.

Hv. þm. Svava Jakobsdóttir ræddi um einkunnagjöf og tilhögun prófa og mér virtist afstaða hennar til þeirra mála vera mjög skynsamleg. Hún spurðist fyrir um framvindu endurskoðunar eða raunar nýsmíði laga um framhaldsskólastigið. Það er ekki rétt að það hafi orðið neitt strand með þetta mál. Hins vegar er vika eða 10 dagar síðan frv. var lagt á borð menntmrh. eins og sú n., sem hefur unnið að málinu, hefur gengið frá því, og það er nú til athugunar hjá ríkisstj. Ég er sammála hv. þm. um að það er nauðsynlegt að flýta framlagningu og síðar meðferð þessa máls. Hins vegar er mér ljóst að það er miklu víðtækara en svo að unnt verði að afgreiða það á þessu þingi, svo að það kannske skiptir ekki mjög miklu máli um eina eða tvær vikur til eða frá. En annars kem ég örlítið nánar inn á þau atriði, sem hv. þm. vék að, síðar í þessu tali mínu og skal ég þá ekki ræða frekar einstök atriði í ræðum hv. þm. sem talað hafa hér á undan mér nú í dag.

Hins vegar kýs ég, ef hæstv. forseti leyfir og hefur þolinmæði, að gera örlitla grein fyrir þeim atriðum hverju fyrir sig, sem einkum hafa verið gagnrýnd í þessum umr. og raunar einnig oftlega í skrifum, sem orðið hafa í tengslum við hina nýju tilhögun samræmdra prófa, og í skrifum almennt, t. d. um framkvæmd grunnskólalaga o. fl. Þessi atriði sem ég hér á við, eru m. a. framkvæmd grunnskólalaga, tengsl rn. við fólkið sem starfar í skólunum, ásökun eða a. m. k. það álit að menntmrn. stefni sífellt að aukinni miðstýringu o. s. frv.

Varðandi framkvæmd grunnskólalaganna vil ég fyrst koma að því, að það hafi ekki verið búið að framkvæma hin eldri fræðslulög að fullu þegar grunnskólalögin voru sett og það hafi í raun og veru verið óþarfi að setja nokkra nýja löggjöf. Þetta er að mínu mati reginmisskilningur og raunar algerlega út í hött. Ég held að það sé alveg fráleitt að hugsa sér framkvæmd fræðslu- og skólamála þannig að það sé alveg lokið við að framkvæma sérhvert atriði í þeirri löggjöf sem gildir þá og þá, þegar hafist er handa um endurskoðun og breytingar. Ég held að þetta verði að gerast allt öðruvísi og eitthvað svipað og hér hefur verið gert, að þreifa sig áfram, og að ný löggjöf taki við löngu áður en sú gamla er orðin gersamlega úrelt og ómöguleg, þannig að nýja löggjöfin hljóti alltaf að tengjast með margvíslegu móti þeirri lagasetningu, sem hún leysir af hólmi, og innihalda mörg atriði, sem í þeim lögum voru. Það verður auðvitað alltaf matsatriði hversu mikið magn af nýjungum er hæfilegt. En ég held að hitt verði ekki deilt um, að í grunnskólalögunum felast mjög margar nýjungar, merkar nýjungar, vil ég segja, og ég skal aðeins nefna dæmi um það.

Ég held að það sé óhætt að segja að meginmunurinn á gamalli og nýrri löggjöf í þessu tilviki felist í því, að í nýju lögunum er megináhersla á það lögð að nemendum sé kennt að nema og kennt að starfa, auk þess sem þeir auðvitað fá fræðslu um margvísleg efni. En aftur í hinum eldri lögum hefur kannske megináherslan verið lögð á að kenna nemendum tiltekið magn gagnlegrar vitneskju og svo auðvitað jafnframt að kenna þeim að vinna og starfa. Ég held að þessi áherslumunur sé meginmunurinn.

Í 2. gr. grunnskólalaganna segir, eins og ég rifjaði upp áðan, að grunnskólar skuli veita nemendum tækifæri til að afla sér þekkingar og leikni og temja sér vinnubrögð sem stuðli að stöðugri viðleitni til menntunar og þroska. Svona markmiðslýsingar má auðvitað gefa með margvíslegu móti, en þannig stendur þetta í lögunum, og þetta er það sem okkur ber að vinna eftir. Og þar segir líka: „Skólastarfið skal leggja grundvöll að sjálfstæðri hugsun nemenda og þjálfa hæfni þeirra til samstarfs við aðra: Það er vandasamt að gera svona yfirlýsingar vel úr garði, en það er miklu vandasamara að færa þær út í lífið, og um það verður alltaf ágreiningur hversu til hafi tekist um það. En þarna er sem sagt meginmarkmið grunnskólalaganna formað og endurskoðun námsefnis, ný námsskrá gerð og nýtt námsmat er við það miðað að stuðlað sé að því að framfylgja þessari nýju stefnu.

Þá vil ég minna næst á það veigamikla atriði grunnskólalaganna sem að því lýtur að færa stjórnun og þjónustustörf menntmrn. að hluta út í byggðirnar, en að því er vissulega stefnt með ákvæðunum um fræðsluumdæmi, fræðsluráð og skrifstofur og fræðslustjóra. Þetta atriði álít ég mjög þýðingarmikið. Og ég vil segja það hér, að störfum fræðsluskrifstofanna og fræðslustjóranna hefur verið ákaflega vel tekið úti um hinar dreifðu byggðir, og það er ekki nokkur vafi á því, að fólk fagnar þessari nýju tilhögun. Það hefur hvarvetna tekist gott samstarf með skólafólki og sveitarstjórnum og fræðsluskrifstofunum. Og ég legg þunga áherslu á það, að þessum skrifstofum er ætlað að vinna hluta af þeim störfum, sem áður voru unnin í menntmrn., að fullvinna þau. Þeim er ekki ætlað að vera milliliður nema að litlu leyti, heldur er hlutverk þeirra að fullvinna ýmsa þætti, svo sem endurskoðun og samræmingu á kostnaðaráætlunum og á reikningum, og svo að veita margvíslega kennslufræðilega og skipulagslega aðstoð og leiðbeiningar. Ég vil minna á það í þessu sambandi, að hliðstæð starfsemi hjá öðrum ríkisfyrirtækjum er þegar komin á fót og verið er að færa hana út, svo sem hjá Vegagerð, Hafrannsóknastofnun, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins o. s. frv. Þessi viðleitni hefur hvarvetna tekist vel, og henni hefur verið vel fagnað af hlutaðeigendum sem eiga að njóta þjónustunnar. En það er auðvitað skylt að minna á það jafnframt, að starfsemi fræðsluskrifstofanna og fræðslustjóranna til þessa hefur verið í gífurlegri fjársveltu. Það stafar bæði af mistökum, sem urðu við gerð grunnskólalaganna, þar sem Alþ. hætti við það á síðustu stundu að löggilda landshlutasamtök sveitarfélaga, en þeim var ætlað að fjármagna fræðsluskrifstofurnar að hluta, og stafar það einnig af því, að fjárveitingar á fjárl. hafa verið takmarkaðar, ekki verið nægilega miklar. Þetta hefur orðið til þess að skrifstofurnar hafa ekki notast að fullu enn þá. En auðvitað kemur það líka til, að þetta er starfsemi sem er að byrja og ekki orðin fullmótuð, og þetta stendur vitanlega allt til bóta.

Ég minni á fyrirmæli 26. gr. grunnskólalaganna, að menntmrn. skuli efna til almennrar samkeppni að ákveðinni tegund skólamannvirkja, miðað við breytilegar stærðir skóla og ólíkar aðstæður í landinu. Menntmrn. telur fulla ástæðu til þess að hefjast handa um slíkt. Það hefur ekki fengist fjárveiting til þess. Það er ekkert um það að sakast út af fyrir sig. Grunnskólalögin koma ekki öll til framkvæmda á stuttum tíma, enda gert ráð fyrir því í lögunum sjálfum að framkvæmd þeirra nái yfir 10 ára tímabil. Og það verður auðvitað alltaf matsatriði hvort eigi að rúðast í þetta eða hitt verkefnið varðandi t. d. framkvæmd þessara laga. Þetta verkefni álit ég mjög þýðingarmikið, en ég ætla að spara mér að fara út í nánari rökstuðning á því, en vísa til þess sem fram hefur komið í Fréttabréfi rn., þar sem birt er bréf rn. um þetta efni, þegar sótt var um fjárveitingu og gerð grein fyrir þessari þörf. Ég árétta það, að þegar ég er að minna á þessa till. rn. um fjárveitingar til einstakra verkefna og greini frá afgreiðslu þeirra í fjvn. á Alþ., þá er það ekki gert í ádeiluskyni, heldur til þess að minna á þá gífurlegu fjárþörf sem er fyrir hendi og ekki hefur til þessa verið unnt að sinna, bæði á þessu sviði og öðrum.

En mér þykir það auðvitað sárast þegar ekki hefur verið talið unnt að verða við fjárveitingum til þess að fjármagna tiltekin hagræðingarverk sem hugsanlegt var og raunar vænta mátti að leiddu til betra skipulags og aukins sparnaðar. Sem dæmi um þess háttar verk get ég enn aðeins nefnt það, að menntmrn. hafði látið byrja sérfræðilega könnun á hugsanlegri samnýtingu mg aðstöðu til rannsókna og verklegrar kennslu hjá skyldum skólastofnunum sem eru mjög dýrar í uppbyggingu og rekstri, eins og verkfræðistofnun Háskóla Íslands, Tækniskóli Íslands, Vélskólinn og jafnvel iðuskólinn, verknámsdeildir. Slík sérfræðileg athugun kostar auðvitað verulega fjármuni, en það fékkst ekki bein fjárveiting til hennar. Kannske verður hægt að leysa málið að einhverju leyti fyrir því. Og ég vil enn minna á eitt verkefni svona, rannsóknarverkefni sem ég álít að geti haft mjög mikið gildi og sé nauðsynlegt að sinna, en það er að láta fara fram sérfræðilega rannsókn á áhrifum lengri eða skemmri skólaskyldu á nemendur og á þjóðfélagið í heild, en ákvörðun um þetta atriði hljótum við að taka hér á Alþ. innan stutts tíma samkvæmt þeim lögum sem þar um gilda. En einnig um þetta atriði hefur verið farið á flot að fá fjárveitingar. Það var að vísu gert mjög seint, og það var ekki eðlilegt að hægt væri að verða við því að þessu sinni, en áfram verður auðvitað róið á þeim miðum.

Þessi atriði, sem ég hef nefnt, eru nátengd þeim áformum, þeirri meginstefnu, sem felst í grunnskólalögunum, og þeim áformum, sem þar eru boðuð með ýmsum ákvæðum. Ég vil enn minna á ákvæði grunnskólalaganna varðandi kennslu þeirra þarna sem talin eru víkja frá eðlilegum þroska. Þau eru að mínum dómi ákaflega þýðingarmikil. Það hefur þegar verið gert töluvert mikið til þess að framkvæma þessi ákvæði og ég skal ekki rekja það í einstökum atriðum. Þetta eru ein þýðingarmestu ákvæðin í grunnskólalögunum að mínum dómi. En ég vil þó minna á það, að í þéttbýlinu hér syðra og að litlu leyti norðanlands hefur þegar verið veitt skipulagsbundin sálfræðiþjónusta um alllangt skeið þar sem hún hefur verið lengst. Þessari þjónustu hefur enn ekki reynst unnt að koma á annars staðar í landinu og þar er bæði um að kenna fjárskorti, aðstöðuleysi á viðkomandi stöðum og svo því, að við höfum ekki ótakmarkaðan fjölda sérfræðinga á þessu sviði, síður en svo.

Ég get nú ekki stillt mig um, fyrst farið er að tala um framkvæmd grunnskólalaganna, að minna á eitt atriði þar sem er veruleg ósamkvæmni í afgreiðslu Alþingis. Það er alllangt síðan, ég hygg að það hafi verið vorið 1975, að Alþ. afgreiddi þál. þar sem er skorað á menntmrh. að ráða sérstakan sérkennslufulltrúa við menntmrn. Nú sótti rn. ítrekað um fjárveitingu til að koma þessu í framkvæmd, og einnig var sótt til stöðunefndar um leyfi til þess að fá að ráða þennan fulltrúa. En það var löngu seinna, á fjárlögum 1977, að þessi fjárveiting loksins fékkst. Og ég bendi á það, að þau lög komu í gildi 1. jan. og sérkennslufulltrúinn tók til starfa 3. sama mánaðar.

En hvað um það, þrátt fyrir það að minna fjármagn fáist en æskilegt hefði verið að hafa til umráða til þessara hluta, þá hefur þegar töluvert þokast á leið í þessum málum.

Ég nefni það enn í þessu sambandi, að reglugerð um framkvæmd sérkennslunnar hefur verið í smíðum lengi og það er ekki tilviljun, því þetta er bæði viðkvæmt mál og mjög vandasamt. Það hefur verið lögð mjög mikil vinna í gerð þessarar reglugerðar, og ég vona að hún fari nú senn að sjá dagsins ljós.

Hér hef ég þegar fjallað um þær miklu breytingar sem grunnskólalögin gera ráð fyrir á námsmati. Það hefur komið fram í þeim orðum sem ég hef sagt hér um framkvæmd prófanna.

Ég vil enn nefna það, að grunnskólalögin gera ráð fyrir mjög aukinni áherslu á skólabókasöfnin, og er jafnvel gert ráð fyrir því að þau verði eins konar miðpunktur skólans og skólastarfseminnar á hverjum stað. Það hefur verið unnið að framkvæmd þessa atriðis eftir föngum, og það er jafnframt unnið að því og leitast við að stuðla að því, þar sem því verður við komið, að tekin verði upp sameiginlegur rekstur skólabókasafna og almenningsbókasafna.

Ég hef áður aðeins vikið að því — það kom fram í skýrslu rn. um framkvæmd prófanna — því merka nýmæli sem felst í grunnskólalögunum um tengsl skólans og atvinnulífsins. Það segir hér í 42. gr.: „Í samræmi við markmið grunnskóla skal að því stefnt að nám í öllum bekkjum skólans tengist sem best raunhæfum athugunum og þroskandi störfum utan skólaveggjanna. Í 7.–9. bekk verði val námsgreina frjálst að hluta og skal þar við það miðað að verklegt skyldu- og valnám geti samanlagt numið helmingi námstímans að hámarki, en fimmtungi hans að lágmarki.“ Í þessu er höfð mikil sveigja, eins og eðlilegt er, því hér er um nýmæli að ræða. Ég minni einnig á það sem segir í sömu grein, eftir að nánar hefur verið greint hvað kenna skuli í grunnskóla: „Þar sem nemendur eru þátttakendur í atvinnulífinu um takmarkaðan tíma á skólaárinu skal heimilt að meta það að nokkru til jafns við verklegt nám. Fræðsluráð skal í samráði við launþega- og atvinnurekendasamtök og hlutaðeigandi skólastjórn skipuleggja atvinnuþátttöku nemenda, þar sem slíkrar skipulagningar er þörf, og skal metið að nokkru sem verklegt nám.“ Þetta nýmæli tel ég vera mjög merkt. En það er líka mjög mikið verk að koma því í framkvæmd. Nokkuð hefur verið að þessu gert og nokkuð var unnið í þessa stefnu hjá einstökum skólum, einnig áður en grunnskólalögin voru sett, en ég endurtek: það kostar mikla vinnu og líka töluverða fjármuni að koma þessu nýmæli í framkvæmd.

Í þessari sömu grein eru einnig fyrirmæli um það, að við setningu námsskrár og skipulagningu námsefnis skuli þess gætt að gefa nemendum sem jöfnust tækifæri til náms, jafnframt því sem komið er til móts við og viðurkennd mismunandi persónugerð, þroski, geta og áhugasvið nemenda. Og það eru sérstök ákvæði um hvernig með skuli fara í fámennum skólum þar sem margir aldursárgangar þurfa að vera saman. Það verður að vera sveigjanleiki í þessum efnum. Grunnskólalögin stefna að því að það er reynt að koma honum á. Gerð hinna nýju prófa er eitt af mörgum viðbrögum til þess að svo megi verða.

Það er oft talað um það, og kom fram hjá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni áðan, að framkvæmd grunnskólalaganna verði ákaflega kostnaðarsöm. Þetta kemur mjög oft fram þegar fjallað er um afgreiðslu fjárlaga. Og mér finnst oft að menn gleymi því að taka það með í reikninginn, að hvort sem hefði verið sett ný fræðslulöggjöf eða ekki, þá var alveg óhjúkvæmilegt að gera ýmsar breytingar og sumar kostnaðarsamar á skólakerfinu, m. a. taka námsefni og tilhögun námsmats til rækilegrar endurskoðunar.

Ég minni enn í því sambandi á mjög mikla gagnrýni á stöðnun í skólakerfinu sem verið hefur uppi svo lengi sem — liggur mér við að segja — opinberir skólar hafa starfað á Íslandi, en rekin af vaxandi hörku í seinni tíð. En ég hygg að það sé mál flestra, að þau nýmæli, sem ég aðeins hef tæpt hér á, séu til bóta og æskilegt sé að framkvæma þau svo fljótt sem við verður komið.

Það hefur oft verið rætt um það í sambandi við þessa kostnaðarhlið, að skólarannsóknadeild í rn. væri fyrirferðarmikil og kostaði mikla fjármuni að reka hana. Mér finnst ástæða til að vekja sérstaka athygli á því, hvað þarna er gert, þó með örfáum orðum. Ég minni fyrst á það sem áður hefur komið fram, að mjög margar námsgreinar á grunnskólastiginu hafa verið teknar til endurskoðunar þó nokkrar séu eftir. Í framhaldi af námsskrárgerðinni, sem ég hef áður minnst á og er auðvitað unnið að þarna, er svo hlutur skólarannsóknadeildar í námsbókagerð. Þessi deild hefur lagt þar töluvert af mörkum, t. d. greitt höfundarlaun vegna samningar kennslubóka og borið ýmsan annan kostnað af námsbókagerðinni sem ella hefði fallið á Ríkisútgáfu námsbóka. Og þá er hluti af kostnaði við tilraunakennsluna, sem menn eru nú stundum að hnýta í, en ég segi að sé óhjákvæmileg, — hluti af kostnaði við hana er færður á þessa skólarannsóknadeild. Þá eru einnig námsstjórarnir. Það hafa verið ráðnir sérstakir námsstjórar fyrir hinar ýmsu námsgreinar til þess að kynna námsverkefnið. Þeirra hlutverk hefur verið að veita ýmsar leiðbeiningar og líka að taka á móti ábendingum frá fólkinu, sem vinnur í skólakerfinu og koma þeim til skila, því þessi mál eru í stöðugri endurskoðun, eins og ég vék að áðan. Þessir námsstjórar eru nú 9.

En ég ætla ekki að fara lengra út í þetta. Mig langaði rétt til að nefna þessi dæmi til þess að mönnum yrði kannske örlítið ljósara en áður umfang þeirrar starfsemi sem fram fer innan skólarannsóknadeildar menntmrn. Ég hygg að það þurfi ekki orðum að því að eyða að slík endurskoðunarstörf sem þar hafa verið unnin, það var óhjákvæmilegt að vinna þau, hvort sem ný löggjöf var sett eða ekki. En ég vil jafnframt láta koma fram hér, að okkur er ljóst í rn. að það er nauðsynlegt að mikil tengsl séu með skólarannsóknadeildinni í rn. og Kennaraháskóla Íslands og Æfinga- og tilraunaskóla kennaraháskólans. Og ég veit að í frv. um Kennaraháskóla Íslands verður lögð aukin áhersla á þessi tengsl.

Ég vil svo aðeins minna á það, að í ákvæði til bráðabirgða segir að að 4 árum liðnum frá gildistöku grunnskólalaganna skuli menntmrh. gera Alþ. grein fyrir framkvæmd laganna og þá einkum undirbúningi að 9 ára skólaskyldu, þannig að Alþ. gefist kostur á að álykta á ný um það ákvæði.

Tveir hv. þm. spurðu um þetta sérstaklega og ég get upplýst það, að þegar hafa verið settir menn til að hefja gagnasöfnun og skýrslugerð sem er nauðsynlegur undanfari þess að ráðh. geti gefið Alþ. tilskildar upplýsingar um þetta. Þetta er áreiðanlega mikið verk, og það var ekki seinna vænna að hefja undirbúning að því. Það er ekki langt síðan þetta var sett í gang og ef eitthvað er, þá höfum við gert það heldur of seint en of snemma, þó ég sé ekki alveg sammála hv. þm. sem sagði að þessar athuganir bæri að leggja fram í byrjun næsta þings. Ég held það mundi ekki teljast vítavert þó það drægist eitthvað fram á þingið.

Í framhaldi af þessari upprifjun um grunnskólalögin, sem ég geri hér að gefnu tilefni, því að margir þm. hafa vikið að því að framkvæmd þeirra væri mjög ábótavant, vil ég aðeins víkja að framhaldsskólastiginu örlítið meira en ég þegar hef gert.

Í beinu framhaldi af setningu grunnskólalaganna og laganna um skólakerfið hófst endurskoðun framhaldsskólastigsins. Forustu um þá endurskoðun, það hefur raunar komið fram áður, hefur haft n. fjögurra deildarstjóra í menntmrn. og hún tók til starfa haustið 1974. Ég vil leggja mikla áherslu á það, að þessi n. studdist við margvíslegar athuganir, sem áður höfðu verið gerðar á ýmsum þáttum framhaldsskólastigsins, ekki síst þeim þættinum sem mest hefur verið gagnrýndur, en þar á ég við verkmenntaþáttinn. En á því sviði höfðu starfað milliþn. og skilað yfirgripsmiklum álitum. Þessi n. hefur leitað álits fjölmargra aðila og frumdrög að till. hennar voru kynnt á ráðstefnu nokkurra skólamanna sem haldin var í sumar. Og eins og ég sagði áðan hefur n. skilað þessum till. til menntmrh. og þær eru hjá ríkisstj. í nánari skoðun. Mín hugsun er sú, eins og ég held að ég hafi tekið fram áðan, að leggja þetta mál fram nú á þessu þingi, svo fljótt sem við verður komið, en eingöngu til kynningar málinu þar sem það er mjög umfangsmikið og þess vegna nauðsynlegt að bera það enn undir fjölmarga aðila, bæði skólafólk, sveitarstjórnarmenn og marga aðra sem láta sig þetta mál varða, því ætlunin er að vinna þetta á líkan hátt að því leyti til og grunnskólalögin voru unnin á sínum tíma.

Það er ekki unnt að skýra frá þessum tillögum í einstökum atriðum. Ég var nú að hugsa um að greina frá meginatriðum í þeim, en ég held satt að segja að það lengi ræðu mína of mikið. En ég vil aðeins, að marggefnu tilefni raunar, láta það koma fram hér, eins og ég hef áður tekið fram í blöðum og á fundum, að stefnt er að því í þessum till. að fullt samræmi verði í kostnaðarþátttöku ríkisins og sveitarfélaga í skólum á þessu stigi og eytt verði þeim mikla og ég verð að segja þeim óþolandi mun sem nú er, þar sem ríkissjóður greiðir helming af kostnaði við iðnfræðsluna auk launa og aftur allan kostnað við menntaskólana. Það felst í þessum till. að þetta misræmi hverfi.

En þó að sjálf lagasetningin um framhaldsskólastigið sé ekki lengra á veg komin en þetta sem nú er komið fram, þá teldi ég æskilegt að það hefði verið byrjað og fyrir nokkuð löngu á endurskoðun námsefnis á framhaldsskólastiginu, því að það er mjög nauðsynlegt að mæta nýskipan náms á grunnskólastigi með samræmdum aðgerðum á næsta stigi. Það hefur ítrekað verið sótt um fé á fjárlögum til þessarar starfsemi og það hefur ekki tekist að fá inn byrjunarfjárveitingu, tókst ekki enn við gerð síðustu fjárlaga. Ég lagði á það mjög mikla áherslu og ræddi það ítrekað, en allt kom fyrir ekki. Þetta tel ég mjög miður farið, ég get ekki annað en látið það koma fram hér. En það tjáir ekki að deila við dómarann um þetta. Ég vil bara segja það, að allt verður gert sem unnt er til að greiða þeim leið inn í framhaldsskólana sem nú og á næstunni ljúka námi í grunnskóla. Til undirbúnings því að greiða fyrir nemendum inn í framhaldsskólana hefur rn. sent út spurningalista til þeirra nemenda, sem nú ljúka grunnskóla, og spurst fyrir um áform þeirra varðandi skólagöngu næsta vetur. Verður svo reynt að vinna úr því og nota það til hjálpar. En það er náttúrlega óhjákvæmilegt að hér verður eitthvert millibilsástand á meðan ný löggjöf er í smiðum og er að komast til framkvæmda varðandi framhaldsskólastigið. En ég endurtek það, það verður vitanlega að gera allt sem unnt er til þess að greiða fyrir í þessu millibilsástandi.

Það er sífellt verið að tala um miðstýringuna í skólakerfinu og það sé markvisst stefnt að því að auka þessa miðstýringu. Mér sýnist þetta vera fjarri öllu lagi. Grunnskólalögin gera ráð fyrir stórauknu valdi og verkefnum úti í byggðunum í gegnum fræðsluskrifstofurnar, eins og ég hef áður minnst á. Það er þó vissulega ekki til þess að auka miðstjórnarvald, heldur til þess að dreifa valdinu. Og eins og ég hef einnig minnt á, þá gera grunnskólalögin ráð fyrir mjög auknu frjálsræði skóla til þess að forma sína eigin starfsemi, og það er ekki heldur til þess að auka miðstjórnarvald. Það verður reynt að framfylgja þessum ákvæðum eftir því sem mögulegt er. Þetta kemur glöggt fram í þeirri grg. sem ég áðan kynnti um samræmdu prófin, að það er dregið úr því sem mætti kalla miðstýringu, með því að fækka hinum samræmdu prófum, með því að gefa skólunum aukið frjálsræði í verkefnavali, t. d. eftir að hin samræmdu próf hafa verið framkvæmd á miðjum vetri. Og ég legg ríka áherslu á það, að námsskráin, eins og hún er nú, og ýmsar slíkar reglur eru fyrst og fremst settar fram til viðmiðunar, þær eru ábending, en ekki beinhörð fyrirmæli um það hvernig hver og einn skóli og kennari skuli haga sínu starfi. Ég staðhæfi því að allt þetta tal um aukna miðstýringu í skólakerfinu og t. d. alveg sérstaklega í sambandi við setningu grunnskólalaganna og framkvæmd þeirra, það er gjörsamlega úr lausu lofti gripið. Og ég skal rökstyðja það enn betur.

Það hefur verið þrásinnis um það talað í sambandi við umr. um samræmdu prófin að menntmrh. og menntmrn. vanræki að halda lifandi sambandi við skólastjóra og kennara og nemendur skólanna, en þetta er síðasta atriðið sem ég ætlaði að koma að í þessu spjalli núna. Varðandi þessi margnefndu samræmdu próf og undirbúning þeirra vil ég minna á þetta: Þrjú dreifibréf hafa farið út um þetta efni, fyrstu tvö bréfin strax í apríl 1976 og svo í sept. 1976. Þau voru samin af fulltrúum fyrir erlend mál í prófanefnd og lýstu hugmyndum um eitt samræmt próf í erlendum málum í 9. bekk þar sem nemendur hefðu ákveðna valkosti. Í síðara bréfinu var þessi hugmynd skýrð með dæmum. Í báðum bréfunum voru kennarar í 9. bekk beðnir um að senda námsstjórum í dönsku og ensku álit sitt á hugmyndunum. Svo leyfa menn sér að halda því fram að það hafi aldrei verið leitað álits eins eða neins í þessu sambandi. 24 kennarar sendu álit skriflega, nokkrir gerðu grein fyrir viðhorfum sínum í viðræðum og á fundum, og samþykkt um þetta mál barst frá sameiginlegum fundi í félögum dönsku- og enskukennara. Þegar þessi álit kennaranna höfðu verið athuguð og metin var tekin sú ákvörðun, að einungis yrði prófað í öðru málinu, og sú ákvörðun og ástæður fyrir henni kynntar í bréfi til skólanna 10. jan. s. l. Þó að þessi lokaákvörðun kæmi nokkuð seint gat hún ekki haft nein slæm áhrif á kennsluna út af fyrir sig, að því að best verður séð. En mér finnst alveg augljóst að hér er ekki um sambandsleysi að ræða, heldur þvert á móti. Það var leitað álits kennara, þeirra er málið varðar mest, og ákvarðanir teknar í samræmi við það.

Þá hefur einnig verið rætt um það, að hin nýja námsskrá hafi verið gerð án samráðs og ekki nægilega kynnt. En ég minni aftur á þetta, sem áður hefur komið fram, að í okt. og nóv. s. l. voru haldnir fundir með kennurum í grunnskólum um allt land til þess að kynna námsskrána. Þessir fundir urðu alls 54, hvorki meira né minna. Þeir voru yfirleitt mjög vel sóttir, og ég held að mér sé óhætt að segja að yfirleitt hafi verið ánægja með þessa fundi út af fyrir sig. Síðan er að minna á Fréttabréfið sem áður hefur verið minnt á hér. Þar er ítarleg frásögn um þessa fundi og einnig um þessa tilhögun prófanna. En þessir fundir — ég vil taka það fram sérstaklega — voru skipulagðir — ekki af rn. blint, heldur í fullu samráði við hlutaðeigandi fræðslustjóra og fundatilhögun þannig, sem mjög venjulegt er á ráðstefnum, að fyrst eru flutt erindi og síðan er rætt í starfshópum.

Ég vil leggja áherslu á það enn á ný, sem segir í formála námsskrárinnar, að í þessa fyrstu útgáfu vantar vafalaust ýmis atriði sem æskilegt er að komi í námsskrá. Rn. gerir því ráð fyrir að námsskráin eða hlutar hennar verði endurskoðaðir áður en langt um líður í ljósi fenginnar reynslu. Það er því mikilvægt að kennarar og aðrir, sem nota námsskrána, komi á framfæri athugasemdum og tillögum um breytingar sem þeir telja að til bóta megi verða. Og ég vil enn minna á það, að margumrædd námsskrá er ekki samin af einum eða örfáum mönnum í rn. Námsskráin er sett samkvæmt tilheyrandi lagagrein og leysir af hólmi gamla námsskrá sem sett var 1960 og síðar endursamin. En þessi námsskrá í sínum fjölmörgu greinum er undirbúin af starfshópum sem þátt tóku í margir kennarar undir stjórn hlutaðeigandi fagnámsstjóra. En Andri Ísaksson prófessor og dr. Wolfgang Edelstein hafa verið ráðgefandi við þetta mikla verk. En hitt er svo auðvitað rétt, sem ég tók fram þegar þessar umr. utan dagskrár hófust, að námsskráin er að lokum lögð fyrir ráðh. til staðfestingar. En það breytir ekki því, að hún er undirbúin á þennan hátt sem ég nú greindi. Og til þess að stytta mál mitt vitna ég aðeins til þeirra ummæla, sem ég viðhafði hér áðan, og tilvitnana, þar sem gerð er glögg grein fyrir því að námsskráin er ekki viðjar, heldur ábending og leiðbeiningar fyrst og fremst.

Út af sambandsleysinu vil ég enn aðeins koma þessu að: Á vegum rn. hefur verið komið á fót samstarfsnefndum, föstum samstarfsnefndum: milli rn. og landssamtaka skólastjóra og kennara, sú n. hefur ekki stoð í lögum, en var sett fyrir frumkvæði rn., milli rn. og Sambands ísl. sveitarfélaga samkvæmt grunnskólalögunum, milli rn. og skóla á menntaskólastigi, sú n. starfar samkvæmt lögum um menntaskóla og í henni eiga sæti allir rektorar og skólameistarar. Og enn nefni ég fasta samstarfsnefnd um málefni Háskóla Íslands. Þá mætti enn nefna fleiri slíkar fastar samstarfsnefndir. Ég læt það vera að lengja þá upptalningu, en minni aðeins á það, að fjölmargir vinnuhópar hafa starfað og starfa að einstökum málaflokkum þar sem reynt er að tengja rn. og fólkið sem vinnur viðkomandi störf. Ég nefni aðeins eitt dæmi, en það er það starf sem unnið hefur verið við athugun á möguleikum á samnýtingu skólahúsnæðis. Fyrst störfuðu þrír menn á vegum rn. að þessu. Síðan komu menn frá Reykjavíkurborg inn í þetta starf. Og það hefur verið reynt að hafa sem allra best samstarf við þá æskulýðsfulltrúa og þá fulltrúa sveitarfélaga sem til hefur náðst. En þetta er aðeins eitt dæmi af mjög mörgum sem unnt væri að nefna. Ég minni á viðtalstíma fagnámsstjóranna sem áður hefur verið greint frá, og ég minni á fræðslustjórana 8, það er eitt af þeirra verkefnum að treysta tengslin milli rn. annars vegar og fólksins, sem starfar í skólunum, og foreldra og nemenda einnig, og þeir eiga að hafa til þess miklu betri aðstöðu heldur en starfsmaður sem er í skrifstofu á Hverfisgötu 6.

Til þess enn að undirstrika það, að menntmrn. leggur sig í framkróka um náið samstarf við sitt fólk bæði fyrr og siðar þá vil ég minna enn og aftur á meðferð grunnskólafrv. án þess að hafa um það mörg orð. Það er áreiðanlega alveg rétt, sem fram kom hjá hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasyni, fyrrverandi menntmrh., að við fyrstu gerð frv. var seilst mjög viða til fanga. Og ég held að það sé óhætt að segja að enginn ráðh. og ekkert rn. hafi lagt sig meira í framkróka um að kynna þau lög, sem verið var að setja, heldur en forveri minn, hv. þm. Magnús T. Ólafsson, gerði í sambandi við kynninguna á grunnskólafrv. Það skýrði að nokkru þann langa tíma sem meðferð þess tók hér á Alþ. frá því að það var fyrst lagt fram. Slíkum starfsháttum viljum við, sem nú störfum í menntmrn., vissulega halda áfram.

Hæstv. forseti. Ég er víst orðinn nokkuð langorður, en það er satt að segja erfitt að gera grein fyrir þessum málum öllum í örfáum orðum. Eins og ég sagði í upphafi hef ég talið æskilegra að um þetta hefði verið rætt undir föstum dagskrárlið. En þetta er orðin venja hér, t. d. að gefa stjórnarandstöðunni á hverjum tíma nokkuð ótakmarkaðan ræðutíma í umr. utan dagskrár. Ég sé þá ekki kannske svo mjög athugavert við það, þó að ráðh. taki sér nokkurn tíma til að útskýra þegar minnst hefur verið á mjög mörg atriði og sum sett fram í nokkuð skörpum ádeilutóni, sem ég auðvitað kvarta alls ekkert undan. Ég segi það og hef raunar sannað það með þessari kannske allt of löngu ræðu, að ég vil á engan hátt skorast undan því að taka þátt í umr. sem þessum þegar þær snerta mitt ráðuneyti.