27.10.1976
Efri deild: 6. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í B-deild Alþingistíðinda. (184)

37. mál, tollskrá

Flm. (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Flm. frv. er ljós þessi hætta sem hv. þm. Albert Guðmundsson benti á í sambandi við eftirgjöf á tollum á smiðaefni í tæki þessi. Við höfðum raunar hugsað okkur að ráðin yrði bót á þessum galla með reglugerð. En vegna munnlegrar till. hv. þm. um breytingar á þá lund, að Landssímanum yrði raunar falið að lána því talstöðvar í bila sína án endurgjalds og halda þessum stöðvum við, þá vil ég geta þess að umsóknir munu nú liggja fyrir hjá Tryggingastofnun ríkisins um það, að hún sjái raunverulega fyrir öryggistækjum af þessari tegund í bila fatlaðs fólks.

En ég lít svo til að samþykkt þessara frumvarpa tveggja mundi ekki aðeins létta undir með einstaklingunum sjálfum, sem þurfa á þessum tækjum að halda, og þeim stofnunum, sem tækju að sér að leysa úr nauð þeirra sem verst eru á vegi staddir, heldur yrði hún einnig vísbending um vilja Alþ. í þessu efni. Sannleikurinn er náttúrlega sá, að samanborið við það sem tíðkast á Norðurlöndum, þá búum við skammarlega að okkar fatlaða fólki og öryrkjum og höfum verið á eftir frændum okkar á Norðurlöndum um margra ára bil í þessu efni. Mér skilst að það fatlaða fólk, sem um er fjallað í þessu frv., þ.e.a.s. það fólk sem hlýtur að nota hjólastóla og hefur verið aflimað af báðum fótum fyrir ofan hné, sem sagt í svo mikilli nauð, það getur nú endurnýjað bilakost sinn í Danmörku, Noregi og Svíþjóð án þess að það þurfi að leggja af mörkum grænan eyri til þeirra hluta.

Það hlýtur að viðurkennast að samtökum öryrkja á Íslandi varð á í messunni fyrir einum 12 árum í baráttu sinni fyrri bættum aðbúnaði að þessu leyti og var þó ekki þeim, samtökunum, einum um að kenna. Það gerðist á þeim árum þegar byrjaði innflutningur á svokölluðum Austur-Evrópubílum til landsins, að sala á þeim gekk ekki jafngreiðlega og æskilegt var að dómi yfirvalda. og þá tóku menn upp það ráð að rýmka mjög ákvæðin um það hverjir gætu notið tollaeftirgjafar á bilum og hverjir ekki. Varð það til þess að tiltölulega lítið fatlað fólk, jafnvel allt ofan í konur sem roðnuðu á fótum í frosti, fékk eftirgjöf á aðflutningsgjöldum, og var raunar miklu fremur gert fyrir viðskipti okkar, að því er mér skilst, við Sovétríkin heldur en fyrir hinar rauðkrítuðu meyjar að taka þetta fyrirkomulag upp. En af þessu leiddi aftur á móti það, að viðleitnin til þess að létta sem allra mest undir með þeim sem mjög illa voru fatlaðir. lömunarsjúklingunum í hjólastólunum. — viðleitnin til þess að hjálpa þeim til þess að komast yfir traustar og hæfilegar bifreiðar sem þeim var lífsnauðsyn að hafa, þessi viðleitni lamaðist, og við höfum í samtökum öryrkja ekki komist yfir þetta áfall enn í dag.

Ég er alveg efalaus um það, að fyrir er vilji meðal þm. úr öllum stjórnmálaflokkum að bæta hag þessa fólks, og hlýt að taka fram einmitt við þessa umr. að ég sakna þess að dr. Oddur Ólafsson, hv. þm., skuli vera fjarverandi við umr. núna. því að hann mun nú vera sá þm., að öðrum ólöstuðum, sem kunnugastur er baráttu öryrkjasamtakanna á þessum sviðum og enn að öðrum þm. ólöstuðum sá sem mesta vinnu hefur lagt af mörkum í þágu þeirra. En ég ítreka það, að ég lít svo til að með þessu lagafrv. mundi Alþ. að auki láta í ljós vilja sinn til úrbóta á vandamálum fatlaðra að öðru leyti.