08.03.1977
Sameinað þing: 60. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2460 í B-deild Alþingistíðinda. (1840)

257. mál, endurskoðun á lögum um hlutafélög

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hér er á dagskrá fsp. sem gerð var af varamanni mínum, Jóhannesi Árnasyni. Þessi fsp. er til viðskrh. um endurskoðun á lögum um hlutafélög. Það er spurt um það, hvað liði endurskoðun á l. nr. 77 frá 1921, um hlutafélög.

Hér er um að ræða mál sem oft hefur borið á góma hér í sölum Alþ., og skal ég ekki rekja það. En það má minna á að árið 1948 var samþykkt þál. um að skora á ríkisstj. að láta fara fram endurskoðun þessara laga. Sama ár mun þáv. dómsmrh. hafa skipað tvo menn til að vinna þetta verk. Næst segir af þessu máli, að 1952 var lagt fram frv. til l. um hlutafélög: Það frv. varð ekki útrætt. Líður nú langur tími, að ég hygg, svo að lítið hafi verið gert í málinu. En árið 1972 hygg ég að hafi verið byrjað að vinna á ný að endurskoðun laganna af viðskrn. Nú er fróðlegt að vita hvað þessu máli líður. Er enn þá verið að vinna að þessu máli, og hvað er þá þessari vinnu langt komið og hvenær má vænta þess, að árangur þessarar vinnu birtist í frv. til l. um hlutafélög?