08.03.1977
Sameinað þing: 60. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2461 í B-deild Alþingistíðinda. (1846)

171. mál, tenging byggðalínu við orkuveitukerfi Skagafjarðar

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Í fjárl. fyrir árið 1977 er gert ráð fyrir 14 millj. kr. til efnispöntunar vegna aðveitustöðvar við Varmahlíð í Skagafirði, en að aðveitustöðin verði reist sumarið 1978 og tekin í notkun í okt. það ár. Þá tengist Norðurlína orkuveitukerfi Skagafjarðar. Heildarkostnaður aðveitustöðvarinnar er áætlaður 211 millj. kr., þannig að í fjárl. fyrir 1978 verður, miðað við þessa áætlun, að gera ráð fyrir 197 millj. kr. vegna stöðvarinnar. Samkv. upplýsingum Kristjáns Jónssonar rafmagnsveitustjóra ríkisins hefur útboðslýsing vegna aðveitustöðva, þ. á m. aðveitustöðvar við Varmahlíð, verið send út og er gert ráð fyrir að efnið verði pantað í lok apríl n. k.