08.03.1977
Sameinað þing: 61. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2478 í B-deild Alþingistíðinda. (1863)

170. mál, stóriðja á Norðurlandi og Austurlandi

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég ætla að nota þetta tækifæri til þess að lýsa andstöðu minni við þessa till. Ég verð að telja að í henni felist nokkur stefnumörkun, — stefnumörkun sem ég er ekki samþykkur.

Hv. flm. orðaði það svo í framsöguræðu sinni, að það væri fráleit stefna að hrúga stóriðjuverum hér á Suðvesturland. Ég er honum sammála um það. Ég held að það sé fráleit stefna, sem sumir vilja fylgja, að óska eftir að byggja hér á landi upp stóriðju í eigu útlendinga. Flm. gat um andstöðu þá sem kom í ljós við byggingu álvers í Eyjafirði, og hann hefur og þeir félagar í grg. með þessari till. gefið til kynna að það væri ekki hugmynd flm. að á málum verði haldið á neinn þann veg sem gengi á snið við vilja heimamanna. Það er nú gott hjá þeim. En ég á von á andstöðu ansi miklu viðar en á Akureyri og í Eyjafirði. Ég á von á mjög verulegri andstöðu.

Hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson nefndi stóriðjufyrirtæki í sambandi við hugsanlega virkjun Blöndu. Það náttúrlega liggur í augum uppi að þeim orkuvalkosti fylgir og verður að fylgja þvílík „fabrikka“, og ég virði það ævinlega við þennan þm., þó að ég sé honum ósammála um afar margt, að hann kemur alltaf til dyranna eins og hann er klæddur, og það er ekki lítils virði. Ég held að orkumálastefna okkar hafi verið röng, — ákaflega röng. Við höfum virkjað of ört og of stórt. Við höfum einblínt á hagkvæmni stærðarinnar, sem ekki er algild, vegna þess að við höfum orðið að selja rafmagnið til erlendrar stóriðju við allt of lágu verði. Um það atriði höfum við hv. 1. þm. Norðurl. e., sem flutti hér prýðilega ræðu áðan, flutt þáltill. og ég fæ tækifæri til þess að gera grein fyrir skoðun minni í því efni þegar hún kemur hér til umr.

Það hefur verið rætt hér nokkuð hversu mikil áhrif — þjóðfélagsleg áhrif — verði af svona fyrirtækjum. Ég ætla ekki heldur að fjölyrða mjög um það. Stærðar sinnar vegna henta þessi fyrirtæki alls ekki í þjóðlífi okkar. Það er kannske möguleiki að láta þau ganga hér í almesta þéttbýlinu, en stærðarinnar vegna henta þau alls ekki og geta ekki hentað úti á landi, vegna þess að þau drepa allt í kringum sig í miklu fleiri en einum skilningi. Stærð þeirra er þvílík að þau bera allt annað ofurliði.

Hv. 1. flm. hefur margoft flutt þá skoðun sína að SÍS væri auðhringur, háskalegur auðhringur í þessu þjóðfélagi. Ég er honum ekki sammála um það. Hann flutti þessa skoðun sina t. d. í sjónvarpsþætti nú fyrir nokkrum vikum, líklega svona hálfum mánuði. (EKJ: Ég notaði aldrei það orð.) Þú kannt að hafa notað einhver önnur orð en það. En ég vil þá leiða til vitnis leiðarahöfund Morgunblaðsins frá sunnudeginum 20. febr. 1977, en það blað sendi Sambandi ísl. samvinnufélaga á 75 ára afmæli þess ákaflega einkennilega afmæliskveðju. Ég ætla — með leyfi forseta — að lesa niðurlagið af þeirri forustugrein, þeirri afmæliskveðju, hún er svo hljóðandi: „Nei, hér er ósköp einfaldlega á ferðinni hugsunarháttur auðhringsins sem aldrei fær nóg, vill alltaf meira og reynir að sölsa undir sig allt sem hann kemst yfir. Gegn óeðlilegri útþenslu Sambandsins verður að snúast af hörku og dirfsku. Það þjónar hvorki hagsmunum þjóðarinnar í heild né einstakra hópa að Samband ísl. samvinnufélaga verði stórum stærra og umsvifameira en það er þegar orðið. Á 75 ára afmæli Sambandsins ber að meta að verðleikum framlag þess til íslenskrar atvinnuuppbyggingar, en vara eindregið við frekari útþenslu þess.“

Svo hljóðuðu þau orð í lok afmæliskveðjunnar. (Gripið fram í.) Þetta er ógurlegt að heyra, en þetta er árétting á þeim hugsunarhætti sem hv. 4. þm. Norðurl. v. er með nokkrum hætti tákn fyrir, e. t. v. vegna þess hve hann er að mörgu leyti ágætur maður og hreinskiptinn. En ekki skrifaði þessi leiðari sig sjálfur og þar hefur einhver haldið á penna. Það eru að vísu ekki stafir undir. (EKJ: Heldurðu að ég sé ritstjóri enn þá?) Nei, nei, en andi þinn svífur yfir vötnunum — (EKJ: Það vona ég.) vegna þess hvað þú komst þarna vel og rækilega við á sinum tíma og ólst þá upp að nokkru leyti, skáldið og stjórnmálamanninn þarna í höllinni. Þetta er einkennilegur hugsunarháttur.

Fasteignir Sambandsins munu að brunabótamati hafa verið í árslok 1975 eitthvað í kringum 4 milljarða. Það hefur sjálfsagt hækkað eitthvað síðan, en það er í forustugreininni vitnað til veltunnar á árinu 1975, þannig að það er ekki óeðlilegt að ég noti þá þessa tölu. En 4 milljarðar eru ekki stór biti af álveri. 4 milljarðar eru svona kannske eins og 1/4 partur af álveri. Það er því ekki að undra þó að maður sé furðu lostinn yfir þessum hugsjónum öllum, að vilja stuðla að stórfyrirtækjum í eigu útlendinga og virkja til þess að hægt sé að reisa þau, en fjandskapast svo við samtök fólksins í landinu vegna þess að samvinnusamtök þess séu of stór.

Ég held að ég þurfi ekki að orðlengja þetta meira í bili, en mér gefst væntanlega tækifæri til þess fljótlega að gera grein á þessum vettvangi fyrir öðrum þáttum í skoðun minni á þessum stóriðjumálum.