08.03.1977
Sameinað þing: 61. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2482 í B-deild Alþingistíðinda. (1865)

170. mál, stóriðja á Norðurlandi og Austurlandi

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Það hafa nú orðið hér býsna athyglisverðar umr. um þessa till. og þó það kannske einna helst, að mér sýnist að flm. till. vilji lesa úr henni allt annað en í henni stendur. Það er auðvitað mál út af fyrir sig hvort þeir hafa meint allt annað en það sem almennt verður lesið út úr sjálfri till. Þeir leggja nú ofuráherslu á það, að 1 grg. till. standi að þessi till. hnígi ekki að því að tekin sé ákvörðun um frekari stóriðjuframkvæmdir. Það hefði auðvitað mátt lesa sitthvað út úr þessari setningu út af fyrir sig líka. Menn geta auðvitað meint það með orðalagi eins og þessu, að ekki sé verið að taka ákvörðun um byggingu verksmiðju á þessum eða hinum staðnum eða þessa eða hina verksmiðjuna. Það vitum við mætavel, till. liggur ekki þannig fyrir. En eins og sagt hefur verið hér: till. er afar stutt og í rauninni skýr. Hún er þannig:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta gera athugun á heppilegasta staðarvali til stóriðju á Norðurlandi og Austurlandi.“

Dettur nú nokkrum manni í hug að ríkisstj. sé falið verkefni eins og þetta algerlega út í bláinn og svo sé komið á eftir og sagt: Ég meinti ekkert með þessu, ég ætlaðist aldrei til að það yrði nein verksmiðja byggð. — Nei, svona léttilega geta menn ekki snúið sig út úr þessu, enda er ég ekki í nokkrum vafa um það, að ef till. hefði verið samþykkt og efnt hefði verið til þessarar athugunar, þá hefði hin túlkunin komið, sem lá auðvitað beinast við, að segja: Alþingi hefur þegar stigið fyrsta skrefið. Alþ. hefur samþykkt að láta fara fram athugun á því, hvar heppilegast væri að koma þessum fyrirtækjum fyrir, og þar með tekið „prinsip“-afstöðu.

Auðvitað felst í þessari till., eins og hún liggur þarna fyrir, — þó að flm. vilji nú eitthvað hverfa frá því, kannske vegna þeirra undirtekta sem till. hefur fengið hér, — þá felst í henni viss stefnumörkun um það, að þetta sé verkefnið, að þessu sé stefnt, það sé bara verið að leita að heppilegum stað fyrir fyrirtækið. Og það var einmitt út frá þessu sem andstaða kom hér strax fram við till., að í till. fælist ákveðin stefnumörkun í öfuga átt við það, sem t. d. ég og fleiri þm. hér lýstu yfir sem sinni skoðun varðandi stefnumótun í atvinnumálum. Ég álít, eins og ég sagði í minni fyrri ræðu, að það sé viss þörf á því að hér fari fram allítarleg umræða um notagildi og hagkvæmni stóriðju og þá aðra möguleika sem við eigum kost á í sambandi við okkar atvinnumál. Ég dró þetta aðeins saman í stuttu máli og get gert það hér enn án þess þó að eyða löngum tíma í það.

Við vitum að stóriðjan getur í rauninni ekki haft aðra þýðingu fyrir okkur efnahagslega og atvinnulega séð en þessa, að hún veiti okkur möguleika til þess að virkja með öðrum hætti og við getum haft eitthvað upp úr því að selja raforkuna til þessa rekstrar. Þetta er einn þátturinn og það ber vitanlega að skoða hann. Í öðru lagi getur stóriðjan, eins og stundum hefur verið lögð áhersla á, skapað einhver ný atvinnutækifæri. Spurningin er þá: Eru menn að leita að þeim? Og svo er auðvitað í þriðja lagi hægt að tala um það, að stóriðjan geti hugsanlega gefið okkur hreinan gróða, beinan tekjuafgang, sem alltaf getur komið sér vel.

Það væri vitanlega full þörf á því að ræða þessa þætti alla, hvern um sig, þá reynslu sem við höfum þegar haft af stóriðjunni á þessu sviði. Ég sagði það og segi það enn: ég ætla ekki við þessa umr. að fara nánar út í að ræða þessa einstöku þætti. Ég hef gert það hér nokkuð áður og á eflaust eftir að gera það betur og það gera eflaust fleiri þm. þegar frv. um stóriðju kemur hér úr u., það sem hér er á ferðinni, e. a. s. frv. um járnblendiverksmiðjuna. Þá er eðlilegt að þetta sé rætt og ég ætla að geyma mér það þangað til. Ef sú verður niðurstaðan, eins og hún hefur orðið hjá mér, að þessir þættir, sem ég minntist á, séu í rauninni neikvæðir, það bendi ekkert til þess að við höfum neitt út úr raforkusölunni með þessum hætti, borið saman við aðra kosti sem við eigum, og hér sé ekki um þau atvinnutækifæri að ræða, sem við þurfum á að halda, og síður en svo líklegan rekstrarhagnað, — ef menn komast að þessari niðurstöðu, þá er auðvitað alveg ástæðulaust að vera að leggja á sig mörg aukaspor vegna athugana á stöðum fyrir stóriðjufyrirtæki. Ég hef ekki heyrt flm. þessarar till. eyða miklu máli í það hér á Alþ. að rökstyðja að það sé eitthvað verulega eftirsóknarvert í sambandi við þessa stóriðjustefnu.

En það, sem varð til þess alveg sérstaklega að ég kvaddi mér hér hljóðs aftur, að hv. 5. þm. Austurl., Halldór Ásgrímsson, sagði í sínu máli að hann teldi að með ákvörðuninni um að ráðast í Sigölduvirkjun hefði í rauninni verið tekin ákvörðun um byggingu járnblendiverksmiðjunnar. Þetta er auðvitað alger misskilningur, ef þetta er þá ekki sagt af einhverjum enn öðrum ástæðum, vegna þess að það lá alveg skýrt fyrir allan tímann, margsinnis undirstrikað opinberlega af hálfu þeirrar ríkisstj. sem réðst í byggingu Sigölduvirkjunar, að hún væri byggð á þeim grundvelli að við værum ekki háðir því á neinn hátt að ráðstafa orkunni frá þeirri virkjun nema á þann hátt sem við teldum okkur hagkvæmast, og þá var alltaf ætlunin að koma Sigölduvirkjun í framkvæmd í tveimur eða þremur þrepum. Hún átti að vera stærri, 150 mw., og þá gert ráð fyrir því að 50 mw. vélasamstæða yrði fyrst tekin í notkun og síðar kæmu hinar eftir því sem þörf okkar kallaði á. Þegar menn fóru að athuga um það, hvort verið gæti hagkvæmt að taka virkjunina alla í notkun í einn lagi, þ. e. a. s. að ráðast í alla þættina um leið, sem vissulega gat verið fjárhagslega hagkvæmara á ýmsan hátt, þá kom auðvitað upp spurningin um hvernig hagkvæmast væri að nota þá orku sem þannig gæti komið skyndilega inn í kerfið. En um það hafði aldrei verið tekin nein ákvörðun í vinstri stjórninni, að orkunni frá Sigöldu skyldi ráðstafað á þennan hátt, — aldrei. Það lá líka fyrir, að þar var um tvo möguleika að ræða sem voru mikið ræddir á þessum tíma. Það var annars vegar að til viðbótar því, sem talið var að væri mjög hagkvæmt að fá inn á hið almenna raforkukerfi okkar af nýju afli, þ. e. a. s. 60–70 mw., þá yrði ráðist í byggingu svonefndrar byggðalínu til þess að leysa raforkumál Norðurlands sem þá voru algerlega óleyst. Um þetta var tekin ákvörðun í ríkisstj. og stuðningsflokkum hennar, að ráðast í byggðalínuna og leysa raforkumálin á Norðurlandi á vissu tímabili á þennan hátt. Þannig átti að nota þessa orku. Einnig voru lagðar fram áætlanir um að nota þá viðbótarorku, sem þarna yrði til á stuttu tímabili, til stóraukinnar húshitunar. Þessir möguleikar lágu allir fyrir, og það var vitanlega ekkert sem knúði okkur til þess að taka ákvörðunina um að selja helminginn af orkunni frá Sigöldu til járnblendiverksmiðjunnar.

Hv. 5. þm. Austurl. á ekki að reyna að koma sér undan neinum vanda í þessum efnum með því að reyna að halda því fram að einhverjir aðrir hafi verið búnir að binda hendur hans. Hann hefur sjálfur verið að taka einmitt þá afstöðu að vera með járnblendiverksmiðjunni og ráðstafa þessari orku á þennan hátt. En hann stækkar ekki mikið af því að ætla að reyna að skjóta sér á bak við einhverja aðra, að aðrir hafi verið búnir að ákveða þetta. Það er alger misskilningur. Það stendur einnig opið fyrir okkur í dag að nota þessa orku á annan hátt. Þar skiptir aðeins máli hvaða skoðun menn hafa á málinu.

Það er enginn vafi á því, það var aldrei dregin nein dul á það af þeim mönnum sem höfðu mestan áhuga þá eins og nú á byggingu járnblendiverksmiðjunnar og sölu á raforku til hennar, að þeim var ljóst að Sigölduvirkjun var ekki stærri eða meiri en svo fyrir hinn almenna markað, að þeir lögðu til og það var í þeirra till. að það kæmi ekki til mála að taka ákvörðun um að selja raforku til járnblendiverksmiðjunnar nema taka ákvörðun um nýja virkjun samstundis, þ. e. a. s. virkjun Hrauneyjafoss. Þannig lágu málin fyrir. Salan á helmingi orkunnar frá Sigöldu til járnblendiverksmiðjunnar leiddi það af sér, að það varð að ráðast strax í nýja virkjun að áliti forustumanna Landsvirkjunar. Þær till. liggja allar skriflega fyrir frá þeim að þetta væri þeirra álit. Og þó að inn á þetta kæmi á síðara stigi Kröfluvirkjun sem átti að breyta því hvað áhrærði orkumálin á Norðurlandi —- með því að taka ákvörðun um að flýta þeirri virkjun gæti þarna skapast nokkru meira svigrúm í sambandi við nýja virkjun þó að járnblendiverksmiðjan færi af stað á áætluðum tíma, — þá breytti það ekki heldur dæminu, vegna þess að það var augljóst mál að við gátum fengið miklu meira út úr því að ráðstafa orkunni til húsahitunar heldur en á þann hátt að selja hana til járnblendiverksmiðjunnar.

Reynslan hefur líka auðvitað orðið sú, að þegar það kom aftur upp að það var nokkur vafi á hvernig færi með Kröfluvirkjun í reynd, þá komu sömu menn fram á sviðið og áður, þ. e. a. s. formaður stjórnar Landsvirkjunar, aðaláhugamaðurinn fyrir byggingu járnblendiverksmiðjunnar, sá sem hafði stýrt öllum þeim samningum frá upphafi, — þá kom hann líka strax með till. um að það skyldi tekin ákvörðun um nýja virkjun, þ. e. u. s. virkjun við Hrauneyjafoss. Og það er það sem núv. ríkisstj. hefur tekið ákvörðun um í krafti síns þingliðs. Það kemur því í ljós að hv. 5. þm. Austurl. og aðrir þeir, sem styðja ríkisstj. og eru samþykkir því að ráðstafa um helmingi orkunnar frá Sigöldu til járnblendiverksmiðju, bera líka ábyrgð á því að Hrauneyjafoss er tekinn fram fyrir aðrar virkjanir og á að ráðstafa í þá virkjun í þeirri röð sem nú liggur fyrir. Þetta er allt saman samhangandi keðja, og það er vitanlega á ábyrgð þessara aðila sem málin verða á þennan veg. En þeim tekst auðvitað ekki að fría sig neitt af því að þetta hafi ekki verið þeim sjálfrátt, að samþykkja járnblendiverksmiðju, og það hafi ekki verið þeirra meining að ráðist væri í Hrauneyjafossvirkjun, af því að aðrir menn hafi verið búnir að hugsa svo mikið um eitthvað annað. Allt slíkt er vitanlega tilgangslaust með öllu. Það verður séð um það af öðrum, að svona málflutningur kemst aldrei til skila.

Þá tók ég eftir því að hv. 5. þm. Austurl., Halldór Ásgrímsson, ræddi hér allmikið um að honum væri ekki alveg ljóst hvað við væri átt þegar talað væri um stóriðju og stóriðjufyrirtæki. Ég held nú að í þessari umr., sem hér hefur farið fram, sé alveg óþarfi að látast ekki skilja hvað menn eiga við í þessum efnum. Ég held t. d. að hjá okkur ýmsum, sem höfum verið mjög á móti stóriðjupólitíkinni svonefndri, hafi komið mjög skýrt fram að við getum prýðilega hugsað okkur að ráðist verði í fyrirtæki, sem vissulega má kalla stóriðjufyrirtæki, sem með eðlilegum hætti falla inn í okkar atvinnulíf og vegna okkar eigin þarfa. Við teljum að áburðarverksmiðjan sé að vissu leyti stóriðjurekstur, og við teljum að það sé sementsverksmiðjan líka. Við erum því fylgjandi að það verði ráðist hér í nýja áburðarverksmiðju eða stækkun hennar. En hin eiginlega stóriðjupólitík, sem hér er verið að ræða um, er af allt öðrum toga. Hún er auðvitað fyrst og fremst um að samþykkja að erlendir aðilar nái undirtökunum í þessum þætti atvinnulífsins í landinu, að þeir ýmist eigi þessi stóriðjufyrirtæki einir eða að verulega stórum hluta og fái þannig raunverulega yfirráðarétt yfir þessum þýðingarmikla þætti. Svo er þessi stóriðja, sem hér er rætt um, byggð aðallega upp á því að hér sé um orkufrekan iðnað að ræða sem leiði það af sér að við þurfum að ráðstafa okkar virkjunarmöguleikum að meira eða minna leyti til þessara fyrirtækja.

Hér eru menn auðvitað ekki að berjast á móti einhverjum orðum út af fyrir sig, og málið er ekki heldur þannig vaxið að það sé hægt að snúa sig neitt út úr því með því að þetta snúist bara um hvað séu margir starfandi menn í fyrirtækinu. Samkv. áætlunum, sem lágu fyrir frá auðhringnum Union Carbide, var gert ráð fyrir að í járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga ættu að starfa samtals 115 manns, þar af í rauninni í verksmiðjunni aðeins 88, en 27 áttu að vera á skrifstofum eða við önnur störf. En eigi að síður hafði þetta fyrirtæki á sér öll einkenni þeirrar stóriðju sem umr. hér hefur snúist um. Og spurningin er sú, hvort menn eru á því að styðja að því að fyrirtæki af sams konar gerð og t. d. járnblendiverksmiðjan komi hér upp og að við ráðstöfum okkar fjármunum með beinu framlagi eða því lánsfé, sem við ráðum yfir, til þess að koma upp slíkum fyrirtækjum í staðinn fyrir að beina fjármagninu í önnur verkefni sem hafa beðið og bíða enn.

Ég fyrir mitt leyti hélt að þetta væri svo skýrt að það þyrfti í rauninni ekki að halda hér uppi neinum deilum um það. Spurningin er sú, hvort menn telja að þessi margboðaða stóriðjustefna sem hér hefur verið mikið til umræðu á undanförnum árum, fyrst og fremst með þátttöku útlendinga og út fyrir það sem snertir hugsanlegar verksmiðjur sem falla eðlilega inn í okkar atvinnurekstur og okkar eigin þarfir, eins og hér hafa verið byggðar áður, — hvort menn sem sagt styðja þá stefnu eða hvort þeir telji að við eigum að beina kröftum okkar í aðra átt.

Ég heyri það líka á þeim umr., sem hér hafa farið fram, að menn ræða mikið um stórvirkjanir. Sú röksemd var eitt sinn notuð allmikið, að í rauninni yrðum við að fara að meira eða minna leyti inn á stóriðjustefnuna vegna stórvirkjanaleiðarinnar, af því að það væri heppilegra og miklu hagkvæmara að ráðast í stórvirkjanir en smávirkjanir, sem þá voru kallaðar, þá værum við í rauninni meira og minna knúðir til þess að fara inn á stóriðjubrautina. Þessi röksemd var mjög notuð á vissu tímabili, og ég heyri að hún er hér enn nokkuð á ferðinni. En ég vil þá minna á það, að nú liggur það fyrir frá yfirvöldum orkumála, að talið er að nú aukist orkuþörf okkar, landsins í heild, um 25–30 mw. af afli á ári. Málið er því komið þannig, að þó að við séum eingöngu að virkja fyrir okkar eigin almennu þarfir og eðlilega vaxtarmöguleika þar, þá höfum við strax möguleika á því nú að virkja 100–150 mw., sem allir mundu telja mjög hæfilega stærð þegar um er að ræða landskerfið sem heild, þ. e. a. s. þarna yrði um að ræða notkun sem getur staðið í 4–6 ár. En enn er það svo, að við teljum að virkjunartími og undirbúningstími sé í kringum 4 ár minnst. Við erum því eins og nú er komið ekki á nokkurn hátt bundin við að velja stóriðjuleiðina af því að við þurfum endilega að fara í stórvirkjanir. Við getum virkjað Blöndu fyrir okkar landskerfi og þá aukningu sem þar er gert ráð fyrir. Við getum ráðist í slíkar virkjanir. Það getum við líka gert í sambandi við Fljótsdalsvirkjun. Við getum ráðist í þá virkjun að sjálfsögðu á grundvelli þess að landið sem heild sé tengt saman, og það þarf vitanlega að halda áfram þeim fyrirhuguðu framkvæmdum sem gera landið í heild að einu orkuveitusvæði.

Ég vil því segja það, að það er engin þörf fyrir okkur að velja þessa umdeildu stóriðjuleið af þessari ástæðu. Það var hægt að halda þessu að nokkru leyti fram þegar deilurnar stóðu hér á sínum tíma um Búrfellsvirkjun, því að þá var verið að ræða um hvort ætti að velja í kringum 100 mw. virkjun, sem væri í rauninni of stór fyrir okkur eins og þá var rætt um, eða fara í virkjanir sem þá voru nefndar og töflur birtar um, sem voru yfirleitt 10–20–25 mw. virkjanir og voru nefndar smávirkjanaleiðin. En þetta er búið núna. Það þarf því ekki að þvælast fyrir neinum, hvorki fyrir okkur á Austurlandi né annars staðar, að virkjunarmöguleikarnir á Austurlandi, í Fljótsdal, verði okkur eitthvað til trafala. Auðvitað kemur að því að þar verður virkjað og svo stórt, að það flokkast undir það sem sem við köllum í dag stórvirkjun, fyrir eðlilega vaxtarþörf okkar sjálfra og fyrir landið sem heild, en ekki nauðsynlega til þess að koma upp stóriðju, frekar en við viljum. Spurningin er því algerlega um það, hvort við teljum að stóriðjan sé á einn eða annan hátt okkur nauðsynleg af efnahagslegum ástæðum eða við viljum stefna á þá þróun.

Það væri vissulega í sambandi við þetta mál full ástæða til þess að ræða hér nokkuð um aðra möguleika okkar í þróun atvinnumála. En ég hef sagt það hér áður og segi það enn, eins og nú er komið hjá okkur t. d. varðandi sjávarútvegsmálin og þar með fiskvinnslumál, að ef við ætlum okkur að nýta þá möguleika sem þar liggja á borðinu hjá okkur á næstu árum og næstu áratugum, þá þarf til þess miklu meira vinnuafl en sjáanlegt er að geti orðið til hjá okkur. Það er auðvelt að sýna fram á það. Ef við ætlum svo á sama tíma að gera eins vel eða kannske enn meira á sviði okkar almenna iðnaðar, þá er þar líka um möguleika að ræða sem bæði hafa þá efnahagslegu þýðingu og veita okkur ný starfssvið í svo ríkum mæli, að það er í miklu ríkara mæli en við eigum til mannafla til að setja í.

Ég býst við því, að ýmsir hv. þm. hafi tekið eftir því, að það voru birtar nokkuð fróðlegar greinar um einn þáttinn í íslenskum iðnaði nú nýlega í einu af dagblöðum bæjarins. Þar var sérstaklega um að ræða iðnaðardeild Sambandsins, og þar kom fram að bara á vegum iðnaðardeildarinnar ynnu nú í föstum störfum, fyrir utan öll hin óbeinu störf sem fylgdu þessum rekstri, 800 manns. Það eru rúmar tvær álverksmiðjur í sambandi við atvinnutækifæri og auðvitað miklum mun meira þegar hin óbeinu störf eru talin með sem þessu fylgja. Og ársframleiðsla þessa iðnaðar er metin á 4 milljarða kr. Forustumenn á sviði þessara iðngreina benda sérstaklega á það, að þeir hafi ekki getað komist lengra áfram í sambandi við úrvinnslu á okkar hráefnum, m.a. vegna þess að það skortir verulega vinnuafl. Þeir hafa ekki nægilegt vinnuafl til þess að geta haldið áfram að vinna úr okkar hráefnum.

Það þarf auðvitað ekki að fara um þetta mörgum orðum. Ég veit að hv. alþm. vita það mætavel, að við eigum hér aðra möguleika á sviði okkar eigin iðnaðar sem vitanlega þurfa orku líka. Það er því ekkert sem rekur okkur nauðuga inn á stóriðjuleiðina. Spurningin er eingöngu sú, hvort við teljum stóriðjureksturinn okkur hagkvæmari, hann falli betur að óskum okkar um byggingu landsins og lífið í landinu, og hvort við álítum að hann muni skila okkur meiri verðmætum þegar á allt er lítið, því að við eigum aðra valkosti. Við stöndum ekki eins í þessum efnum og sumar af fátækum þjóðum heimsins sem nú eru að taka við stóriðju auðfyrirtækjanna. Þær eiga fáa valkosti, sumar þeirra, og eiga við mikið atvinnuleysi að stríða.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri að sinni. Það verða hér eflaust meiri umr. um þessa till. Ég held að það væri full ástæða til þess að halda þeim áfram, vegna þess að ég tel að hér sé um stefnumörkun að ræða, nema þá að till. verði algerlega snúið við, eins og mér fannst að sumu leyti flm. vera farnir að tala um, og þá ætti hún að hljóð'a eitthvað á þá leið: Bannað skal að byggja frekari stóriðjuver, a. m. k. á Suðvesturlandi. Er þá a. m. k. sæmilegur biti þar búinn, og þá er bara að ganga á röðina og banna hitt á eftir. Það er mál út af fyrir sig. En ég tel að í orðalagi till. felist í rauninni ákveðin stefnumörkun og af því er ég á móti henni.