08.03.1977
Sameinað þing: 61. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2490 í B-deild Alþingistíðinda. (1867)

170. mál, stóriðja á Norðurlandi og Austurlandi

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég hlustaði með mikilli athygli og ánægju á ræður tveggja framsóknarmanna áðan, Ingvars Gíslasonar og Stefáns Valgeirssonar. Það var næstum því eins og maður hefði verið að hlusta á sjálfan sig tala á móti Grundartangaverksmiðju.

Röksemdir gegn stóriðju á Norðurlandi eru þessum mönnum mjög ljósar. Ingvar Gíslason benti t. d. á að sú byggðaröskun, sem verksmiðja þar nyrðra mundi valda, væri mjög alvarlegt mál, ofan á ýmislegt fleira sem hann nefndi til. Í sama dúr talaði Stefán Valgeirsson og dró ekkert úr. Ég held að það hljóti að vera ljóst þessum mönnum, að byggðaröskun og aðrar alvarlegar afleiðingar stóriðju eru þær sömu t. d. í Borgarfirðinum eða við Hvalfjörðinn eins og þar nyrðra. Ég tek undir allt sem þeir hafa sagt um alvarlegar afleiðingar þessa nyrðra. Og það stendur ekki á mér að styðja þá í baráttu þeirra gegn stóriðjuáformum á Norðurlandi. Hins vegar verð ég að segja það, að ég sakna þess að þeir sýni sama skilning varðandi Grundartangaverksmiðjuna. Þegar hún var hér til umr. fyrir tveimur árum, þá var aðeins einn framsóknarmaður sem talaði gegn henni, Páll Pétursson. Hann einn þessara manna hefur að mínum dómi hreinan skjöld í þessum málum. Hinir tveir, sem ég nefndi, brugðust, þegar mest var í húfi, þegar tækifæri var til að stöðva þessa þróun þegar í byrjun. Þá stóðu þeir ekki upp til þess að flytja þessar ræður um háskann sem fylgir stóriðju. Það gerði aðeins einn framsóknarmaður, Páll Pétursson. Hins vegar saknaði ég Páls Péturssonar við lokaatkvgr. og á enn eftir að sannfærast um að hann hafi verið löglega afsakaður þegar hann mætti ekki til hennar. En þakkir vil ég tjá honum fyrir þann stuðning sem hann hefur veitt okkur borgfirðingum í baráttunni gegn stóriðju í okkar heimahögum.

Heilindi manna í þessu máli eiga eftir að ganga undir eitt próf, og það verður atkvgr. um Grundartangaverksmiðjuna. Það er að mínum dómi tvískinnungur að tala svona á móti stóriðju nyrðra, en standa ekki upp, þegar verið er að ræða Grundartangaverksmiðju, og mótmæla. Það kom enginn framsóknarmaður í ræðustól um daginn þegar hér urðu langar umr. í sambandi við Grundartangaverksmiðjuna, ekki einn einasti, nema Páli Pétursson. Hann kom til þess að ítreka það sem hann hafði áður sagt.

Nú gæti maður freistast til þess að halda að Framsfl. væri að sjá að sér þegar maður heyrir þennan tón sem ég var að tala um hjá þessum tveim hv. þm. og raunar líka hjá Halldóri Ásgrímssyni. Það væri kannske orðin einhver von um það að koma í veg fyrir Grundartangaverksmiðjuna. Ég heiti á þessa menn að beita hollum áhrifum sínum í þingflokki Framsóknar. Ég er sannfærður um að þeir eru það heilir í þessu máli að þeir munu greiða atkv. á móti Grundartangaverksmiðjunni. Og ég treysti því, að þeir fylgi málinu líka eftir í þingflokknum og reyni að koma í veg fyrir Grundartangaverksmiðjuna.

Hinu er svo ekki að neita, að maður verður var við öfl innan þingflokks Framsóknar, fyrir utan ráðh. og aðra slíka, sem að sjálfsögðu eru meira og minna truflaðir í þessu máli vegna stjórnarsamstarfsins við Sjálfstfl., — maður verður var við það hjá óbreyttum þm., því miður, að þeir hafa truflast heldur en ekki. Hér situr fyrir aftan mig í skrifarasæti einn sem fór í broddi fylkingar fyrir nefnd sunnlendinga ekki alls fyrir löngu á ráðherrafund til þess að biðja um slíka verksmiðju á Suðurlandi. Ég á eftir að heyra hvort hann er sammála flokksbræðrum sinum um háskann af stóriðju.

Það er ekki búið að samþykkja Grundartangaverksmiðju. Gamli samningurinn er úr gildi fallinn, nýr samningur hefur ekki verið samþykktur hér á Alþ. Og ef sannfæringarkraftur Stefáns Valgeirssonar er hinn sami innan þingflokks Framsóknar og hann var hér áðan, þá á að vera töluverð von um að verði hægt að koma í veg fyrir þessa verksmiðju, og þá endar málið að sjálfsögðu þannig að það verður mokað ofan í þá gröf sem tekin hefur verið á Grundartanga og nefnd hefur verið stærsta mógröf á Íslandi. Mætti að mínum dómi gjarnan nota til þess eitthvað af þeim 850 millj. sem Union Carbide borgaði fyrir að sleppa út úr þessu. Þá hefðu þeir aðilar, sem þarna unnu að, a. m. k. bætt ofurlítið mannorð sitt með því að gera hreint eftir sig.