09.03.1977
Neðri deild: 58. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2504 í B-deild Alþingistíðinda. (1883)

134. mál, almannatryggingar

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason) :

Herra forseti. Þetta frv. er flutt til staðfestingar á brbl. sem gefin voru út 6. ágúst um breyt. á lögum nr. 95 frá 31. des. 1975, um breyt. á lögum um almannatryggingar. Þau lög voru gefin út til þess að leiðrétta í framkvæmd hvernig háttað var álagningu útsvars og innheimtu 1% álags á gjaldstofn útsvara, sem sveitarfélög lögðu á samkv. þessum lögum á s. l. ári og sáu um innheimtu á. Þegar til kom voru þessi gjöld lögð á þá sem höfðu lágar tekjur og heitið var, þegar frv. var lagt fram á Alþ., að ættu að vera undanþegnir þessu gjaldi. Eftir að brbl. voru gefin út hefur komið í ljós, að þrátt fyrir þessi brbl. hafa ekki allir sloppið sem til var ætlast, og þess vegna boðaði ég það, þegar ég fylgdi frv. úr hlaði í Ed., að rn. mundi senda þeirri n., sem fengi málið til umfjöllunar, till. um breyt. á brbl. til þess að taka af allan vafa í þessum efnum. En breyt., sem máli skiptir og gerð var í Ed., er að „eigi skal leggja gjald þetta á þá sem ekki er gert að greiða útsvar, né heldur þá, sem vistaðir eru á elli- eða hjúkrunarheimilum, né langlegusjúklinga á öðrum sjúkrastofnunum eða í heimahúsum.“ Með þessari breyt. afgreiddi Ed. frv.shlj.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til heilbr.- og trn.