09.03.1977
Neðri deild: 58. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2506 í B-deild Alþingistíðinda. (1888)

41. mál, dvalarheimili aldraðra

Frsm. minni hl. (Karvel Pálmason) :

Herra forseti. Það mun vera búið að gera grein fyrir nál. minni hl. heilbr.- og trn. á þskj. 330. Ég biðst afsökunar á því að ég var ekki mættur þegar málið kom fyrir, en er skráður frsm. fyrir nál.

Ég hef ekki mikið um þetta að segja annað en það sem hér kemur fram. Ég vil þó undirstrika það sérstaklega, að sú breyting, sem var gerð á lögunum frá 1973, frá því að ríkið greiddi þriðjunginn af kostnaði slíkra mannvirkja til þess að láta sveitarfélögin greiða allan kostnað, hefur komið mjög illa og harkalega niður á mörgum þeim sveitarfélögum sem í góðri trú réðust í framkvæmdir við uppbyggingu á dvalarheimilum fyrir aldraða. Þessi breyting, sem gerð var 1975, var auk þess mjög óvenjuleg og harkalega að henni farið í alla staði.

Það var látið í veðri vaka fyrst og fremst af stjórnarliðum, að hér væri um að ræða verkefnaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og að með þessari breytingu væru sveitarfélögunum útvegaðir tekjustofnar til þess að standa undir þeim kostnaði sem þessu hlýtur að vera samfara. Ég held nú að ef menn skoða þetta án fordóma, þá sé það nokkuð ljóst að það er víðs fjarri að sú verkaskipting, sem þarna var ákveðin, hafi tryggt að sveitarfélögin gætu ráðist í slíkar framkvæmdir eins og hér um ræðir á sama hátt og þau gátu gert meðan lögin frá 1973 giltu. Það er því augljóst mál, að ef þessu verður ekki breytt, þá kemur mikill afturkippur í það að byggingar af þessu tagi verði reistar. Það er gjörsamlega ofviða allflestum sveitarfélögum, a. m. k. hinum smærri, að ráðast í framkvæmdir eins og hér um ræðir. Það er því brýn nauðsyn og það er í raun og veru réttlætiskrafa gagnvart þessum fámennari sveitarfélögum að breytingin frá 1975 verði tekin til baka og hafður verði á sami máti og var gert ráð fyrir með lögunum frá 1973. Það er því augljóst að hér er um réttlætismál að ræða. Að breytingunni var staðið með óeðlilegum hætti og harkalegum.

Það er álit okkar í minni hl. heilbr.- og trn. að þetta frv. eigi að samþ. og viðurkenna þar með réttmæti þess að ríkissjóður taki þátt í uppbyggingu dvalarheimila úti um landið, eins og má segja í raun og veru að gert sé og hafi verið gert hér á þéttbýlissvæðinu á undanförnum árum. A. m. k. hefur átt sér stað uppbygging á þessu svæði á slíkum stofnunum með fjármunum sem fengnir eru víðs vegar að af landinu. Ég tek því mjög undir það, sem 1. flm. frv. sagði áðan, að það er á engan hátt eðlilegt að hér sé lagt til að þetta frv. verði fellt. Ég er viss um að a. m. k. einhverjir af fulltrúum stjórnarflokkanna í heilbr.- og trn. vilja mjög gjarnan samþ. þetta frv. Þeim sýnist eins og okkur að hér sé um réttlætismál að ræða sem eigi rétt á sér í alla staði. Það er því mjög óeðlilegt að meiri hl. heilbr.- og trn. skuli með þessum hætti, sem hann gerir, eindregið leggja til að frv. verði fellt.