09.03.1977
Neðri deild: 58. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2511 í B-deild Alþingistíðinda. (1891)

41. mál, dvalarheimili aldraðra

Gunnlaugur Finnsson:

Herra forseti. Það frv., sem hér er flutt og verið að fjalla um, fjallar í raun og veru um að taka einn þáttinn úr hinum svokallaða bandormi frá því fyrir jólin í fyrra og færa hann til þess horfs sem áður var. Það má út af fyrir sig alltaf deila um hvort ríkið eigi að taka þátt í byggingu dvalarheimila aldraðra. Þegar verið var að fjalla um þetta í fyrra var í raun og veru verið að koma nokkuð til móts við þá stefnumörkun sem hafði átt sér stað hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga um að fá hreinni verkaskiptingu á milli þessara tveggja aðila, þ. e. a. s. sveitarfélaganna annars vegar og ríkisins hins vegar. Þegar slík yfirfærsla á sér stað eins og gerð var í fyrra varðandi dvalarheimilin, þá liggur að sjálfsögðu ljóst fyrir að það kemur misjafnlega niður á sveitarfélögunum. Það kemur illa við ýmis sveitarfélög, sérstaklega þau sem standa í miklum framkvæmdum á þeim tíma sem slík breyting verður. Það voru líka gerðar ráðstafanir til þess einmitt samhliða samþykkt laganna í fyrra að þessum sveitarfélögum yrði sérstaklega bættur sá skaði sem þau yrðu fyrir við yfirfærsluna. Hins vegar finnst mér að það gleymist býsna oft í þessari umr. og öðrum umr. um verkefnayfirfærsluna, að sveitarfélögin fengu tekjur á móti, og mér finnst oft kenna þess í málflutningi manna að þarna hafi verið um alhliða auknar byrðar á sveitarfélögin að ræða.

Þegar verið er að skoða ýmis mál, þar sem um hefur verið að ræða skiptingu verkefna milli ríkis og sveitarfélaga, er misjafnlega auðvelt að færa þau á milli. Sannleikurinn er sá, að ef við lítum á það eftir hvaða leiðum er hægt að leysa sem best málefni aldraðra, þá sjáum við að þetta mál er út af fyrir sig ekki einfalt, sérstaklega ef við skoðum það í ljósi þeirra hugmynda sem á síðari árum hafa komið upp. Í fyrsta lagi er að fara hina hefðbundnu slóð, að reisa dvalarheimili fyrir aldraða svo víða um landið sem hagkvæmt er og mögulegt, þannig að fólk þurfi ekki að flytja úr heimahögum þegar það getur ekki lengur séð sér farborða sjálft. En ýmis sveitarfélög hafa líka í auknum mæli farið inn á þá braut að lofa gamla fólkinu að búa sem lengst í eigin húsakynnum, með því að sveitarfélögin sjálf hafa aukið beina aðstoð við þetta eldra fólk með ákveðinni aðstoð eða hjúkrun í heimahúsum, þannig að gamalmenni geta haldið áfram mun lengur að búa í eigin íbúð en áður var. Í þriðja lagi hafa komið upp hugmyndir um að dvalarheimili verði byggð í öðru formi en verið hefur til þessa, og var á það minnst, að ég hygg, áðan, þ. e. a. s. að dvalarheimilin verði reist í formi lítilla íbúða þar sem fólk geti búið eitt út af fyrir sig, þar sem samhæfð yrði aðstoð við þetta fólk, og að slíkar íbúðir mundu þá falla undir kerfi húsnæðismálastjórnar ríkisins og fá þess vegna fjármagn þaðan. Það eru líka fleiri leiðir til.

Og þá erum við komin að leiðum þar sem ákvarðanir sveitarstjórna skarast við þann þátt sem ríkið ber í dag kostnað af. Þá á ég við göngudeildir fyrir aldraða. Við vitum t. d. að við setningu fjárl. var gert ráð fyrir því að hér í Reykjavík, í Hátúnsdeild Landsspítalans, yrði tekin upp og hafin starfræksla á þessu ári á göngudeild fyrir aldraða, en hér kemur kostnaðurinn til með að greiðast af ríkinu. Auk þess skarast það á annan hátt, þ. e. a. s. hreinar hjúkrunardeildir fyrir aldraða þegar fólk hættir að geta haft fótavist og er orðið þannig til heilsunnar að það verður að liggja rúmfast og njóta allrar þjónustu, þ. á m. læknisþjónustu sjúkrahúsa, og verður flutt þangað inn. Þá komum við líka að einum þætti sem snertir kostnað ríkisins varðandi rekstur sjúkrahúsanna sjálfra.

Mér er alveg óhætt að segja það, að í þeirri n., sem vitnað hefur verið til að er að endurskoða og athuga leiðir. í heilbrigðismálum m. a. sem og í öðrum þáttum, er verið að leita að leiðum að sjálfsögðu með það höfuðmarkmið að einstaklingarnir fái sambærilega þjónustu á sambærilegu verði hvar sem er á landinu. Til þess að slíkt náist þurfa að sjálfsögðu að koma til aðrar leiðir um fjármögnun, alveg nýjar hugmyndir um tekjustofna sveitarfélaganna og hverjar- verða t. d. úthlutunarreglur hjá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna ýmissa verkefna. En þá er spurningin: Getum við náð þessum markmiðum á þann hátt að við einföldum kerfið? Getum við náð hagkvæmari rekstri og spyrnt fótum við að kostnaður í trygginga- og sjúkrahúsmálum vaxi okkur ekki yfir höfuð?

Þarna eru uppi hugmyndir nú um að færa frá sveitarfélögum yfir til ríkisins kostnað varðandi sjúkrahúsin sjálf, bæði stofnkostnað og rekstrarkostnað sjúkrahúsanna, en hafa hins vegar hreinni verkaskiptingu varðandi málefni aldraðra og þá sérstaklega þennan þátt sem ég var að tala um, þar sem skarast þættir, sem kostaðir eru af ríkinu, og þeir þættir, sem kostaðir eru af sveitarfélögunum, — annars vegar það, og svo eins hitt, hvort við getum gengið þá leið að láta heilsuverndina og heilsugæsluna sem slíka vera meira á vegum sveitarfélaganna en nú er. Ég held að í þessum málum sé ekki aðeins tímabært, heldur mjög knýjandi að leita að leiðum þar sem við getum aukið heilsugæsluna sjálfa og komið með fyrirbyggjandi aðgerðum í veg fyrir að fólk þurfi að hverfa inn á sjúkrahús, jafnvel til rannsókna eða til læknisaðgerða, sem ekki hefði þurft þess með ef heilsugæsluþættinum væri sinnt meira en nú er í núverandi formi.

Ég held þess vegna að það sé að ýmsu að hyggja. Við eigum að leggja höfuðáhersluna á að auka heilsugæsluþáttinn, að meira af rannsóknarstörfum geti farið fram utan sjúkrahúsanna sjálfra, að við nýtum hin dýru sjúkrarúm fyrst og fremst til lækninga. Þetta mál, eins og ég sagði áðan, kemur að sjálfsögðu inn á málefni aldraðra. Með því að hafa þetta á vegum sveitarfélaganna óbreytt a. m. k. enn um sinn og ef það yrði í framtíðinni, þá er þarna um ákvörðunaratriði sveitarstjórnarmanna sjálfra að ræða, valkosti, hvaða leið þeir vilja fara, hvort þeir vilja reisa elliheimili í hefðbundnu formi, hvort þeir vilja leysa það mál með því að auka þjónustuna við aldraða í heimahúsum, hvort þeir byggja íbúðir, eins og ég sagði áðan, þar sem fólk getur búið í tiltölulega litlum íbúðum, eða hvort þeir reisa legudeildir eða hafa heimangöngu. Hér er sem sagt hreinlega um mat að ræða hjá viðkomandi sveitarstjórnum. En þegar þær meta þetta eins og málið stendur í dag, þá hljóta þær að vilja koma sem flestu inn á hjúkrunardeildir, vegna þess að þá léttist kostnaður sveitarfélaganna og þau geta velt þessu yfir á ríkið. Ég held þess vegna að það sé rétt, hvað sem segja má um það að fella frv. eða vísa því til ríkisstj. — það eru blæbrigði, má segja, af sömu afgreiðslu, — að þetta frv. verði ekki samþ. heldur tekin samhliða stefnumörkun í öðrum málum og þó fyrst og fremst varðandi heilbrigðisþjónustuna í heild, — þetta atríði verði látið bíða þar til tekin verður afstaða til þeirra till. sem kunna að koma frá þeirri n. sem er að endurskoða þessa þætti.