09.03.1977
Neðri deild: 58. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2513 í B-deild Alþingistíðinda. (1892)

41. mál, dvalarheimili aldraðra

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Áður en ég vík með nokkrum orðum að efnisatriðum þessa máls vil ég fara fáeinum orðum um formsatriði í sambandi við málið sem mér þykir ástæða til að vekja athygli á að gefnu tilefni hér og að gefnu tilefni a. m. k. einu sinni ef ekki tvisvar áður á þessu þingi.

Það hafa komið út tvö nál. frá hv. heilbr.og trn. sem fjallaði um þetta mál. Annað nál. er frá tveimur nm. og er skráð hér frá minni hl. heilbr.- og trn. Hitt nál. er frá þremur nm. og er skráð sem nál. frá meiri hl. heilbr.- og trn. Nú er það alkunna, að í öllum starfsnefndum d. og n. Alþ. öðrum en fjvn. sitja 7 menn, svo að það gefur auga leið að til þess að mynda meiri hl. n. þarf minnst 4 nm. Það hefur, hygg ég, alltaf verið siður á Alþ. þar til nú, að virðist vera byrjað að brydda á því að menn vilji taka upp nýjan hátt, að meiri hl. n., þegar um 7 manna n. er að ræða, er minnst 4 menn, en ekki einhver meiri hl., kannske fjögurra eða 5 nm., sem er mættur á þeim fundi, þegar málið er afgreitt. Það hefur aldrei verið lögð sú merking í meiri hl. n. hér á Alþ. fyrr en nú. Ég get þess vegna ekki séð annað en þeir hv. 3 alþm., sem undirrita það plagg sem er nál. á þskj. 323, séu fyrri eða jafnvel fyrsti minni hl. þessarar ágætu n., því að nú hefur annar þeirra nm., sem ekki var viðstaddur afgreiðslu málsins í n., lýst því yfir að hann hafi þriðju afstöðuna til málsins, hann muni af ástæðum, sem hann nefndi, sitja hjá við afgreiðslu málsins, hvorki vera með því eftir atvikum og því síður með því að fella það, eins og þeir hv. 3 alþm. vilja gera sem kalla sig meiri hl. nefndarinnar.

Ég vil minna á það, að þetta hefur komið fyrir áður á þessu þingi, a. m. k. einu sinni, ef ekki tvisvar. Ég hef hér í höndunum nál. á þskj. 238 frá meiri hl. iðnn., sem svo nefnir sig, en það eru aðeins 3 nm. af 7. Og ég hygg að þriðja dæmið sé finnanlegt, þó að ég hafi ekki í huga hvar það er.

Nú vil ég beina því til alþm. yfirleitt og raunar starfsmanna Alþ., þegar til að mynda þrír, tveir eða jafnvel einn nm. kemur með nál. og kallar sig meiri hl. einhverrar 7 manna n., þá verði hann leiðréttur og það verði þá kallað minnihlutaálit, hvort sem það er 1., 2. eða 3. minni hl. — Þá læt ég útrætt um þetta, en en fyrst ég er staðinn upp vil ég segja fáein orð um efni þessa máls.

Ég vil taka mjög eindregið undir með þeim ræðumönnum sem hér hafa talað og gagnrýnt þá skyndibreytingu, þá vanhugsuðu skyndibreytingu sem gerð var á skiptum milli ríkis og sveitarfélaga rétt fyrir jólin 1975, á algerum handahlaupum, vegna einhvers metnaðar og svo illa undirbúið eins og raun ber vitni og eins og raunar flestir alþm. hafa viðurkennt, ef ekki hér úr ræðustól, þá a. m. k. undir fjögur augu. Þessi breyting var mjög vanhugsuð á marga vegu, og það, sem hér er um að ræða, er aðeins einn þátturinn. Ég er ekki að segja og vil alls ekki telja að það hafi verið búið að móta neina skynsamlega frambúðarstefnu í þessum málum aldraðra, hvorki hér á Alþ. né hjá hinum ýmsu sveitarfélögum. Það var langt í frá að svo væri. En nauðsynin var ekki sú að kippa þessum málum alfarið frá ríkinu og demba þeim yfir á sveitarfélögin án nokkurra annarra aðgerða. Vitanlega þurfti í fyrsta lagi að halda áfram þeim stuðningi, sem þó var til staðar af ríkisins hálfu, en leggja hins vegar á það áherslu að móta skynsamlega heildarstefnu í þessum málum. Hana skortir okkur sárlega enn í dag. Það er að mínu viti mjög fróðlegt og ánægjulegt að heyra það, að hv. 8. þm. Reykv., sá maður úr stjórnarliði sem alveg tvímælalaust hefur mesta reynslu og mesta þekkingu í sambandi við málefni aldraðra, hann lýsir því í rauninni yfir að þetta atriði, að kippa málinu svona gersamlega úr tengslum við ríkið og gera ekkert annað, hafi verið fljótfærni og algerlega rangt. Og hann gerir meira. Hann lýsir í rauninni stuðningi við þetta frv., sem ég geri einnig.

Það er alveg rétt, sem kom hér fram hjá hv. 4, þm. Vestf., sem ég hygg að sé í þeirri n. sem er að endurskoða þetta lekahrip frá því fyrir jólin 1975 og reyna að koma einhverri vitglóru í þá skiptingu sem eðlilegt er að fari fram, en þó ekki með þeim hætti að það sé með handahlaupum skorið á án þess að neitt sé gert í staðinn annað en að sveitarfélögin fái einhverja fúlgu og svo eigi þau að sitja uppi með svo og svo mikið af einmitt félagslegri og menningarlegri þjónustu, sem allir vita að þau ráða afar misjafnlega við. Með allri virðingu fyrir sveitarstjórnarmönnum eru þeir kannske ekki allir alveg tilbúnir að móta fasta og heppilega stefnu í þeim málum þegar þeir standa frammi fyrir því að ríkisvaldið ætli sér ekkert að skipta sér af þeim. Ég á hér ekki aðeins við dvalarheimilismálin, heldur mörg önnur, t. a. m. þá forsmán eins og farið hefur verið með almenningsbókasöfnin, sem ég vil nota þetta tækifæri eins og hver önnur til þess að lýsa yfir að er Alþ. og ríkisstj. þeirri, sem ábyrgð ber á því, til hinnar mestu vansæmdar.

Ég vil svo aðeins segja það, að ég tel að þetta frv. eigi að samþykkja meðan við bíðum eftir þeirri heildarlöggjöf sem vitanlega á að taka tillit til þeirra mörgu sjónarmiða, margvíslegu möguleika sem uppi ern. Það er rétt, sem hv. 4. þm. Vestf, benti hér á, að það er alls ekki lítið svo á að það sé einhlítt og það sé eini möguleikinn í sambandi við það að greiða fyrir öldruðu fólki að reisa ný og ný elliheimili í hefðbundnum stíl. Það er meira og meira verið að fara út í það að leysa hluta vandans og það verulegan hluta vandans eftir öðrum leiðum. Okkur skortir heildarlöggjöf um þetta efni, og ríkið á ekki að skorast undan því að taka eðlilegan og myndarlegan þátt í að leysa þetta stóra vandamál.