09.03.1977
Neðri deild: 58. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2520 í B-deild Alþingistíðinda. (1896)

41. mál, dvalarheimili aldraðra

Frsm, meiri hl. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Það hefur nú teygst meira úr þessari umr. en ég átti von á þegar hún byrjaði, og er ekkert nema gott um það að segja. Ég skal ekki verða til þess að orðlengja hana mikið, en mig langar til þess að gefnu tilefni að víkja að tveim atriðum sem hér hafa komið fram.

Hið fyrra er það sem hv. 3. þm. Reykn., Gils Guðmundsson, vék að í sinni ræðu, þar sem hann talaði um að það væri vafasamt að nál. á þskj. 323 gæti talist frá meiri hl. n. Nú var okkur, sem undirskrifuðum það nál., að sjálfsögðu ljóst að 3 alþm. af 7 eru ekki meiri hl. og þess vegna fór ég til Jóhannesar Halldórssonar deildarstjóra í Alþ., sem ég hygg að hafi langa reynslu af vinnubrögðum á þingi, og bar undir hann nál. Ég spurði hann, hvort það gæti staðið í því formi sem það er, hvort það væri rétt að nefna þá, sem að því standa, meiri hl., eða hvort ætti að kalla þá 1. minni hl. Hann sagði að fyrir því væri venja, að ef það væri tekið fram í nál. sjálfu að hluti nm. hafi verið fjarverandi, þá væri fyrir því nokkur venja í Alþ. að kalla meiri hl. á fundinum sjálfum meiri hl. í nál. Það var í ljósi þessara upplýsinga frá Jóhannesi Halldórssyni deildarstjóra í Alþ. sem gengið var frá nál. á þann hátt sem gert var.

Hitt atriðið, sem mig langar til að víkja örfáum orðum að, eru þau sárindi hv. 1. flm. þessa frv. sem hér komu fram áðan. Þau koma mér nokkuð á óvart. Ég hef fyrir því nokkra reynslu, að það er hvort tveggja til um viðbrögð hv. stjórnarandstæðinga gagnvart afgreiðslu á þeirra málum, að ýmist hafa þeir heldur viljað láta ganga til atkv. um fram komin frv. þeirra og hreinlega fella í þinginu heldur en að vísa þeim til ríkisstj. Ég geri ekki mikinn mun á þessari afgreiðslu. En ég vil algerlega neita því, að sá hluti n., sem stendur að nál. á þskj. 323, hafi ekkert með málið viljað gera, eins og ég hygg að hv. þm. hafi nefnt það. Þó ég vilji neita þeirri staðhæfingu hans, þá vil ég taka það fram að eins og málið blasti við mér a. m. k. og ég hygg öðrum þeim þm. sem undir nál. skrifa, þá er það staðreynd að þegar þetta frv. er flutt, þá hygg ég að það hafi verið á vitorði allra hv. þm. að það var n: starfandi að athuga þetta mál. Flutningur frv. og afgreiðsla þess hafði ekki minnstu áhrif á störf þeirrar n. sem að þessu vinnur. Til þess að vera fyllilega hreinskilinn skal ég nefna hlutina réttu nafni. Ég leit á þetta frv. sem algert sýndarfrv. sem hefði ekki minnstu þýðingu, og þess vegna taldi ég ekki óeðlilegt að afgreiða frv. á þann hátt sem nál. leggur til. En vegna þeirra sárinda sem það virðist hafa vakið hjá hv. fyrra flm., þá get ég hugsað mér að hverfa til þeirrar afgreiðslu sem hér er nú komin fram till. um. Þetta vildi ég láta koma fram.

Það er svo annað mál, að það er hlutskipti stjórnarþm. æðioft, að þeir þurfa að standa á móti samþykkt vinsælla mála sem þýða mikil útgjöld fyrir ríkissjóðinn þegar þannig árar. Ég dreg ekki í minnsta efa að hér er um mjög svo mikilsvert mál að ræða sem á fyllsta stuðning skilið. En vegna þess að málið er í athugun og vegna þess að nú um sinn hagar svo til hjá ríkissjóði að ekki verður mikið á hann bætt af nýjum útgjöldum án þess að hann fái þá möguleika til að afla tekna, þá hef ég tekið þá afstöðu sem nál. ber vott um.