27.10.1976
Neðri deild: 6. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í B-deild Alþingistíðinda. (194)

18. mál, skylduskil til safna

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Þetta frv. um skylduskil til safna var lagt fyrir 96. löggjafarþing og einnig fyrir síðasta Alþingi.

Í I. kafla frv. er greint frá megintilgangi laganna, en hann er sá að tryggja að unnt sé að varðveita til frambúðar það efni sem skilaskylda nær til, að unnt sé að gera og gefa út alveg tæmandi skrár um þetta efni eða tiltekinn hluta þess, svo efnið geti ennfremur verið tiltækt til nota vegna rannsókna opinberra stjórnsýsluaðila eða til annarra eðlilegra þarfa. Í fyrri löggjöf hefur þótt bresta nokkuð á að þessi tilgangur væri skýrður nægilega vel.

Það er rétt að taka fram, að þegar í II. kafla um skilaskylt efni segir að íslenskar prentsmiðjur skuli halda eftir fjórum eintökum til skylduskila. Þá felur þetta í sér það, að útgefandinn eða sá, er prenta eða margfalda lét, eins og segir í frv., beri í rauninni allan kostnað af skylduskilum. Það er svo nýmæli í íslenskum lögum, að afhenda skuli hljómplötur eða annars konar tón- og talupptökur sem gefnar eru út, en nauðsynlegt er að tryggja einnig að þessu efni sé haldið örugglega til haga ekki síður en því efni, sem prentað er eða fjölfaldað er á annan máta. Um það efni, sem ætlað er til takmarkaðra nota innan þröngs hóps eða e.t.v. er trúnaðarmál þegar það er gefið út, er rétt að taka það fram, að því ber að skila engu síður en öðru efni. En það er svo skylda Landsbókasafnsins, sem er viðtakandi, en ekki prentsmiðjunnar, að tryggja það síðan, eins og fram kemur í frv., að með það efni verði farið af þeirri leynd sem ætlast er til.

III kafli frv. fjallar um framkvæmd skylduskilanna. Þar segir m.a. að Landsbókasafn Íslands veiti skyldueintökum viðtöku og hafi eftirlit með skilunum.

Í IV. kafla frv. er svo rætt um varðveislu og meðferð skyldueintakanna. Varðveisla alls hins skilaskylda efnis er ekki talin trygg til frambúðar nema Landsbókasafni séu tvö eintök af hverju einu og sé annað þeirra þá varðveitt sem hreint geymslueintak, en hitt aftur á móti til nota, en aðeins á lestrarsal að sjálfsögðu.

Til enn frekara öryggis á viðsjárverðum tímum þykir einnig nauðsynlegt að eitt eintak sé varðveitt annars staðar, í öðrum landshluta, og og þá eðlilegast að Akureyri verði fyrir valinu sem fjölmennasti bær og augljós framtíðarstaður fjarri höfuðborgarsvæðinu. Til þess að varðveisla skyldueintaka verði þar sem allra tryggust verður að hinda not þeirra við lestrarsal eingöngu, eins og fram kemur líka í frv.

Þá er enn rétt að minna á það, að með ráðstöfun eins eintaks til Háskólabókasafns er í fyrsta lagi litið á brýna þörf Háskóla Íslands til að hafa jafnan sem greiðastan aðgang að hverju einu. bæði stóru og smáu, vegna rannsókna hvers konar, og jafnframt er nauðsynlegt að eitt safn, ef ríka nauðsyn ber til, geti léð öðrum söfnum og stjórnsýslustofnunum innanlands íslenskt efni og jafnvel einnig léð það erlendum aðilum sem hingað kunna að snúa sér með bókalán þegar svo stendur á.

Við 1. umr. málsins á fyrsta þinginu, sem það var flutt á, var á það bent að söfn, sem áður hafa notið hlunninda af skyldueintökunum, misstu nokkurs í við samþykkt þessa frv. Þetta er auðvitað alveg rétt. Þetta fer ekki á milli mála. Þess vegna gat ég þess þá, að það væri eðlilegt að þetta frv. yrði samferða frv. um almenningsbókasöfn þar sem gert var ráð fyrir mjög verulega auknum stuðningi við þau. Nú hefur svo skipast síðan að frv. um almenningsbókasöfn hefur verið afgr. Þar er gert ráð fyrir svipuðu fjárframlagi til þeirra eins og lagt var til á sínum tíma. Enda þótt þannig hafi skipast að sveitarfélögunum einum er nú falið að annast fjármögnun almenningsbókasafna, eru samt sem áður í nýsamþykktum lögum eða svo til ákvæði um lágmarksframlög. Þetta út af fyrir sig ætti því ekki að standa í vegi fyrir því að hv. þd. taki þetta mál til meðferðar, brjóti það til mergjar og afgr. En hitt er svo annað mál, að ég hef litið svo á að það væri í raun og veru varla stætt á því, já, ekki stætt á því að ætla bókaútgefendum, almennum íslenskum útgefendum prentaðs máls, að láta af höndum 12 eintök endurgjaldslaust af sérhverju riti sem þeir gefa út, svo sem nú er mælt fyrir um í lögum. Ég álít að það sé ekki stætt á því að ætla útgefendum að leggja til bækur ókeypis til almennra nota í þó nokkrum bókasöfnum, enda þótt ég sé fyllilega samþykkur því að halda áfram ákvæðum um skylduskil til varðveislu og til alveg sérstakra nota, eins og nánar er skilgreint í þessu frv.

Við 1. umr. á síðasta þingi komu fram ýmsar ábendingar varðandi þetta mál og sumar áreiðanlega allrar athygli verðar, og ég veit að hv. menntmn. þessarar d. mun taka þær til skoðunar ásamt öðrum atriðum er þetta mál varða. Og ég vil nú leyfa mér að vænta þess, að þar sem þetta frv. er flutt hér í þriðja sinn, þá sjái hv. d. möguleika á því að afgr. það að þessu sinni.

Ég skal ekki fjölyrða frekar um málið að svo stöddu, en legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. menntmn.