27.10.1976
Neðri deild: 6. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í B-deild Alþingistíðinda. (199)

6. mál, þingnefnd til að kanna framkvæmd dómsmála

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. þm. Benedikt Gröndal og Gylfa Þ. Gíslasyni lagt fram á þskj. 6 svo hljóðandi till. til þál.:

„Með tilvísan til 39. gr. stjórnarskrárinnar samþ. neðri deild Alþingis að kjósa úr hópi þdm. nefnd skipaða einum fulltrúa frá hverjum þingflokki til þess að rannsaka sérstaklega gang og framkvæmd eftirfarandi atriða í dómsmálum:

1. Hvernig staðið er að rannsóknum sakamála hjá þeim embættum, sem slík verkefni hafa með höndum, þ. á m. hjá ríkissaksóknara, sakadómi og skattrannsóknarstjóra. Sérstök áhersla verði lögð á að kanna hver rannsóknaraðstaða þessara embætta er, hvað valdi því að rannsókn ýmissa meiri háttar sakamála dregst á langinn fram úr öllu hófi, hvort brögð séu að því að rannsóknum sé látið lokið án þess að öll þau atriði, sem upp hafa komið, séu krufin til mergjar, hversu mörg þau mál séu og hver þau séu, sem dregist hefur óhóflega lengi að leiða til lykta á rannsóknarstigi, og hvort ástæða sé til þess að ætla að utanaðkomandi öfl eða annarlegir hagsmunir geti haft áhrif á gang rannsóknarinnar.

2. Hvernig háttað er gangi dómsmála hjá hinum ýmsu dómsstigum og dómaraembættum í landinu, þ. á m. hvort óeðlilegur dráttur sé á gangi þeirra mála hjá einstökum embættum og þá hvers vegna og hvort brögð séu að því, t.d. í sambandi við skattalagabrot, að skattayfirvöld láti nægja að senda þau skattsektanefnd til úrskurðar þótt málin séu þannig vaxin, að um tvímælalaus refsílagabrot sé að ræða.

3. Hvernig háttað er framkvæmd refsidóma, þ. á m. eftir hvaða reglum sé farið varðandi ákvarðanir um afplánun, hvort mikil brögð séu að því að dómar séu ekki afplánaðir innan eðlilegs tíma, hvort slíkt eigi fremur við um einn flokk eða eina tegund afbrota, t.d. fjársvik og auðgunarbrot, en aðra, hvernig háttað sé eftirliti með þeim, sem fengið hafa skilorðsbundinn dóm eða biðdóm, hvort brögð séu að því, að einn og sami maður sé dæmdur æ ofan í æ fyrir sams konar afbrot án þess að vera látinn afplána fyrri dóma, og hversu algengt sé, að menn fái af ýmsum orsökum að afplána dóma, t.d. fyrir fjársvik eða auðgunarbrot, annars staðar en í viðurkenndum fangelsum eða vinnuhælum, svo sem eins og á sjúkrahúsum eða heilsuhælum, eða sleppi alveg við það.

Neðri deild Alþ. samþ. að veita n. þessari rétt til þess að heimta skýrslur, munnlegar og bréflegar, af embættismönnum og öðrum starfsmönnum ríkisins og ráða sér til aðstoðar sérfróðan mann eða menn. N. skal ljúka störfum á vetrinum 1976–1977 og skilja Alþ. skýrslu um störf sín fyrir lok yfirstandandi þings.

Kostnaður við störf n. greiðist úr ríkissjóði“ Áður en ég vík að rökstuðningi fyrir nauðsyn þess að við þm. Alþfl. í þessari hv. d. höfum lagt fram þessa till., vil ég fara nokkrum orðum um þá framkvæmd sem hún gerir ráð fyrir.

Í 39. gr. stjórnarskrár lýðveldisins segir svo, með leyfi forseta:

„Hvor þingdeild getur skipað nefndir innandeildarþingmanna til að rannsaka mikilvæg mál er almenning varða. Þingdeildin getur veitt n. þessum rétt til að heimta skýrslur, munnlegar og bréflegar, bæði af embættismönnum og einstökum mönnum.“

Í þáltill. þeirri, sem hér er til umr., er lagt til að Nd. Alþ. kjósi úr hópi dm. nefnd eins og þá, sem hér um ræðir, til þess að kanna gang og framkvæmd dómsmála og veiti henni þann rétt sem 39. gr. stjórnarskrárinnar kveður á um að hægt sé að veita slíkri nefnd, þ.e.a.s. að heimta skýrslur af embættismönnum og öðrum starfsmönnum ríkisins. Þá gerir þáltill. einnig ráð fyrir því, sem ekki er sérstaklega tekið fram í 39. gr. stjórnarskrárinnar, en þd. hefur að sjálfsögðu fullan rétt til að veita, að n. verði heimilað að ráða sér til aðstoðar sérfróðan mann eða menn. Skoðun okkar flm. er sú, að þau mál, sem gerð er till. um að n. rannsaki, séu þess eðlis að illmögulegt, jafnvel ógerlegt sé fyrir n. þm. eina að framkvæma slíka athugun, nema hún njóti aðstoðar sérfróðra manna. Svo mun ávallt hafa verið gert í þeim örfáu tilvikum sem ákvæði 39. gr. stjórnarskrárinnar um kjör rannsóknarnefndar hefur verið beitt, a.m.k. svo mér sé kunnugt um. Og erlendis, t.d. í Bandaríkjunum, þar sem starfsemi slíkra þn. er mjög algeng, er það föst venja að slíkar n. hafi í þjónustu sinni sérfræðinga, oft mjög fjölmennt sérhæft rannsóknarlið, enda hefðu störf þessara n. ella ekki orðið jafn árangursrík og oft hefur reynst vera.

Öllum er að sjálfsögðu ljóst, að einhver kostnaður hlýst af starfi n. eins og þeirrar sem till. er gerð hér um. Í till. er lagt til að sá kostnaður af starfi n. verði greiddur úr ríkissjóði. Sú mótbára kann að verða færð fram, að ekki sé unnt fyrir Nd. Alþ. að binda ríkissjóði slíkar fjárhagslegar skuldbindingar, sem ekki sé ráð fyrir gert í fjárlögum, heldur yrði slíkt að gerast af Sþ. Ég hef kynnt mér það mál sérstaklega og m.a. rætt það við skrifstofustjóra Alþ. Niðurstaðan er sú, að ekkert sé því til fyrirstöðu að Nd. Alþ. eða Ed. þingsins, ef því væri að skipta, hafi fulla heimild til slíkrar afgreiðslu sem hér um ræðir, enda er hér um að ræða n. sem stjórnarskráin gerir ráð fyrir að hvor þd. um sig geti skipað án afskipta hinnar. Málið á samkv. stjórnarskránni að berast upp í d., en ekki í Sþ. Sú d., sem um slíka till. fjallar, getur því afgr. alla þætti slíkrar nefndarskipunar, hvernig kosta skuli störf hennar, án þess að eitt eða neitt í því sambandi þurfi að fara fyrir Sþ eða vera afgr. af þd. báðum. M.ö.o.: ég hef gengið rækilega úr skugga um það, að ekkert er því til fyrirstöðu að skipan þeirrar n., sem um ræðir í till. verði afgr. af þessari hv. d. með þeim hætti sem till. gerir ráð fyrir, nema þá ef sú fyrirstaða kynni að koma frá hv. dm. sjálfum, nema því aðeins að þeir eða meiri hl. þeirra væri andvígur slíkum afskiptum d. sem till. gerir ráð fyrir.

Margir gamalreyndir alþm. hafa mjög varað við þeirri þróun sem orðið hefur á undanförnum árum, að stöðugt meira vald væri verið að draga frá löggjafarsamkomu þjóðarinnar og yfir til framkvæmdavaldsins, og einnig bent á að mikið skorti á að Alþ. sinnti eftirlits- og aðhaldshlutverki sínu með framkvæmdavaldinu. Mér er það enn minnisstætt, að fyrir meira en einum áratug varð Samband ungra jafnaðar manna fyrst til þess af pólitískum félögum að taka þetta mál sérstaklega fyrir á þingi og gera um það ályktun, þar sem varað var við þessari þróun og skorað á Alþ. að gæta réttar síns og skyldu í þessu efni. Og mér er það sérstaklega minnisstætt að tveir þm., þáv. þm. Eysteinn Jónsson, síðar forseti Sþ., og hv. þm. Þórarinn Þórarinsson, núv. form. þingfl. Framsfl., gerðu að kanna framkvæmd dómsmála. 264 þessa samþykkt sérstaklega að umræðuefni, bæði hér í þingsölum og í dagblaði Framsfl., og töldu að hún væri þá ein merkasta og tímabærasta samþykkt sem pólitískt félag ungra manna hefði lengi látið frá sér fara.

Síðan þetta gerðist hefur mikið vatn til sjávar runnið og allt eftir sama farvegi. Ég held að öllum sé ljóst, að hafi það, sem ég ræði hér um, verið vandamál fyrir meira en áratug, er það orðið enn meira vandamál nú. Að sama skapi sem stofnanir framkvæmdavaldsins hafa stöðugt verið að styrkjast hefur þessi stofnun, sem við erum hér saman komin í, veikst, uns nú er svo komið að brýna nauðsyn ber til þess að auka veg þingsins og þar með virðingu þess, enda höfum við þm. Alþfl. lagt fram nú á þessu þingi heilan flokk lagafrv. sem einmitt er ætlað að breyta stefnunni í þá átt. Það væri hægt að nefna ýmis dæmi um, hvernig framkvæmdavaldið hefur á undanförnum árum seilst til æ meiri ítaka út fyrir sitt valdsvið og jafnvel inn á valdsvið þessarar stofnana, og hægt að styðja slíkt með fjölmörgum dæmum, t.d. varðandi ráðstafanir opinberra fjármuna, þar sem ýmsar stofnanir ríkisvaldsins beinlínis sniðganga fjárveitingavaldið og afgr. fjárveitingamál eftir eigin höfði, jafnvel án vitneskju fjvn. En það er önnur saga sem ekki á beint erindi í þessar umr.

Einn þátt þess aðhalds- og eftirlitshlutverks Alþ., sem hér er rætt um, er að finna í 39. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem d. þingsins er heimilað að skipa rannsóknarnefndir innan deildarþingmanna til þess, eins og þar segir, að rannsaka mikilvæg mál sem almenning varða. Að þessu ákvæði hafi mjög sjaldan verið beitt á sér ýmsar skýringar umfram það almenna andvaraleysi sem rætt var um hér áðan. Ein af þessum skýringum er sjálfsagt sú, að ekki hafa verið settar neinar sérstakar reglur eða lög um starfshætti slíkra rannsóknarnefnda deilda þingsins.

Svo dæmi sé nefnt, þá geta slíkar rannsóknarnefndir á vegum íslenska þjóðþingsins t.d. ekki skyldað menn til þess að mæta. Þær geta ekki heldur krafist þess að menn eiðfesti framburð sinn. Og engin viðurlög eru til við því, svo mér sé kunnugt, ef menn, sem við slíka rannsókn mæta hjá slíkri rannsóknarnefnd, eru staðnir að röngum framburði. Ég hef spurst sérstaklega eftir þessu hjá lögvísum mönnum, og þetta hefur mér verið tjáð að sé einna helsti agnúinn á starfsemi rannsóknarnefnda íslenska þjóðþingsins. M.ö.o.: menn geta neitað að mæta hjá slíkri n., nema þá embættismenn ríkisins, menn geta skýrt slíkri n. ósatt frá og komist upp með það án viðurlaga, þótt ljóst verði að um rangan framburð hafi verið að ræða. Að þessu leyti til eru aðstæður rannsóknarnefndar á vegum íslenskra þd. allar aðrar en t.d. áþekkrar n. á vegum Bandaríkjaþings, sem er nánast eins og rannsóknardómur, þó ekki kveði hún upp dóm. Auðvitað leggur þetta miklar hömlur á starfsemi íslenskra rannsóknarnefnda þd. T.d. myndi slík n. sennilega ekki hafa náð árangri við rannsókn mála af því tagi sem mesta athygli hafa vakið í meðförum rannsóknarnefnda bandaríska þingsins. Skipulögð glæpastarfsemi, hugsanleg tengsl við ýmsa valdamenn, Watergatemál, mútustarfsemi, þetta eru þau mál sem bandarískar þn. hafa látið sig hvað mest varða, hafa vakið mesta athygli á starfsemi slíkra þn. og þær oftast getað leitt til nokkurra lykta. Það mundi ekki takast af íslenskri rannsóknarnefnd, a.m.k. væri það miklu erfiðara fyrir rannsóknarnefnd íslenska þingsins að taka slík mál til meðferðar og afgreiðslu einvörðungu út af því sem ég var að lýsa hér áðan.

Ég hef hugleitt það talsvert hvort ekki væri ástæða til þess hér á landi að setja sérstök lög um starfsemi rannsóknarnefnda á vegum Alþ. eða d. þess umfram hin almennu ákvæði í 39. gr. stjórnarskrárinnar, t.d. ákvæði er gerðu slíkum n. kleift að kalla vitni með svipuðum hætti og dómstóll getur gert, krefjast eiðfests framburðar, og að í þessum lögum væru ákvæði um viðurlög fyrir að bera rangt fyrir slíkri n. Sannast sagna hef ég ekki komist að neinni endanlegri niðurstöðu af þessum hugleiðingum mínum. Það er vissulega spurning hvort n. þm. ætti með slíkum hætti að fara inn á verksvið dómskerfisins. En það er á hinn bóginn líka jafnmikil spurning hvort svo eigi ekki að vera eða þurfi að vera möguleiki til að svo geti orðið. A.m.k. geta komið upp slík tilvik að slík rannsókn sýnist vera haldbesta leiðin til þess að útkljá málin, jafnvel hin eina sem til greina gæti komið.

Það er nú orðið nokkuð ljóst, að þrátt fyrir ákvæði laga hefur ríkissaksóknari yfirleitt ekki eigið frumkvæði að rannsókn ákveðinna mála. Hann hefur sjálfur lýst því yfir að almennur orðrómur sé ekki nægileg ástæða fyrir síg til þess að taka upp rannsókn máls að eigin frumkvæði og slíkt hafi hann ekki gert nema kæra hafi borist eða ósk um rannsókn frá þeim aðila sem hlut á að máli. En þó getur vel verið að almennur orðrómur sé slíkur að það sé nauðsynlegt, ekki hvað síst fyrir þá eða þann sem orðrómurinn skaðar, að rannsóknin fari fram og þá væntanlega helst á vegum rannsóknarnefndar þd., ef málið er þá þannig vaxið.

En enda þótt verksvið rannsóknanefndar á vegum þd. Alþ. sé að þessu leyti takmarkað, þá er þó ekki þar með sagt að slík n. hafi ekkert erindi. Mál geta verið þess eðlis að mjög nauðsynlegt sé að n. þm. rannsaki þau með aðstoð sérfróðra manna. Sú rannsókn þjónar þá tvennum tilgangi: Annars vegar að upplýsa um stöðu mikilvægra mála sem almenning varða, hvort ástæða sé til þess að ætla að eitthvað sé mjög athugavert eða einhverju gróflega ábótavant og hvort alvarlegar aðfinnslur, sem komið hafa fram varðandi opinbera stjórnsýslu, séu á rökum reistar. Hins vegar að sú úttekt verði síðar undirstaða umbóta sem hljóta í slíkum málum ávallt að koma til kasta Alþ., m.ö.o. að Alþ. sjálft hafi frumkvæði jafnt að athugun mikilsverðra mála, sem almenning varða, og úrbótunum sjálfum.

Og þá er komið að efni þess máls sem hér um ræðir, þ.e.a.s. ástæðu þess að við flm. þessarar þáltill., þm. Alþfl. í Nd. Alþ., teljum að nauðsynlegt sé að skipa rannsóknarnefnd samkvæmt ákvæðum 39. gr. stjórnarskrárinnar til þess að kanna gang og framkvæmd dómsmála í landinu. Raunar ætti ekki að þurfa að fara mörgum orðum um það mál. Nauðsynin á því skýrir sig raunar sjálf. Ástæðurnar hljóta að liggja í augum uppi. Dómsmálin, þ.e.a.s. rannsóknir sakamála, gangur dómsmála og framkvæmd refsimála, eru tvímælalaust mikilvæg mál sem almenning varða. Og hvernig lætur almenningur í landinu sig þau mál varða? Um engan einstakan málaflokk hefur meira verið rætt undanfarin missiri en dómsmálin, og er það nýtt, svo langt aftur sem ég man, því sá málaflokkur hefur yfirleitt legið í láginni í almennri umr. Og hvert hefur verið og er viðhorf almennings eftir þá umr.? Er niðurstaðan sú, að menn séu almennt ánægðir með hvernig að rannsóknum sakamála sé staðið hér á landi, eða er því almennt trúað að rannsóknir ýmissa meiri háttar sakamála, einkum fjársvikamála, dragist óhóflega lengi, jafnvel undarlega lengi, og eru á almanna vitorði alvarleg dæmi um að svo sé? Eru menn almennt sáttir við hvernig rannsóknum mála er háttað, eða hafa verið tilfærð dæmi um að rannsóknum alvarlegra sakamála sé látið lokið án þess að öll þau atriði, sem orki tvímælis, hafi verið brotin til mergjar? Hefur í því sambandi eitthvað það fram komið sem menn ætla að sé þannig vaxið að ástæða sé til þess að hafa af því áhyggjur að utanaðkomandi öfl eða annarlegir hagsmunir kunni einhver áhrif að hafa haft á gang rannsóknarinnar? Þannig er hægt að spyrja endalaust áfram um einstök atriði í framkvæmd dómsmála. Þannig hefur verið spurt, og þannig er spurt, og svörin, sem gefin hafa verið, hafa að mínu viti ekki reynst fullnægjandi, ekki eytt tortryggni sem vonandi er ástæðulaus, en þarf ekki að vera það.

Allar þessar spurningar mætti í raun réttri sameina í tvær: 1) Er það almenn skoðun að það gæti fullkomins réttaröryggis á Íslandi? 2) Er það almenn skoðun að allir landsmenn, án tillits til efnahags, stöðu, áhrifa eða stéttar, séu jafnir fyrir lögunum? Hver og einu verður að dæma um þetta sjálfur, hver sé almenn skoðun í þessu efni, og ég hygg að það væri rétt að þm. gerðu sjálfir upp hug sinn um það. Ég held að þeir geti gert það án hjálpar frá mér eða öðrum.

En þessi atriði, þessar tvær meginspurningar, svörin við þeim verða auðvitað að liggja ljós fyrir. Sé ástæða til þess að ætla að fólk efist um að fullkomið réttaröryggi ríki í landinu eða að allir landsmenn séu jafnir fyrir lögunum og lögin jafn fyrir öllum, sé ástæða til þess að ætla að fólk efist um þetta, þá er hér tvímælalaust á ferðinni mikilvægt mál sem almenning varðar og ástæða er til að Alþ. skipi rannsóknarnefnd til þess að fjalla um. Og mér er spurn: Ef ekki er ástæða til þess að önnur hvor d. þingsins skipi n. til þess að kanna gang og framkvæmd dómsmála í kjölfar þeirra miklu umr. sem orðið hafa af þeim vettvangi undanfarin missiri, hvenær væri þá ástæða til þess að beita ákvæði 39. gr. stjórnarskrárinnar? Væri þá ekki alveg eins rétt að ganga út frá því sem gefnu að þingið mundi ekki beita ákvæðum þeirrar gr., hún væri dauður bókstafur?

Mér er fyllilega ljóst að sú viðbára hefur verið uppi höfð og kann að vera uppi höfð áfram að þeir, sem rætt hafa og ritað um þessi mál að undanförnu, hvaða nafni svo sem það hefur verið nefnt, eru sakaðir um að þeir séu vísvitandi að grafa undan stofnunum þjóðfélagsins, iðja þeirra sé sundrungariðja, hugarfar rotið, innræti blendið og tilgangur illur. En hvað hafa þessir menn gert? Þau verk, sem þeir hafa unnið, hafa verið unnin fyrir opnum tjöldum. Þeir hafa opnað umr. um mál sem legið hafa í láginni og ekki hafa verið á almannavitorði. Þeir hafa nefnt ákveðin dæmi, gagnrýnt og lýst skoðunum sínum, leitað til viðkomandi aðila um andsvör, gefið þeim fyllsta tækifæri til þess að skýra sín sjónarmið og lagt svo málflutninginn undir dóm almennings. Er þetta rangt? Er slíkt framferði þjóðhættulegt? Ef almennur borgari rekur sig á stjórnvaldsathöfn sem honum þykir gagnrýni verð og getur stutt gagnrýni sína dæmum, á hann þá að þegja fremur en segja vegna þess eins að gagnrýni hans kynni að geta gert það að verkum að fleiri yrðu sama sinnis og það mundi grafa undan áliti viðkomandi stofnunar og þar með undan stoðum sjálfs þjóðfélagsins? Eru það þessi viðhorf sem mönnum eiga að þykja uppbyggilegust og vænlegust til árangurs, nokkurs konar löggiltur prestkonumórall, þar sem tilveru alls ills er neitað í eitt skipti fyrir öll og þar með málið afgr. um tíma og eilífð?

Við skulum aðeins líta nánar á það, hvað fjallað er um í einstökum töluliðum þessarar þáltill.

Í 1. tölul. segir m.a. svo, með leyfi forseta, að athuga beri „hvernig staðið er að rannsóknum sakamála hjá þeim embættum sem slík verkefni hafa með höndum, þ. á m. hjá ríkissaksóknara, sakadómi og skattrannsóknarstjóra. Sérstök áhersla verði lögð á að kanna, hver rannsóknaraðstaða þessara embætta er, hvað valdi því að rannsókn ýmissa meiri háttar sakamála dregst á langinn fram úr öllu hófi.“

Er ástæða til þess að fara fram á slíka rannsókn? Hafa menn uppi einhverja vitneskju um ákveðin mál sem gera það eðlilegt að óskað sé þess að slík rannsókn verði látin fara fram? Ég skal nefna örfá dæmi í mjög stuttu máli. Rannsókn á fjársvika- og auðgunarbrotamáli, svonefndu Friðriks Jörgensensmáli, sem hófst árið 1966. Henni er ólokið enn. Það eru komin 11 ár síðan rannsóknin hófst. Rannsókn á svonefndu gjaldþrotamáli Vátryggingafélagsins, sem er annað stórt fjársvikamál, hófst 1971. Málinu er ólokið enn.

Þá segir einnig í þessum 1. tölul. að athuga beri „hvort brögð séu að því að rannsóknum sé látið lokið án þess að öll þau atriði, sem upp hafa komið, séu krufin til mergjar.“ Hafa menn einhver dæmi um það, að það sé ástæða til þess að fara fram á slíka rannsókn? Hvað um hið margfræga Klúbbmál? Það kom m.a. fram í ræðu minni á Alþ. í fyrra að núv. vararíkissaksóknari, þáv. fulltrúi hjá saksóknara ríkisins, Hallvarður Einvarðsson, óskaði þess að rannsókn yrði hafin á meintu broti þessa fyrirtækis á bókhaldslögum. Ég spurði hér á Alþ. í fyrra hvort sú rannsókn væri hafin, hvort henni væri lokið, hvort ákæra hefði verið gefin út. Þá fékk ég ekkert svar. Ég hef athugað það sjálfur síðan og niðurstaðan er þessi: Mér er ekki kunnugt um að nein rannsókn hafi farið fram, neinni rannsókn á þessum þætti sé lokið né heldur að nein ákæra hafi verið gefin út. Og hvaða afleiðingar kunna að hafa hlotist af þessum drætti, af því að öll atriði, sem fram hafa komið í ósk um rannsókn, hafa ekki verið krufin til mergjar? Ég minni aðeins á það, að nú í sumar kom upp eitt af þessum undarlegu fjársvikamálum sem virðast ætla að verða daglegt brauð hér á Íslandi, þ.e.a.s. ávísanahringurinn svonefndi. Þar koma við sögu einstaklingar sem virðast liggja undir svo til hverjum steini sem við er velt í sambandi við afbrota- og fjárglæframál hér á Íslandi. Og skyldi það nú ekki vera, að ef umrædd bókhaldsrannsókn hefði farið fram, þá mundi hafa upplýst fyrr og betur það ávísanasvikamál sem upp kom nú í sumar? Þá kom það einnig fram í umræddu bréfi núv. vararíkissaksóknara, nokkurra ára gömlu bréfi, að það var óskað eftir rannsókn á meintum brotum í hlutafélagalöggjöf hjá þessu sama fyrirtæki. Ég spurði í ræðu minni hér í fyrra: Hefur slík rannsókn farið fram, er þeirri rannsókn lokið, hefur hún leitt til ákæru? Ég fékk ekki svar við því heldur þá. Ég hef athugað málið sjálfur síðan. Mér er ekki kunnugt um að nein rannsókn hafi verið látin fara fram á þessu atriði. Mér er ekki kunnugt um að neinni slíkri rannsókn sé lokið. Og mér er ekki kunnugt um að nein ákæra hafi verið gefin út hvað þetta varðar. Og lengur og meir má telja ef ástæða þykir til, en mér finnst ekki rétt að fara öllu lengra út í þessa sálma hér, þó að undan því verði ekki skorast ef ástæða gefst.

Ég vek athygli á því, að öll þessi dæmi, sem ég hef nefnt hér, lúta að sams konar málum, þ.e.a.s. fjársvika-, auðgunarbrota- og bókhaldsóreiðumálum. En það er samt ekki einhlítt. Nú í sumar skrifaði ungur blaðamaður, Halldór Halldórsson, röð greina í dagblaðið Vísi um mál sem lengi, mjög lengi hefur verið á vitorði starfandi blaðamanna og þeir hafa skrifað um og hófu að skrifa um fyrir mörgum árum. Það er hið svonefnda Leirvogsármál. Það var í Víst í sumar. Ég ætla ekki að rifja það mál upp í einstökum atriðum, því voru gerð ítarleg skil í þessum Vísísgreinum sem birtust að því er mig minnir í maí. Þessar greinar blaðamannsins byggjast á miklu rannsóknarstarfi. Um það er mér fyllilega kunnugt, vegna þess að eitt fyrsta verk þessa sama manns, fyrsta árið sem ég var ritstjóri Alþýðublaðsins og hann blaðamaður þar, var að leita sér upplýsinga í þessu máli. Og ég komst að því við lestur greina hans nú í sumar, að hann hafði á þessum langa tíma aflað sér svara við ýmsum spurningum sem hann fékk ekki svar við á meðan hann var starfsmaður hjá mér. Það hafa engin mótmæli komið fram um það, það hefur enginu ágreiningur orðið um það og það hefur ekki verið hreyft athugasemdum við þessar greinar blaðamannsins. Því hefur ekki verið haldið fram af neinum aðilum að rök hans, sem hann setur fram í blaðagreinunum, séu röng. Sé svo, þá er öll saga rannsóknar þessa máls harla undarleg. Vitni verða tvísaga, mikilsverðir vitnaframburðir stangast algjörlega á, allt upp í 7 vitni vefengja framburð lykilvitnis sem dómsúrskurður er byggður á, án þess að það virðist hafa haft nokkur áhrif. Vitnisburðir hverfa og finnast ekki fyrr en faðir þessa ógæfusama unga manns, sem lét þarna lífið, mætir með vitnið augliti til auglitis við þann sem yfirheyrði það og hafði fram til þess neitað að nokkur slík yfirheyrsla hefði farið fram. Atvik í sambandi við þetta mál eru öll í hæsta máta undarleg. Sérstakur kafli þessa máls er reynsla föðurins. Ég man eftir því enn þegar hann fyrir 5 eða 6 árum, ég man ekki hvort heldur var, gekk á milli ritstjóra dagblaðanna á Íslandi til þess að biðja blöðin um aðstoð þar sem hann kæmi ekki málum sínum fram við þá sem ættu að rannsaka dauða sonar hans. Þessi saga er öll rakin í greinum Halldórs Halldórssonar, og ég hvet þm. til þess að kynna sér þessa sorgarsögu þessa ógæfusama föður. Þar er enn eitt skýrt dæmi um það, hvílík nauðsyn er að koma upp umboðsnefnd eins og þm. Alþfl. gera till. um, að stofnsett verði, með frv. sem flutt er hér á Alþ.,n. til þess að taka að sér mál manna eins og þessa ógæfusama föður, sem virðast koma að lokuðum dyrum hvar sem þeir knýja á hjá hinu opinbera valdi.

Þessar greinar Halldórs Halldórssonar blaðamanns eftir margra mánaða og jafnvel ára athuganir hans, sem hann byggir þessar greinar sínar á, urðu til þess að ákveðið var að athuga hvort ekki bæri að taka þetta mál upp til nýrrar rannsóknar, og eftir því sem mér er hest kunnugt um stendur sú athugun nú. En hversu mörg eru slík mál? Eru þau kannske fleiri en ég hef nefnt og þá hver? Ég hef aðeins nefnt þau mál sem eru á almannavitorði og rætt hefur verið um, tekin sem dæmi, verið ómótmælt og rökstudd. En skyldu slík mál vera fleiri? Um það vil ég ekkert fullyrða. Um það veit ég ekki. En er ekki full ástæða til þess í ljósi þessara dæma að n. á vegum Alþ. kanni hvort þessi þrjú atriði, sem ég hef rakið hér, séu einsdæmi eða hvort ástæða sé til þess að óttast að um fleiri mál sé svo farið.

Í 2. tölul. þessarar þáltill. segir m.a. að athuga beri „hvernig háttað er gangi dómsmála hjá hinum ýmsu dómsstigum og dómaraembættum í landinu, þ. á m. hvort óeðlilegur dráttur sé á gangi þeirra mála hjá einstökum embættum og þá hvers vegna“. Þetta mál hef ég ekki haft aðstöðu til þess að kynna mér að neinu ráði. Af viðræðum við dómara og dómarafulltrúa hef ég þó komist að þeirri niðurstöðu, að það virðist vera almenn vitneskja innan dómskerfisins að svo virðist vera sem ákveðnum embættum gangi mjög illa að afgreiða frá sér mál, — mjög illa samanborið við sams konar embætti önnur. Og ég vil í þessu sambandi einkum og sérstaklega minna á mjög harðar deilur, sem orðið hafa um veitingu dómaraembætta, og jafnvel harðorðar ályktanir og mótmæli samtaka dómara þar um, þar eð þeir telja að ákveðin veiting hafi ekki verið eðlileg, og mótmælin raunverulega byggst á efasemdum starfandi dómara um hæfileika þess sem starfið hlaut.

Þá er einnig í till. vikið að því, hvort ástæða sé til þess að ætla að skattayfirvöld láti sér nægja að senda skattalagabrotamál til skattsektanefndar til úrskurðar, þótt málin séu þannig vaxin að um tvímælalaus refsilagabrot sé að ræða.

Skattalagabrot geta verið tvíþætt í höfuðdráttum: Annars vegar almenn brot, ef við getum sagt svo. Menn halda undan skatti einhverri — kannske lágri upphæð. Slík mál, ef upp komast, eru þó að öllum jafnaði send til skattsektanefndar sem úrskurðar fjársektir. Viðkomandi aðili, sem fyrir sektargreiðslunni verður, ræður því svo hvort hann unir úrskurðinum eða leitar til dómstóla. En rannsókn á skattframtölum getur einnig leitt ýmislegt annað alvarlegt í ljós, t.d. mjög alvarleg brot á almennum hegningarlögum, mjög alvarleg brot á refsilögum og öðru slíku. Og ég hef spurst sérstaklega fyrir um það hjá skattrannsóknarstjóra hvort brögð séu að því að slík mál séu frekar send til skattsektanefndar en áfram til saksóknara og inn í dómskerfið. Og hann hefur svarað mér því til, og það hef ég fengið staðfest hjá saksóknara ríkisins, hjá ríkissaksóknara, að það sé komið frá skattrannsóknarstjóra innan við eitt mál af þessu tagi að meðaltali á ári, öllum öðrum málum sé vísað beint til skattsektanefndar. Ég spurði jafnframt: Hvernig stendur á því að þessi mál eru ekki fleiri? Getur það virkilega verið að í öllu ykkar starfi leiðið þið ekki í ljós neitt alvarlegt misferli sem menn geta sagt með almennum orðum að sé brot á almennum refsilögum, nema að meðaltali sjaldnar en einu sinni á ári? Og hvað sagði skattrannsóknarstjóri er ég spurði bann að þessu? Hann svaraði því til að það væri eiginlega orðin hefð að senda flestöll mál, nema þau allra alvarlegustu af þessu tagi, til skattsektanefndar fremur en til dómstóla — og vegna hvers? Vegna þess að dómskerfið væri svo þungt í vöfum að þó að skattrannsóknarstjóri sendi mál frá sér til kerfisins, þá liðu mörg ár án þess að hann hefði hugmynd um hvað af þessu máli yrði. Og hann nefndi sérstaklega sem dæmi, að árið 1971 hefði hann sent frá sér eitt slíkt mál og hann hefði ekki síðan orðið við það var, ekki einu sinni orðið var við að það hefði verið gefin út ákæra. Auðvitað er þetta engum einstökum embættismönnum, forustumönnum, starfsmönnum eða öðrum slíkum að kenna. Þarna er ekki við neinn einstakan aðila að sakast. En staðreyndin er sú, að þetta kerfi er orðið svo þungt í vöfum og svo erfitt, að það er óbætt að segja, eins og af þessu dæmi má sjá, að það sé ekki lengur bægt að treysta fyllilega á að það skili því hlutverki sem því er ætlað að skila.

Í 3. tölul. er rætt um ýmis atriði sem ég held að ég fari ekki að þreyta menn á að tina til einstök dæmi um. En ég held að hver og einn þm. geti sjálfur af sínum blaðalestri og sínum kynnum af þessum málum talið til ýmis dæmi um það, að nauðsyn ætti að vera að athuga þau mál sem þarna er rætt um. En til viðbótar við þau dæmi, sem ég hef hér rakið, vil ég nefna einstök atriði fleiri.

Eins og menn muna, þá gerðist það á s.l. vori að ungur lögfræðingur, réttargæslumaður eins þeirra sem þá sátu í gæsluvarðhaldi í Síðumúla, skýrði frá því að hann teldi að fangar þar hefðu möguleika til samskipta og samráðs sín á milli og bæru sig saman um framburð. Viðbrögðin fyrst voru þau að menn lögðu lítinn sem engan trúnað á þetta, enda gefur auga leið hvað það þýðir fyrir rannsókn máls ef möguleiki er á því hjá sakborningum eða fólki, sem er í gæsluvarðhaldi út af rannsókn slíkra mála, að þetta fólk, á meðan það situr í gæsluvarðhaldinu, geti komið sér saman um framburð, t.d. til þess að kasta sök á saklaust fólk. En hvað kom í ljós skömmu síðar? Það kom skömmu síðar í ljós að þessi ungi lögfræðingur hafði sagt rétt og satt frá. Það hafði verið um að ræða samráð fanga í gæsluvarðhaldi og meira að segja, að því er sagt er í blöðunum nú, maður hefur ekki öruggar heimildir fyrir því — meira að segja samráð, á meðan þessir fangar voru í gæsluvarðhaldi og undir yfirheyrslu, um að bera sig saman um framburð til þess að sakfella ákveðna einstaklinga. Þetta er að sjálfsögðu reginhneyksli og eitt áfallið enn sem íslenska dómskerfið verður fyrir.

Það hefur ýmislegt fleira gerst. Hvað um þetta stóra fjársvikamál, ávísanahringsmálið sem ég nefndi hér áðan? Hópur manna hefur leikið þann leik í a.m.k. tvö ár að verða sér úti um háar fjárhæðir með ólögmætum hætti. Rannsóknardómari í þessu máli hefur skýrt svo frá, að sumir þessara einstaklinga hafi staðið í slíkum málum áður og ættu samkv. reglum bankanna ekki að hafa getað haldið því áfram. En samt sem áður var aðgátin hjá þessum aðilum, — og ég legg áherslu á að hér er m.a. um ríkisbanka að ræða sem eiga að vera undir eftirliti þessarar stofnunar hér, — samt sem áður var aðgátin ekki meiri en svo, að jafnvel löngu eftir að rannsókn málsins var hafin, þá var ekki búið að loka reikningum þeirra aðila sem upp hafði komist um. Hvernig er þetta hægt? Hvernig getur Alþingi íslendinga sem stjórnar öflugustu peningastofnunum í landinu og á að bera ábyrgð á þeim sem ríkisbönkum, — hvernig getur Alþingi íslendinga liðið það að þetta gerist?

Það, sem er athyglisverðast við þetta mál og fjölmörg önnur, er að sömu nöfnin ganga þarna aftur og aftur. Það eru sömu aðilarnir sem liggja undir öllum þessum steinum eða flestum þeirra, og þennan leik virðast þessir aðilar hafa leikið ekki bara í tvö ár, heldur jafnvel um áraraðir. Ég minni í því sambandi á allfræga grein sem Pétur heitinn Benediktsson bankastjóri birti í Morgunblaðinu fyrir fjölmörgum árum. Stofnanir ríkisins og dómsvaldið virðast standa uppi ráðþrota meðan þessir aðilar vægast sagt gera grín að öllu réttarkerfi þessarar þjóðar.

Og hvernig er staðan í fíkniefnamálunum? Það eru aðeins örfá ár frá því að sagt var frá því í blöðum, að hætta væri á mjög auknum innflutningi fíkniefna og eiturlyfja hingað til landsins og ástæða væri til þess að óttast um að þessi innflutningur yrði í svo miklum mæli að um hann yrðu stofnuð hringasamtök, þ.e.a.s. samtök innflytjenda og smásala. Á þeim tíma var ráðist harkalega á þessi blaðaskrif af svokölluðum ábyrgum aðilum. Þá var sagt að þessi skrif gerðu ekki annað en ýta undir spillinguna, grafa undan stofnunum þjóðfélagsins, þarna væri verið að gera úlfalda úr mýflugu. En hvað hefur gerst? Hvers vegna skyldi líka reynslan hér vera önnur í þessum efnum heldur en meðal annarra þjóða? Það hefur orðið uppvíst um hringa manna sem stunda þann ógeðfellda verknað að kaupa, flytja inn og selja hér á landi mjög mikið magn af varasömum eiturefnum. Um eða yfir 200 dómar hafa verið felldir yfir slíkum aðilum á tiltölulega fáum mánuðum. Nýlega sagði rannsóknarmaður fíkniefnadeildar í sjónvarpsviðtali að hér væri um miklu almennara og stærra vandamál að ræða en nokkrum hefði dottið í hug. Í einu einstöku máli, aðeins einu einstöku slíku máli sem nú er verið að rannsaka, er um að ræða dreifingu og innflutning og sölu á fíkniefnum að andvirði 15 millj. kr., og telja rannsóknarmenn þó að það sé mjög vægt reiknað.

Nú nýverið, fyrir nokkrum dögum, fór allshn. þessarar hv. d. í stutta skoðunarferð til ýmissa embætta. Þ. á m. var litið við hjá þeim einstaklingi sem annast þessa rannsókn á fíkniefnamálum. Og þó að ekki gæfist tími til þess að ræða neitt lengi við hann, þá vannst honum þó tími til þess að tjá allshn. eða a.m.k. einstaklingum þar, að hér væri aðeins að hans viti um að ræða lítið brot, mjög lítið brot af magni þeirra fíkniefna og eiturlyfja sem inn væru flutt til landsins nú með ólöglegum hætti. Menn skyldu gera sér grein fyrir því að hagnaðarvonin í sambandi við innflutning og dreifingu á slíkum efnum er miklu meiri en á nokkru öðru sambærilegu sviði. Hér er ekki verið að hugsa um 10, 15 eða 20% ágóða, heldur um mörg hundruð prósent ágóða. Og reynslan í öðrum löndum sýnir okkur. að þegar um slíka fjármuni er að tefla, þá virðast alltaf vera tiltækir peningamenn sem einskis svífast í því skyni að krækja sér þar í auðfenginn gróða. Og reynslan í öðrum löndum hefur einnig sýnt okkur, að fyrr eða síðar tengjast slíkir aðilar beint við erlenda söluhringa og komast jafnvel undir þeirra stjórn. Og ég leyfi mér að spyrja. Er ekki ástæða til þess að óttast að sama geti gerst hér? Eigum við stöðugt að halda áfram að loka augunum og segja við sjálfa okkur: Þetta er útilokað, þetta er ekki til? Prestkonumórallinn skal gilda. Reynslan hér hlýtur alltaf að verða öll önnur en reynsla allra nálægra þjóða. En ef hún skyldi ekki verða svo, ef fyrir höndum er svipað árferði í þessum málum hjá okkur eins og hjá öðrum þjóðum, hvernig erum við þá í stakk búnir til þess að mæta því sem þegar kann að vera orðið?

Ég hef ekki farið jafnrækilega út í að ræða hvert einstakt mál, hvert dæmi, og ég hefði getað og e.t.v. væri ástæða til. Ég vil aðeins vekja athygli á því, að nú er svo komið að við gætum eytt öllum tíma Alþ. í vetur aðeins í umr. um þessi mál, aðeins í spurningar og svör um þessi mál. Og það yrði ekki að ástæðulausu. Það væri full ástæða fyrir því að það yrði gert, og kannske verður það gert ef að þessum málum verður ekki staðið með öðrum hætti. Og ég tel að það sé hyggilegra og eðlilegra að gera það þannig, eins og þessi þáltill. gerir ráð fyrir. En ef ekki verður hægt að leysa málin með einhverjum slíkum hætti, þá er ég sannfærður um það, að það eigi meiri tími eftir að fara í umr. um þessi mál á Alþ. í vetur en um nokkurn annan einstakan málaflokk.

Ég ætla að taka það sérstaklega fram til þess að forða frá öllum misskilningi, að í þáltill. þessari er þess farið á leit að gangur og framkvæmd dómsmála verði sérstaklega tekin til rannsóknar, en ekki að störf einstakra manna verði athuguð. Till. þessari er ekki stefnt gegn einum eða neinum, hvorki gegn einstaklingi né gegn stofnun. Till. er stefnt að málaflokknum sjálfum. Tilgangurinn er sá, að Alþ. sjálft kanni ástandið í dómsmálunum í landinu, m.a. með tilliti til þeirra áhendinga sem fram hafa komið í ræðu og riti, geri úttekt á því ástandi og skýri opinberlega frá niðurstöðum sínum. Þannig verði grunsemdum eytt, þar sem þær eiga ekki við rök að styðjast, og finnist eitthvað sem ekki er sem skyldi, þá verði sá vandi afmarkaður og honum lýst. Slík rannsókn þjónar margþættum tilgangi. Hún tjáir þjóðinni að Alþ. sé fyrir sítt leyti reiðubúið að athuga þau mál sem sætt hafa mjög almennri gagnrýni og flestir íslendingar hafa þungar áhyggjur af. Hún er gerð í því skyni að gera heildarúttekt á þessum málaflokki, ásigkomulagi hans og þeirri aðstöðu sem hinum einstöku embættum er búin til að gegna hlutverki sínu, og draga upp sanna og rétta heildarmynd. Í þriðja lagi yrði slík úttekt nauðsynlegur grundvöllur þeirra úrbóta sem tvímælalaust þarf að gera í dómsmálum og hljóta með einum eða öðrum hætti að koma til kasta Alþ. Það verk þarf raunar að vinna fyrir frumkvæði þingsins sjálfs. Og því betur sem þinginu er ljóst hvar skórinn kreppir þegar það verk hefst, þeim mun betur og fljótar verður það af höndum leyst.

Herra forseti. Ég legg svo til að umr. þessari verði frestað og till. vísað til hv. allshn.