27.10.1976
Neðri deild: 6. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í B-deild Alþingistíðinda. (200)

6. mál, þingnefnd til að kanna framkvæmd dómsmála

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég vil strax taka það fram, að ég hef síður en svo á móti því að hv. d. skipi n., rannsóknarnefnd, til þess að kanna einstakar rannsóknir mála eða meðferð einstakra dómsmála. Og auðvitað set ég mig ekki heldur upp á móti því ef hv. d. vill skipa n. til rannsóknar með svo víðtæku valdsviði sem gert er ráð fyrir í þessari þáltill. En það verð ég þó að segja, svo sem ég aðeins kem að síðar, að ég býst við að þeir, sem taka sæti í þeirri n., þurfi að leggja talsvert hart að sér ef þeir ætla að rannsaka öll þau mál, sem gert er ráð fyrir í þessari þáltill., og skila um það skýrslu fyrir þinglok, jafnvel þó þeir fái sér til aðstoðar sérfróðan mann eða menn.

Það er að vísu rétt, að rannsóknarnefndir samkv. 39. gr. stjórnarskrárinnar og tilsvarandi grein í fyrri stjórnarskrám hafa ekki tíðkast hér á landi. Það eru algerar undantekningar að slíkar n. hafi verið skipaðar. Ég man nú í svipinn aðeins eftir tveimur, landsbankanefndinni svokölluðu og okurnefnd, sem svo var nefnd. Ég held að það hafi ekki orðið tiltakanlega mikill árangur af starfi þeirra nefnda í hvorugt skiptið. Það hafa oftar að vísu komið fram till. um skipun rannsóknarnefnda. En viðkomandi deildir hafa ekki viljað fallast á það úrræði.

Hitt er aftur á móti rétt, að rannsóknarnefndir tíðkast mikið í Bandaríkjunum og þar starfa þessar rannsóknarnefndir með talsverðum fyrirgangi og auglýsingaskrumi, svo að ekki sé meira sagt. Og það er ekki aðeins að þær nefndir þar hafi tekið til meðferðar þau mál sem hv. 1. flm. þessarar till. nefndi, heldur hafa þær tekið til meðferðar ýmis fleiri mál, eins og alkunnugt er í veröldinni. Það hefur í Bandaríkjunum reynst ungum og framgjörnum stjórnmálamönnum sérstaklega hentug leið til þess að vekja athygli á sér að verða formenn í slíkum rannsóknarnefndum. Svo mun t.d. hafa verið um McCarthy á sínum tíma. Hann fékkst að vísu ekki og hans rannsóknarnefnd við að rannsaka mál af því tagi sem hv. flm. nefndi, en þekktur varð hann og vafalaust hefði hann getað komist langt ef dauðinn hefði ekki sótt hann áður en til þess kom. Nixon varð líka fyrst frægur eða vakti á sér verulega athygli fyrir formennsku í slíkri nefnd.

Það er því vissulega vorkunnarmál þó að ungum og framagjörnum stjórnmálamönnum þyki freistandi að taka upp slík vinnubrögð og geta kannske haft tækifæri til þess að veita slíkum n. forstöðu og geta sér slíkan orðstír sem hlutaðeigandi menn hafa gert í Bandaríkjunum sem að þessu hafa starfað. En margt getur gott komið frá Bandaríkjunum, og það er auðvitað út af fyrir síg ekki neitt hafandi á móti því að nota þetta úrræði þó að það sé mikið notað þar, en ekki hér og ekki heldur í nálægum löndum sem við tökum mest tillit til og sníðum okkar stjórnarfar mest eftir.

En hver ætli sé þá ástæðan til þess að þetta úrræði er og hefur verið mikið notað í Bandaríkjunum, en aftur á móti ekki hér í landi, ekki í Danmörku, ekki í Noregi, ekki í Englandi, yfirleitt ekki í lýðræðislöndum Evrópu, svo að ég viti til, í neinum mæli? Hver ætli sé ástæðan? Hún er sú, að bandaríkjamenn búa ekki við þingræði í okkar skilningi, en þessi lönd í Evrópu búa við þingræði. Þess vegna og í stað þingræðisskipulagsins og þeirra úrræða, sem það veitir með margvíslegum hætti, einnig hér á Alþingi íslendinga ekki síður en annars staðar, hefur verið gripið til þessa úrræðis í Bandaríkjunum, að beita rannsóknarnefndum sem margar hverjar hafa látið allmikið að sér kveða þar. Á þetta vildi ég benda, þó að ég telji það geta komið til greina, að Alþ. íslendinga breyti um starfsháttu í þessu efni ef hv. þm. þykir efni til þess að yfirveguðu ráði. En þar sem þingræði ríkir hafa hv. alþm. auðvitað margvísleg úrræði til þess að hafa áhrif á stjórnarframkvæmd, fá um hana upplýsingar, bæði með fsp., þál. og svo auðvitað með vantrauststill. og reyndar með fleiri aðferðum. En vilji menn nota og fara að beita þessu úrræði meir en raun hefur verið á, þá hef ég síður en svo á móti því.

Í sjálfu sér þyrfti ég kannske ekki að hafa fleiri orð um þetta. En ég vil þó koma að nokkrum ábendingum í sambandi við þá þáltill. sem hér liggur fyrir.

Ég vil fyrst benda á það, sem er þó náttúrlega aukaatriði, að þessi till. nefnist ekki „tillaga um skipun sérstakrar rannsóknarnefndar samkv. 39. gr.“, eins og hún ætti að heita eftir málflutningi hv. 1. flm., og ég geri ráð fyrir því að það sé enginn vafi á því í sjálfu sér að það vakir fyrir flm., m.a. eftir síðustu mgr. í tillgr. En það er samt ekki út í bláinn að varpa þessu fram, vegna þess að tilvísun til 39. gr. í upphafi greinarinnar er út af fyrir sig ekki nægileg, vegna þess að skoðanir þeirra manna, sem skrifað hafa um þetta mál hér á landi og reynt að skýra hvað fælist í 39. gr., hafa verið skiptar. Dr. Bjarni heitinn Benediktsson hélt því fram og vildi skýra 39. gr. svo, að hún ætti bæði við almennar þingnefndir og rannsóknarnefndir. Ég er að vísu ekki þeirrar skoðunar, en samt sem áður hefði verið réttara og væri þá réttara að lagfæra þetta í meðferðinni, þannig að það kæmi alveg skýrt fram við hvað væri átt.

Í öðru lagi vil ég benda á til ábendingar fyrir hv. allshn., sem fær till. til meðferðar, ef hún skyldi nú fallast á þessa till. og þar með kannske verða brautryðjandi í því að innleiða þá starfsháttu á Alþ., að mér þykir nokkuð mikið í fang færst með þessari ályktun. Ég held að jafnvel í Bandaríkjunum sé vafasamt að rannsóknarnefndum þar sé ætlað jafnvíðtækt og óákveðið og almennt verkefni eins og gert er ráð fyrir í þessari þáltill. Ég held að ef rannsóknarnefndir samkv. 39. gr. eiga að þjóna einhverju hlutverki, þá þurfi að vera frumskilyrði að það sé skýrt afmarkað hvað n. á að rannsaka, það eigi ekki að fela henni svo almennt verkefni að það sé fyrirfram vitað að hún geti alls ekki ráðið við það, það eigi ekki að fela henni verkefni þannig að það fari bara eftir geðþótta hennar hvað hún taki til meðferðar. Ég held að mönnum yrði þetta ljósara kannske ef maður tekur samanburð. Hér er þáltill. um að kanna gang og framkvæmd dómsmála. Þætti mönnum það ekki nokkuð viðtækt ef hv. d. skipaði n. til þess að rannsaka gang og framkvæmd skólamála. Sjálfsagt er ýmislegt sem vert væri að skoða á því sviði, og sjálfsagt gæti það verið athugunarefni fyrir Alþ. að taka einstök atriði þar til athugunar. En ég held að skipun rannsóknarnefndar, sem ekki væri ætlaður lengri starfstími heldur en þessari n. er ætlaður, til þess að rannsaka gang og framkvæmd skólamála yrði heldur marklítil, svo að ekki sé meira sagt. Eða þá t.d. að það væri samþykkt þál. um það að skipa n. til þess að kanna gang og framkvæmd heilbrigðismála, ekkert smáverkefni. En að kanna gang og framkvæmd dómsmála er heldur ekkert smáverkefni. Nei, ef menn ætla að taka þetta í alvöru og ætlast til þess að það verði gagn að svona athugunum, þá verða menn að leggja vinnu í það að afmarka verksvið slíkrar rannsóknarnefndar á annan veg og þrengri en hér er gert.

Það segir í 1. lið þessarar þáltill., að verkefnið sé að rannsaka gang og framkvæmd o.s.frv., „hvernig staðið er að rannsóknum sakamála hjá þeim embættum sem slík verkefni hafa með höndum, þ. á m. hjá ríkissaksóknara, sakadómi og skattrannsóknarstjóra.“ Ég vil nú fyrst og fremst segja það, að mér þykir þetta einkennilega orðað. Auðvitað fer rannsókn sakamála fram hjá öðrum en Sakadómi Reykjavíkur. Það má segja, ef þetta á að skiljast svo, að orðið sakadómur sé notað þarna yfirleitt um þann rétt hjá dómurum þegar farið er með opinber mál, þá geti þetta staðist. Ég geri ráð fyrir að það sé meiningin. Það er náttúrlega dálítið einkennilegt að segja, þ. á m. sakadómi, ef það væri átt við sakadóm í Reykjavík. Þarna er eftir orðanna hljóðan auðvitað átt við að rannsaka þessa málsmeðferð hjá öllum þeim embættum sem fara með rannsóknir sakamála, öllum sýslumönnum og lögreglustjórum um land allt. Það er þó nokkurt verk.

Í öðru lagi er við þetta þá aths. að gera, að það er náttúrlega ekki rétt að tala um að ríkissaksóknari hafi með höndum rannsókn sakamála. Hann hefur vissa stjórn í þeim efnum og getur, eins og hv. flm. minntist réttilega á, átt frumkvæði að rannsókn, en hann framkvæmir ekki rannsókn, lætur ekki sjálfur sina menn framkvæma rannsókn. Hann getur fylgst með málum á rannsóknarstigi. En hann fer með ákæruvald.

Og þá finnst mér það nokkuð skothent að blanda skattranasóknarstjóra inn í þetta. Ég mundi, ef ég vildi leggja mig fram um að betrumbæta þessa till., leggja það til að skattamálin og skattrannsóknirnar yrðu alveg teknar út úr og það yrði sérstök rannsóknarnefnd skv. 39. gr. til að fjalla um þau. Þetta finnst mér nokkuð marglitt safn.

Svo er það sem vantar bæði í þennan fyrsta lið og aðra liði ályktunarinnar, yfir hvaða tímabil þessari rannsókn er ætlað að taka. Það er þó lágmark að það sé tekið fram yfir hvaða tímabil rannsóknin á að taka. Á bara að rannsaka mál t.d. frá 1971 eða 1970 eða á að fara lengra aftur í tímann? Hvað sem er í því efni, þá verður auðvitað að tiltaka eitthvert tímamark, og auðvitað er eðlilegt að svona rannsókn taki yfir eitthvað lengri tíma til þess að fá samanburð í þessum efnum og til þess þá að fá raunhæfan samanburð, þannig að menn þurfi ekki alltaf að vera með þessar tilgátur og ágiskanir sem þeir eru með og kasta fram í tíma og ótíma. Ég vil spyrja hv. 1. flm. að því, hvað hann og þeir flm. hafi haft í huga í þessu sambandi. Til hvaða tímabils er þessari rannsókn ætlað að taka?

Svo er þarna verið með dálitlar getsakir og hefði verið prýði á þáltill., tillgr. sjálfri, að þeim hefði verið sleppt úr henni, þar sem vitaskuld er þar verið með getsakir í garð þeirra sem þessi mál framkvæma, rannsóknaraðilanna, um að þeir hafi látið einhver utanaðkomandi öfl hafa þau áhrif á sig að þeir hafi hætt við rannsóknir eða ekki látið þeim lokið þannig að öll kurl kæmu til grafar. Mér finnst þetta mjög óviðfelldin ásökun í garð þessara manna. Þeir eiga hana áreiðanlega ekki skilið því þarna eru menn sem því miður hafa oft verið ofhlaðnir störfum og unnið sín störf af bestu samviskusemi yfirleitt. Það þori ég að fullyrða.

Óviðkomandi öfl, utanaðkomandi öfl og annarlegir hagsmunir, — dómsmrn. verður ekki talið utanaðkomandi afl í sambandi við rannsóknir dómsmála. Við hvaða aðila og við hvaða öfl er þarna átt? Ég óska eftir því að hv. flm. geri nú grein fyrir því til leiðbeiningar fyrir þá hv. n. sem fær þáltill. til meðferðar.

Svo kemur nú annað vers, liður tvö: „Hvernig er háttað gangi dómsmála hjá hinum ýmsu dómsstigum og dómaraembættum í landinu, þ. á m. hvort óeðlilegur dráttur sé á gangi þeirra mála hjá einstökum embættum og þá hvers vegna“ o.s.frv. Þá koma skattalagabrot eins og skrattinn úr sauðarleggnum inn í þetta, sem ég vil leggja til að verði sett í sérstaka till., ekki verið að blanda þessu saman sem ekki á saman.

Það á rannsaka gang og framkvæmd dómsmála hjá öllum dómaraembættum á landinu, hjá öllum dómsstigum. Hæstiréttur er ekki undanskilinn. Það á að skoða líka hjá honum. Ég hef þó ekki orðið var við að því væri haldið fram að það ætti sér óeðlilegur dráttur stað hjá Hæstarétti að undanförnu í þeim málum sem hann fær til meðferðar. Og enn er það — við hvaða tímabil á þarna að miða? Það var að nokkru leyti a.m.k. að gefnu frumkvæði frá mér vegna þáltill., sem ég bar fram hér á Alþ., gerð mjög ítarleg rannsókn, sem Sigurður Lindal framkvæmdi, á því hve mál drægjust hjá dómstólum. Till. var lögð fram, ef ég man rétt, 1966 eða 1967, og það má segja að sé þá staðgóðar upplýsingar um fyrri tíma. En er þá þessari rannsókn ætlað að taka til alls tímabilsins eftir það?

Í annan stað held ég að rannsóknarnefndir sem eiga skv. orðanna hljóðan í 39. gr. að rannsaka mikilvæg mál, séu nú fyrst og fremst a.m.k. og hafi alltaf fyrst og fremst verið hugsaðar sem komandi til greina við rannsókn á verkefnum og meðferð framkvæmdavalds. Dómsvaldið er sérstakur þáttur ríkisvaldsins og dómstólarnir hafa visst sjálfstæði, og því mun enginn halda fram að jafnvel hv. Alþ. geti skipað dómstólum fyrir, hvernig dómstólar skuli dæma í einstökum málum, heldur verður það að láta sér nægja að setja almennar reglur, en dómstólarnir heita þeim almennu reglum, og þeir hafa alltaf síðasta orðið ef í það fer. Þess vegna held ég að Alþ. þurfi að gæta að sér að ganga ekki of nærri sviði dómstólanna að þessu leyti til, ef það er meiningin að svona rannsóknarnefnd eigi að fara að rannsaka störf dómstólanna, segja dómstólunum t.d. til um það, — ja, lengur en mánuð mátt þú ekki vera með mál eins og þetta. Ég efast um að dómstóll láti segja sér fyrir um slíkt efni. Ég efast um að hann sé skyldur til þess eftir stjórnarskránni. Ég efast um að hann þurfi að taka við slíkri fyrirskipun frá einum eða neinum. Hann tekur sér einfaldlega þann tíma sem hann þarf til þess að rannsaka og athuga mál og dæma. Að vísu er honum settar leiðbeiningarreglur í því efni.

Það mætti ætla að þessi tvö atriði, sem talin eru í liðum 1–2, væru ærið verkefni fyrir eina nefnd, n. störfum hlaðinna þm., sem uppálagt væri eftir þessari þáltill. að skila áliti fyrir lok þessa þings. En við er nú bætt þriðja liðnum, og hann er um það, „hvernig háttað er framkvæmd refsidóma, þ. á m. eftir hvaða reglum sé farið varðandi ákvarðanir um afplánun“ o.s.frv. — og reyndar með þeim blæ að það a.m.k. jaðrar við getsakir — „hvort mikil brögð séu að því að dómar séu ekki afplánaðir innan eðlilegs tíma, hvort slíkt eigi fremur við um einn flokk eða eina tegund afbrota, t.d. fjársvik og auðgunarbrot.“ það er nú kannske illa farið með tíma hv. þdm. að fara að rifja upp með örfáum orðum hvernig þessum málum er skipað. En e.t.v. er ekki víst að allir hv. þm. hafi gert sér grein fyrir því hvernig háttað er framkvæmd refsidóma. Það er í stuttu máli þannig, að þegar refsidómur hefur verið kveðinn upp í héraði, þá er hann afgreiddur til ríkissaksóknara og það er svo ríkissaksóknari sem sendir hann til dómsmrn. Þegar um dóma Hæstaréttar er að tefla, þá sendir Hæstiréttur þá beint í dómsmrn. Síðan ritar dómsmrn. á þessar dómsgerðir, að fullnægja skuli dómnum, og sendir þær alltaf viðkomandi héraðsdómara sem hefur kveðið upp dóminn, líka þegar um hæstaréttardóma er að tefla, þá er það héraðsdómarinn, sem hefur undirritað dóminn, sem á að sjá um fullnustu hans. Ég held að ég þori að fullyrða að það muni ekki dragast hjá dómsmrn., eftir að það fær dómana í bendur, lengur en hálfan mánuð, þrjár vikur að skrifa á dómana og senda þá út. Síðan er það svo viðkomandi héraðsdómari sem á að sjá um að fullnægja dómnum, og það skal alveg fúslega játað, að það eru vafalaust mismunandi vinnubrögð í því efni hjá hinum einstöku embættum, en alls ekki eftir því — því mótmæli ég alveg — um hvers konar tegund brota er að tefla. Það getur verið að sumum finnist að of mikil linkind sé sýnd. Það mun t.d. nokkuð tíðkast, m.a. hér í Reykjavík, að þegar maður er dæmdur í fyrsta skipti — við skulum segja fyrir þjófnað, dæmdur í þrjá mánuði, til að taka eitthvert dæmi, og hann rekur svo ekki aftur á fjöru lögreglunnar, menn verða ekkert varir við hann, þá skal játa að það getur verið að sá maður afpláni ekki sinn dóm, hann sé látinn eiga sig. Það er talið að hann hafi bætt ráð sitt. Telja menn það eitthvert þjóðráð að vera endilega að gera það að kappsmáli að elta uppi og setja inn þá menn sem dæmdir hafa verið? — Þetta kemur auðvitað ekki til greina um hættulega glæpamenn og því um líkt. Þeim er aldrei sleppt og ganga ekki lausir. En þegar um annars konar brot er að tefla, þá verð ég að leyfa mér að líta svo á að aðaltilgangur og gagn að refsingunni sé þau almennu áhrif sem hún hefur. Ég hef því miður ekki trú á því — og verð að játa það, ég hef ekki mikla trú á því að refsingin út af fyrir síg, afplánunin, bæti hlutaðeigandi einstakling. Og mun nokkur hér á hv. Alþ. vilja halda því fram að refsinguna eigi að skoða út frá einhverri endurgjaldsteoríu, hefndarsjónarmiði: fyrst maðurinn hafi brotið af sér, þá eigi hann að fá þetta? Ég held að það sé löngu úrelt sjónarmið. Og eins og ég sagði, þá skal það viðurkennt að það er sjálfsagt hjá ýmsum embættum að þetta er dálítið mismunandi, og kannske er það mannlegt sjónarmið sem kemur þar til greina. Ég skal ekki neita því, að það geti átt sér stað í einhverjum tilfellum að þeir dómarar, sem eiga að sjá um fullnustuna, líti á aðstæður sem eru fyrir hendi hjá einstaklingi sem að vísu hefur brotið af sér og hlotið dóm, ef maðurinn hegðar sér ágætlega, þá sé eitthvað horft í gegnum fingur. (Gripið fram í.) Ja, ég vona að menn séu ekki að hlægja að því, því að að þeim ógæfumönnum, sem lenda í slíku, er ekki hlægjandi. Það er fullkomið alvörumál, og það vita þeir best sem umgangast þessi mál og þurfa að standa í því t.d. að eiga viðtöl við aðstandendur þessara manna. Það er oft enginn leikur að standa frammi fyrir þeim aðstæðum sem þar eru fyrir hendi.

Það er spurt þarna hvað sé um skilorðsbundinn dóm. Það er strax hægt að upplýsa hvernig háttað sé eftirliti, að það fer eftir því sem ákveðið er í dóminum sjálfum af þeim sem dóminn kveður upp. En það er, ég get sagt: því miður, undantekning að það sé kveðið á um sérstakt eftirlit í skilorðsdómi. Aftur á móti þegar um frestun ákæru er að tefla, þá er það saksóknari sem hefur eftirlitið með höndum, og ef um náðun er að tefla eða lausn úr fangelsi, þá er það skilorðseftirlitið sem hér er starfandi í Reykjavík, sem vinnur gott verk er fáir virðast taka eftir, sem hefur þetta eftirlit með höndum. Það hefur ekki verið skrifað um það, svo ég hafi séð, en það var fyrst unnið af fórnfýsi af einstaklingi, en svo sett upp með lögum frá Alþingi.

Hversu algengt sé að menn fái af ýmsum orsökum að afplána dóma, t.d. fyrir fjársvik eða auðgunarbrot, annars staðar en í viðurkenndum fangelsum eða vinnuhælum, svo sem eins og sjúkrahúsum og heilsuhælum — ja þetta er nú dálítið í getsakastílnum líka. Ég fullyrði að slíkt eigi sér ekki stað nema skv. læknisúrskurði. Það var t.d. fyrir stuttu að það varð að taka fanga af Litla-Hrauni með nýrnakast og flytja á Landakotsspítala og taka úr honum nýra. Auðvitað kemur sá tími, sem maðurinn er á spítalanum, upp í afplánun og verður talið til afplánunar. Vilja menn að það séu teknir upp aðrir starfshættir í þessu efni, að lögreglumenn eða fangaverðir fari að taka það á sig að fara ekki eftir læknisráði í þessu efni? Ég vil ekki taka það á mig, ég segi það alveg satt. Ég held það sé alveg ástæðulaust að vera með nokkrar getsakir í þessu efni. En þetta kemur væntanlega í ljós í vor þegar n. verður búin að fara yfir þetta allt og kanna það niður í kjölinn.

Það er nú liðinn fundartíminn og ég skal þá ekki vera að orðlengja þetta frekar. Það er náttúrlega rétt, sem hv. flm. sagði, að það er viss annmarki á því fyrir rannsóknanefndina að starfa, hún gæti ekki kvatt menn fyrir sig eða eiðfest. En auðvitað mætti setja lög um þetta, ef mönnum sýndist að það ætti að taka upp þetta úrræði. En spurningin er hvort menn teldu heppilegt að fara að taka upp slíkan hálfgerðan leikmannadómstól eða rannsóknardómstól a.m.k. leikmannarannsóknardómstól. Það yrði kannske áhrifamikið í sjónvarpi, eins og það er í Bandaríkjunum, að sjá menn leidda fyrir slíka dómstóla og sverja, leggja hönd á helga bók.

Ég ætla nú ekki að fara neitt að tefja tímann með því að tala um það sem hv. þm. var að tala um og hver étur eftir öðrum, að vegur Alþ. sé að hrapa og fara niður á við. Í öllum guðanna bænum, hvað sem öðru líður, þá ættum við alþm. ekki að vera að ala á því. Við ættum að láta aðra um það, það er víst nóg. Og ég held að hv. flm. geti ekkert frekar fullyrt um viðhorf almennings heldur en bara ég eða hver annar. Það er ákaflega óákveðið og erfitt að fullyrða um það fyrir fram.

Um grg. skal ég ekki ræða. Það er ein skynsamleg setning í henni og hún er á bls. 3: „og eðlilegast er, að kostnaður við störf n. sé greiddur úr ríkissjóði, eins og till. er gerð um.“ Ja, hvort ég er sammála. En má ég spyrja hv. flm.: Hvaða aðili annar en ríkissjóður gat komið til álita að fara að greiða kostnað af starfi þessarar n. (Gripið fram í.) Alþingi sjálft? Ég held að kostnaður af Alþ. sé greiddur úr ríkissjóði þannig að Alþ. hefði nú ekki sérstök fjárráð — og þá veit maður það.

Það er fullt í þessari grg. af getsökum og fullyrðingum, staðhæfingum sem ekki er nú bægt að vera að elta ólar við. Þó er t.d. þetta sem segir hér á bls. 2, að eftir hina áhrifamiklu ræðu eða upphlaup hjá hv. þm. í fyrravetur og liðsmönnum hans utan þings og innan þess hafi dómsyfirvöld fyrst farið að rumska, sbr. nokkur lagafrv. um úrbætur sem sýnd voru á síðasta þingi, en ekki afgr. En það ber nú bara að taka það til athugunar, að þessi lagafrv., sem lögð voru fram á síðasta þingi, voru árangur af starfi n. sem hafði starfað frá 1972 og ég hafði skipað áður en hv. flm. kom fótum sínum inn fyrir dyr Alþ., þannig að þetta eru náttúrlega fullkomnar rangfærslur.

Það segir hér að „dómsmálayfirvöld, þ. á m. ráðh. fundu þessari till. flest til foráttu,“ till. sem þeir voru með, alþfl: menn í fyrra. Ég skal játa að ég er með því marki brenndur eins og fleiri, að ég gleymi — kannske má segja blessunarlega — því sem ég hef sagt. En ég verð að segja alveg eins og er, að ég minnist þess ekki að ég hafi fundið þessari till. neitt sérstaklega til foráttu. Ég hefði gaman af að hv. flm. rifjaði upp fyrir mér þau ummæli sem hann á hér við.

Þarna segir að erlendir sérfræðingar hafi verið ráðnir. Það hefur ekki verið ráðinn nema einn sérfræðingur, en hins vegar fengin aðstoð tæknirannsóknastofu.

Ég skal ekki vera að elta ólar við þetta né heldur þau mál sem hv. flm. nefndi. Það er sem sagt svo, að hann gat ekki nefnt nein mál sem lægju þannig óupplýst. Jörgensensmálið er gamalt. Það er langelsta málið, það er rétt, frá 1966. Það er upplýst, rannsókn er þar lokið og dómur væntanlegur innan skamms að ég best veit. Ég ætla ekki að fara að sakfella áður en sá dómur er genginn, en þetta mál átti sér sina forsögu. Þarna var á ferðinni mikill athafnamaður, og e.t.v. væri eðlilegt að þeir könnuðu það, hv. þingfulltrúar Alþfl., hverjir það voru sem studdu drengilegast við bakið á þessum athafnamanni.

Um Klúbbmálið er það að segja að auðvitað hefur saksóknari ákveðið rannsókn og ákæru á þeim brotum sem hann hefur talið ástæðu til.

Og ég verð að segja að það er afar óviðfelldið að hlusta á hv. flm. vera að fara hér með og hafa eftir bæði fíkniefnadómara, skattrannsóknarstjóra og vararíkissaksóknara bara munnleg orð. Ég er hræddur um að þessir menn vildu heldur láta þá frá sér eitthvað skriflegt og ákveðið heldur en að láta túlkun þess, sem þeir láta sagt, vera komna undir hv. flm. þessarar till.

Já, fíkniefnin, menn sáu það nú einmitt fyrir að hætta mundi vera þar á ferðum. Þess vegna var það að mínu frumkvæði að sett voru l. um fíkniefnadómstól og rannsóknardeild í fíkniefnamálum 1972 eða 1973. Hún hefur starfað síðan, staðið síg með ágætum, það fullyrði ég. Auðvitað þarf að gefa þeim málum fullan gaum, og Alþ. eða fjárveitingavaldið má ekki sníða því starfi svo rangan stakk að það sé ekki unnt að sinna því svo sem þarf.

Svo veit ég ekki hvernig hann gat farið að koma bönkunum inn í þetta, ef á að fara að eftirlita dómskerfið. Ekki eru það dómarar, ekki rannsóknarmenn sem loka einstökum reikningum í bönkum. Það eru bankarnir sjálfir. Ef hann telur um vitavert athæfi að ræða hjá bönkunum — og það skildist mér á honum — þá á hann auðvitað að flytja till. um rannsóknarnefnd á bankana. Ég efa ekki að hann gæti haldið ágæta ræðu um það efni, eins og þessi ræða var hér áðan, sem var vel samin og prýðilega flutt, enda hefur hann vafalaust lagt mikla vinnu í það, kannske einhverjar andvökur. En að lokum bara það, að hvort sem þessi till. verður samþ. eða ekki, þá hefur það út af fyrir sig ekki hin minnstu áhrif á setu mína í sæti dómsmrh.