21.03.1977
Efri deild: 52. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2659 í B-deild Alþingistíðinda. (2004)

197. mál, skattfrelsi jarðstöðvar

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen) :

Herra forseti. Grg. með frv. því, sem hér er til umr., á þskj. 398, skýrir að fullu ástæður til þess að það hefur verið lagt fyrir Alþ. Frv. fjallar um skattfrelsi jarðstöðvar til fjarskiptasambands við umheiminn. Ég vil samt sem áður stikla á nokkrum forsendum þess að óhjákvæmilegt hefur þótt að leggja til við Alþ. þá ívilnun í skattgreiðslu sem frv. þetta gerir ráð fyrir.

Póstur og sími og Mikla norræna símafélagið eru bundin gagnkvæmum samningum fram til ársins 1985: Póstur og sími til símaviðskipta um sæstreng símafélagsins bæði til Evrópu og vestur um haf, en Mikla norræna símafélagið til þess að láta þessa þjónustu í té.

Hin síðustu ár hefur orðið ljósara með hverju missiri hversu nauðsynlegt er að leggja annan streng frá Íslandi til Evrópu, ef fullnægja ætti með þeirri tækni fjarskiptaþörfum Íslands og Evrópu. Samkvæmt framangreindum samningi er Mikla norræna símafélagið skuldbundið til þess að leggja annan slíkan sæstreng og er til þess reiðubúið. Samkvæmt gildandi samningum væri Póstur og sími skuldbundinn til að nota sæsíma símafélagsins til loka samningstímans.

Eins og kunnugt er hefur hins vegar opnast ný tækni til samskipta af þessu tagi um gervihnetti. Sú tækni er miklum mun öruggari en sæstrengir og möguleikar til aukningar miklu rýmri en með sæstrengjum. Þá kemur til viðbótar að sæstrengir verða ekki notaðir til að flytja sjónvarpsmyndir, en sá tæknibúnaður, sem notaður er til fjarskipta um gervihnött, nýtist einnig til flutnings sjónvarpsmynda.

Með öðrum orðum sagt gerðu samningar af Íslands hálfu við Mikla norræna símafélagið það að verkum, að við vorum að óbreyttum samningum bundnir við sæsímatækni allar götur til ársins 1985 og bundnir viðskiptum gegnum sæstreng félagsins, þannig að rekstrargrundvöllur þeirrar miklu fjárfestingar, sem nauðsynleg er til að geta náð sambandi um gervihnött fyrir aðrar þarfir íslendinga, var í rauninni ekki til að óbreyttum samningum við símafélagið. Ljóst er hins vegar að sem lausn til frambúðar í fjarskiptatengslum Íslands við önnur lönd jafnast ekkert á við jarðstöð og gervitunglafjarskipti. Þess vegna tóku íslensk stjórnvöld upp samningaumleitanir við Mikla norræna símafélagið um að breyta samningi þeim sem félagið hafði og fyrr var getið og gilda átti fram til ársins 1985.

Til að gera langa sögu stutta náðust samningar um að félagið legði fram andvirði þess sæstrengs, sem félagið hugðist leggja á næstunni, sem eignarhluta í væntanlegri jarðstöð, enda leggi íslenskir aðilar fram það sem á vantar. Mikla norræna símafélaginu eru tryggðar tekjur af sæstrengjum þeim, sem félagið þegar á og nú þjóna fjarskiptaþörfum íslendinga, en jafnframt er tryggt að jarðstöð kemur til notkunar nú þegar í sameign Pósts og síma og Mikla norræna símafélagsins. Telja verður þennan samning mjög hagstæðan fyrir íslendinga, ekki síst þegar litið er til framtíðarinnar, enda flýtir hann beinu sjónvarpssambandi íslendinga við umheiminn fyrir utan að sjá miklu betur en nokkur sæstrengur fyrir þörf landsmanna fyrir aukin viðskipti af þessu tagi.

Frá og með 1985 geta íslendingar leyst til sín þann eignarhluta Mikla norræna símafélagsins í jarðstöðinni sem þá verður óafskrifaður, en 1991 munu íslendingar eignast jarðstöðina án greiðslu.

Með hliðsjón af öllum aðstæðum þykir eðlilegt að innflutningur á efni til byggingar og rekstrar jarðstöðvarinnar sé undanþeginn aðflutningsgjöldum og söluskatti við innflutning, og felur 1. gr. frv. í sér ákvæði þar að lútandi. 2. gr. fjallar hins vegar um undanþágu eignaraðila og jarðstöðvarinnar frá ýmsum sköttum: tekjuskatti, eignarskatti, aðstöðugjaldi og fasteignaskatti. Ljóst er að Póstur og sími, sem er annar eignaraðill stöðvarinnar, er skattfrjáls alla vega, en að gildandi lögum mundi Mikla norræna símafélagið verða skattskylt hér í landi af starfsemi af þessu tagi. Nú er það svo að fyrirtækið hefði verið skattlaust hér á landi ef það hefði staðið við sinn samning, lagt sæstreng og rekið hann. En félagið hefur ekki getað fellt sig við að fjárfesting þess í jarðstöð eigi fremur að leiða til skattlagningar hér á landi en fjárfesting í sæstreng, ekki síst vegna þess að tekjuskattur félaga hérlendis er með öðrum hætti en samsvarandi tekjuskattur í Danmörku, sem er heimaland félagsins. Að öllum aðstæðum athuguðum hefur þótt réttmætt að verða við þessum óskum, enda ljóst að án þess gat ekki orðið af þessum hægstæðu samningum. Því er þetta frv. flutt.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja þetta meir. Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að frv. þessu verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.