21.03.1977
Efri deild: 52. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2670 í B-deild Alþingistíðinda. (2010)

101. mál, virkjun Hvítár í Borgarfirði

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Vegna þess að ég var bundinn við dálitlar umr. í hv. Nd. hef ég ekki heyrt allt sem hér var sagt um þetta frv., og má því vera að það verði einhverjar lítils háttar endurtekningar hjá mér á því sem aðrir hafa áður sagt. Bið ég í upphafi velvirðingar á því, ef svo kynni að fara. En þær ættu ekki að þurfa að verða margar, því að ég mun halda hér stutta ræðu.

Ég vil segja það sem mína skoðun, að ég fagna þeim áhuga sem nú er á því almennt, held ég, að stefnan í raforkumálum landsmanna verði samræmd og að raforkuverin verði samtengd. Af þessu leiðir það, að ég hef alltaf verið hikandi við þær heimildir, sem Alþ. er að samþykkja fyrir virkjunum hingað og þangað, ekki síst þegar það liggur ekki ljóst fyrir hvernig tilhögun virkjunarinnar verður, hvernig hagkvæmni hennar verður og hvaða þörf er fyrir hana, eins og mér virðist um sumar þær virkjanir sem hér er lagt til að reistar verði, bæði af mér og öðrum, því að ég hef átt hlut að flutningi stjfrv. um virkjanir sem mjög er svipað ástatt með og þá sem hér er um að tefla, þannig að ég er ekki að skorast undan neinni ábyrgð í því tilliti. En það er skoðun mín að við eigum að láta fara fram úttekt og ég veit ekki annað en verið sé að gera úttekt á raforkuþörf landsmanna í næstu framtíð og hvernig henni verði best sinnt.

Nú er Sigölduvirkjun senn fullgerð og vonir standa til að rafmagnið frá henni komi á markaðinn á næstunni. Það er vissara að nefna enga dagsetningu í því tilliti, það er búið að standa til síðan 1. des. og er ekki orðið enn þótt kominn sé 21. mars. En einhvern tíma rennur upp sá dagur að Sigalda fari að skila raforku, og þá hækkar hagur strympu, a. m. k. í bili. Það er búið að ákveða að fullgera samtengingarlínu milli Norður- og Suðurlands, og það er búið að fallast á að hefja virkjunarframkvæmdir við Hrauneyjafoss í Tungnaá. Auk þess er Krafla sem hugsanlega gæti skilað einhverju rafmagni þegar stundir líða fram, þannig að ég tel að það sé eins og sakir standa búið að ákveða svo mikið af virkjunarframkvæmdum að tæpast sé þörf á því nú í dag að heimila frekari virkjanir. (Gripið fram í.) Ég kannast vel við þetta frv. Ég nefndi það sjálfur áðan. Það er um athugun á virkjun í Blöndu og ég þarf ekki annað en horfa framan í hv. 5. þm. Norðurl. e. til þess að sjá að hann er að minna mig á að ég sé flm. að því, og þess hef ég líka áður getið. En eitt er það að vekja máls á máli eins og Blönduvirkjun og Kljáfossvirkjun, Bessastaðaárvirkjun, Syðri-Fossárvirkjun, og annað er að ákveða að ráðast í þær. Þó að það megi vel vera að virkjun í Hvítá hjá Kljáfossi sé hagkvæm virkjun, — ég hef engin skilyrði til þess að leggja dóm á það sem sagt er um það atriði, það má vel vera að hún sé hagkvæm, — þá held ég að við ættum að hægja ferðina í virkjanamálum, a. m. k. á meðan við erum ekki búnir að tryggja sölu á þeirri raforku sem þegar er fyrir hendi og þegar fyrirsjáanlegt er að hægt er að fullnægja orkuþörf Vesturlands og Norðurlands með byggðalínu þegar henni verður lokið, a. m. k. í nánustu framtíð. En fyrirætlanir ríkisstj. eru þær að ljúka norðurlínunni á þessu ári og ég veit ekki annað en fjármagn til þess sé nú tryggt.

Ég vil svo, vegna þess að ég er enn þá stjórnarmaður í Landsvirkjun, taka það fram, að ég er ekki sömu skoðunar og hv. 5. þm. Norðurl. e. að því er tekur til þess er hann sagði um afstöðu og leyfi ríkisstj. fyrir Hrauneyjafossvirkjun. Alþ. var ekki sniðgengið. Alþ. var búið að samþykkja að heimila Landsvirkjun að reisa allt að 170 mw. raforkuver í Tungnaá við Hrauneyjafoss ásamt aðalorkuveitum. Þetta var gert með lögum frá 1971. Og í 7. gr. laga um Landsvirkjun segir að til byggingar nýrra aflstöðva og aðalorkuveitna þurfi Landsvirkjun leyfi ráðh. þess sem fer með raforkumál. Eftir þessu leyfi var leitað, þetta leyfi var fengið, og ég get ekki viðurkennt að stjórn Landsvirkjunar né iðnrh. né ríkisstj. hafi sniðgengið Alþ. að nokkru leyti hvað þetta atriði snertir. Alveg á sama hátt verður það ekki lengur mál Alþ., hvort Hvítá við Kljáfoss verður virkjuð, ef þetta frv. verður samþ. M. a. þess vegna finnst mér að það liggi ekki á því að samþykkja þetta frv. né önnur þau er að sömu málefnum lúta. Ég hef áður lýst afstöðu minni til Orkubús Vestfjarða, ég skal ekki fara að rifja upp það sem ég sagði um það atriði. Ég vil þó ítreka það, að enn sem fyrr er ég ósamþykkur þeirri stefnu sem þar er mörkuð, þ. e. a. s. að skipta landinu í litlar einingar. Við erum ekki svo stór eining, þó að við höldum allir saman, að það sé ástæða til að skipta henni.