21.03.1977
Efri deild: 52. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2671 í B-deild Alþingistíðinda. (2011)

101. mál, virkjun Hvítár í Borgarfirði

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Þetta skulu vera fá orð. Hér hefur verið komið af eðlilegum ástæðum inn á orkumál almennt og kannske fyrst og fremst spurninguna um það, hvert gildi slík heimildarlög hafa sem hér er verið að fara fram á. Það hefur auðvitað komið í ljós, eins og við vitum glögglega, að það er ekki sama hvar virkjunin er eða hver aðili að henni stendur, hvernig gengur að koma þessum heimildarlögum í gegn sem ákvörðunaratriði hjá ríkisstj. Það er sem sagt sitt hvað, hvort um er að ræða heimildarlög um Hrauneyjafoss t. d. eða heimildarlög um Bessastaðaárvirkjun. Því höfum við fengið áþreifanlega að kynnast. Og það er auðvitað spurning með tillíti til þeirrar reynslu, sem er af ýmsum heimildarlögum hér, eins og rakið var af hv. 2. þm. Vestf. áðan, það er auðvitað spurning um það, hvers vegna menn í ljósi þeirrar reynslu eru yfirleitt að sækjast eftir slíkum heimildarlögum, þegar það er aðeins um heimild að ræða og alger óvissa svo um hvað í framhaldi af því verði gert. A. m. k. getum við austfirðingar ekki sagt það, að heimildarlögin um Bessastaðaárvirkjun hafi skipt neinum sköpum í orkumálum okkar eða leyst úr neinum málum okkar eystra þar, þó að við höfum svo sannarlega lagt áherslu á það á sínum tíma að fá þau heimildarlög í gegn. Áð vísu má segja að það hafi verið unnið að þessum málum í framhaldi af þeim heimildarlögum varðandi rannsóknir og annað slíkt, en raunhæfar aðgerðir hafa þar auðvitað ekki fylgt í kjölfarið, eins og öllum er kunnugt.

Ég á auðvitað erfitt með að taka afstöðu til þessa máls út af fyrir sig. Ég hins vegar bendi nú á það og vil gera aths. við það sem vitnað er í áliti minni hl. iðnn., þar sem Orkustofnun segir m. a., að fskj. með frv. séu ákaflega ófullkomin, svo ófullkomin að þau séu ekki frambærileg með frv. sem lagt er fyrir Alþ. Þau eru nú býsna misjöfn, þau fskj. sem lögð eru fram með frv. hér, jafnvel stjfrv. Ég held það séu nokkuð mörg dæmi þess, að þau eru kannske ekki alltaf ákjósanleg og ekki svo sem skyldi. Ég held að þetta frv. standi fyrir sínu að því leyti til og sé hægt að vísa þessum ásökunum til föðurhúsanna að nokkru leyti, enda vill nú svo til með þessa ágætu stofnun, þó að ég ætli ekki að fara að ræða hennar störf hér yfirleitt, að kannske hefur nú einhvern tíma einhverjum þótt sem eitthvað væri ófullkomið hjá þeirri ágætu stofnun og stæðist kannske ekki alveg nákvæmlega og væri kannske ekki einu sinni frambærilegt þegar litið væri til þess sem gerst hefur. En nóg um það.

Ég vil aðeins koma hér inn á það — vegna þess að það hlýtur alltaf að vera svo þegar orkumál eru rædd, þá hljótum við þm. Austurl. að finna nokkuð til í öllum okkar orkuskorti — að minnast einmitt á þau heimildarlög sem við fengum hér samþykkt og fögnuðum á sínum tíma um Bessastaðaárvirkjun. Lýst hefur verið yfir af þeim, sem þar unnu, að í raun og veru liggi nú fyrir allt að fullnaðarhönnun um þá virkjun, þar þurfi í rann aðeins ákvörðunartöku. Þá er auðvitað gremjulegt og von að austfirðingar geri um það margar ályktanir, hvers vegna ekki sé nú gert eitthvað í þessum málum, hvers vegna alltaf er haldið áfram að rannsaka og rannsaka, en síðan ráðist í eina stórvirkjunina enn á suðvesturhorninu. Menn auðvitað greinir á um það, hvers vegna þetta er svona, málið er ekki lengra komið. Þeir, sem hafa unnið að hönnun þessarar virkjunar af hálfu þess fyrirtækis sem þar hefur að unnið, segja að allar niðurstöður liggi nú fyrir. Aðrir eru með ýmsar mótbárur um, að þarna þurfi betur að athuga, af því að það þurfi að athuga betur með Fljótsdalsvirkjun og aðrar stærri virkjanir sem kæmu þar til greina. Hinir segja okkur að þarna standi þeirra starf ekkert í vegi, hreinlega ekkert þar í vegi og hindri ekki neinar frekari framkvæmdir í þeim málum, ekki einu sinni stóru LSD-virkjunina þarna eystra sem suma hefur dreymt ákaflega mikið um. Og því er von að menn greini á um það, hvað í raun og veru þurfi til þess að við fáum þarna virkjun til að sinna okkar orkumarkaði og bæta úr þeim orkuskorti sem er í dag, hvort við fáum virkjun til þess, hvort enn þurfi að rannsaka og rannsaka til þess eins eða hvort þarna sé um eitthvert viljaleysi að ræða, sem ég vil alís ekki trúa á hæstv. iðnrh., eða hvort aðilar, sem að þessu vinni, séu í raun og veru alltaf með það í huga að draga þetta á langinn þangað til fyrir liggi nógu góðar rannsóknir fyrir hreina stórvirkjun á þessu svæði og með þá vitanlega stóriðju í huga um leið. Eitthvað af þessu er vitanlega rétt, því að ég trúi a. m. k. enn og vil trúa enn þeim fullyrðingum þeirra, sem hér hafa mest og best að unnið, að það standi ekki svo margt í vegi fyrir því og þurfi ekki svo miklar viðbótarathuganir til þess að hægt sé að ráðast í þessa virkjun.

Ég vildi aðeins koma þessu að hér, vegna þess að hér er rætt um heimildarlög um virkjanir og þá um leið, að í sporum þeirra ágætu þm., sem flytja þetta frv., væri ég ekki óskaplega áfram um það að fá þetta samþ. hér. Ef þeir færu tæp þrjú ár aftur í tímann, til þeirra tíma sem heimild um Bessastaðaárvirkjun var samþ. hér, þá ættu þeir nú að hugsa um hvaða gildi í raun og veru þetta hefði.