21.03.1977
Efri deild: 52. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2681 í B-deild Alþingistíðinda. (2016)

101. mál, virkjun Hvítár í Borgarfirði

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Ég tel ástæðu til þess út af ummælum hv. þm. að taka það skýrt fram, að leyfi fyrir virkjun Hrauneyjafoss er ekki byggt á þeirri forsendu að þriðji kerskáli verði byggður við álverið í Straumsvík. Þó að þessi þriðji kerskáli yrði ekki reistur á næstu árum var engu að síður nauðsynlegt að veita leyfi fyrir Hrauneyjafossvirkjun. Ástæðan er sú, að orkuspár benda til þess að um eða upp úr 1980 verði fullnýtt fyrst afl og síðar orka bæði Sigölduvirkjunar og Kröfluvirkjunar, þannig að eftir 4 ár þurfi ný virkjun að vera tekin til starfa vegna almenningsnotkunar og vegna atvinnuveganna sem nota meira og minna rafmagn sem kunnugt er. M. ö. o.: leyfi fyrir virkjun Hrauneyjafoss var nauðsynlegt þó að engin ný stóriðja eða stækkun álversins kæmi til. Hins vegar er það svo, að nú er nauðsynlegt fyrir okkur, ef við viljum ekki vera dæmdir til að lifa í sífelldum orkuskorti, að reisa orkuver af þeirri fyrirhyggju að það sé nokkuð við vöxt og nægi til þess að taka á móti aukinni orkunotkun almennings og atvinnuveganna um nokkurra ára skeið frá því að virkjunin tekur til starfa. Ég ætla að bæði þegar Írafossvirkjun í Sogi og annar áfangi Laxárvirkjunar tóku til starfa á árunum milli 1950 og 1960, þá væru báðar þessar virkjanir þannig við vöxt. Þær voru ekki fullnýttar um leið og þær tóku til starfa, heldur entust þær í 6–7 ár a. m. k. Þetta sjónarmið verðum við auðvitað að hafa í huga og við verðum að kveða niður þá villukenningu, sem því miður verður stundum vart nú í dag í umr. um raforkumálín, að við eigum aldrei að virkja stærra en svo að virkjunin sé fullnýtt um leið og hún tekur til starfa. Það er auðvitað að dæma íslensku þjóðina til ævarandi orkuskorts ef þeirri villukenningu væri fylgt. Ef hins vegar yrði ákveðið að stækka álverið í Straumsvík þannig að þriðji kerskálinn yrði byggður til viðbótar, þá mundi það auðvitað þýða að kaupa yrði og koma fyrir þriðju vélasamstæðu í Hrauneyjafossvirkjun fyrr en ella. Eins og kunnugt er var nú veitt virkjunarleyfi fyrir tveimur vélasamstæðum, hvorri 70 mw. eða 140 mw. samtals, en í áætlun um þessa virkjun er gert ráð fyrir að mögulegt sé að bæta við síðar þriðju vélasamstæðunni, líka 70 mw. Þetta vildi ég láta koma hér skýrt fram, að leyfi fyrir virkjun Hrauneyjafoss er ekki byggt á þeirri forsendu að þriðji kerskálinn í álverinu verði byggður, heldur var þetta leyfi nauðsynlegt vegna almennrar notkunar.