21.03.1977
Neðri deild: 61. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2686 í B-deild Alþingistíðinda. (2023)

Umræður utan dagskrár

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal að sjálfsögðu verða við þeim tilmælum að hafa mál mitt stutt, en ég átti von á því að hæstv. utanrrh. yrði hér til þess að hlýða á fsp. sem ég vildi beina til hans.

S.l. fimmtudagskvöld, hinn 17. þ. m., flutti Ríkisútvarpið stuttorða frétt sem hlaut að vekja nokkra athygli. Heimildarmaður að fréttinni var Karl Steinar Guðnason í Keflavík. Fréttin var á þessa leið:

„Í dag kom 30 lesta vélbátur, Aðalbjörg HU-25, í Keflavíkurhöfn og tók 15 lestir af sprengiefni frá varnarliðinu. Sprengiefni þessu á að eyða með því að sökkva því í sjó út af svonefndum Hraunum.“

Næsta kvöld, 18. þ. m., flutti Ríkisútvarpið aðra frétt um málið og var heimildarmaður Þórður Ásgeirsson skrifstofustjóri í sjútvrn. Sú frétt var svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Í gær var skýrt frá því í fréttum útvarps, að Aðalbjörg HU-25, 30 lesta vélbátur, hefði komið til Keflavíkur og tekið 15 lestir af sprengiefni frá varnarliðinu, sem ætlunin hafði verið að sökkva í sjó út af svonefndum Hraunum. Lögum skv. er óheimilt að losa í sjó frá íslenskum skipum ýmis efni, þ. á m. sprengiefni. Sjútvrn. leitaði því í dag til varnarmáladeildar utanrrn. og bað deildina að krefjast skýrslu frá varnarliðinu um það, hverju hefði verið varpað í sjóinn. Skýrslan liggur ekki fyrir, en varnarmáladeildin skýrði sjútvrn. svo frá, að þarna hefði ekki verið um sprengiefni að ræða, heldur málmhólka utan af skotfærum. Engin lög mæla gegn því að slíkum hólkum sé fleygt í sjó.“

Þriðja frétt Ríkisútvarpsins um mál þetta kom svo í hádegisfréttum á laugardag og var heimildarmaður Svend Aage Malmberg haffræðingur. Þar sagði svo:

„Í fréttum útvarpsins í gærkvöldi var sagt frá ferð vélbátsins Aðalbjargar HU-25 út á Faxaflóa, sem farin var í fyrradag til að losa drasl frá varnarliðinu í sjóinn. Efnislega mátti skilja fréttina þannig, að ekkert væri við slíkt að athuga og þar væri farið að lögum þar sem ekki væri um sprengiefni að ræða. Svend Aage Malmberg haffræðingur hafði samband við fréttastofuna í morgun og fullyrti að þetta væri á einhverjum misskilningi byggt þar sem losun í sjóinn frá skipum er háð eftirliti yfirvalda hverju sinni, hvaða efni sem í hlut á. Af þessu tilefni vildi hann vekja athygli á því, að íslendingar séu aðilar að svonefndum Oslóarsáttmála um eftirlit með losun í Norður-Atlantshaf. Í sáttmálanum er í þremur greinum fjallað um efnin sjálf og aðferðir við leyfilega losun sumra þeirra. Í 1. gr. eru talin upp þau efni, sem algjört bann liggur við að losa í sjó. Í 2. gr. eru talin upp efni, sem losa má í sjó gegn leyfi viðkomandi yfirvalda að fullnægðum vissum skilyrðum. Meðal þessara efna eru arsenik, blý og aðrir þungir málmar, svo og hvers kyns skordýraeitur. Í þessum flokki eru einnig umbúðir, eins og þynnur, olíuföt og steypublokkir og annað drasl, sem getur valdið tjóni á grunnmiðum, bæði á hafsbotni og í veiðarfærum við skipshlið og innan borðstokks. Tekið er fram að síðastnefndu hlutina skuli ávallt losa á svonefndu djúpsævi. Djúpsævi er síðan skilgreint nánar, sem er a. m. k. á 200 m dýpi og 150 sjómílur frá næsta landi, og þarf báðum skilyrðum að vera fullnægt. Í 3. gr. Oslóarsáttmálans er til frekara öryggis fjallað um ýmsar aðstæður sem taka ber tillit til ef leyfi er veitt til losunar í sjó. Þ. á m. er eðli efnanna og magn, haffræðiatriði á viðkomandi slóð og hvernig losunin skuli fara fram.“

Því má bæta við, að Oslóarsáttmálinn hefur verið staðfestur sem lög frá Alþingi.

Fjórða og síðasta frétt Ríkisútvarpsins um málið, örstutt, kom þar í 10-fréttunum á laugardagskvöld. Hún var þannig:

„Siglingamálastofnun ríkisins mun eftir helgina rannsaka hvers konar úrgangi bandaríski herinn lét sökkva í sjó í Faxaflóa nú fyrir helgina í trássi við lög og reglugerðir og án þess að tilkynna íslenskum yfirvöldum.“

Við lestur þessara fjögurra frétta vakna óneitanlega ýmsar spurningar sem ég vil biðja hæstv. utanrrh. og hæstv. sjútvrh. raunar líka að hugleiða, enda þótt þeir séu e. t. v. ekki viðbúnir að svara þeim öllum nú á þessari stundu.

Í fyrsta lagi: Er það svo, eins og nærri liggur að álykta, að hvorki ábyrgðarmönnum í sjútvrn. né í varnarmáladeild utanrrn. sé nægilega kunnugt um ákvæði Oslóarsáttmálans um eftirlit með losun eiturefna og úrgangsefna í Norður-Atlantshaf?

Í öðru lagi: Hefur láðst að gera ameríska setuliðinu grein fyrir þeim reglum sem þar um gilda, eða eru ráðamenn þar vísvitandi að brjóta lög?

Í þriðja lagi: Hvernig er af Íslands hálfu háttað eftirliti með þeim mikla og margvíslega úrgangi sem Bandaríkjaher á Keflavíkurflugvelli telur sig þurfa að losna við?

Og síðast en ekki síst: Hefur hæstv. utanrrh. ákveðið að láta kanna þetta ákveðna tilvik sem hér um ræðir? Hefur hann e. t. v. gert það nú þegar, eða hyggst hann gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir að herliðið dreifi eftirlitslaust úrgangi sínum, margvíslegum úrgangi og margvíslegum óþrifum af ýmsu tagi, um landið eða í hafið við strendur þess?