21.03.1977
Neðri deild: 61. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2694 í B-deild Alþingistíðinda. (2029)

194. mál, atvinnuleysistryggingar

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Hér eru til umr., má segja, tvö frv. sem eru fram komin vegna þeirrar breytingar sem gerð var á lögum um atvinnuleysistryggingar vorið 1975, þ. e. a. s. að bæta inn í þau lög ákvæðum um greiðslu á fæðingarorlofi. Það er kannske vonum seinna að mál þetta beri á góma hér á Alþ., vegna þess að að mínu viti voru þau lög, sem samþ. voru vorið 1975 og komu til framkvæmda 1. jan. 1976, þannig úr garði gerð að það var augljóst öllum, sem eitthvað þekktu til laga um atvinnuleysistryggingar og framkvæmdar þeirra, að það mundi vera erfitt eða nær ómögulegt að framkvæma þessi lög sem troðið var inn í bálkinn um atvinnuleysistryggingar.

Þegar þessi lög voru til umr. á sínum tíma fyrir tveimur árum voru engar deilur um nauðsyn þess að vinnandi konur í landinu fengju rétt til fæðingarorlofs. Var lögð áhersla á af ýmsum, þ. á m. mér, að þessi réttur ætti að vera einn og hinn sami fyrir allar konur og ætti eðli málsins samkvæmt heima sem sérstakur hluti af lögum um almannatryggingar, en engan veginn í jafnfjarskyldum lögum eins og lögin um atvinnuleysistryggingar eru. Það var sem sagt þá eindregin skoðun mín, að lög um fæðingarorlof ættu að falla undir almannatryggingar, en engan veginn að fjármagnast og falla inn í lög um atvinnuleysistryggingar. Ég minnist nú þess, að ég sagði það við fyrsta flm. frv. á sínum tíma í gamni og kannske einnig nokkurri alvöru, að lög sem þessi ættu kannske alveg eins vel heima í lögunum um slysatryggingar, líka vegna þess að það eru atvinnurekendur sem greiða þangað, því að það voru einu rökin að atvinnurekendur greiddu í Atvinnuleysistryggingasjóðinn. Ég greiddi atkv. á sínum tíma gegn því að Atvinnuleysistryggingasjóður yrði látinn fjármagna þetta mál. Að sjálfsögðu var ávallt sjáanlegt að veruleg vandkvæði mundu verða á framkvæmd þessa máls sem á þennan hátt var troðið inn í önnur lög um alveg óskylt efni.

Nú er komið fram frv. um breyt. á lögunum vegna ágreinings sem fram hefur komið. Ég vil að gefnu tilefni, bæði vegna orða, sem hér féllu áðan hjá 1. flm. þessa frv., og einnig vegna þess, sem fram kemur í grg með frv., taka þar nokkur efnisatriði til athugunar.

Í grg. segir með leyfi hæstv. forseta: „Hin nýju lög mæltu svo fyrir, að Atvinnuleysistryggingasjóður stæði undir þriggja mánaða launum til kvenna, sem forfölluðust frá vinnu vegna barnsburðar. Skyldu greiðslurnar skv. lögum vera í formi atvinnuleysisbóta. Heilbr.- og trmrn. gaf út reglugerð skv. hinum nýju lögum. Gengið var út frá því við setningu laganna sem og reglugerðarinnar, að bætur þessar greiddust eðli sínu samkvæmt óháðar tekjum maka og óháðar bótum almannatrygginga.“

Þetta er fullyrt í grg. Ég veit ekki til að það hafi hið minnsta verið í lögunum sjálfum sem gerði ráð fyrir því, að þannig skyldi með þetta farið. Lögin eru ákaflega skýr og einföld í þessu atriði. — Síðan segir áfram í grg.:

„Allt árið 1976 voru lögin framkvæmd samkvæmt þessum skilningi, en í jan. s. l. gerði stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs samþykkt, sem gekk þvert á þennan skilning og varð til þess að nú hafa greiðslur til þessa fólks verið stöðvaðar. Þetta hefur að vonum sætt megnri óánægju og hörðum mótmælum kvenna.“

Þetta var endurtekið í framsöguræðunni áðan og fullyrt að þetta frv. til breyt. á lögum um atvinnuleysistryggingar (fæðingarorlof) væri flutt til þess að staðfesta að svona skyldi staðið að málum og kæmi náttúrlega fram vegna þessa ágreinings. Hér álít ég að komi fram í þessari grg. og einnig í því, sem sagt var hér áðan, aðdróttanir í garð stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs — ég á sæti í þeirri stjórn — sem eru algjörlega óréttmætar. Í fyrsta lagi er það einvörðungu fullyrðing og ekkert annað en fullyrðing að bætur vegna fæðingarorlofs hafi verið greiddar svona allt árið 1976. Hvaðan þessi vitneskja er fengin er mér algjörlega ókunnugt um og væri gott að fá svolítið meiri rökstuðning fyrir svona fullyrðingu. Ég er ekki að fullyrða að hún sé röng, en ég fullyrði aðeins að hér er um fullyrðingu að ræða og ekkert annað en fullyrðingu.

Það eru engin ákvæði, hvorki í lögunum né hinni svokölluðu reglugerð, sem sett var eftir samþykkt fæðingarorlofslaganna, það er ekkert á hvorugum staðnum sem renni stoðum undir að stjórnin hafi gert rangt í þessum efnum — ekkert. Ég ætla nú af hlífð við ýmsa aðila ekki að ræða hér reglugerð þá sem sett var samkvæmt þessum lögum — svokallaða reglugerð. Ég vil aðeins segja mína skoðun á því, að ég álít að þessi reglugerð eigi ekki stoð í lögunum. Í þessu efni er held ég fróðlegt aðeins að rifja upp og athuga, einkum fyrir þá sem máske þekkja minna til þessara mála, en hafa hins vegar talið sig hafa býsna mikla þekkingu á þeim, að rifja upp hvernig stjórn og meðferð þessara mála öll er.

Ég vil þá fyrst nefna að samkvæmt 3. gr. laganna sjálfra — atvinnuleysistryggingalaganna, svo það er ekki nein ráðstöfun stjórnarinnar, heldur beint lagaákvæði, þá fer Tryggingastofnun ríkisins með allt reikningshald og daglegan rekstur Atvinnuleysistryggingasjóðs.

Í öðru lagi eru það úthlutunarnefndir víðs vegar um landið sem annast úthlutun bóta. Þessar úthlutunarnefndir eru skipaðar fulltrúum verkalýðsfélaganna og atvinnurekenda. Það eru þessar úthlutunarnefndir sem úrskurða bætur. Þegar úthlutunarnefnd hefur úrskurðað bætur eru úrskurðir hennar og umsóknir, sem hún hefur úrskurðað, sendar til umboðsmanna Tryggingastofnunarinnar hér í Reykjavík til Tryggingastofnunarinnar sjálfrar. Þessir umboðsmenn yfirfara alla úrskurði og ganga úr skugga um eða eiga a. m. k. að ganga úr skugga um að rétt sé að staðið, bæði varðandi réttindaúrskurð og bótaupphæðir. Eftir að þeir hafa gert þetta er svo greiðslu vegna bótanna ávísað til úthlutunarnefndar sem annast greiðslurnar til einstaklinganna. Stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs hefur ekki á hendi úthlutun bóta og hún kemur ekki nærri þessum málum nema henni berist óskir um úrskurði frá bótaúthlutunarnefnd, frá umboðsmönnum Tryggingastofnunar eða einstaklingum sem kært hafa yfir að þeirra dómi röngum úrskurðum. Eins tekur svo stjórnin auðvitað til meðferðar mál ef hún sér ástæðu til að halda að ekki hafi verið farið að settum reglum. Þetta er hlutur stjórnar atvinnuleysistryggingasjóðs varðandi úthlutun bóta samkvæmt atvinnuleysistryggingalögum.

Þetta rifja ég upp vegna þess að ég vil að menn viti hverjar þessar reglur eru og síðan hvernig stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs úrskurðar ágreining um þau sérstöku efni, sem hér eru til umr., á grundvelli laganna. Til þess að skýra það ofurlítið nánar vil ég geta þess, að á fundi stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, sem haldinn var 6. okt. s. l., segir svo í fundargerðinni, það er 10. töluliður fundargerðarinnar, með leyfi hæstv. forseta:

„Lagt fram bréf úthlutunarnefndar Siglufjarðar„ dagsett 10. sept. 1976, bréf bæjarfógetans á Akranesi, dagsett 1. okt. 1976, og skýrt frá efasemdum um hvort tekjur maka skuli hafa áhrif á greiðslu fæðingarorlofs. Stjórnin samþykkir að fara þess á leit við forseta lagadeildar Háskóla Íslands að hann láti í ljós álit sitt á hvernig með þessi mál skuli fara lögum samkvæmt eða bendi á annan fræðimann til þess.“

Hér sem sagt ber málin þannig að, að úthlutunarnefnd, í þessu tilviki á Siglufirði, og umboðsmaður Tryggingastofnunarinnar á Akranesi óska eftir áliti stjórnarinnar um tiltekin atriði varðandi úrskurðun bóta í fæðingarorlofi.

Ég ætla ekki að fara að rekja hér önnur atriði en þau, sem snerta beint það sem þessi frv. fjalla um, þ. e. a. s. skerðingarákvæðin vegna tekna maka. Það voru ýmis önnur atriði sem við ræddum í stjórninni og einnig var vísað til forseta lagadeildar til umsagnar.

Í fundargerð stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs frá 8. des., þá segir svo, með leyfi forseta: „Lögð fram álitsgerð Stefáns Más Stefánssonar borgardómara, setts prófessors, dagsett 9. nóv. 1976, um þau atriði sem beint var til forseta lagadeildar Háskóla Íslands samkvæmt 10. lið fundargerðar frá 6. okt. 1976.“

Þá hefur stjórninni borist umsögn sem forseti lagadeildarinnar fól Stefáni Má Stefánssyni að gera varðandi þessi efni. Þessi álitsgerð er dagsett 9. nóv., skömmu eftir að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hafði haldið sinn nóvemberfund. Eitt af þeim atriðum, sem spurt er um í þessu efni, og fyrsta álitaefnið er hvort tekjur maka skuli hafa áhrif á greiðslu fæðingarorlofs, sbr. nánar áminnst bréf, dags. 11. okt. s. l. þegar forseta lagadeildar er send þessi beiðni.

Ég ætla ekki að fara að lesa álitsgerðina í heild. eða fara inn á önnur atriði í henni, en niðurstaða Stefáns Más Stefánssonar, sem er settur prófessor við lagadeildina, um þetta fyrsta álitaefni: Tekjur maka eiga að hafa áhrif á greiðslu fæðingarorlofs samkvæmt ákvæðum á liðar 16. gr. laga nr. 57/1973. Lagagrundvöll brestur alveg fyrir annarri niðurstöðu.“ Þetta segir borgardómarinn, settur prófessor við Háskóla Íslands, um þetta ágreiningsefni.

Þegar þetta lá fyrir og stjórnin hafði rætt það, stjórnarmenn haft það til athugunar milli funda m. a. og kannske fyrst og fremst til að bera sig saman við umbjóðendur sina, annars vegar stjórn Alþýðusambandsins og hins vegar stjórn Vinnuveitendasambandsins, en báðir þessir aðilar skipa menn í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs, þá var málið tekið aftur fyrir á fundi 12. jan. s. l. og þá var samþykkt að senda úthlutunarnefnd og umboðsmönnum umburðarbréf um þau atriði sem gæta þurfti við úthlutun bóta í fæðingarorlofi. Þar var tekið fram um það atriði í niðurstöðum Stefáns Más Stefánssonar, sem ég gat um áðan, og tvö eða þrjú önnur atriði sem hann hafði fjallað um og stjórnin var honum alveg sammála um að rétt væri.

Með þessu máli mínu vil ég aðeins sýna það og sanna að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hefur gert hér í öllum atriðum rétt og að mínu viti staðið nákvæmlega rétt að málum. Hún gat auðvitað úrskurðað þessi efni sjálf og var að mestu leyti sammála um hvernig þau skyldu úrskurðuð. En til frekara öryggis er leitað umsagnar lagadeildar Háskóla Íslands sem í öllum atriðum staðfestir skoðun stjórnarinnar. Þeir, sem vefengja, að hér hafi verið staðið rétt að málum, og eru með aðdróttanir, eins og ég vil telja að sé í grg. frv. og einnig í máli hv. 1. flm. áðan, hefðu einfaldlega getað átt þá leið að kæra og óska staðfestingar dómstóla á því hvort þetta stæðist eða ekki. En ég held að einmitt sönnun fyrir því, að þessir aðilar eru í rauninni sammála stjórninni um að þetta séu réttir úrskurðir, sé að ekki skyldi leitað úrskurðar dómstóls, sem auðvitað lá beint fyrir, og satt að segja átti stjórnin ekki von á neinu frekar en það yrði gert til þess að fá endanlega úr þessum málum skorið.

Þetta vildi ég sagt hafa um það, hvernig stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hefur staðið að þessum málum, og geri það að gefnu tilefni. Hins vegar er svo það, hvort þessi skerðingarákvæði eru réttlát eða ekki. Að mínum dómi eiga þessi skerðingarákvæði alls ekki að vera.

Ég get sagt það svona rétt innan sviga, að út af fyrir sig fagna ég því að margir af flm. þessa frv., sem hér er til umr., skuli vera þeirrar skoðunar að það þurfi alveg sérstakar bætur til fólks í þessu efni, sem hefur þó í tekjur tvöfaldan taxta Verkamannafélagsins Dagsbrúnar, en tvöfaldar tekjur þessa taxta gefa núna tæpa eina og hálfa millj. kr. í árstekjur. Það er út af fyrir sig ágætt og ég fagna því að það skuli vera staðfest hér, að vissulega þurfi þessi taxti sérstakar uppbætur. Það mun þá væntanlega ekki standa á því, þegar nú er farið fram á að þessi taxti fái rösklega 30% hækkun, að það nái fram að ganga, þegar tvöfaldur taxtinn, 100% hækkun, er ekki talinn nægja.

Ég álít að þessi skerðingarákvæði eigi ekki að vera og get fært mörg rök að því, en þó alveg sérstaklega þau rök, að að mínum dómi, og það hefur verið yfirleitt skoðun stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, á sérhver sjóðfélagi að vera sjálfstæður aðili að sjóðnum í hlutfalli við greiðslur. Það má geta þess, að þegar lögin voru sett og nokkur ár þar á eftir, — þau eru sett 1956 eins og flestum er víst ljóst, — þá voru þessi skerðingarákvæði þannig að maður, sem hafði haft ákveðnar tekjur, sem líka var tvöfaldur lægsti taxti Dagsbrúnar, hann átti ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Vegna þess, hve lágar þessar tekjur voru orðnar, einkanlega á árunum 1967–1968, var þetta ákvæði afnumið og menn fá nú atvinnuleysisbætur án tillits til eigin tekna. Skerðingarákvæðin hafa hins vegar haldist að þessu leyti, þegar um maka er að ræða. En þau eiga einnig að falla burt þar, það er mín skoðun. Þessi mörk, sem þarna eru sett eru í raun og veru of lág, fyrst og fremst vegna þess að kaupið er allt of lágt og ef við höfum það í huga, að t. d. hér í Reykjavík er talið að verkamenn afli 40% af tekjum sínum með yfirvinnu. En í þessum skerðingarákvæðum er aðeins miðað við dagvinnutekjurnar.

Þetta vildi ég segja um þessar skerðingarreglur út af fyrir sig. En það er fjöldamargt annað í lögunum um atvinnuleysistryggingar sem enn þarf að lagfæra, þó að margt hafi verið lagfært og fært til betri vegar frá því sem áður var. Sitt hvað er hér jafnvel furðulegt. Við getum t. d. nefnt að hér sé um hjón að ræða sem hafi haft í tekjur 2 milljónir hvort um sig. Ef annað verður atvinnulaust, en hitt hefur atvinnuna áfram, þá fær sá atvinnulausi ekki bætur og ekki heldur fæðingarorlof. En verði þau bæði atvinnulaus, missi bæði tekjurnar, þá er allt í lagi, þá fá þau atvinnuleysisbætur. Ef bóndinn væri atvinnulaus og þó hann hefði haft 4–5 millj. kr. í árstekjur þá fengi konan fæðingarorlof. Þetta eru auðvitað agnúar sem þarf að taka til endurskoðunar og lagfæra. Það er fjöldamargt annað, sem ég ætla ekki að tefja hér með á að nefna.

En það, sem mér finnst fráleitt — hreinlega fráleitt við það frv. sem hér er til umr., er að flm. þessa frv. gera aðeins till. um að skerðingarákvæði varðandi tekjur maka skuli falla niður þegar um fæðingarorlof er að ræða, en standa eftir sem áður ef konan eða maðurinn verður atvinnulaus. Það er ekkert verið að huga að því. Atvinnulaus kona má áfram þola skerðingarreglurnar, en ef um fæðingarorlof er að ræða, þá skulu þær felldar niður. Ég álít að hér sé um að ræða mistök hjá hv. flm. sem þeir ættu ekki að ræða frekar og þess vegna í þessu efni að fallast á það frv. sem hv. þm. Svava Jakobsdóttir flytur hér, en þar er einmitt skerðingin afnumin varðandi bæði fæðingarorlofið og eins atvinnuleysisbæturnar. Ef á hér að hrófla við, þá verður að gera það á þennan hátt. Það, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, er algerlega óþolandi mismunun og ég skil ekki í hv. flm. að koma ekki auga á að svona er ekki hægt að standa að málum.

Ég vil aðeins lýsa yfir að ég er enn sem fyrr algerlega andvígur því, að það eigi að greiða fæðingarorlof úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Af mörgum ástæðum tel ég mig málsvara Atvinnuleysistryggingasjóðs. Ég var við þegar samið var um þessi mál í hörðu verkfalli 1955, taldi mig eiga töluverðan hlut að þeim samningum. Ég hef átt sæti í stjórn sjóðsins síðan, og mér er umhugað um að ekki verði rifið niður það góða verk sem unnið var þegar Atvinnuleysistryggingasjóðurinn var settur á laggirnar. En það vil ég segja, að ég álít að höfuðtilgangi Atvinnuleysistryggingasjóðs sé beinlínis stefnt í hættu með því að binda honum ávallt og sífellt nýja bagga.

Hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir kom aðeins inn á þessi mál áðan í sinni framsöguræðu og gat nokkurra talna um tekjur sjóðsins. Hún gat hér um atriði sem hefðu verið lögð á Atvinnuleysistryggingasjóð, m. a. starfsþjálfun og kostnað við endurhæfingarnámskeið. Það verð ég að segja, að þetta eru sjálfsagðir hlutir. Þetta er gert til þess að fólk þurfi ekki að vera á atvinnuleysisbótum, heldur sé hægt að endurþjálfa það til annarra starfa og það geti komist inn á vinnumarkaðinn aftur, en þurfi ekki að ganga atvinnulaus. Það er tilgangurinn með þessum ákvæðum og er þess vegna í beinu sambandi við höfuðtilgang sjóðsins, sem hefur alla tíð verið, og stefnu, sem stjórnin hefur rekið, þ. e. annars vegar að sjá til þess, að sjóðurinn geti staðið undir frumskyldum sínum að greiða atvinnuleysisbætur, í öðru lagi að nota fjármagn sjóðsins til þess að stuðla að því að atvinna á hinum ýmsu stöðum í landinu geti verið sem öruggust, að ekki þurfi að koma til atvinnuleysis, og það hefur hún gert með lánum til atvinnuveganna og margs konar framkvæmda. Ég fullyrði að í þessum efnum hefur oft og tíðum verið bægt frá atvinnuleysi sem annars hefði orðið, ef ekki hefði til þessarar fyrirgreiðslu komið. Á sama hátt eru einmitt þær greiðslur til þessara endurþjálfunarnámskeiða, starfsþjálfunarnámsskeiða sem var getið um áðan. En síðan eru ýmsir aðrir baggar. Til þessara hluta hafa farið mjög smávægilegar greiðslur, ákaflega litlar enn sem komið er, svo að þær hafa ekki verið neinir baggar á sjóðnum.

Varðandi fjárhag og tekjur og gjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs, eins og þau eru núna samkv. fjárlögum ársins 1977, vil ég aðeins geta nokkurra talna svo að menn geti séð hvar sjóðurinn er á vegi staddur. Ég vil endurtaka, að þetta er byggt á fjárl., en reikningar sjóðsins eru nú af einhverjum ástæðum teknir inn í fjárlög, sem út af fyrir sig ætti kannske ekki endilega að vera.

Á þessu ári, 1977, eru iðgjöld atvinnurekenda áætluð 339 millj. kr. Sveitarfélögin greiða jafna upphæð. Síðan greiðir ríkið tvöfalda upphæð á við iðgjöld atvinnurekenda, framlag ríkissjóðs er áætlað 678 millj. kr. Vaxtatekjur eru áætlaðar um 350 millj. kr. Samtals gerir þetta tæplega 1700 millj. kr.

Útgjöldin eru áætluð þannig, að bótagreiðslur eru áætlaðar 885 millj. kr. Í þessu efni vil ég aðeins geta þess, að heildarbótagreiðslur á liðnu ári, 1976, námu samtals rösklega 400 millj. kr., og var þó í raun og veru talið að ekkert atvinnuleysi væri á því ári. Hér er um allar bótagreiðslur að ræða og m. a. fæðingarorlofið sem í heild gerði 135 millj. kr. á liðnu ári, en á áreiðanlega eftir að hækka verulega frá þeirri tölu á þessu ári vegna þess að það er ekki nema hluti af þeim, sem eiga þennan rétt, sem enn þá hefur gert sér ljóst, að rétturinn er fyrir hendi, þannig að ef allir hefðu verið jafnvel vakandi og þeir sem best hafa verið vakandi í þessum efnum, þá væri þessi upphæð að mínu viti áreiðanlega ekki undir 200 millj. kr. á árinu 1976. En sem sagt, gjöldin eru áætluð þannig, að bótagreiðsla er 885 millj., og ég verð að segja að þetta sé mjög varlega áætlað. Það má ekkert út af bera varðandi atvinnuástand til þess að þetta verði ekki margföld þessi upphæð. Eftirlaun aldraðra samkv. sérstökum lögum eru áætluð 300 millj., önnur gjöld 45 millj. og tekjuafgangur 466 millj., sem er sama niðurstaða, tæpar 1700 millj.

Hvernig er gert ráð fyrir að þessu ráðstöfunarfé verði varið? Það er þá í fyrsta lagi tekjuafgangurinn 466 millj., afborganir 120 millj. eða samtals til ráðstöfunar 586 millj. kr. Fyrir utan það, sem hér hefur verið sagt, er lögboðið að sjóðurinn á að kaupa bankavaxtabréf af Byggingarsjóð:i ríkisins fyrir sömu upphæð og ríkissjóður greiðir í iðgjöld eða 678 millj. kr. Þetta er lögboðið og sjóðsstjórnin hefur ekki neinn ráðstöfunarrétt yfir því. Með þessu er greiðsluhalli á sjóðnum árið 1977 92 millj. kr. Þá er ekki gert ráð fyrir einu einasta láni, hvorki til atvinnuveganna né sveitarfélaganna, sem hafa fengið drjúgan skilding í lán til ýmissa framkvæmda. Og í því efni vil ég endurtaka það sem ég sagði hér við umr. vorið 1975, að ég álít að með þessu framferði, þessari þróun verði raunverulega kippt burt þeim möguleika, að sveitarfélögin greiði þessar upphæðir áfram og fjármagn sjóðsins muni af þeim sökum takmarkast mjög. Samkv. þessu er ekki um eitt eða neitt að ræða, að sjóðurinn geti séð fyrir neinni fyrirgreiðslu með lán, og hann er mjög tæpt staddur ef eitthvað ber út af í atvinnuástandinu til verri vegar, — afar tæpt staddur.

Menn segja kannske að þetta sé geysilega stór sjóður, höfuðstóll hans sé mikill. Það er rétt. En hann er ávaxtaður á þann hátt, eins og ég hef hér sagt frá, að helmingurinn af iðgjöldunum fer alltaf í kaup á bréfum Byggingarsjóðs beint, og svo eru þeir baggar sem hér hafa verið taldir. Mér sýnist nú að fæðingarorlofið muni á þessu ári verða bróðurparturinn af öllum iðgjöldum atvinnurekenda til sjóðsins. Og önnur upphæð álíka fer í greiðslu til eftirlauna aldraðra. Staða sjóðsins um áramótin var þannig, að í sjóði voru þá tæpar 350 millj. kr. og raunar þar af 120 millj. kr. bundið fé, sem við skulum segja samt að væri hægt að losa um, en þó bundið.

Ég hef rakið þetta hér af þeirri ástæðu að ég tel, að það sé alveg nauðsynlegt að menn, sem eru að fást við þessi mál, viti eitthvað ofurlítið meira um Atvinnuleysistryggingasjóðinn, möguleika hans, eðli hans, áður en rokið er til — mér liggur við að segja með mjög gott mál, í lýðskrumstilgangi hreinlega, staðsetja það á jafnvitlausum stað eins og hér hefur verið gert. Ég álít að það sé nú kannske frekar en nokkru sinni brýn nauðsyn að sjá fæðingarorlofinu fyrir öðrum tekjustofnum og láta það ná til allra kvenna og sameina það almannatryggingunum. Þetta er sú stefna sem Alþ. á að miða að. Og það mætti kannske í því sambandi spyrja um hvað líði þeirri athugun, sem sett var í bráðabirgðaákvæði þessara laga á sínum tíma. Ég man ekki nákvæmlega hvernig það var. Ég held að fyrir 1. jan. 1976 hafi átt að fara fram athugun á því að fjármagna fæðingarorlofið með öðrum hætti og láta það ná til allra kvenna í landinu.