21.03.1977
Neðri deild: 61. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2706 í B-deild Alþingistíðinda. (2031)

194. mál, atvinnuleysistryggingar

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Í ræðum manna hér á undan, sem hafa verið á móti því frá upphafi að fæðingarorlof væri tekið inn í Atvinnuleysistryggingasjóð til útborgunar, kom m. a. fram að þeir töldu að sú leið, sem var valin fyrir tveimur árum, hefði ekki verið rétt. En þá hlýtur sú spurning að vakna : Hvers vegna var þessi leið valin? Svarið er ákaflega einfalt. Það var vegna þess að Alþ. hafði ekki komið sér saman um aðrar leiðir þrátt fyrir það að fyrir Alþ. hafa legið ár eftir ár þáltill. sem hnigu í sömu átt. (Gripið var fram í.) Hv. þm. Svava Jakobsdóttir sagði að meiri hl. hefði ekki verið fyrir hendi á Alþ. Það er rétt, að meiri hl. hafði ekki skapast þrátt fyrir það að einstakir þm. höfðu áhuga á þessu, svo sem best kemur fram í þingtíðindum. Þar má lesa að einstaka varaþm., sem hafa komið hér inn, hafa komið með þáltill. um að fæðingarorlof væri greitt í gegnum almannatryggingar. Þessar hugmyndir hafa ekki fengið hljómgrunn, og þess vegna var það sem við nokkrir þm. tókum okkur saman um það að freista þess á hv. Alþ., að reynt yrði að tryggja konum þennan sjálfsagða rétt, þ. e. útivinnandi konum, sem falla undir samninga Alþýðusambandsins, og að Atvinnuleysistryggingasjóður væri látinn greiða vegna þeirra fæðingarorlof.

Ég er þeirrar skoðunar og hef alltaf verið, að það væri auðvitað eðlilegast og sjálfsagt að fella fæðingarorlofið inn í almannatryggingakerfið, og það á auðvitað að ná til allra kvenna, útivinnandi sem annarra, sem þannig er ástatt um að þær þurfi á fæðingarorlofi að halda. En þetta er svo sjálfsagt að það á ekki að þurfa að taka það fram. En sú staða hefur bara ekki skapast hér á hv. Alþ. að við getum komið því í kring. Sá þingmeirihl. er ekki fyrir hendi er gæti tryggt það. Ég er þeirrar skoðunar að hann verði ekki fyrir hendi fyrr en hv. Alþ. hefur tekið afstöðu til þess að það þurfi að endurskoða allt almannatryggingakerfið og lífeyriskerfi landsmanna um leið, þannig að þetta hvort tveggja verði fellt saman í eitt samfellt kerfi sem veiti verðtryggðan ellilífeyri og greiði jafnframt fæðingarorlof.

Hér er ekki um þá fjármuni að ræða að það ætti ekki að vera auðvelt að framkvæma þetta í gegnum almannatryggingakerfið og lífeyriskerfið fyrir allar konur sem þurfa á fæðingarorlofi að halda. Það sést best á þeim tölum sem hv. 7. þm. Reykv., Eðvarð Sigurðsson, greindi frá hér áðan í sambandi við greiðslur fæðingarorlofs úr Atvinnuleysistryggingasjóði á árinu 1976. Mun ég víkja að því nánar á eftir. En ég get ekki annað en svarað hv. þm. Eðvarð Sigurðssyni nokkuð, því að ég get alls ekki fallist á þá skoðun hans m. a., að lögin, sem sett voru um fæðingarorlofið árið 1975, hefðu ekki verið ótvíræð. Ég taldi á sínum tíma og ég tel enn eðlilegt að Atvinnuleysistryggingasjóður, sem hefur hrúgað upp milljörðum kr., þ. á m. vegna iðgjaldaálags á konur, greiði fæðingarorlof, og ég segi að þessi sjóður hefur svo sannarlega greiðslugetu til þess að inna þessar greiðslur af hendi, því að sem betur fer hefur verið sáralítið atvinnuleysi hér á landi undanfarin ár og þess vegna hefur sjóðurinn verið fullfær um að greiða þetta og mun meira. Það þekkjum við best, Eðvarð Sigurðsson, sem höfum komið nálægt samningamálum og þekkjum nokkuð til þessa sjóðs, hann að vísu betur en ég þar sem hann situr í sjóðsstjórn. En ég vil vekja athygli á því í sambandi við ræðu hv. þm., að í bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins til úthlutunarnefnda atvinnuleysisbóta vegna þessa máls, sem sent var til verkalýðsfélaganna í jan. 1977, er kafli um fæðingarorlofsgreiðslur, og segir í upphafi þessa bréfs, með leyfi hæstv. forseta: „Komið hefur í ljós að mismunandi skilningur hefur verið á lögum og reglugerðum um fæðingarorlof. Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs vill því taka nokkur atriði sérstaklega fram.“ Og síðan koma þau. Þetta bréf er sent vegna Atvinnuleysistryggingasjóðs frá Tryggingastofnun ríkisins og undir það ritar starfsmaður stofnunarinnar. Þarna kemur fram í bréfi að um er að ræða mismunandi skilning sem sagt, sú stofnun, sem átti að annast þetta, er enn sömu skoðunar og við flm. þessa frv. á sínum tíma sem tryggði konum þennan rétt, að það gæti verið um mismunandi skilning að ræða. En varðandi túlkun og framkvæmd er um alveg ótvíræðan rétt að ræða, sem að mínu mati er svo ótvíræður að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs gat ekki gert það sem hún gerði í árslok 1976 og áréttaði í ársbyrjun 1977. Hins vegar töldum við flm. þessa frv., sem hér er til umr., rétt að taka af öll tvímæli og lögðum fram umræddar breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar.

Hv. þm. Eðvarð Sigurðsson ræddi nokkuð um greiðslur fæðingarorlofs og benti á hvernig þeim greiðslum væri háttað. Hann mun hafa átt við það, að greiðslurnar færu í gegnum úthlutunarnefndir einstakra verkalýðsfélaga, en það hefur verið gert samkv. ósk Tryggingastofnunar ríkisins til þess að auðvelda þessa framkvæmd, en ekki vegna þess að Tryggingastofnunin hafi tjáð verkalýðsfélögunum að hér væri um hreinar atvinnuleysisbætur að ræða, fyrr en með þeim úrskurði sem takmarkar rétt kvenna til þessara bóta eða til þessara orlofsgreiðslna.

En þegar verið er að ræða um atvinnuleysistryggingar og lög um atvinnuleysisbætur, þá er ekki hægt að komast hjá því að ræða nokkuð um núgildandi lög. Þau eru satt að segja stórgölluð. Því er víðs fjarri að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs eða atvinnuleysistrygginga hafi gætt sem skyldi að lögin væru framkvæmd, og tel ég það mjög ámælisvert. Ég nefni sem dæmi að verkalýðsfélögin vita yfirleitt ekkert um stöðu sína hjá Atvinnuleysistryggingasjóði. Það stafar af því að 7. gr. laganna hefur alls ekki verið framkvæmd, en í henni segir m. a., með leyfi forseta:

„Að lokinni samningu iðgjaldaskrár, samkv. 6. gr., skal skattyfirvald skipta heildarupphæð iðgjaldanna eftir starfsgreinum á reikninga hinna einstöku verkalýðsfélaga á staðnum.“ Enn segir: „Gera skal skrá um skiptingu þessa, sem síðan skal send Tryggingastofnun ríkisins, sem færir iðgjöldin á sérreikning verkalýðsfélaganna við Atvinnuleysistryggingasjóðinn samkv. skránni.“

Þetta ákvæði hefur aldrei verið framkvæmt. Þetta er mjög veigamikið atriði fyrir verkalýðsfélögin almennt, og þess vegna er það — og ég endurtek það — mjög ámælisvert að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs skuli fyrst og fremst leggja áherslu á það í störfum sínum á þeim tímum þegar hún ætti að hafa svigrúm til að sinna öðru en greiðslu atvinnuleysisbóta, vegna þess að ekkert atvinnuleysi hefur verið í landinu eða sáralítið, að þá skuli hún vera að leggja sig fram um það, — ég segi: leggja sig fram um það að finna lagakróka eða leiðir til þess að koma í veg fyrir að fæðingarorlofsgreiðslur eigi sér stað úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Það eru miklu stærri verkefni sem sjóðsstjórnin hefði átt að sinna, eins og þetta m. a. Það er ekki lítið atriði fyrir verkakonur hvar í stétt sem er að vita hver hefur verið raunveruleg greiðslubyrði vegna þeirra gagnvart Atvinnuleysistryggingasjóði. Það er ekki lítið atriði fyrir þær þúsundir kvenna, sem lagt er gjald á á hverju ári, að vita að hundruðum millj. af því ráðstöfunarfé, sem sjóðurinn hefur á hverjum tíma, skuli vera ráðstafað til allt annarra þarfa heldur en þeirra tryggingaþarfa sem hér um ræðir.

Það kom fram í ræðu hv. þm. Eðvarðs Sigurðssonar, sem situr í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs og ég veit að hefur auðvitað gætt hagsmuna verkalýðsins samkv. bestu getu, en það kom fram hjá honum áðan að á árinu 1976 hefðu verið greiddar samtals 135 millj. kr. vegna fæðingarorlofs. Þetta er innan við 10% af áætluðu ráðstöfunarfé sjóðsins fyrir árið 1977. Ég get ímyndað mér, það sem ég hef nú ekki tölur um hvert var ráðstöfunarfé árið 1976, að þetta hefði ekki verið miklu meira en 13–14% af ráðstöfunarfé sjóðsins á því ári. En ég mun koma nokkru nánar inn á það atriði á eftir. Þetta er auðvitað ekki nema brot af því fé sem rennur inn í sjóðinn vegna álagningar iðgjalda á vinnu kvenna úti í atvinnulífinu.

En það er ekki aðeins að sérreikningar verkalýðsfélaganna hafi ekki verið færðir upp samkv. lögum. Það út af fyrir sig er nægilega slæmt. En það er enn þá verra í ljósi þess sem segir í 19. gr. gagnvart því, að verkalýðsfélögin þekki raunverulega stöðu sína innan þessa stóra sjóðs. En í 19. gr. segir: „Bætur greiðast úr sérreikningi þess félags sem bótaþegi telst til. Nú er fé eigi fyrir hendi á sérreikningi félags eða sambands til greiðslu bóta, og skal þá sjóðsstjórn lána stofnfé sjóðsins í þessu skyni. Ef einnig er þrotið stofnfé sjóðsins er sjóðsstjórn heimilt að lána milli sérreikninga.“

Ég er algerlega fylgjandi samhjálpinni sem felst í lögum um atvinnuleysistryggingar. En ég er líka fylgjandi því sem stendur í 19. gr., að það eigi að færa upp sérreikninga, það eigi að greiða bætur úr sérreikningum, en síðan skuli vera þessi heimild að færa á milli reikninga til þess að styðja aðra ef fé þrýtur hjá einstökum félögum. Það er vissulega nauðsynlegt að hafa alla hluti í lagi, en þá ættu þessir hlutir ekki síður að vera í lagi, sérstaklega þegar maður lítur á það hvað lögin eru meingölluð með tillíti til allra þeirra heimilda sem stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hefur.

Í VII. kafla umræddra laga er fjallað um sérstök lán og styrki. Ég hef aldrei nokkurn tíma séð lög skapa jafnmikla möguleika á grundvelli heimilda til ráðstöfunar á jafnmiklum fjármunum eins og þessi kafli í lögum um atvinnuleysistryggingarnar. (Gripið fram í.) Þar er hvert heimildarákvæðið á eftir öðru, og þau eru svo rúm að það vantar raunverulega aðeins að í lögunum standi, að svo skuli einnig gefa eitthvað af peningum Atvinnuleysistryggingasjóðs ef svo stendur á að nauðsyn sé að gefa peninga til einhverra framkvæmda. Ég er fylgjandi því auðvitað að það eigi að nota þetta fé, sem kemur inn í sjóðinn, að vissu marki til þess að koma í veg fyrir atvinnuleysi. En það getur verið mjög teygjanlegt og matsatriði hvað peningarnir koma að miklum notum til þess að koma í veg fyrir slíkt. Einnig er það matsatriði hvernig á að nota þessa fjármuni. Svo er það líka annað mál að Atvinnuleysistryggingasjóður er orðinn það stór sjóður að það er mjög vafasamt að hafa heimildirnar eins rúmar og VII. kafli gerir ráð fyrir. Ég ætla ekki að ræða heimildirnar nánar. En ég vil aðeins vekja athygli á þessu, að ef hægt er að veita sjóðsstjórn heimildir til að ráðstafa hundruðum millj. án þess að löggjafinn komi þar nokkuð nálægt umfram það sem segir í lögunum sem veita heimildirnar, þá er það ekkert álitamál, heldur sjálfsagt mál að greiða konum 100–200 millj. kr. í fæðingarorlof úr þessum sjóði sem safnar ekki minna en svona 500–800 millj. til ráðstöfunar á hverju ári vegna þátttöku kvenna í uppbyggingu og myndun sjóðsins. Þetta finnst mér mjög veigamikið atriði og ætti að ræðast nánar.

Einnig hefur það því miður komið fram í þessari umr., að hér virðast menn ekki tala um konuna sem einstakling, heldur sem einhverja afgangsstærð. Ég tel að konan eigi að hafa sjálfstæðan rétt gagnvart þessum sjóði og það eigi ekki að skerða hann frá því sem ákveðið var með lögunum frá vorinu 1975.

En eitt fannst mér eftirtektarvert í ræðu hv. hm. Eðvarðs Sigurðssonar þegar hann ræddi um hvernig sjóðsstjórn hefði staðið að þessum málum, hvað hefði raunverulega orðið til þess, að hún fór í gang með þeim afleiðingum sem við stöndum nú frammi fyrir. Hann skýrði frá því í ræðu sinni, að það, sem hefði raunverulega sett stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs af stað í þessu máli, hafi í fyrsta lagi verið bréf frá Siglufirði vegna máls, sem kom þar upp hjá úthlutunarnefnd, og svo í öðru lagi vegna þess að umboðsmaður Tryggingastofnunarinnar á Akranesi hefði óskað eftir úrskurði um greiðslu fæðingarorlofs.

Í framhaldi af þessu var leitað til forseta lagadeildar og hann var beðinn um úrskurð um þau atriði sem hv. þm. Eðvarð Sigurðsson greindi frá að hefðu komið fram í umræddum bréfum og óhjákvæmilega hlutu að koma mjög sterkt inn á fæðingarorlofsgreiðslur almennt. Ég gat ekki skilið orð hans öðruvísi en svo, að það hefði beinlínis verið ósk stjórnarinnar að forseti lagadeildar hvað upp úrskurð varðandi rétt kvenna og tekjuskerðingarákvæði Atvinnuleysistryggingasjóðs ef tekjur maka færu yfir ákveðna upphæð. Ég vil nú segja það eins og er, að það hefði verið eðlilegra að þeir fulltrúar Alþýðusambandsins eða verkalýðshreyfingarinnar, sem eiga sæti í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs, hefðu getað haft samband eða samráð við félög innan Alþýðusambandsins, þar sem konur skipa meiri hl. eða eru einvörðungu félagsmenn, áður en leitað var til forseta lagadeildar til þess að fá úrskurð um jafnviðkvæmt og veigamikið mál og hér um ræðir. Mér finnst það ekki vörn í málinu fyrir fulltrúa Alþýðusambandsins í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs að skjóta sér á bak við úrskurð prófessora hjá Háskóla Íslands í þessari réttindaskerðingu. Einhvern tíma og við aðrar aðstæður hugsa ég að fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar hefðu farið öðruvísi að, ég segi það hreinskilningslega. En þetta er sagt að gefnu tilefni, vegna þess að hv. þm. Eðvarð Sigurðsson sagði áðan í ræðu sinni að fulltrúar A. S. Í. hefðu borið sig saman við stjórn A. S. Í. og V. S. Í. um þetta atriði og þessir aðilar hafi verið sammála um að skerða skyldi hlut útivinnandi kvenna gagnvart fæðingarorlofi á grundveili úrskurðar umræddra lagaprófessora. Og mér skildist að varla gætu menn vefengt þann úrskurð. Ég leyfi mér að vefengja þann úrskurð, og ég leyfi mér að vefengja að rétt hafi verið staðið að málum af hálfu stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs að leita til umræddra prófessora og gera þær samþykktir á stjórnarfundum sem framkölluðu umrædda réttindaskerðingu, vegna þess að sá úrskurður er ekki í samræmi við anda laga um fæðingarorlof, auk þess sem hann er ranglátur gagnvart fjölda kvenna sem verða fyrir ákveðinni mannréttindaskerðingu á grundvelli hans.

Hér var áðan vísað til þess að atvinnuleysistryggingar hefðu orðið til í samningum 1955. Það vita allir að hv. þm. Eðvarð Sigurðsson átti veigamestan þátt í því að lög um atvinnuleysistryggingar urðu að veruleika á því ári, enda sagði hann réttilega að honum væri umhugað um að það góða verk væri ekki rifið niður. Um það er ég honum fyllilega sammála. En ég lít ekki á það sem niðurrifsstarf að greiða útivinnandi konum þriggja mánaða fæðingarorlof úr Atvinnuleysistryggingasjóði, heldur hið gagnstæða. Ég lít þannig á að það tryggi raunverulega stöðu verkalýðshreyfingarinnar að búa vel að sínum konum, — konum sem vinna úti á hinum almenna vinnumarkaði. Allt á að gera til að gera þeim léttara að fæða börn. Við hljótum að styrkja það með þeim hætti sem við höfum helst vald yfir.

En ég vil varpa fram þeirri spurningu, hvort það sé nokkurs annars eðlis að greiða fæðingarorlof úr þessum sjóði heldur en að greiða kauptryggingu. Við tókum þátt í því, hv. þm. Eðvarð Sigurðsson og ég, fyrir nokkrum árum að semja um það og mæla með því við hv. Alþ. að lögunum yrði breytt þannig að unnt væri að greiða kauptryggingu úr Atvinnuleysistryggingasjóði í áföngum á ákveðnu, tilteknu tímabili, og taldi ég það spor í rétta átt og tel enn.

Við hljótum svo að vera sammála um það, hv. þm. Eðvarð Sigurðsson og ég, að við erum að vissu marki málsvarar verkalýðshreyfingarinnar. Við hljótum þess vegna að líta til hagsmuna allra kvenna innan Alþýðusambandsins þegar við ræðum um þessi mál. Allir innan A. S. Í. hljóta að vera jafnir gagnvart Atvinnuleysistryggingasjóði. En ég tel að réttur konunnar sé ekki virtur ef þetta frv. fer ekki í gegn sem hér er til umr.

Ég ætla ekki að fjölyrða meira um einstaka þætti úr ræðu hv. þm. Eðvarðs Sigurðssonar, en vil þó koma örlítið inn á þær tölur sem hann fjallaði um í sambandi við áætlun um ráðstöfunarfé Atvinnuleysistryggingasjóðs 1977.

Það, sem vakti helst athygli mína, og ég vil leyfa mér að varpa fram spurningu í því sambandi til hv. 7. þm. Reykv., var í sambandi við bótagreiðslur. Hann greindi frá því að bótagreiðslur árið 1976 hefðu verið um það bil 400 millj. kr. Þar með voru taldar greiðslur vegna fæðingarorlofs 135 millj. kr. Hins vegar áætlar stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs að í bótagreiðslur árið 1977 fari 885 millj. kr. Ég vil spyrja: Er reiknað þar með fæðingarorlofsgreiðslum og hversu háar eru þær greiðslur í þessari heildarupphæð, þessum 885 millj. kr. Eftir því sem ég kemst næst mun sú gerð stjórnarinnar skerða mjög rétt kvenna til fæðingarorlofs, þannig að í stað þess, að þarna hefur orðið um einhverja aukningu að ræða í sambandi við bótagreiðslur árið 1977, þá verði jafnvel um lækkun að ræða miðað við greiðslu ársins 1976. Miðað við það sýnist mér, að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs geri ráð fyrir allt að 600 millj. kr. hækkun á öðrum bótagreiðslum. Hvernig flokkast þessar bótagreiðslur? Í hverju er þessi mikla aukning fólgin? Þetta eru atriði sem ég vildi gjarnan fá að vita um hér í umr. Mér finnst þetta óeðlilega há upphæð miðað við það sem greitt var á síðasta ári.

Varðandi það atriði, að sjóðurinn skuli kaupa bankavaxtabréf af Byggingarsjóði fyrir rúmar 678 millj. kr., þá er vert að vekja athygli á því, að kaup Atvinnuleysistryggingasjóðs á bankavaxtabréfum vegna húsnæðismála eru ekki eins þýðingarmikil og þau voru fyrir nokkrum árum vegna þess að kaup lífeyrissjóða á þessum bréfum hafa aukist gífurlega á síðustu tveimur til þremur árum. Þannig er hlutur Atvinnuleysistryggingasjóðs að verða sáralítill miðað við hlut lífeyrissjóðanna í kaupum slíkra vaxtabréfa. Þessi þáttur í starfsemi Atvinnuleysistryggingasjóðs ætti því ekki að vera hindrun í vegi þess að konur geti fengið fæðingarorlof í gegnum sjóðinn. Ég óska sem sagt eftir því að fá upplýsingar um það hvernig sjóðsstjórnin hefur komist að þeirri niðurstöðu um bótagreiðslur, að þær hækki um ca. 600 millj. þrátt fyrir þá skerðingu sem stjórnin ákvað á fundi sínum fyrst í des. 1976 og staðfesti síðan í janúar 1977.

Að lokum vil ég segja það, að það er ansi hart að þm. skuli þurfa að endurflytja mál vegna aðgerða stjórnenda einstakra stofnana sem vilja ekki framkvæma lög sem samþ. eru á Alþ. Það er gersamlega óviðunandi að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs skuli hafa leyft sér að takmarka og það einhliða framkvæmd laga og fyrirmæla reglugerðar í sambandi við greiðslu fæðingarorlofs úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Ég minni á það, að lög um fæðingarorlof voru samþ. á hv. þingi vorið 1975 og síðan var gengið frá reglugerð um framkvæmd þessara mála. Og á grundvelli þessa var fæðingarorlof greitt árið 1976 án nokkurrar skerðingar, svo að vitað sé. En það kom fram í ræðu hv. þm. Eðvarðs Sigurðssonar, að það væri ekki alveg víst að einhver skerðing hafi ekki átt sér stað, án þess að hann greindi frá einstökum dæmum. En á grundvelli fyrrgreindra laga og reglugerðar var fæðingarorlof greitt og ég held því fram án nokkurrar skerðingar, í. samræmi við vilja Alþingis.

Samkv. því, sem skýrt var frá áðan, greiddi Atvinnuleysistryggingasjóður samtals 135 millj. kr. í fæðingarorlof árið 1976, og það mun láta nærri, ef þetta er rétt, að 900–2000 konur hafi notið fæðingarorlofsgreiðslna á því ári á grundvelli fyrrgreindra laga. Hér er því til umr. mál sem snertir mikinn fjölda kvenna. En það er með þetta atriði eins og önnur frá þessum ágæta sjóði, Atvinnuleysistryggingasjóði, að þótt komið sé fram í mars, þá liggja engar upplýsingar fyrir frá stjórninni um heildarupphæð þessara greiðslna. Það er álitið samkv. því, sem hv. þm. Eðvarð Sigurðsson sagði áðan, að greiðslurnar geti orðið hærri, en ekki vitað um það enn. Og ég verð að segja það, — og er ég nú ekki að gagnrýna hv. þm. sérstaklega því að engan mann þekki ég grandvarari og heiðarlegri um það að vilja hafa alla hluti í lagi, ég tek þetta sérstaklega fram, en ég verð að segja það, að mér finnst það furðulegt að nákvæmar upplýsingar skuli ekki liggja fyrir nú 21. mars, tæplega þrem mánuðum eftir að fjárhagsárinu lýkur. Mér finnst það slæmar heimtur á upplýsingum og lélegt uppgjör á reikningum. Allir lífeyrissjóðir landsins, svo að dæmi sé nefnt, sem velta milljörðum, hafa sín reikningsuppgjör tilbúin eigi síðar en í lok jan. eftir hver áramót, og Atvinnuleysistryggingasjóður ætti alveg eins að geta gert upp með sama hætti. En það er með þetta atriði eins og önnur: litlar og takmarkaðar upplýsingar sem koma seint, en hins vegar leitað til prófessora til þess að reyna að skerða og koma í veg fyrir framkvæmd laga. Þessu hlýt ég að mótmæla sem alþm. og einnig fyrir hönd þeirra kvenna sem verða fyrir þeirri réttindaskerðingu sem hér um ræðir.

Ég tel að sú gerð stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs að grípa til þess ráðs að skerða þessi réttindi verulega sé röng og ólögmæt og að stjórnin geti ekki skotið sér á bak við skerðingarákvæði gagnvart greiðslu atvinnuleysisbóta með tilliti til atvinnutekna maka. Sú túlkun varðandi greiðslu fæðingarorlofs úr Atvinnuleysistryggingasjóði er ekki í samræmi við tilgang löggjafans í þessu máli. Máli mínu til stuðnings vísa ég til umr. á Alþ. þegar þetta mál var tekið til umr. og afgreiðslu í ársbyrjun 1975. Það kom ekki fram í máli neins þm., sem fjallaði um þetta mál, að skerðingarákvæði Atvinnuleysistryggingasjóðs með tilliti til tekna maka skyldi eiga við um greiðslu fæðingarorlofs, ekki eins einasta, þrátt fyrir það að sumir væru á móti því að þessar greiðslur færu í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð. Ég tel þetta mjög veigamikið atriði gagnvart þeim úrskurði sem prófessorinn gaf í þessu máli. Ég álít þannig á að túlkun og vilji löggjafans, sem kemur bæði fram í lagasetningu, umr. og reglugerðum, hljóti að vega hér meira en umsögn einstakra prófessora úti í bæ, enda er ég sannfærður um að hv. þm. eru mér sammála um þetta atriði. En því til viðbótar vil ég segja að ég er jafnsannfærður um að verkalýðshreyfingin mundi ekki sætta sig við að veigamiklum málum, sem snerta þúsundir félagsmanna, væri skotið undir þann gerðardóm að láta prófessora úti í bæ ákveða hvernig bæri að túlka lög, samninga eða rétt verkalýðshreyfingarinnar. Það erum við áreiðanlega sammála um, ég og hv. þm. Eðvarð Sigurðsson. (EðS: Er það ekki bara spurning um vöndun á lagasetningu.) Við erum örugglega sammála um það, að það, sem Alþ. ákveður, hljóti að gilda, enda væri allt annað ófært og erfitt að sjá hvernig færi þá fyrir öðrum lögum og reglum sem hér hafa verið sett.

Í því máli, sem hér um ræðir, er um að ræða persónulegan og sjálfstæðan rétt sem er bundinn við ákveðinn og takmarkaðan tíma. Framkvæmdin er tengd ákveðnum greiðslugrundvelli, og þess vegna getur fæðingarorlof ekki flokkast undir atvinnuleysi í þrengri merkingu þess orðs. Það er algerlega útilokað. Enda kom það ekki fram í ræðum þm., þegar þessi mál voru hér til afgreiðslu 1975, og ekki enn í þeim umr., sem hér hafa nú farið fram. Fæðingarorlof er greitt vegna barnsburðar til þess að auðvelda konum erfiðar kringumstæður. Það að leggja aðra merkingu í tilgang fæðingarorlofs samkv. fyrri lögum lýsir annaðhvort ólýsanlegri þröngsýni í þessu máli eða beinlínis fjandsamlegri afstöðu til aukinna réttinda til handa konunum. Því skal þó eigi trúað að óreyndu að hv. Alþ. taki ekki af skarið og öll tvímæli í þessu máli. Þess vegna vænti ég að þetta frv., sem hér er til umr., fái skjóta og góða afgreiðslu.