21.03.1977
Neðri deild: 61. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2732 í B-deild Alþingistíðinda. (2039)

194. mál, atvinnuleysistryggingar

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Þessi umr. minnir mig um margt á umr. á aðalfundum sumra stéttarfélaga þegar verið er að ræða um fjármál og peningamál. Það minnir mig á umr. að því leyti í þessum félögum, að þegar verið er að fjalla um stórar tölur, þá er eins og það vanti oft innihaldið, þ. e. a. s. holdið á beinagrindina, til þess að maður fái sanna og nákvæma mynd af því sem verið er að setja upp eða búa til. Þessu finnst mér bregða töluvert fyrir þegar hér er rætt um hinar stóru tölur hjá Atvinnuleysistryggingasjóði, þ. e. a. s. ráðstöfunarfé sjóðsins árið 1977. Ég er ekki að gagnrýna neinn sérstaklega þegar ég er að fjalla um mál Atvinnuleysistryggingasjóðs. Það er mesti misskilningur. Ég er ekki að ráðast á neinn þegar ég er að gagnrýna ýmislegt í sambandi við rekstur og stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs. Ég er ekki að ráðast á neinn fyrir það að reyna að stilla upp myndinni um skiptingu á hugsanlegu ráðstöfunarfé 1977, heldur leyfði ég mér að fjalla um þetta með þeim hætti sem mér er kleift á grundvelli þeirra upplýsinga sem mér eru í té látnar. Ef ég mætti ekki gera það án þess að það væri kallaðar árásir, þá væri raunverulega búið að kveða upp úr um það að ég og aðrir hv. þm. geti yfirleitt ekki rætt um þessi mál, hvort sem ég væri þm. eða verkalýðsforingi úti í bæ, — mál sem hafa mikla þýðingu fyrir bæði ríkissjóð og ég tala nú ekki um fyrir verkalýðshreyfinguna og hvern einstakan félaga innan hreyfingarinnar, ef til þess kæmi að þyrfti að fara að greiða atvinnuleysisbætur úr sjóðnum, sem við vonum öll að verði ekki á næstunni.

En ég vil leyfa mér að ræða örlítið um það talnadæmi sem hér hefur verið sett upp í tengslum við ráðstöfunarfé annars vegar og það, hvað það sé voðalegt hins vegar að ætlast til þess að Atvinnuleysistryggingasjóður greiði fæðingarorlof. Hér hefur verið upplýst bæði af hæstv. ráðh. og hv. þm. Eðvarð Sigurðssyni, sem á sæti í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs, að það sé áætlað árið 1977 að bótagreiðslur geti orðið 885 millj. kr. Það er upplýst að dagpeningar og kauptrygging hafi árið 1976 verið 274 millj. kr. og fæðingarorlof hafi verið 135 millj. kr. Ef við þræðum nú hina þröngu götu þeirra sem eru að berjast á móti verðbólgunni, sem við sumir eigum kannske eftir að reyna að þræða okkur eftir í þeim samningum sem fram undan eru, þá eru sumir ekki að tala um miklar prósentuhækkanir handa verkalýðnum í samningunum í vor. En til þess að láta dæmið ganga upp, til þess að nálgast eitthvað þessar 885 millj. og gera mismuninn ekki of mikinn, þá reiknaði ég með því, að það mætti hækka þennan lið, dagpeninga og kauptryggingu 1976, um 30%. Þá fæ ég 356 millj. áætlaðar árið 1977 og gef mér þá jafnframt að atvinnuleysi verði ekki meira á þessu ári heldur en á síðasta ári. Ef við gefum okkur það svo einnig, að fæðingarorlof lækki á grundvelli þeirrar skerðingar sem stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hefur ákveðið, og gefum okkur þá að áætlað fæðingarorlof verði skert um um það bil 100 millj., þá fæ ég þarna eftirstöðvar upp á 429 millj., bara á þessum eina lið. Dæmið um það, að Atvinnuleysistryggingasjóður kæmi út í mínus, eins og var sagt í dag í umr., getur ekki staðist og bað jafnvel þótt maður gerði ráð fyrir að fæðingarorlofið væri ekki skert, en að því stefnum við auðvitað með þessu frv. Við getum áætlað að fæðingarorlofið hækki um 30% eins og dagpeningar og kauptrygging. Það þýðir að við getum bætt við svona 40 millj. ofan á fæðingarorlofið 1976, og þá erum við með 175 millj. á áætluninni fyrir 1977, þannig að enn þá yrði eftir 300–400 milli. til annarra þarfa.

Ég verð að segja það eins og er, að svigrúm er töluvert fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð, nema menn geri ráð fyrir atvinnuleysi. Ég geri það ekki. Mér virðast allar horfur vera þannig í íslensku atvinnulífi. fái það að starfa í friði og ef ekkert óvænt kemur upp sem raskar þeim grundvelli sem við erum að reyna að byggja upp, þá verði umframeftirspurn eftir vinnuafli, en ekki atvinnuleysi. Ég er þeirrar skoðunar að hjól atvinnulífsins muni snúast miklu hraðar á þessu ári heldur en á s. l. ári. Allt bendir til þess. Afli hefur verið góður, það hefur verið mikið að gera í fiskiðnaði, og ekkert bendir til annars en svo muni halda áfram það sem eftir er þessa árs. Ég get því ekki sagt annað en það, að ég get ekki verið sammála hv. þm. Eðvarð Sigurðssyni um það, hvorki að staða Atvinnuleysistryggingasjóðs sé veik né horfurnar í atvinnumálum jafnsvartar og hann hefur dregið myndina upp.

Ég þakka hv. þm. fyrir þau ágætu svör, sem hann gaf hér áðan, og upplýsingar um sjóðinn, sem var nauðsynlegt að fá við þessa umr. Ég vek athygli á því, að í ræðu hans komu fram mjög merkilegar upplýsingar sem aðrir verða að lesa úr reikningum Atvinnuleysistryggingasjóðs yfirleitt 1–2 árum eftir að afburðirnir hafa átt sér stað, en til viðbótar gaf hv. þm. upplýsingar um hvað fram undan væri. Ég segi það og endurtek, að ég tel stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs ekki jafnveika og hann sagði. Það breytir sáralitlu um stöðu sjóðsins þó að fæðingarorlof verði greitt óskert á grundvelli þeirra laga, sem samþ. voru 1975, eða á grundvelli þeirrar áréttingar, sem fram kemur í því lagafrv. sem hér er til umr.

Áætlað ráðstöfunarfé 1977 verður um það bil 1700 millj. kr. Það má því gera ráð fyrir að til að greiða fæðingarorlof þurfi að ráðstafa nákvæmlega 10% af ráðstöfunarfé ársins. Þetta er að mínu mati ekki það mikið fé að það ráði úrslitum um stöðu, afkomu eða greiðslugetu Atvinnuleysistryggingasjóðs. (Gripið fram í.) Ég er nú ekki góður í veðmálum, enda hef ég aldrei unnið í happdrætti. En ég mundi ekki vilja veðja um þetta frekar en margt annað. Það er svo margt óráðið og óvisst í þessu lífi, sem betur fer eða því miður, eftir því hvað um er að ræða. En ég held því fram, eins og ég gerði 1975, en þá hélt ég því fram, að það mundi ekki breyta neinu um fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð þótt þessi háttur væri upp tekinn, og ég hef ekki breytt um skoðun síðan nema síður sé. Trú mín á að atvinnulífið sé svo sterkt, að ekki verði atvinnuleysi á næstu árum, hefur styrkst, en ekki veikst á þessum árum.

Varðandi það atriði í ræðu hv. þm. Eðvarðs Sigurðssonar, þegar hann talaði um að við þekktum lítið til Atvinnuleysistryggingasjóðs og kurteisinni hefði ekki verið fyrir að fara hjá okkur talsmönnum þessa frv. í dag, get ég nú verið fáorður. En ég get þó ekki alveg látið því ósvarað. Mér fannst það ekki kurteisi af hálfu stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs að láta ekki þau stéttarfélög, sem hagsmuna áttu að gæta, vita hver var skoðun stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs á þessu máli. Það hefði ekki þurft að gera meira en að senda þeim stóru félögum, sem hafa konur innan sinna vébanda bréf um þetta. Ég nefni sem dæmi, eins og hv. þm. Eðvarð Sigurðsson gerði áðan, að þetta er mikið hagsmunamál fyrir konur í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur. Hann nefndi þær tölur um V. R., að hér væri um að ræða upphæð sem næmi 33 millj. kr. Það hefði einhvern tíma verið sendibréfsefni að láta stjórn í slíku félagi vita á hvað veikum grunni raunverulega væri unnið í þessu veigamikla hagsmunamáli fyrir félagskonur, að ég tali nú ekki um allar konurnar í almennu verkalýðsfélögunum. En það var hvorki ráðgast við okkur eða félögin né þau látin vita um að það væri verið að leita álitsgerðar hjá hálærðum prófessorum, sem fyrir mér er alveg það sama og setja mál verkalýðshreyfingarinnar undir gerðardóm. Ég veit að við erum sammálu um það, Eðvarð Sigurðsson og ég, að það ber að forðast eins og hægt er, þó stundum hafi þurft að grípa til slíks í hreinum neyðartilfellum.

Ég sem sagt endurtek að ég tel úrskurð prófessoranna ótraustan og ófullnægjandi og að við þennan úrskurð hafi prófessorarnir ekki tekið nægilegt tillit til ákvæða reglugerðar, sem lýtur að greiðslu fæðingarorlofs, né anda laganna um fæðingarorlof og þess sem kom fram hér í umr. 1975. (Gripið fram í.) Ég er sannfærður um það, að ef það hefði verið skilningur löggjafans, ráðh. og annarra, sem fjölluðu um reglugerðina, að tekjuskerðingarákvæði laga um atvinnuleysistryggingar ættu að gilda, þá hefði verið ítrekað í reglugerð að þessi skerðing skyldi eiga sér stað við greiðslu fæðingarorlofs. Þarna gafst tími, — ég mun svara hv. þm. sem grípur fram í, — þarna gafst einmitt svigrúm fyrir hið háa rn. að koma þessu á framfæri og tryggja það, ef það var meiningin. En nú skal ég svara hv. 7. þm. Reykv. frammíköllum hans með gagnspurningu sem hv. þm. getur þá svarað úr sæti ef hann vill. Hvers vegna vakti hv. þm. Eðvarð Sigurðsson ekki athygli á þessu þegar í upphafi, og hvers vegna lét hann afskiptalausar greiðslur án tekjuskerðingar meginhluta ársins 1976? Þetta er gagnspurning við því, sem hv. þm. beindi til mín. (Gripið fram í.) Ef það er ekki of langt, annars er náttúrlega hægt að taka til máls hér á eftir. (Gripið fram í: Leyfir hæstv. forseti það? — Í fyrsta lagi vil ég segja það og endurtaka enn einu sinni, að stjórnin svaraði þessu strax og beiðni um það kom fram, og það var mér alls ekki vitanlegt fyrr en hún kom fram að úthlutunarnefnd færi ekki eftir þessu.) Ég þakka þm. fyrir svör hans. Þetta skýrir stöðu hans til málsins, en ekki stöðu annarra stjórnarmanna Atvinnuleysistryggingasjóðs. Þeir munu þá væntanlega gefa þau svör skriflega eða munnlega til hv. þings eftir því sem þessi mál þróast.

En varðandi úthlutunarnefndirnar, þá varpaði hv. þm. Eðvarð Sigurðsson því til mín, hvort ég þekkti ekki nægilega vel til laganna til þess að gera mér grein fyrir því að þær ættu að annast þessar greiðslur, nema n. óskuðu eftir að Tryggingastofnun gerði það. Ég skal viðurkenna að svar mitt eða réttara sagt framsögn mín í dag varðandi þetta hefur ekki verið nægilega skýr. En ástæðan er sú, að í því félagi, sem ég þekki best til. töldu forráðamenn þess eðlilegt að Tryggingastofnunin annaðist þessar greiðslur. En stofnunin vildi að úthlutunarnefnd viðkomandi félags annaðist þetta. Þess vegna endurtek ég að orðalag mitt í dag varðandi þetta efni var ekki nægilega nákvæmt, og leiðrétti ég það því hér með.

Ég ætla ekki að lengja þessar umr. miklu meir. En hér var áðan í ræðustól gefin sú ráðlegging til þess er nú talar, að hann ætti góðan leik í sambandi við það að tryggja konum í því félagi, sem hann er í forustu fyrir, það sem hér er um að ræða, það þyrfti ekki að leita eftir því til Atvinnuleysistryggingasjóðs, þar sem af þeim 65 millj., sem fóru til Reykjavíkur, hafi 33 millj. kr. farið til kvenna í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur. Ráðleggingin var sú — afskaplega einföld: Hví leggur ekki hv. þm. það fram í kröfum viðkomandi félags að biðja um 1/2% eða 1% í samningunum til þess að greiða þetta? Ég hélt að við værum nú það samningsvanir menn, ég og hv. þm. Eðvarð Sigurðsson, að við gerðum okkur grein fyrir því, að ef ég legði þetta fram í kröfugerð í vor, mundi það koma fram sem skerðing á nauðsynlegum kauphækkunum til þeirra kvenna, sem eru í þessu félagi, og skerða þar með kaupmáttinn, því öðruvísi fæst það ekki. En það er til önnur leið sem ég er ekki út af fyrir mig meðmæltur á þessu stigi, en það er annað mál í hvaða vígi maður verður að hörfa og ég vil helst ekki að til þess komi. Ef farið er að hugleiða þetta allt út frá sérhagsmunum einstakra félaga, þá er auðvitað sú leið auðveldust fyrir þetta ágæta félag, sem ég er forsvari fyrir, að segja sem svo: Er ekki ágætt að láta Lífeyrissjóð verslunarmanna annast þessar greiðslur. En það mundi bara hafa annað í för með sér, því þetta er eins og tafl, það mundi þá væntanlega koma það svar frá viðsemjendum okkar: Ef þið ætlið að leggja þá kröfu fram, þá skerðir það væntanlega umframgreiðslugetu sem notuð er til sameiginlegra þarfa aldraðra í verkalýðshreyfingunni í heild. Kaldhæðni örlaganna er nú þannig í þessu máli, að það, sem greitt er úr Lífeyrissjóði verslunarmanna til þess að hækka ellilífeyri fyrir heildina innan verkalýðshreyfingarinnar — ég endurtek: fyrir heildina, er svipuð upphæð og konur í þessu sama félagi fá sem fæðingarorlofsgreiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði.

Mér finnst það kaldhæðni að þurfa að berjast fyrir því með hörku, að konur fái greiðslu fæðingarorlofs úr Atvinnuleysistryggingasjóði, við vini mína og bestu forustumenn verkalýðshreyfingarinnar. Ég harma það að við skulum ekki geta unnið sameiginlega að því að tryggja framgang þessa máls, greiðslur á fæðingarorlofi til kvenna úr Atvinnuleysistryggingasjóði í því bráðabirgðaástandi sem ég álít að sé í þessum málum. Ég hef alltaf lítið á það sem bráðabirgðaástand að greiða fæðingarorlof úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Meginmarkmið mitt í sambandi við greiðslu fæðingarorlofs til kvenna og stefna er sú, að allar konur skuli njóta fæðingarorlofs, og sú, greiðsla komi úr almannatryggingakerfinu. Það verður vonandi að veruleika þegar við höfum lokið við að endurskoða almannatryggingakerfið í tengslum við lífeyriss,jóðakerfið, og um það veit ég að allir geta verið sammála. Þess vegna treysti ég að þeirri bráðabirgðalausn, sem felst í því að greiða fæðingarorlof óskert úr Atvinnuleysistryggingasjóði, verði fram haldið þar til endanleg lausn og betri fæst á þessu máli.