22.03.1977
Sameinað þing: 67. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2758 í B-deild Alþingistíðinda. (2047)

264. mál, byggingarþróun heilbrigðisstofnana 1970-1976 og ýmsar upplýsingar um heilbrigðismál

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það er vissulega ástæða til þess að þakka hæstv. ráðh. fyrir þá viðamiklu og innihaldsríku skýrslu sem hann gerði hér grein fyrir áðan. Það er vissulega mikils virði að hafa yfirlit á einum stað um ástand þessara mála, hvað fyrirhugað er, og þá fæst betri heildarmynd yfir heilbrigðismálin, eins og raunar nauðsynlegt er fyrir þm. og reyndar miklu fleiri að hafa.

Ég vil aðeins víkja hér stuttlega að þremur atriðum alls óskyldum innbyrðis.

Hæstv. ráðh. vék í skýrslu sinni í upphafi að þremur hópum sem þyrfti að athuga sérstaklega með, og það var alveg rétt. Hann vék að málefnum aldraðra, hann vék að málefnum geðsjúkra og hann vék að málefnum þroskaheftra. Ég hef oft áður hér á Alþ. rætt um málefni þroskaheftra og hef kannske þar litlu við að bæta, en vil þó aðeins koma inn á það hér og nú.

Það er rétt, að skipulagið nú er þannig að heilbrrn. er yfiraðili vegna málefna þroskaheftra. Kópavogshælið er sem sagt stofnun sem heyrir undir heilbrrn., og það hæli er jafnframt eins konar móðurskip eða móðurstofnun annarra heimila og þar fer fram aðalstarfsemin að málefnum þroskaheftra á vegum ríkisins. Því er hins vegar ekki að leyna, að það eru uppi miklar hræringar nú í málefnum þessa fólks og nýjar skoðanir í málefnum þess ryðja sér mjög til rúms.

Ég veit að endurskoðun laga um fávitastofnanir hefur staðið yfir. Mér er nær að halda að henni sé nú lokið. Þessi endurskoðun hefur verið unnin af fulltrúum frá þremur rn., heilbr.- menntm.- og félmrn. Ég hef hins vegar ekki dregið dul á þá skoðun mína, að þó að ég viðurkenni að að endurskoðun geti verið mikil bót, þá þurfi þar meira að gera og þurfi í raun og veru nýja heildarlöggjöf. Mótbárur við því hafa heyrst á þann veg, að með því móti værum við að marka þessu fólki sérstakan bás, alveg öfugt við þá kenningu sem við t. d. í landssamtökunum Þroskahjálp höfum haft uppi. En ef sú mótbára fær staðist, þá verður að taka vandlega til athugunar þau sérlög sem eru um fávitastofnanir, þó að þau batni að mun frá því sem nú er, því að ef þau marka ekki þessu fólki sérstakan bás miklu fremur en heildarlöggjöf, þá kemur mér það mjög á óvart. A. m. k. hef ég hugsað þá heildarlöggjöf það rúma og það mikla rammalöggjöf, að hún fæli í sér t. d. alveg sérstaklega eina yfirstjórn þessara mála, einn ábyrgan aðila í ríkiskerfinu sem hefði með öll þessi mál að gera, en síðan yrði komið á samstarfsnefnd hinna einstöku rn. sem þessi mál snerta hvað mest. Mér er sagt að annaðhvort væri búið að koma henni á eða þá að það séu uppi áætlanir um það, og er ekkert nema gott um það að segja. Sannleikurinn er sá, að fólk hefur hér þurft að leita til allt of margra aðila með sín mál og einn vísað á annan í þessu efni sem vonlegt er, því hér er um þætti að ræða sem ekki verða afgreiddir fullkomlega í einu einstöku rn.

Það má deila um hvaða rn. eigi um málefni þroskaheftra að fjalla, og ég er ekki að segja að það sé neitt aðalatriði. Ég hef áður lýst því hér yfir, að ég áliti að rétti aðilinn til að fara með þessi mál í heild með samstarfsnefnd þriggja rn. væri félmrn. og byggi það reyndar á reynslu ýmissa annarra þjóða í þessum efnum. En ég tek það líka fram að það er ekkert aðalatriði hvaða rn. þetta er. Ég efast ekki um góðan vilja heilbrrn. til að skipa þessum málum á þann besta veg sem mögulegt er. En ég bendi hins hins vegar á það, að ef við stöndum rétt að málefnum þroskaheftra frá upphafi, þ. e. a. s. frá fyrstu greining u, sem þarf vitanlega að vera eins fljótt og mögulegt er, og ef allt er gert fyrir þetta fólk, það er ekki bara lokað inni á hælum eða geymt einhvers staðar án þess að nokkuð sé fyrir það gert annað en það fái að borða og sofa, þá er heilbrigðísþátturinn hverfandi við mikinn hluta þessa fólks. Það gildir auðvitað sérstaklega um örvita og geðtruflanir, en geðtruflun er þarna oft algengur fylgikvilli, að vitanlega verður heilbrigðisþátturinn hjá þessu fólki mjög stór. En um mikinn hluta þessa fólks verður heilbrigðisþátturinn ekki sá mest afgerandi. Það er menntunin, almenna kennslan og hæfingin til þess að fara út í þjóðfélagið, félagslega aðstaðan og þar með talin atvinnuaðstaða þessa fólks sem verður aðalatriði þessa máls ef rétt er að staðið. Þegar við hættum fyrir fullt og allt geymslu- eða hælastefnunni sem aðalstefnu, sem við höfum því miður fylgt allt of lengi, eins og ég trúi að allir stefni að, þá verður auðvitað útkoman sú, að heilbrigðisþátturinn verður ekki eins afgerandi í þessu máli og hann hefur verið. Ég veit ekki hvort á að kalla það reyndar heilbrigðisþátt, en það er þáttur sem hefur þó beint heyrt undir þetta rn. af eðlilegum ástæðum vegna þess hve mikill fjöldi þessa fólks hefur verið vistaður á ríkishælinu í Kópavogi. Ég álít nefnilega að ef rétt er að þessum málum staðið, þá þurfi færri einstaklingar að vera inni á þessum heimilum og þeir geti að meira eða minna leyti farið út í atvinnulífið, á sérverndaða vinnustaði e. t. v. og með ýmiss konar aðstoð, kannske ekki fullri vinnu, en út í atvinnulífið, og að því er auðvitað ótvíræður hagur, ekki bara fyrir þetta fólk. Það er dýr hver dagur þessa fólks á þessum hælum, þar sem það gerir engum gagn, hvorki sjálfu sér né þjóðfélaginu. Og alveg sérstaklega þegar við komum að hamingju þessa fólks, lífshamingju þess og lífsfyllingu, þá er náttúrlega engin spurning um hvað það er miklu betra en loka þetta fólk inni á hælum þar sem kannske er ekki einu sinni eins vel fyrir því séð og ætti að vera. En ég veit að þetta stendur til bóta, og ég veit um fullan vilja heilbrigðisyfirvalda til þess að koma hér rösklega til móts við þetta fólk. Við vitum auðvitað að það er stór hópur í dag sem ekkert verður gert fyrir vegna þess að það var of seint til réttra aðila leitað og þessi hópur fékk ekki rétta meðferð. En við erum fyrst og fremst að hugsa hér um framtíðarstefnu í þessum málum, um þá sem nú eru á barnsaldri, um þá sem nú eru ófæddir, en við eigum að gera allt til þess að koma til sem mests þroska og þannig að þeir geti verið sem hlutgengastir þjóðfélagsþegnar, en ekki að loka þá inni á hælum.

Ég leyfi mér því að vona að stefnt verði að því að mál þroskaheftra verði þannig í framkvæmd áður en langt um líður, að ekki verði um heilsugæslu að ræða langt umfram aðra þegna. Ég sem sagt segi það hér vegna ummæla sem ég hef áður haft um þetta, að spurning um rn. í sambandi við þetta er auðvitað ekki aðalatriðið, þó ég telji félmrn. réttast. En það fer eftir stefnu stjórnvalda í heild hversu fer um málefni þessa fólks og hversu heilsugæsluþátturinn verður stór, hversu dýrt þetta fólk verður okkur í hælisdögum. Viljum við losna við þann kostnað, sem af því er, til þess einmitt að hagur þessa fólks batni að miklum mun og það verði nýtari og betri þjóðfélagsþegnar fyrir bragðið? Auðvitað getum við um leið haft betri samvisku en við óneitanlega höfum í dag vegna þessara mála.

Ég vona og trúi því að hæstv. ráðh. muni hér vinna að ötullega. Þetta er undir hans rn. í dag og gott samstarf við önnur rn. er auðvitað sjálfsagt. En frumkvæðið verður vitanlega, eins og mál standa í dag, að koma frá þessu hæstv. rn.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta, enda er þetta endurtekning á því sem ég hef oft áður sagt hér. En ég segi þetta að gefnu tilefni. Hæstv. ráðh. talaði sérstaklega um þennan hóp hér áðan og lagði á það áherslu að fyrir hann væri mikið gert.

Annað atriðið, sem ég vildi koma hér að, er að auðvitað fögnum við því sérstaklega úti á landsbyggðinni hve myndarlega hefur verið tekið til hendi í sambandi við heilsugæslustöðvarnar og alla aðstöðu fólks þar. Það fer auðvitað ekki á milli mála að þar er um geysilegt átak að ræða og mikilsvert fyrir byggðaþróunina. Við vitum hvernig læknavandamálið var á sínum tíma að fara með einstök héruð: fólksflótti beinlínis úr héruðunum vegna öryggisleysisins í því efni, og vissulega hefur tilkoma hinna nýju heilsugæslustöðva bætt hér ástandið stórkostlega og mun gera enn betur á næstu árum.

Ég vík hér að einum þætti alveg sérstaklega, sem ég held að hv. rn. eigi að beita sér að, að svo miklu leyti sem mögulegt er, og það er að færa sérfræðiþjónustu sem allra mest til fólksins heima í héruðunum. Ég veit að það þarf að gera til þess skipulegt átak. Ég veit að það þarf mikið til þess að koma þessari sérfræðiþjónustu til fólksins og það er ekki auðleyst verkefni. Og ég veit að verkefnin eru líka næg í þessum efnum. Við vitum líka, að ferðir fólks á fund sérfræðinga hér á höfuðborgarsvæðinu eru dýrar og þar verður eitthvað að aðhafast. Það er líka ætlunin með lögum um heilbrigðisþjónustu að þetta sé gert, og ég held að það verði ekki gert í einu stökki, — veit það reyndar. En það er hægt að gera það kannske með vissri þjónustu vissan tíma á þessum stöðvum, því að það er nú svo með okkar ágætu lækna á heilsugæslustöðvunum, að þótt þeir séu hinir færustu menn, þá hættir þeim til þess allmikið að vísa fólki frá sér til sérfræðinga, bæði að þarflausu, ég segi: að þarflausu oft og tíðum, en auðvitað einnig oft af brýnni þörf og af eðlilegri og sjálfsagðri þörf. Ég hef þá trú á okkar mörgu góðu læknum, sem vinna á heilsugæslustöðvunum, að þeir geti oft miklu betur og þurfi nú ekki að vísa á þá alvitru sérfræðinga hér á þessu svæði eins mikið og þeir gera. En þetta er eigi að síður staðreynd og auðvitað er það von að þessir læknar vilji fá frekari fullvissu um það, að sjúkdómsgreining þeirra sé rétt, en oftrúin á sérfræðina er nú kannske ekki hvað minnst í læknastéttinni.

Mér var bent á það um daginn, þegar ég var með till. á Alþ. um átak í þessum efnum, af hv. þm. Gunnlaugi Finnssyni, að það væri e. t. v. alveg eins gott í þessu sambandi sem áfangi að þessu marki að bæta aðstöðuna hér í Reykjavík. Ég er honum alveg sammála í því efni. Það hefur verið bent á Rauðakrosshótelin hér og þá aðstöðu sem fólk utan af landi hefur þar. Þar þyrfti betur að gera. En ferðakostnaðurinn er auðvitað nákvæmlega sá sami fyrir þetta fólk og hann er býsna þungur baggi. Ég sem sagt treysti hæstv. ráðh. til að fylgja því fast eftir að fólk fái sem best notið sérfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvunum, bæði þeim, sem þegar eru komnar upp, og þeim, sem við eigum eftir að sjá risa í framtíðinni.

Þriðja atriðið var svo um mitt heimakjördæmi. Ég sé að í skýrslunni er frá því greint að á tveimur stöðum, mér mjög nátengdum, sé aðstaða til heilsugæslu góð, þ. e. a. s. á Eskifirði og Reyðarfirði. Það má auðvitað deila um það í þessu tilviki hvað er gott. Ég heyrði nú að hæstv. ráðh. herti hér á áðan og sagði að aðstaðan á Eskifirði væri ágæt. Það er ágætur maður þar, það er satt. En þar er auðvitað ekki um að ræða annað en venjulegan læknisbústað sem þar er.

Hann hefur verið nýttur vel og skynsamlega. En ég held að þar hljóti í framtíðinni að þurfa að koma til viðbótarhúsnæði, ef ég hef skilið lög um heilbrigðisþjónustu rétt hvað snertir heilsugæslustöðvar.

Í raun og veru er þokkaleg aðstaða á Reyðarfirði, en hún er mjög lítil og erfitt að nýta hana sem skyldi, var í raun og veru hugsuð sem lausn fyrir reyðfirðinga á sínum tíma og ber að þakka rn. góð viðbrögð í þeim efnum svo sannarlega, því að þessu var nokkurn veginn laumað inn. Það er ekkert nema gott um það að segja, sérstaklega fyrir okkur þarna heima. En engu að síður getur þessi aðstaða ekki talist til frambúðar. Það held ég að sé útilokað að telja. Og ég treysti því einnig, að á Eskifirði verði þannig bætt við, og ég held að hæstv. ráðh. hafi nú komið að því, að þar þyrfti breytingar á húsnæði eða viðbætur. Ég vona að það sé um það að ræða að það þurfi þar viðbótarhúsnæði, því að það hygg ég að sé það rétta.

En einmitt varðandi þetta hérað eða heilsugæsluumdæmi vaknar spurning aftur um það, sem kom hér upp við setningu laganna hvort þarna ætti þá að vera um H-1 stöð eða H-2 stöð að ræða. Það var mjög umdeilt og að lokum var staðnæmst við ákveðna íbúatölu á bak við þær stöðvar sem yrðu með tveim læknum, H-2. Þetta hérað lenti rétt undir þau mörk, og við höfum ekki verið duglegri við framleiðsluna en það, að þetta hérað er enn þá undir þessum mörkum, þannig að það fellur ekki beint inn í lögin eins og þau eru. Hins vegar voru sett inn umdæmi undir H-2 sem ekki náðu þessum mörkum, þannig að það er full ástæða til þess og von að í þessu héraði, hjá þeim eskfirðingum og reyðfirðingum, sé spurt að því, hvort þeir geti þá ekki notið sama réttar. Munu vera eitthvað um 1800–1900 íbúar í dag í þessu héraði, og þeir eru rétt við þessi mörk.

Ég vildi aðeins víkja að þessu hér. Það kemur inn á svipað atriði og hv. þm. Ragnar Arnalds kom hér inn á áðan, nema að við reyðfirðingar höfum aldrei haft sérstakan lækni. En ef tveir læknar yrðu við þessa heilsugæslustöð, þá vitanlega vildum við fá annan þeirra með búsetu á reyðarfirði. Þarna er stutt á milli og oftast nær gott að fara og ætti ekki að vera um neitt vandamál að ræða, en mundi skapa mikið öryggi fyrir okkur. Að þessu vildi ég aðeins koma, því að hér var um það að ræða í fyrstunni að um H-2 stöð var að ræða. Menn trúðu því fyrst að það mundi verða. Síðan var þessu breytt niður í H-1 stöð vegna þessara takmarkana um íbúafjölda. Þá er spurningin aðeins um það, hvort möguleiki væri á því, — og ég vil beina því sem áskorun til hæstv. ráðh., — að það yrði nú athugað vel hvort á því væri möguleiki að Eskifjarðarumdæmi væri gert að H-2 stöð. Það er mikill vilji fyrir því heima fyrir. Að vísu fengum við einu sinni álit læknis þar að lútandi sem var svo mikill afkastamaður, að hann sagði að það væri ekkert fyrir tvo menn að gera þarna. En aðrir hafa verið á öðru máli, og ég held, að þetta þurfi að athuga, og beini þeirri áskorun til hæstv. ráðh. að hann geri það.