23.03.1977
Neðri deild: 62. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2791 í B-deild Alþingistíðinda. (2067)

15. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Tilefni þess, að ég kvaddi mér hljóðs, er fyrst og fremst það, að hv. frsm. sjútvn., sem mælti fyrir þessu máli, lauk máli sínu á þá lund að hann legði ekki til að málið gengi til sjútvn. aftur, en yrði hins vegar vísað til 3. umr. að lokinni þessari umr. Þetta tel ég alveg óeðlilegan vinnuhátt, vegna þess að hér er raunverulega um það að ræða að flutt er af' hálfu n. með sérstökum hætti svo gott sem nýtt frv. Þær till., sem n. leggur fram, eru ekki nema að litlu leyti um það frv. sem hér hafði gengið eðlilega í gegnum 1. umr., heldur er hér fjallað um allt annað og miklu víðtækara mál. Ég hef skilið það þannig og skildi þannig málflutning hv. frsm. n., að hér væri fyrst og fremst um það að ræða að n. hefði orðið við beiðni rn. um að leggja fram þessar till., sem ég tel sjálfsagt og einnig kom fram að einstakir nm. hefðu hér óbundnar hendur til þeirra margvíslegu till. sem þarna liggja fyrir, og við því er heldur ekkert að segja. Það er aðeins venjulegur háttur. En þegar þannig stendur á er alltaf gengið út frá því, að sú n. þingsins, sem eðli málsins skv. á að fjalla um þessa málaflokka, taki slík mál fyrir efnislega og geri sínar samþykktir um málið og skili þannig til þd. áliti sínu, þar sem kemur skýrt fram hvort n. að meiri hl. til eða hverjir úr n. styðji hinar einstöku till. eða hver yfirleitt afstaða n. er til málsins. Ég tel að þetta mál sé þannig, að það sé í rauninni alveg óhjákvæmilegt annað en að það gangi á ný á milli 2. og 3. umr. til n. og hún fjalli um málið og síðan liggi hér fyrir álit hennar.

Varðandi þær till., sem hér er um að ræða, vil ég aðeins segja það, að ég tel að efni síðustu till., 6. till., sé sjálfsagt að samþ. Þar er í rauninni aðeins verið að veita skýrari heimildir til stjórnunarhátta til þess að hafa nokkru meira vald á því sem lögin að öðru leyti fjalla um og tekin hefur verið efnisleg afstaða til áður. Hinar till. eru hins vegar allar í þá átt, að þar er verið að breyta því sem samþ. var fyrir tæpu ári um veiðiheimildir, og það fer auðvitað ekkert á milli mála að uppi eru misjafnar skoðanir á því, hvort skuli breyta þessum veiðiheimildum frá því sem þá var ákveðið og hvort það skuli jafnvel breyta þeim enn meira en þarna er lagt til.

Ég vil varðandi 1. till. segja það, að ég er ekki við því búinn að samþ. þá till. Ég vil a. m. k. athuga það mál miklu betur, og ég get ekki fallist á að samþ. hana eina út af fyrir sig. Þar er um það að ræða að verið er að rýmka veiðiheimildir togbáta til verulegra muna við Suðausturland, og satt að segja brosa menn aðeins að því, þeir sem þarna þekkja eitthvað til, þegar Hafrannsóknastofnunin segir að það sé engin hætta á því að þarna veiðist smáfiskur, en hins vegar sé gífurleg hætta á því að hann veiðist út að 20–30–10 mílum úti fyrir Norðurlandi. Það er vissulega mikil hætta á því, þegar komið er aðeins 4 mílur frá ströndinni á þessum slóðum, að þar geti verið veiddur smáfiskur, ekki síst ýsa. Á því er auðvitað enginn vafi, að það er það atriði sem kemur þarna fyrir æðioft. En það er auðvitað með þessar fiskislóðir eins og aðrar, að þarna veiðist oft líka góður fiskur, en það er líka úti fyrir Norðurlandi. Það fer allt eftir línum.

Þar er ekki alltaf eintómur smáfiskur þar, það er mikill misskilningur. Ég held að þeir hafi ofsagt eitthvað, blessaðir, þarna frá Hafrannsóknastofnun, þegar þeir halda að þarna veiðist aldrei neinn smáfiskur. En hvað um það, það er ekki útilokað að verða við því að auka þarna á veiðiheimildir frá því sem verið hefur. Ég hika þó allmikið við að gera það, eins og ástatt er, og mun ekki fallast á það fyrr en ég er búinn að athuga um aðrar beiðnir sem liggja fyrir frá þessu svæði og að mínum dómi eiga fyllilega eins mikinn rétt á sér og þessi beiðni. Það er rétt að athuga það, að t. d. hjá okkur þm. Austurl. liggja fyrir beiðnir frá ýmsum hagsmunaaðilum, margar beiðnir til breytinga á gildandi veiðireglum á þessu svæði, og það er eins og fyrri daginn, þær beiðnir eru ýmist um að þrengja veiðikosti aðila eða rýmka.

Svipað er að segja um hinar till., að þær eru, eins og hér hefur verið gerð grein fyrir, allar í þá átt að rýmka nokkuð til með veiðiheimildir fyrir vissa aðila. Má vera að það sé alveg óhætt að gera það. En ég held að það sé hollast að gera þessar breytingar í nokkru samræmi í kringum landið, en það sé ekki rokið til á einum og einum stað út af fyrir sig án athugunar á öðrum. Ég verð líka að segja það varðandi 5. till., að það má vel vera að það sé þar mikill þrýstingur hjá þeim sem næst standa fiskislóðum út af Breiðafirði, að þeir vilji þar stugga við hinum stærri togurum. En mér er það alveg ljóst, að það verður ekki stuggað við þeim miðum án þess að þau skip fari eitthvað annað. Það þýðir vitanlega ekki annað en að gera sér grein fyrir hvaða breytingar verða þarna um leið. Og það er áreiðanlega rétt, að miðað við þau veiðimörk sem gilda nú, er enginn vafi á því að það er miklu meiri friðun á fiskimiðunum út af Breiðafirði nú heldur en t. d. á aðalmiðunum út af Vestfjörðum, — miklu meiri friðun.

En ég er ekki hér kominn til þess að mæla á móti þessum till. fyrst og fremst, heldur vegna þess að ég tel eðli málsins skv. vera eðlilegt að hv. sjútvrn. athugi þessar till. nú á milli 2. og 3. umr. Hún hefur orðið við því að flytja þær skv. beiðni rn. og menn eru þar með óbundnar hendur, en hún hlýtur að fjalla um málið efnislega og gefa út álit sitt á því hvernig hún vill að málinu standa. Þá gefst líka einstökum þm. eðlilegur tími til að flytja brtt. til viðbótar eða móta afstöðu sína til jafngagngerrar breytingar á upphaflegu frv. og hér er um að ræða, því hér er auðvitað um gjörbreytingu á því að ræða.

Ég vænti þess að n. taki að sér að athuga málið.