23.03.1977
Neðri deild: 62. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2793 í B-deild Alþingistíðinda. (2069)

15. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi

Tómas Árnason:

Herra forseti. Ég á sæti í sjútvn. sem fjallaði um það mál sem hér er verið að ræða. Ég vil fyrst aðeins víkja að málsmeðferðinni.

Ég álít að hér sé í raun og veru um að ræða tvö mál. Annars vegar er staðfesting á brbl. sem sett voru 16. júní á síðasta ári og voru nánast leiðréttingar á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands sem samþ. voru á Alþ. 19. maí á síðasta ári. Um þetta atriði er enginn ágreiningur sem mér er kunnugt um, þannig að ég sé ekki ástæðu til að ræða það mál nánar. Hitt málið er svo mál sem kemur inn á Alþ. í formi brtt., ekki raunverulega við þessi brbl., heldur einnig við lög um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands sem ég nefndi áður. Þess vegna vil ég taka undir það, sem mér hefur komið fram, að það sé eðlilegt, af því að umr. hafa ekki farið fram um þessar till., að þá verði málinu aftur vísað til sjútvn. til þess, að hún geti rætt málið á grundvelli þeirra umr., sem farið hafa fram hér á Alþ. um málið, og athugað þau sjónarmið sem þm. hafa látið í ljós varðandi þessar tillögur.

Ég er einnig í þeim hópi sem þykir, eins og kemur fram í grg. frá sjútvn. sem ég ritaði undir ásamt fleiri þm., skammt liðið frá því að lög um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands voru sett. Það mætti kannske orða það svo, að þeirri lagasetningu væri ekki að fullu lokið þar sem verið er að staðfesta nú breytingar á þeim lögum. Hinn 19. maí á s. l. ári var þessi löggjöf samþ. hér á Alþ. Síðan er stuttur tími og þess vegna álít ég almennt séð að ástæða væri til þess að láta reyna á þetta samkomulag, sem hér náðist og var að lokum samþ. á Alþ., um nokkru lengri tíma en nú er liðinn, sem ekki er fullt ár. Hins vegar ber að sjálfsögðu að líta á till. sem samkomulag er um, sem menn eru sammála um að rétt sé að samþ., þó að breytingar séu á þessari löggjöf. Við því er auðvitað ekkert að segja.

Það er aðeins eitt atriði sem ég vildi ræða. Að öðru leyti koma mín sjónarmið fram í grg. með fyrirvörum. Þetta atriði er sú breyting sem lagt er til að verði gerð við Suðvesturland. Þar er lagt til að rýmkuð verði heimild skipa 39 m að lengd og minni til togveiði á svæðinu frá Hvítingum og suður með landinu að Ingólfshöfða á þá leið, að í staðinn fyrir að miða 4 sjómílurnar við viðmiðunarlínu, eins og nú er gert skv. lögum frá því í fyrra, þá verði viðmiðunin við fjöruborð. Á þessu er nokkur munur og heimildir til veiða rýmka þess vegna nokkuð verulega fyrir skip sem eru 39 m að lengd eða minni. Við óttumst það, og það er best að segja það alveg hreinskilnislega, við óttumst það fyrir austan að slík breyting leiði til verulega aukinnar sóknar togskipa eða togbáta á þetta svæði annars staðar frá. Þess vegna viljum við helst ekki ganga lengra í þessum efnum en við gerðum í samkomulaginu sem gert var þegar lögin voru sett á s. l. ári.

Varðandi önnur atriði, sem ég sé ekki ástæðu til að lengja umr. um, vildi ég taka það fram, að ég hef tilhneigingu til þess að fylgja þeim brtt. sem þm. viðkomandi kjördæma eru sammála um á hafsvæðum, úti fyrir þeirra kjördæmum, þar sem þeir eru kunnugastir. Mig skortir staðarkunnáttu til þess að dæma af eigin reynd um þessi mál alls staðar kringum landið, en hef tilhneigingu til þess að líta þannig á málið almennt séð. Ég vil óska eftir því að málinu verði vísað aftur til sjútvn., vegna þess að ég álít í raun og veru að um sé að ræða nýtt mál í þinginu þó að það sé í því formi sem hér hefur verið lýst. Sjútvn. flytur málið að ósk sjútvrn., og það er efnislega breyting á lögunum frá 19. maí 1976.