23.03.1977
Neðri deild: 62. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2799 í B-deild Alþingistíðinda. (2073)

15. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi

Frsm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð vegna þess, sem hér hefur komið fram.

Ég vil taka það skýrt fram vegna þeirra orða, sem hér hafa fallið eftir að ég lét þau orð falla að ég gerði ekki till. um að málið kæmi aftur til sjútvn., að ef koma fram óskir um það, eins og þegar hafa komið fram, að n. taki málið aftur fyrir og skoði það betur, þá er sjálfsagt að verða við því, og hér með er tilkynnt að það verður tekið til meðferðar að nýju, þótt við höfum grandskoðað málið í n. eins og það liggur fyrir núna. En ég vænti þess þá að þeir nm., sem þetta leggja til og mæla með því, verði fúsir að mæta til fundar þegar þeir verða boðaðir,

En ef við eigum að skoða tillögu eins og kom fram hjá mínum ágæta meðnm., hv. þm. Tómasi Árnasyni, hann orðaði það eitthvað á þá leið, að hann mundi vilja fylgja því sem þm. viðkomandi kjördæma kæmu sér saman um, ósköp er ég hræddur um að þá verði seint samkomulag hér á Alþ. ef við ættum að fylgja því. Auk þess, eins og ég hef áður bent á, er ég fullviss um að þorskurinn þekkir ekkert vangasvip á þm. einstakra kjördæma um leið og hann fer þar fram hjá og tekur ekkert tillit til óska þeirra frekar. Og að sjálfsögðu, svo að ekki sé talað um þetta alvarlega mál sem gamanmál, þá eru okkar fiskveiðar ekkert einkahagsmunamál einstakra kjördæma.

Þegar hv. þm. Karvel Pálmason dregur það fram, að það sé hinn mesti voði fyrir hendi ef lokað væri umræddu svæði, sem hefur verið nýtt um áratugaskeið vestur af Snæfellsnesi af reykvískum og hafnfirskum togurum, þá muni þeir leita á miðin við Vestfirði, þá virðist þessi hv. þm. gleyma því, að þessir sömu eða aðrir eldri reykvískir og hafnfirskir togarar voru að ryðja botninn á þessum togaramiðum út af Vestfjörðum áður en nokkur togari var kominn til Vestfjarða, áður en menn fóru að hugsa til togaraútgerðar, þannig að þar er um hefðbundin mið hinnar svokölluðu stórtogaraútgerðar að ræða um áratugaraðir. Og hver á að eiga slík mið? Að þm. viðkomandi kjördæmis komi sér saman um hvernig þetta eigi að nýtast í framtíðinni, þeirri skoðun leyfi ég mér að mótmæla algerlega. Auk þess tel ég alls ekki rétt að það sé gengið að því vísu að togarar, sem sé lokað fyrir út af Snæfellsnesi, sem á margan hátt er skiljanlegt til þess að tryggja betur ákveðnar veiðar hinna smærri báta á svæði sem hefur orðið mjög illa úti um afla á undanförnum missirum, sem enginn getur á móti borið, og haft afleiðingar sem allir þekkja til, þótt svo sé þurfa þessi sömu skip ekki endilega að leita á Vestfjarðamið. Við höfum fært fiskveiðilögsögu okkar út í 200 mílur. Við erum hér um bil lausir við alla ásókn erlendra togara nema sem við höfum sjálfir tekið á okkur að leyfa, og í kjölfar þessa hefur athafnasvæði íslenskra togara stóraukist, þannig að þeir geta ekki aðeins farið í norðurátt að heimkynnum hv. þm. Karvels Pálmasonar, heldur geta þeir líka farið enn dýpra í vestur, og eins og kom fram áðan hjá hv. þm. Garðari Sigurðssyni, þeir geta á sínum fullkomnu skipum með sínum fullkomnu tækjum jafnvel náð þessum afla á dýpra vatni og áður en hann kemur upp á grunnsævið. Þeir geta líka leitað í suðvestur á togaramið sem þar eru og reyndar víða annars staðar.

Annað hef ég ekki orðið var við að kæmi fram í þessum umr. sem sérstök ástæða er til að ræða um hér. Ég er búinn að segja það, að ég mun boða fund í n. og við munum þá fara aftur yfir þessar till. sem við höfum þó ígrundað allvel, eins og kemur fram í nál. okkar. Það er samstaða um takmarkaðan hluta þeirra till. þótt við flytjum þær allar að ósk rn. Rn. sjálft varð ekki fyllilega sammála óskum Landssambands ísl. útvegsmanna og skar niður till. þess, en óskaði samt eftir að þær væru fluttar, þannig að ég geri ráð fyrir að það leggi áherslu á að fá samþykktar þær breytingar sem það leggur til, þótt það hafi ekki alfarið farið að óskum L. Í. U.

Vegna þess, sem hefur komið fram vegna þeirra orða sem féllu í sambandi við suðausturlandsmiðin sem lagt er til að verði opnuð, þá vil ég að lokum vitna orðrétt í orð Hafrannsóknarstofnunarinnar um brtt. Rétt á undan bréfinu snúast þeir algerlega gegn því að rýmkað verði við Norðurlandið, en segja svo, með leyfi forseta:

„Stofnunin getur hins vegar eftir atvikum fallist á þá rýmkun togveiða sem farið er fram á í lið C4,“ — þetta er um till. útgerðarmanna, en þar er átt við Suðausturlandið og Suðurlandið, — „þar sem það mun ekki hafa í för með sér almenna aukningu sóknar í smáþorsk. Hér er að mestu um að ræða ýsuveiði, en bæði er ýsustofninn ekki jafnilla á vegi staddur og þorskurinn og eins mun hin nýja möskvastærð, 155 mm, væntanlega hafa í för með sér mikla verndun smáýsu.“

Hins vegar, eins og ég tók fram í framsöguræðu minni, tekur stofnunin ekki afstöðu til þess með hvaða veiðarfærum Alþ. ákveður að flotinn megi veiða á ákveðnum svæðum. Hún hugsar um stofninn og magn fyrst og fremst, en ekki veiðarfæri, eins og fram hefur komið.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð lengri. Ég endurtek aðeins, herra forseti, að eftir að óskir hafa komið fram hér í hv. d. og reyndar einstakir nm. úr sjútvn. d. líka tjáð sig þar um, þá munum við taka málið þar fyrir að nýju.