24.03.1977
Neðri deild: 63. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2807 í B-deild Alþingistíðinda. (2100)

199. mál, virkjun Blöndu

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Hæstv. forseti. Efni þessa frv. er að ríkisstj. sé veitt heimild til þess að fela væntanlegri Norðurlandsvirkjun eða öðrum aðila að reisa og reka vatnsaflsstöð við Blöndu í Austur-Húnavatnssýslu með allt að 150 mw. afli. Þetta frv. var lagt fram í lok síðasta þings og er nú flutt að nýju að mestu óbreytt, en hins vegar fylgja frv. nú ný orkuspá og kostnaðaráætlun.

Eftir þeim rannsóknum og áætlunum, sem gerðar hafa verið þegar, er ljóst að Blönduvirkjun er í hópi hagkvæmustu vatnsaflsvirkjana á Íslandi.

Kostnaðaráætlun, sem fylgir þessu frv., fylgiskjal II, gerir ráð fyrir því að heildarkostnaður við virkjun sem þar er reiknað með, 135 mw., mundi verða 14.8 milljarðar kr. Stærstu liðir þar eru jarðstífla við Reftjarnarbungu, rúmlega 1 milljarður, aðrennslisskurður tæplega 1,3 milljarðar, frárennslisgöng og svelgur 1,2 milljarðar, vélar og rafbúnaður 2,5 milljarðar. Þegar framleiðslukostnaður er með venjulegum hætti áætlaður í þessu efni er gert ráð fyrir að hann verði 2,43 kr. á kwst. Þegar borið er saman við aðrar þær virkjanir eða virkjunarmöguleika, sem hagkvæmastir eru taldir á Íslandi nú, þá er þetta verð mjög sambærilegt. Á ég þar við Sigölduvirkjun, Hrauneyjafossvirkjun og nokkrar fleiri.

Þær rannsóknir, sem átt hafa sér stað varðandi Blöndu, og áætlanir, sem þar um hafa verið gerðar, benda sem sagt til þess að hér sé um mjög hagkvæma virkjun að ræða.

En auk þess hve hagkvæm þessi virkjun verður að teljast, kemur margt fleira til sem mælir með þessum virkjunarkosti.

Stærstu virkjanir hér á landi eru í Þjórsá og Tungnaá, sem eru á eldvirku svæði, skammt frá Heklu. Um leið og það er ljóst að við verðum að halda áfram að virkja bæði vatnsföll og jarðhita á eldvirku svæði, þar eð í sambandi við þau eru aðalháhitasvæði landsins, þá er sjálfsagt að huga að virkjunum utan hinna eldvirku svæða.

Við búum í eldfjallalandi og því fylgir áhætta, eins og mörg nýleg dæmi sanna, og áhættu verðum við íslendingar að taka. En vissulega er það nokkurt umhugsunarefni að stærstu raforkuver landsins eru á eldfjallasvæðum. Er því lögð á það áhersla nú að rannsaka og undirbúa hagkvæmar virkjanir utan þessara svæða eldfjalla og jarðskjálfta.

Ég vil nefna tvo slíka virkjunarmöguleika sem kannaðir hafa verið nú að undanförnu. Annar er Blönduvirkjun og hinn er virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal. Það er mjög mikilvægt að í þessa átt sé stefnt, um leið og við verðum að gera okkur ljóst að áfram verður að halda virkjunum einnig á hinu eldvirka svæði.

Flestir kostir eru við þessa virkjun Blöndu. Það eru mjög góðir miðlunarmöguleikar og stuðla að góðri og hagkvæmri nýtingu virkjunar milli árstíma og auknu rekstraröryggi. Gert er ráð fyrir stóru lóni sem mundi jafna rennslið yfir allt árið, en það hefur verið einn höfuðannmarki á mörgum vatnsvirkjunum okkar íslendinga að rennslið er ákaflega misjafnt eftir árstímum. Þær meiri háttar virkjanir, sem fyrst var ráðist í á Íslandi, virkjanir Sognsins, voru ákaflega hagkvæmar að þessu leyti, vegna þess að leitun mun á fljóti í Evrópu þar sem jafnrennsli er eins öruggt og í Sogi. Veldur því að sjálfsögðu Þingvallavatn sem Sog fellur úr og gegnir í rauninni því hlutverki að vera stórfelld miðlun.

Með þessum hugmyndum um stórt lón í sambandi við virkjun Blöndu er áætlunin að tryggja miðlun og nægilegt jafnrennsli yfir árið.

Staðsetning þessarar virkjunar í kerfinu er einnig mjög hagkvæm. Blönduvirkjun yrði vel staðsett gagnvart aðalorkuflutningslínu milli Suður- og Norðurlands og einnig gagnvart Vestfjörðum.

Nú er það eitt af þeim verkefnum, sem unnið hefur verið að og verður að leggja áherslu á á næstunni, að tengja saman landshluta því að margir kostir eru við slíka samtengingu. Það er í fyrsta lagi að nýting orkunnar verður betri með því móti á marga lund. M. a. hafa rannsóknir sýnt að stórt orkuver á Norðurlandi, sem er rekið í tengslum við kerfið á Suðvesturlandi, stuðlar að betri nýtingu vatnsorkunnar einnig í þeim landshluta heldur en ef Suðvesturlandskerfið vinnur eitt sér. Þetta stafar m. a. af því, að það fer ekki saman í öllum landshlutum, hvenær dregur úr vatnsrennsli stórfljóta, og verður nýting af þessum ástæðum betri. Auk þess er samtenging landshluta og virkjana nauðsynleg af öryggisástæðum.

Þó er þess að gæta að byggðarsjónarmið koma hér einnig til. Það er ekki rétt stefna, þó að heyrst hafi raddir í þá átt, að hagkvæmast væri fyrir þjóðina að halda áfram að virkja svo til eingöngu á Þjórsársvæðinu, þar séu mjög hagkvæmir virkjunarmöguleikar og væri sú stefna í orkumálum hagkvæmust landinu í heild. Ég tel að nauðsynlegt sé að dreifa virkjunum um landið. Að sjálfsögðu verður að vera meginsjónarmið að um hagkvæmar virkjanir sé að ræða. En hér kemur margt til. Af öryggisástæðum er nauðsynlegt að virkjanir séu í sem flestum landshlutum, því að í okkar landi er of áhættusamt að byggja raforku, eins mikla þýðingu og hún hefur bæði fyrir almenningsnot og fyrir atvinnureksturinn, á háspennulínum um langa vegu og yfir fjallgarða þar sem bilanir geta orðið í illviðrum að vetrum og mjög erfitt að komast þar að til viðgerða og gæti tekið oft verulegan tíma. En frá byggðasjónarmiði er einnig mikilvægt að virkjunum sé nokkuð dreift um landið til þess að skapa þannig aðstöðu í viðkomandi byggðarlögum bæði að því er atvinnu snertir, meðan virkjunin er í byggingu, og einnig áfram, eftir að hún tekur til starfa.

Það er auðvitað ljóst að byggðarlög, þar sem myndarleg virkjun er reist, nýtur góðs af, og verður oft til þess að örva atvinnulíf og verða lyftistöng fyrir héraðið.

Ég nefni þessi atriði í upphafi máls míns til að benda á nokkrar meginröksemdir sem eru stoðir undir þessu frv. og hugmyndum um að veita heimild til virkjunar Blöndu.

Í grg. frv. og fylgiskjölum þess er gerð grein fyrir hvernig í stórum dráttum er hugsuð þessi virkjun, og tel ég ástæðulaust að rekja það nánar.

Í því sambandi koma að sjálfsögðu umhverfismál mjög til athugunar, og var þegar allsnemma leitað umsagnar Náttúruverndarráðs um það mál. Í grg. frv. er tekinn upp hluti úr svari Náttúruverndarráðs, þar sem segir að á þessu stigi geti Náttúruverndarráð tekið fram að það sjái ekki fram á neina meiri háttar árekstra, að því er varðar náttúruminjar eða fyrirhugaðar friðlýsingar, og geri að svo stöddu ekki athugasemdir við þær hugmyndir um virkjunartilhögun sem fram koma í skýrslum sem síðan eru nánar greindar. Hins vegar áskilur ráðið sér rétt til frekari umfjöllunar þegar niðurstöður náttúruverndarkönnunar liggja fyrir og þegar nánari útfærsla virkjunartilhögunar hefur verið ákveðin. En umhverfisáhrif þessarar fyrirhuguðu virkjunar eru einkum fólgin í því, að töluvert beitiland fer undir uppistöðulón og glatast.

Rannsóknastofnun landbúnaðarins hefur kannað þetta mál rækilega, og hafa þeir dr. Björn Sigurbjörnsson og Ingvi Þorsteinsson gert grein fyrir rannsóknum stofnunarinnar á beitartapi á lónsstæðinu og álits þeirra hefur verið leitað um hvernig væri unnt að bæta beitartjón af völdum lónsins. Rannsóknastofnun landbúnaðarins er þeirrar skoðunar að unnt sé að rækta upp örfoka land í nágrenni þess, en á þeim síóðum hefur Rannsóknastofnun landbúnaðarins um nokkur undanfarin ár haft með höndum rannsóknir og uppgræðslutilraunir. Þessar tilraunir sýna að mati Rannsóknastofnunar landbúnaðarins að slík uppgræðsla sé vel möguleg. Það er að sjálfsögðu ein af forsendum virkjunar Blöndu að beitilandið yrði bætt, helst með því að græða upp jafngott land í staðinn.

Það var fyrir tæpum tveimur árum, eða í aprílmánuði 1975, að áætlanagerð og rannsóknum varðandi virkjun Blöndu var það langt komið að rétt þótti að kynna heimamönnum áform um hugsanlega virkjun. Þess vegna var boðað til fundar að Blönduósi 25. apríl 1975. Þennan fund sátu sveitarstjórnarmenn, bændur og fleiri aðilar í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum sem hagsmuna töldu sig eiga að gæta við gerð virkjunarinnar. Sérstaklega eru það tveir aðilar, þ. e. Upprekstrarfélög Auðkúluheiðar og Eyvindarstaðaheinar, sem hér koma við sögu og eiga hlut að máli. Á þessum fundi var málið kynnt frá öllum hliðum, sumpart af iðnrh. og enn fremur þeim sérfræðingum sem höfðu unnið að undirbúningi málsins. Þótti rétt að hafa þessi vinnubrögð sem voru nokkur nýlunda í virkjunarmálum og undirbúningi virkjana, að áður en lengra væri haldið skyldi kynna heimamönnum áform um virkjunina og kanna viðhorf þeirra. M. a. með dýrkeypta reynslu frá öðrum stöðum í huga þóttu sjálfsögð vinnubrögð að hafa þennan hátt á.

Í framhaldi af þessum umr. og ýmsum ábendingum heimamanna voru kannaðar í Orkustofnun og af öðrum sérfræðingum ýmsar breytingar á virkjunartilhögun í sambandi við þær ábendingar sem fram höfðu komið. Niðurstöðurnar voru svo kynntar síðar á þessu ári, sumarið 1975, á fjölmennum fundum sem haldnir voru bæði í Varmahlíð og að Húnavöllum. Síðan hafa verið haldnir fundir með heimamönnum í héraði og í iðnrn., bæði um tilhögun virkjunarinnar og um tilhögun bóta fyrir þá röskun á aðstöðu sem virkjunin kann að skapa bændum á svæðinu, með hverjum hætti slíkar bætur yrðu og hvaða ráðstafanir þyrfti að gera í þessu sambandi.

Eftir þessa fundi og í samræmi við þær umr., sem þar urðu, hafa verið gerð drög að samkomulagi um bætur vegna Blönduvirkjunar í sex liðum sem birt er sem fskj. III með þessu frv.

Það er í fyrsta lagi, að mjög var um það rætt með hverjum hætti bætur skyldu greiddar. Kom þar aðallega tvennt fljótlega til umr.: annars vegar hvort greiða skyldi bætur í peningum eða í ókeypis raforku, og í annan stað uppræktun lands. Að því er snertir fyrra atriðið, þá er gert ráð fyrir því strax í vatnalögum frá 1923 að bætur til landeigenda megi greiða í raforku ef svo ber undir. Það kom skjótlega fram, að bæði mörgum heimamönnum og öðrum raunar þætti fara vel á því og margt mæla með þeirri aðferð, að í stað peningagreiðslna kæmi fyrirheit um ókeypis raforku. Það er margt sem mælir með þeirri aðferð, m. a. það sjónarmið, að með því að býlin eða jarðirnar fái slík hlunnindi eða fyrirheit séu meiri líkur en ella, vaxandi líkur fyrir að þær jarðir haldist í byggð. Mörg fleiri rök koma þar til sem ég skal ekki rekja hér.

Það var auðfundið skjótlega í þessum viðræðum að bændur lögðu á það mikla áherslu að þessi háttur yrði á hafður. Hitt er svo nokkurt vandamál, að ákveða nánar hvernig slíkar bætur skuli metnar, hvort það skuli ákveðið í tölu kw., hvort þessir tveir höfuðaðilar, þ. e. a. s. Upprekstrarfélög Auðkúluhrepps og Eyvindarstaðahrepps skuli fá visst afl eða orku í sinn hlut og svo sjálf skipta því milli bænda, sem eru félagsmenn í þessum félögum, hvert skyldi vera hámarkið sem hér væri um að ræða, hvort miða skyldi við afi, þ. e. a. s. í kw., eða orku, í kwst. eða gwst. Í þessum drögum er stungið upp á því að virkjunaraðili láti viðkomandi hreppum í té ókeypis raforku allt að 1200 kw.

Í sambandi við ræktun lands er gert ráð fyrir að upp sé ræktað jafnmikið og gott beitiland og það sem fer undir vatn og að Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Landgræðsla ríkisins annist á kostnað virkjunaraðilans uppgræðslu á samtals 1000 hekturum af örfoka landi á Auðkúluheiði og Eyvindarstaðaheiði. Þá er gert ráð fyrir að þessari ræktun yrði lokið þegar lónstæði væru tilbúin.

Önnur atriði, sem minnst er á í þessum drögum, eru samgöngubætur, veiði, vinnubúðir, vegagerð og varsla, sem ég tel ekki ástæðu til að fara frekar út í.

Með þessu frv. fylgir sem fskj. IV á bls. 9 orkuspá. Þetta er nýleg spá sem orkuspárnefnd hefur látið frá sér fara. Hún kom út í febr. s. l. En svo er mál með vexti, að í stað þess að áður voru það nokkrir aðilar sem sömdu orkuspár hver fyrir sig, þá var tekið fyrir nokkru upp samstarf milli þeirra aðila sem með þessi mál hafa að gera en það eru fulltrúar frá Orkustofnun, Landsvirkjun, Rafmagnsveitum ríkisins, Laxárvirkjun, Rafmagnsveitu Reykjavíkur og Sambandi ísl. rafveitna. Þessir aðilar hafa lagt til fulltrúa í þessa orkuspárnefnd sem unnið hefur síðan síðla árs 1975 að því að gera samræmda raforkuspá fyrir allt landið og einstaka hluta þess.

Í fskj. IV. er gerð grein fyrir þeim forsendum sem þessi orkuspá er á byggð.

Án þess að fara rækilega út í þessa orkuspá er rétt að taka það fram, að samkv. henni er gert ráð fyrir að afl bæði Sigölduvirkjunar og Kröfluvirkjunar verði fullnýtt eftir 3–4 ár eða á árinu 1980, en orkan fullnýtt tveim árum síðar, m. ö. o.: þegar hætta þykir á aflsskorti verði ný virkjun að vera til komin. Þessi spá er ekki byggð á neinni stóriðju til viðbótar því sem þegar hefur verið ákveðið, þ. e. a. s. járnblendiverksmiðju og stækkun annars kerskála í álverinu. Það er því vegna almenningsnota sem nauðsynlegt er að ný virkjun hafi tekið til starfa á árinu 1980, og þess vegna þótti óhjákvæmilegt í lok síðasta árs að veita virkjunarleyfi fyrir Hrauneyjafossi, en það var eina meiri háttar virkjun hér, sem var fullkomlega um hönnun og áætlanir tilbúin til ákvarðanatöku. Í þessum orkuspám er svo gert ráð fyrir að þegar Hrauneyjafossvirkjun bætist við muni afl þessara virkjana allra endast til ársins 1987 eða um það bil 10 ár frá árinu í ár, orkan, eins og í fyrra dæminu, væntanlega tveim árum lengur. Nú er það svo að meiri háttar virkjanir, t. d. Blönduvirkjun, krefjast mikils undirbúnings og virkjunartíminn er alltaf nokkur ár. Það er því ekki ráð nema í tíma sé tekið að Alþ. lýsi vilja sínum í því efni að í þessa átt skuli stefnt. Allar þær athuganir, sem hingað til hafa fram farið, benda ótvírætt í þessa átt sem ég gat um áðan, að hér sé um sérstaklega hagkvæma virkjun að ræða. En að því er þessa orkuspá snertir tel ég þó rétt að fara um hana nokkrum orðum til viðbótar.

Þess er í fyrsta lagi að geta, að þessi orkuspá er samin af mikilli varfærni og ýmislegt bendir til þess að orkunotkun vaxi örar en þessi orkuspá gerir ráð fyrir. Menn hafa nefnt sem dæmi í þessu efni, að á hinum næstu árum er gert ráð fyrir a.ð aukning raforkunotkunar fyrir landið í heild verði um 9% á ári, þ. e. a. s. á árunum 1977–1979 verði heildaraukning í landinu um 9%, á næstu árum þar á eftir um 8%. Hins vegar hafa menn bent á að orkuspá fyrir Norðurland, þ. e. a. s. um aukningu rafnotkunar á Norðurlandi, er lægri en hin almenna spá fyrir landið allt. Þegar menn hafa í huga þann orkuskort, sem verið hefur á Norðurlandi og sumir hafa viljað kalla orkusvelti, sem staðið hefur bæði fyrir þrifum nýjum atvinnufyrirtækjum, dregið úr framtaki og aukningu atvinnulífs orðið til þess að rafhitun hefur verið bönnuð þar á vissum svæðum um alllangt skeið þá finnst sumum mjög varlega í það farið að spá að á árunum 1977–1980 verði árleg aukning raforkunotkunar á Norðurlandi aðeins 7% á ári og minnki niður 1 6 árið 1981. Á þetta hafa menn bent til stuðnings því að þessi orkuspá sé mjög varfærnisleg og megi eins reikna með því að reynslan sýni, að a. m. k. þegar orka verður fáanleg — vottandi bráðlega — á Norðurlandi, muni aukningin verða töluvert meiri.

Í öðru lagi er í þessari orkuspá ekki reiknað með því, að til kæmi bygging þriðja kerskála í álverinu í Straumsvík. Eins og kunnugt er hefur um margra ára skeið verið rætt um þann möguleika. Á tímum fyrrv. ríkisstj., þeirrar sem sat að völdum 1971–1974, var þetta mál mjög til umr. og átti bæði fyrrv. iðnrh. viðræður sjálfur og sú n., sem hann skipaði, viðræðunefnd um orkufrekan iðnað, ítarlegar viðræður við svissneska álfélagið um byggingu þessa þriðja kerskála. Niðurstaða varð engin. Gert er ráð fyrir að viðræður um þetta mál verði teknar upp að nýju. Hver niðurstaða verður er ógerningur að segja á þessari stundu. Ef hins vegar þær niðurstöður verða hjá viðræðunefnd um orkufrekan iðnað og ríkisstj. að það þyki þjóðinni hagkvæmt að ráðist verði í byggingu þriðja kerskála, þá kemur það mál að sjálfsögðu til Alþingis kasta. Í þessu eru mjög mörg atriði sem vandlega þarf að skoða. Ef menn kæmust að þeirri niðurstöðu að rétt þætti að leyfa að ráðist yrði í þriðja kerskála í Straumsvík, þá þarf hann 80 mw. afl.

Þriðja atriðið, sem ég vildi nefna og allt of sjaldan er rætt, er þróun og uppbygging iðnaðar, annars en hinnar svokölluðu stóriðju. Mönnum hættir mjög til þess í umr. um orku- og iðnaðarmál á Íslandi að ræða annars vegar um þann almenna, hefðbundna iðnað, oft og tíðum smáiðnað, sem hér er, og hins vegar svokallaða stóriðju í samstarfi við erlenda aðila. En við þurfum að huga meir að meðalstórum iðnaði sem einnig er í mörgum tilvíkum orkufrekur, þarf mikillar orku við. Ég ætla að á því sviði séu ákaflega miklir og merkir möguleikar sem þarf að huga að. Margir slíkir möguleikar hafa verið til athugunar á undanförnum árum hjá stofnunum iðnaðarins. Í sambandi við undirbúning að Blönduvirkjun og undirbúning þessa frv. hef ég látið athuga sérstaklega ýmsa möguleika sem koma til greina á sviði hins meðalstóra iðnaðar sem landsmenn sjálfir og einir ættu vel að geta ráðið við fjárhagslega. Ýmislegt af því, sem þar hefur upp komið, er þess eðlis að slík fyrirtæki má reisa víðs vegar um landið, og m. a. og sérstaklega hefur Iðnþróunarstofnun Íslands unnið að þessu og tekið saman yfirlít sem ég skal nú rekja að nokkru og stikla þó á stóru.

Það er rétt að nefna hér fyrst í þessu sambandi ýmiss konar framleiðslu úr jarðefnum eða steinefnum eða gosefnum, eins og það er oft kallað. Þar má fyrst nefna steinullarframleiðslu úr basalti, en þar er talið að sé um þrjú aðalþrep að ræða: í fyrsta lagi bræðslu, enn fremur þeyting eða drátt á trefjum, í þriðja lagi mottugerð. Úr þessum efnum mætti framleiða margt. Einangrun á pípum, hljóðeinangrunarplötur, mottur og margt, margt fleira. En þessi framleiðsla, steinullarframleiðsla, krefst mikillar orku vegna þess að bræðslumark blöndunnar er talið 1250–1300 gráður. Það hefur farið fram könnun á stofnun slíkrar verksmiðju og verið gerðar ýmsar frumathuganir á því, svo og á markaðsmöguleikum, og virðast verulegar líkur á því að hér geti verið um álitlegan iðnað að ræða.

Í þessu sambandi hefur einnig verið talað um framleiðslu á steinullartrefjum, þ. e. a. s. dregnum trefjum úr basalti, en notkunarsvið er þar varma- og hljóðeinangrun, síur og margvísleg önnur notkun, en orkuþörf hér er einnig mikil, því að bræðslumark fyrir steinullartrefjar er talið að sé 1350–1400 gráða hiti.

Þá hefur verið nefnd í þessu sambandi glerull, þar sem framleiðsluaðferðin líkist um margt framleiðslu á steinull, en er þó öll einfaldari. Hráefni gæti verið brotagler. Er talið að í þessum þrem greinum, sem ég hef hér nefnt, sé fyrst og fremst um að ræða mikinn innlendan markað til að spara okkur mikinn gjaldeyri, en einnig eru að því er sum þessara atriða snertir útflutningsmöguleikar og gjaldeyrisöflun.

Þá hefur verið athuguð sérstaklega sementsframleiðsla, en eins og kunnugt er er það svo með Sementsverksmiðju ríkisins, að þó að hún noti verulegt magn af rafmagni, þá er aðalorkugjafinn olía. Það eru hvorki meira né minna en um 13 þús. tonn af olíu sem Sementsverksmiðjan notar nú á ári. Hefur því verið mjög til athugunar hvort hugsanlegt væri að breyta til og taka raforku að verulegu magni til þessarar framleiðslu sem orkugjafa í stað olíunnar.

Um niðurstöður þessa skal ég ekki fullyrða neitt hér, því að þau atriði, sem ég er hér að rekja, eru öll aðeins hugmyndir og ábendingar sem nánar þarf að kanna.

Þá hafa verið nefnd svokölluð viðnámsþolin efni margvísleg sem framleidd eru með rafbræðslu, og hef ég fengið allítarlega grg. um þá möguleika sem að mörgu leyti virðast álitlegir. Stofnkostnaður virðist ekki ýkjamikill í þeirri grein ef ekki er of stórt byrjað, hráefni er til í landinu og orkuþörfin tiltölulega stór þáttur í framleiðslunni.

Þá má nefna járn- eða stálframleiðslu úr brotajárni, en þegar hefur verið stofnað stálfélag sem ýmsir áhugasamir einstaklingar standa að. Hefur það félag leitað til ríkisvaldsins um nokkra fyrirgreiðslu, annars vegar ríkisábyrgð fyrir stofnláni og hins vegar að ríkissjóður legði fram sem hlutafé fjárhæð sem nemur tollum og aðflutningsgjöldum af vélum. Hér er einnig um að ræða fyrirtæki sem þarfnast töluverðrar orku.

Þá kemur áburðarframleiðsla til athugunar. Hefur verið að störfum sérstök n. til að kanna stækkun áburðarverksmiðju eða byggingu nýrrar verksmiðju. Nú er það þannig að Áburðarverksmiðjan framleiðir um 30 tonn af ammoníaki á dag og notar nú um 15 mw. til þeirrar framleiðslu. Ef menn teldu aðrar ástæður liggja til þess að stækka verksmiðjuna og auka framleiðsluna á ammoníaki, þá gæti þar verið um að ræða tvöföldun eða þreföldun á framleiðslumagni. Nú hefur komið í ljós í sambandi við áburðarframleiðslu að þegar um meiri háttar verksmiðjur er að ræða a. m. k. muni jarðgas eða olíugas henta betur og vera ódýrara en raforkan. Hins vegar má vel vera að niðurstaðan verði sú, að þegar ekki er um mjög stórar verksmiðjur að ræða geti raforkan áfram verið samkeppnisfær. Að því er áburðarverksmiðjuna snertir er sérstaklega aukin framleiðsla ammoníaks til innanlandsnota og til útflutnings til athugunar sem dæmi um orkufrekan iðnað.

Þá hefur heykögglaframleiðsla til þess að koma í stað kjarnfóðurs þess, sem nú er flutt inn, verið mjög til athugunar. Hefur verið gert ráð fyrir að framleiðsla á heykögglum sé nú um það bil 1/10 hluti af því sem þyrfti til þess að koma að fullu í stað kjarnfóðurs. Þarf frekari tæknilegrar athugunar hvort raforkan hentar í þessu tilvíki, en þó eru margir sem telja, að svo sé.

Ég nefni þessi dæmi og rek þó aðeins fáa drætti. Margvíslegir aðrir möguleikar eru hér á landi á meðalstórum iðnaði sem þarfnast verulegrar raforku. En ég nefni þetta sérstaklega hér vegna þess að menn mega vara sig á því að líta á þessar tölur frá orkuspánefnd þannig að ekki sé þörf á nýjum virkjunum fyrr en til viðbótar þeim sem eru í byggingu eða leyfðar hafa verið, það þurfi ekki fyrr en eftir 10 ár að taka til starfa viðbótarvirkjun. Við verðum að hafa það í huga að orkuspárnefndin hefur margvíslega fyrirvara sem stundum gleymast þegar menn vitna í þessar spár. Ef svo fer sem að er stefnt, að íslenskur iðnaður aukist verulega og m. a. verði lögð áhersla á vinnslu jarðefna og ýmiss konar önnur meðalstór iðnfyrirtæki sem yrðu alfarið á vegum landsmanna sjálfra, þá þurfa þessi fyrirtæki mikla raforku vegna þess að í mörgum tilvíkum er um bræðslu að ræða þar sem hitastigið þarf að vera yfir 1000 stig.

Ég nefndi ekki í þessari upptalningu eitt atriði sem er alllangt á veg komið í undirbúningi. Það er vinnsla perlusteins sem ætti að geta hafist hér áður en langt um líður, en þar krefst bæði þensla og þurrkun raforku.

Ef svo fer um aukningu á raforkunotkun eins og mér segir hugur um, að hún verði nokkru örari en orkuspáin gerir ráð, og ef tekst að koma upp á næstu árum ýmsum slíkum iðnaðarfyrirtækjum eins og ég nú hef rakið, þá er ljóst, að ekki má slaka á um rannsóknir og undirbúning nýrra virkjana. Það er mikilvægt atriði í sambandi við virkjanir á næstu árum að dreifa virkjunum um landið, en auðvitað á þeirri forsendu að þar sé um hagkvæmar virkjanir að ræða, a. m. k. séu sumar hinna nýju virkjana, sem við ráðumst í á næstu árum og áratugum, utan hinna eldvirku svæða. Er mjög mikilvægt að þessum undirbúningi verði hraðað eftir föngum. Þegar Sigölduvirkjun var leyfð á sínum tíma og nú Hrauneyjafossvirkjun hafa mál legið þannig fyrir, að aðrir fullhannaðir virkjunarkostir hafa ekki verið fyrir hendi. Landsvirkjun hefur sinnt störfum sínum af mikilli fyrirhyggju og myndarskap að því er snertir rannsóknir og undirbúning til þess að fullnægja sem best þeirri skyldu sem samkvæmt lögum hvílir á því fyrirtæki, að sjá fólkinu í þessum landshluta á Suðvesturlandi, fyrir raforku. En næst þegar þarf að ráðast í meiri háttar virkjun á eftir Hrauneyjafossvirkjun verðum við að hafa fleiri valkosti en á Þjórsársvæðinu einu. T. d. væri æskilegt þegar það mál liggur fyrir, að þá lægi fyrir fullnaðarhönnun ekki aðeins á næsta áfanga á vegum Landsvirkjunar, heldur einnig fullhannaðar og tilbúnar til ákvarðanatöku og útboðs bæði Blöndu- og Bessastaðaárvirkjun.

Hæstv. forseti. Ég vil taka það fram að lokum, að hér er um heimildarlög að ræða. Það fer nokkuð eftir atvikum hversu langur tími líður frá því að Alþ. samþykkir heimildarlög og þangað til endanlega er ákveðið að ráðast í virkjun. En vinnubrögð og gangur mála hefur verið sá hér um alllangt skeið, að þegar virkjun hefur verið könnuð það rækilega, að hún þykir álitleg og hagkvæm, þó hún sé ekki fullhönnuð, þá er málið lagt fyrir Alþ. í formi heimildarlaga. Ef Alþ. fellst á að hér sé um hagkvæma og álitlega virkjun að ræða eru þau heimildarlög samþ. Síðan er það ríkisstjórnar á sínum tíma að ákveða hvort og hvenær skuli nota slík heimildarlög, þegar málin hafa verið rannsökuð til hlítar. Stundum líður skammur tími þar í milli, stundum langur tími.

Heimildarlögin fyrir Hrauneyjafossvirkjun voru samþykkt á Alþ. 1971, en virkjunarleyfi var veitt og ákvörðun um að ráðast í virkjunina tekin í lok des. 1976.

Ég vil svo leggja til að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn.