24.03.1977
Neðri deild: 63. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2816 í B-deild Alþingistíðinda. (2101)

199. mál, virkjun Blöndu

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég hlýt að hefja mál mitt með því að átelja það óðagot sem viðhaft er á afgreiðslu þessa máls. Frv. var ekki lagt fram fyrr en nú í þessari viku, og þrátt fyrir það er knúið á um að ljúka 1. umr. nú fyrir helgi. Það er mikill annatími í þinginu og málið er stórt og stefnumarkandi. Ég vil þó þakka forseta fyrir að hinkra við í gær og draga umr. þangað til nú, þó ég hefði fremur kosið að frestur hefði gefist fram yfir helgi. Þetta er afdrifaríkt mál og rétt að menn geri sér grein fyrir hvað þeir eru að gera.

Í frv. er verið að heimila Norðurlandsvirkjun að reisa raforkuver. Norðurlandsvirkjun er ekki til og verður e. t. v. aldrei. Það fyrirtæki er allt of fjarri til þess að fela því verkefni. Ég minni á það, að það er stefna Framsfl. að mynda eitt raforkuöflunarfyrirtæki fyrir landið allt, Íslandsvirkjun, en ekki landshlutafyrirtæki til raforkuöflunar.

Ég tel rétt að nefna það, að hér er verið að óska heilmilda til þess að virkja fyrir 15 milljarða samkvæmt núgildandi verðlagi. Hvar ætlar hæstv. ráðh. að taka þá peninga, eða þeir þm. Eyjólfur og Pálmi, háðir hv. þm.? Ég tel það ekki rétta stefnu að gefa út svona heimildarlög, ekki rétta á nokkurn hátt. Þarna eru þm. að afsala sér öllum íhlutunarrétti um málið og leggja það á vald einhverrar ríkisstj. í framtíðinni hvort og hvenær verður virkjað. Það er einkennilegt fyrir okkur þm., sem ekki sátum hér á undanförnum kjörtímabilum, að hafa ekki haft tækifæri til þess að taka afstöðu til verkefna eins og virkjunar Kröflu, hvað þá Hrauneyjafoss. En þá sögu rek ég ekki lengra, hún er öllum kunn. Hins vegar á þjóðin rétt á því að krefja okkur reikningsskapar vegna ráðsmennsku okkar, og það mun hún vafalaust gera.

Frv. þetta til l. sem hér er fram komið, er á ýmsan hátt fátæklega úr garði gert. Rannsóknir eru skammt á veg komnar, hugmyndir ýmsar í lausu lofti hvað varðar virkjunartilhögun og blekkinga gætir í framsetningu. Virkjunartilhögunin er einkennileg. Þarna á að mynda stórt uppistöðulón í 480 m hæð yfir sjó, leiða síðan úr því vatnið úr einu stöðuvatni í annað, allt til Gilsvatns í 420 m hæð yfir sjó, þarna myndast brattir skurðir, vatnið grefur jarðveg, en hvergi er hugsað fyrir því hvert sá uppgröftur fer. Hann hlýtur að fylla Gilsvatn, sem er örgrunnt, og safnast saman í hallalitlum skurði frá Gilsvatni að inntaksmannvirkjunum. Þessi skurður hefur yfirfall í Gilsá, 3–4 km frá inntaksmannvirkjum virkjunarinnar, þ. e. a. s. holunni sem vatnið á að falla niður í. Þegar krapamyndun verður í skurðinum eða ís brotnar á honum er engin leið að hreinsa skurðinn nema þá í gegnum þessar gjár. Sama er uppi á teningnum ef vél bilar. Þá þarf það að vera vitað fyrir fram, þannig að hægt sé að beina vatninu um yfirfall 2 klst. áður en bilun á sér stað. Svona mætti lengi telja um tilhögunina. Ég mun þó einungis drepa á fátt eitt og þó einkum það er varðar röskun á náttúrufari.

Lónið, sem myndast, er að mestu leyti á grónu landi, góðu og frjósömu landi. Stærð þess er meiri en allra túna í Austur-Húnavatnssýslu samanlagðra. Þarna myndast þriðja stærsta stöðuvatn á landinu.

Ég mun nú lesa stutta álitsgerð frá stjórnarfundi SUNN, en SUNN eru samtök um náttúruvernd á Norðurlandi og gerðu svo hljóðandi ályktun um Blönduvirkjun:

„Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi hafa fylgst með undirbúningi Blönduvirkjunar í Austur-Húnavatnssýslu. Miðað við þær hugmyndir sem nú liggja fyrir um þessa virkjun (sbr. Greinargerð um virkjun Blöndu, Orkustofnun 25. 4. 1975) vilja samtökin vekja athygli á eftirfarandi:

1. Í áætluninni er gert ráð fyrir allt að 62 km2 miðlunarlóni á afréttum Austur-Húnavatnssýslu og Skagafjarðar, en af því er talið að um 56 km2 séu samfellt gróðurlendi. Þetta er nálægt 40% þess gróðurlendis sem líkur eru til að tekið verði undir miðlunarlón við fullnýtingu á vatnsorku landsins. Ef Þjórsárver eru undanskilin, eru þetta um 60% (sbr. Jakob Björnsson: Landþörf orkuvinnsluiðnaðarins á Íslandi, Orkustofnun mars 1973).

2. Við þetta má bæta töluverðu landi sem fer undir mannvirki í sambandi við virkjunina, svo sem stíflur, veituskurði, vegi o. fl., svo og raski vegna efnistöku. Þá munu eyjar í lóninu ekki nýtast til beitar.

3. Þá fara um 10–15 km2 af stöðuvötnum undir veitur og lón (Þrístikla, Friðmundarvatn austara, Gilsvatn o. fl.). Sum þessara vatna eru ágæt veiðivötn, en líf þeirra mun breytast grundvallarlega við tilkomu jökulvatns úr Blöndu og fiskur að líkindum hverfa úr þeim.

4. Tillögur hafa komið fram um að veita allt að helmingi þess vatns, sem fellur til Vatnsdalsár, yfir í hinn nýja farveg Blöndu, en það mundi valda gerbreytingu á báðum ánum.

5. Hætt er við ýmsum breytingum af völdum miðlunarlónsins. Jarðvegur mun rofna í bökkum þess og sandfok gæti orðið úr lónstæðinu á vetrum, en á sumrum aukinn vatnsagi í grennd við stíflur. (Leki úr lóninu gæti jafnvel orsakað breytingar á vatnakerfum Vatnsdalsár og fleiri vatna í Austur-Húnavatnssýslu). Loks getur lónið haft áhrif á veður á nærliggjandi afréttum og einnig í nálægum sveitum, t. d. með aukinni þokumyndun.

6. Ljóst er því að með fyrirhugaðri Blönduvirkjun er stefnt að stórfelldri röskun á náttúrufari Austur-Húnavatnssýslu sem kemur verst niður á sumum búsældarlegustu sveitunum, þar sem veðurfar og gróður veita hagstæðust skilyrði til búskapar og veiðihlunnindi eru einna mest.

7. Hugmyndir um endursköpun þess gróðurlendis, sem fer undir miðlunarlón eða önnur virkjunarmannvirki, teljum við algjörlega óraunhæfar, enda hlýtur uppgræðsla eyðilands að vera sjálfsögð án tillits til virkjunar. Hið sama gildir um möguleika á aukningu veiðinnar í öðrum vötnum í stað þeirra sem skemmast.

8. Óspillt náttúrufar verður eflaust því meira metið sem tímar líða. Eyðing gróðurs og dýralífs er ævarandi skaði sem ekki er hægt að bæta með fé eða á annan hátt, það er ekki aðeins skaði þeirra sveita, sem verst verða úti, heldur allrar þjóðarinnar og rannar alls heimsins.

9. Með tilliti til ofangreindra atriða er það niðurstaða okkar, að ekki skuli stefna að Blönduvirkjun á næstu áratugum, heldur skuli velja þá virkjunarmöguleika norðanlands sem vitað er að valda mun minni umhverfisspjöllum.“

Þetta var samþykkt á stjórnarfundi SUNN 7. 6. 1975.

Hvað varðar áhrif á vatnasvæði Vatnsdalsár, þá verður þegar tekin kvísl sem fellur til Vatnsdalsár. Stífla verður byggð þar á milli urðarása. Jökulvatn lekur að sjálfsögðu í einhverjum mæli til Vatnsdalsár. Síðan er ekki á þessu stigi sagt frá þeim möguleika að stífla Vatnsdalsá við Eyjavatnsbungu og ná henni að virkjuninni. Myndast þá stórt lón í Forsæludalskvíslum. Það verk er tæknilega mjög auðvelt. Um þetta atriði vitna ég til skýrslu Orkustofnunar í jan. 1976, en skýrslan heitir „Orkuvinnslugeta virkjunarvalkosta á Norðurlandi.“ Þar segir á bls. 37:

„Til nánari glöggvunar vísast til myndar nr. 3. 3. í viðauka 3. Af þeirri mynd má einnig lesa að heildarkerfið er enn vanmiðlað þó að 500 gw. miðlunarvirkjun í Blöndu bætist inn á netið, og má búast við því að hægt væri að sýna fram á arðsemi af verulega stærri miðlun þar. Ekki hafa verið gerðar sérstakar rekstrareftirlíkingar til þess að sannreyna það, en mótstaða náttúruverndarmanna og bænda gegn hugmyndum um miðlanir á þessu svæði er vafalaust ástæðan fyrir því að menn hafa enn þá ekki“ — ég endurtek: „enn þá ekki einu sinni leitt hugann að þessum möguleika.“

Ingvi Þorsteinsson var fenginn af iðnrn. til að semja sérstæða álitsgerð um gróðurverndarþáttinn. Þá skýrslu geri ég ekki að umræðuefni — ég er kurteis maður, en ég vil þó segja það, að beitarþol gróðurlendisins er stórlega vanmetið. Útreikningar um ræktun örfoka lands eru rugl. Hins vegar svarar gróið land, sem sekkur við þessa lónmyndun, mjög vel áburðargjöf, og beitartilraunir, sem FAO gerði í lóninu, sanna að þar eru um enn þá betra land að ræða en við hugðum.

Þá vil ég geta nokkuð um þær búsifjar, sem fyrirsjáanlega hljótast á lax- og silungsveiði. A. m. k. þrjú silungsveiðivötn eyðileggjast í fyrsta áfanga miðlunarinnar, þar af tvö mjög góð. Um áhrif á laxveiði er ekki hægt að fullyrða annað en það, að eðli vatnsins breytist. Sandburður minnkar verulega, en jökullitur árinnar heldur sér. Það er eðli jökulvatnsins. Þá verður áin kaldari að vorinu og fyrri hluta sumars, þannig að lax mun ganga seinna í ána en nú er. Þá munu lax og sjóbirtingur ekki komast í Galtará, sem í raun hverfur í lónið í Haugakvísl, eða í Seyðisá, sem er dásamlegt og fiskauðugt vatnsfall, einstakt í flokki þeirra áa er liggja svo hátt yfir sjó. Þá ber þess að geta að hluti vatnsvirkjunarinnar kemur til með að liggja á vatnasvæði Svínavatns og þar með Fremri-Laxár, Laxárvatns og Laxár á Ásum, og jökulvatnsleki, sem óhjákvæmilega er tekin áhætta með að verði yrði því vatnakerfi ekki til prýði.

Orkustofnun hefur gefið út áróðursrit, tekið saman af Birgi nokkrum Jónssyni, þar sem hann Íætur sig hafa það að spá um vatnsrennsli í Langadal. Niðurstöður Birgis eru einkennilegar, en hann spáir því að flóð „minnki til muna“. Það er skynsamlegt hjá honum að flóð síðari hluta vors minnka þar sem um heiðaleysingu og leysingu af jökli er að ræða. En hins vegar verða vetrarflóð miklu hærri en nú er, þar sem alltaf kemur sama vatnsmagn miðlað út úr ræsinu, og er það að miklum hluta til viðbótar við leysingu í byggð og nærri byggð sem að mestu myndar vetrarflóðin. Þá er þess að geta að ísmyndun verður því meiri að vetrinum sem vatnsmagn árinnar er meira, og nægir þar að minna á reynsluna frá Þjórsá og vatnsmiðlun þar frá því í vetur. Eru þó frost miklu mildari syðra en nyrðra.

Hvað á svo að gera við þessa orku sem þarna bætist við? Hvað á svo að gera við orkuna? Þetta er það stór áfangi, að jafnvel þó að landið væri samtengt og orkuver fullnýtt og jafnvel eitthvað af draumum hæstv. ráðh., sem hann rakti hér áðan, góðum og fallegum draumum, kæmist til framkvæmda, þá yrði rekstrartap á Blönduvirkjun fyrsta árið á annan milljarð, ef ekki kæmi til stóriðja, þ. e. a. s. kaupandi, sem gæti tekið við mjög miklu magni á svipstundu. Og þetta yrði væntanlega erlend stóriðja.

Ráðh. las hér upp og lét prenta í frv. nýja orkuspá. Hún er nú ansi mikið öðruvísi en sú sem var gerð í fyrra, og mér finnst þessi miklu ótrúlegri líka. Blönduvirkjun verður ekki hagkvæm nema með stórum orkukaupanda, og ég vitna til hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar, en í umr. um till. hans um staðarval stóriðju á Norður- og Austurlandi drap hann á þetta atriði og gerði það af hreinskilni og ærlegheitum. Ég er ekki gefinn fyrir að hæla mönnum upp í eyrun, en ég hygg að hann sé nú skarpastur og drengur bestur ykkar sjálfstæðismanna, og mæli ég þetta eftir bráðum þriggja vetra kynni. Raunar hef ég fleiri vitni viðlátin. Ég vil lesa — með leyfi forseta — upp stuttan kafla úr ræðu dr. Jóhannesar Nordals sem hann flutti á miðsvetrarfundi Sambands ísl. rafveitna 1975 og birt er í Morgunblaðinu 9. mars það ár:

„Með tveimur nýjum virkjunum á Norðurlandi, Kröfluvirkjun og Blönduvirkjun, ásamt samtengingu við raforkukerfi Suðvesturlands munu í fyrsta skipti skapast skilyrði til þess að koma upp orkufrekum iðnaði í stórum stíl á Norðurlandi. Hafa ýmsar athuganir bent til þess að ýmis önnur skilyrði, svo sem hafnaraðstaða og þjónustuaðstaða og vinnumarkaður, séu mjög viðunandi við Eyjafjörð, ekki langt utan við Akureyri. Ég efast um það að nokkur önnur staðsetning komi til greina ef menn vilja stefna að því markmiði að koma orkufrekum iðnaði utan Suðvesturlands á næstu 10 árum. Þótt skilyrði til orkuöflunar í framtíðinni virðist mjög góð á Austurlandi, er gífurlegt starf óunnið áður en menn geta gert sér raunhæfar hugmyndir um fyrirkomulag stórvirkjana og byggingu orkufreks iðnaðar á því svæði. Að því mun varla koma fyrr en einhvern tíma eftir miðjan næsta áratug. Þá mun líka samtenging Austurlandsins við aðra landshluta gera mönnum kleift að ráðast í mun stærri áfanga en ella. Það er því mikilvægt, eins og ég hef áður bent á, að næstu 10 ár verði notuð til þess að rannsaka hina miklu virkjunarmöguleika á Austurlandi og vinna að hönnun þeirra virkjana, sem hagkvæmastar reynast.

Niðurstaðan af þessum hugleiðingum er sú, að unnt sé á næstu 10 árum að stórauka orkufrekan iðnað hér á landi. Hluti þeirrar aukningar yrði vafalaust viðbætur við þau iðjuver, sem þegar eru fyrir hendi á Suðvesturlandi, þ. á m. hugsanleg stækkun áburðarverksmiðjunnar, en auk þess ætti að skapast skilyrði til þess að nýr orkufrekur iðnaður risi upp við Eyjafjörð, t. d. 50–60 þús. tonna álbræðsla, en orkuþörf hennar yrði 800–300 gwst. á ári. Á mynd 2 er sýnd staðsetning orkufreks iðnaðar við Eyjafjörð og síðar við Reyðarfjörð, eftir að Austurlandsvirkjun kemur til sögunnar, einhvern tíma eftir 1984. Hef ég þá lokið því sem ég tel ástæðu til að segja um stóriðju í þessu sambandi, en sný mér að fjármagnsþörf og hagkvæmni þeirra hugmynda um þróun orkuöflunarkerfisins, sem ég hef nú þegar sett fram.“

Þetta. sagði dr. Jóhannes Nordal, og það var ekki seinna vænna að fara að líta á þetta með fjármagnsþörfina og hagkvæmnina. En ég er ekki þessari þróun sammála eða þeirri stefnu sem þarna er fylgt.

Það er leiðinlegt fyrir mig að þurfa að tala margoft um sama efnið, raunar leiðinlegt fyrir ykkur líka að neyðst til að hlusta á mig. Þetta er fjórða stóriðjuumr. hér á Alþ. nú á fáum dögum, og ég vísa til þess sem ég hef áður sagt um það efni, fremur en að endurtaka mikið af því. Skoðun mín á erlendri stóriðju á Íslandi hefur ekkert breyst síðan í fyrri viku, og mun ég enn hafa uppi sama söng.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að reynsla okkar af erlendri stóriðju er dapurleg. Slíkir vinnustaðir eru ekki eftirsóknarverðir. Samfélög þau, er þar myndast, eru ekki samfélög hamingjumanna. Það ætti þó að vera fyrsta boðorð okkar, sem gefum okkur að því að stjórna að reyna að mynda samfélög hamingjumanna, samfélög þar sem hamingja endist, samfélög þar sem við gætum hugsað okkur að lifa sjálfir, vinnustaðir þar sem við gætum glaðir gengið til starfa sjálfir og óskað börnum okkar að starfa. Áðan nefndi ég vin minn, hv. þm. Eyjólf Konráð. Nú vil ég nefna strákinn hans. Ég er viss um að strákurinn sá er sæll og meiri maður gerandi við mótorhjól í skúr vestur í bæ ásamt með sínu vélskólanámi heldur en þó að Eyjólfur hefði vistað hann í kerskálanum í Straumsvík. Ég tel að þetta land sé okkar land og auðlindir þess okkar auðlindir. Við eigum að búa hér sjálfir, neyta frumburðarréttar okkar til landsins, til gagna þess og gæða. Ég er andvígur því að virkja fallvötn okkar til hagsbóta fyrir útlend auðfélög fyrst og fremst. Ég tel að raforkumálastefna okkar hafi verið röng og henni þurfum við að breyta. Við höfum einblínt á hagkvæmni stærðarinnar, virkjað of stórt og síðan neyðst til þess að selja miklun hluta orkunnar útlendingum fyrir of lágt gjald, en síðan orðið að okra á þeirri orku sem íslendingar kaupa. Þetta sannaði ég allt saman rækilega í víkunni sem leið, og ég bið menn að rifja það upp.

Það hefur verið reiknað út, að með því að selja alla raforku frá Blöndu strax verði hægt að framleiða hverja kwst. fyrir lægra gjald en sums staðar annars staðar. En þessi virkjun er siðferðilega dýrari en aðrar virkjanir vegna þess að svona meðferð á landi sínu er ill og óguðleg.

Nú vil ég geta þess, að þeir tímar geta komið að okkur sé nauðugur sá kostur einn vegna nauðþurfta okkar sjálfra að vinna hervirki á landi okkar vegna orkuöflunar, svo sem hér er gert ráð fyrir, og þá er að taka því. En sá tími er ekki kominn sem betur fer. Við höfum nóg önnur úrræði en þau að virkja Blöndu. Við höfum valkosti sem henta betur okkar stærð, okkar þjóðfélagsgerð.

Ég hef leyft mér ásamt nokkrum öðrum þm. að bera fram till. til þál. um undirbúning að virkjun Héraðsvatna hjá Villinganesi. Flm. með mér eru Ragnar Arnalds, Stefán Valgeirsson, Stefán Jónsson, Ingvar Gíslason, Jónas Árnason, Steingrímur Hermannsson og Ingi Tryggvason. Tillgr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að gera nú þegar ráðstafanir til þess að hraðað verði svo sem frekast er unnt undirbúningi að virkjun Héraðsvatna hjá Villinganesi og hönnun hennar, svo að þar megi reisa næsta raforkuver á Norðurlandi vestra.“

Orkustofnun gaf út í maí 1975 frumáætlun um 32 mw. virkjun við Villinganes í Skagafirði. Skýrsla þessi e: unnin á vegum Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen og ber hún það með sér að þarna er um mjög álitlega virkjun að ræða, sé verið að virkja vegna íslenskra notenda. Hins vegar er virkjun þessi ekki af þeirri stærð að hún geti orðið orkuöflunarfyrirtæki vegna erlendrar stóriðju. Síðan hafa verið framkvæmdar allmiklar rannsóknir á þessum stöðum og hafa þær allar hnigið í þá átt að um álitlega virkjun sé að ræða.

Iðnrn. hefur hins vegar talið heppilegra að leggja áherslu á virkjun Blöndu og borið fram frv. það sem hér er til umr. Blanda verður hins vegar ekki virkjuð á næstunni nema með því að selja mestalla orkuna til orkufreks iðnaðar. Virkjunin er, eins og áður sagði, allt of stór fyrir almennan raforkumarkað á Norðurlandi og einnig of stór fyrir almennan markað á landinu öllu nema í tengslum við sérstök stórverkefni á sviði orkufreks iðnaðar. Enn augljósara er þó, að áform um Blönduvirkjun, sem koma beint í kjölfar ákvörðunar um Hrauneyjafossvirkjun, hljóta að vera tengd stórfelldum hugmyndum um uppbyggingu erlendrar stóriðju á fyrri hluta næsta áratugs.

Villinganesvirkjun í Héraðsvötnum er hins vegar af þeirri stærð að hún fellur mjög vel að þeirri aukningu raforkumarkaðarins, enda gæti hún verið fullnýtt í þágu landsmanna allra á rúmu ári. Auk þess er virkjunin talin mjög hagkvæm samkvæmt nýjustu útreikningum. Þá er þess að geta, að um virkjun hjá Villinganesi er einhugur heimamanna, og ég mun síðar í ræðu minni lesa upp nokkrar ályktanir því til staðfestingar. Því er hins vegar ekki að heilsa hvað varðar virkjun Blöndu, enda er þar um að ræða geysilega röskun á náttúrufari. Þetta miðlunarlón, sem þar er úformað að mynda er náttúrlega stærsti þátturinn í því.

Upprekstur á Auðkúluheiði eiga Svínavatns- og Torfalækjarhreppar og Blönduós, á Eyvindarstaðaheiði eru það Bólstaðarhlíðarhreppur, Seyluhreppur og Lýtingsstaðahreppur og einstakar jarðir í Akrahreppi og Rípurhreppi.

Viðhorf íbúa þeirra hreppa, er upprekstur eiga á Eyvindarstaðaheiði, kemur glögglega í ljós af fylgiskjölunum. Viðhorf íbúa Svínavatnshrepps er það, að í júní 1975, þ. e. a. s. tveimur mánuðum eftir fundinn sem hæstv. ráðh. vitnaði til á Blönduósi, skrifaði meiri hl. atkvæðisbærra íbúa hreppsins undir yfirlýsingu til iðnrn. um að þeir teldu ekki koma til greina að sökkva landi á Auðkúluheiði. Síðan var samþ. á almennum sveitarfundi á Húnavöllum 15. júlí 1975 með 31:16 atkv. ályktun sem tekur af öll tvímæli um vilja hreppsbúa. Á þessum fundi voru staddir meðal annarra góðra gesta orkumálastjóri, einn starfsmaður frá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen og Ingvi Þorsteinsson. Flestir íbúar Torfalækjarhrepps og forráðamenn Blönduóshrepps hafa hins vegar tekið jákvæða afstöðu varðandi virkjun Blöndu, og eins ber að geta, að mikill hópur manna úr öðrum byggðarlögum í Húnavatnssýslu en þeirra sem þarna eiga hagsmuna að gæta, hefur lýst áhuga sínum á framkvæmd þessari. En það er alveg ljóst, að það næst ekki samstaða nema um virkjun Héraðsvatna, en þar er ekki heldur um verulega röskun á náttúrufari að ræða.

Samkvæmt frumáætlun Orkustofnunar um Villinganesvirkjun var stofnkostnaður vinnsluvirkja áætlaður í maí 1975 2.9 milljarðar kr. Ég geri ráð fyrir að þetta hafi breyst og hækkað eins og annað talsvert mikið síðan. En ég bið menn að bera saman samt þessar tölur og þá greiðslubyrði, sem þeim fylgir, og greiðslubyrðina af 15 milljörðunum við Blöndu. Það er ráðgert að stífla Héraðsvötn með jarðefnastíflu um 2 km neðan ármóta Eystri- og Vestri-Jökulsár. Steypt yfirfall verður á vestari árbakka, en aðrennslisskurður fram hjá stíflunni á eystri bakka. Frá inntaki við skurðendann liggur þrýstipípa niður í árgljúfrið að stöðvarhúsi, sem er ofanjarðar í farveginum neðan stíflunnar. Á byggingartíma verður ánni veitt fram hjá virkjunarstaðnum um jarðgöng í vestari árbakka.

Villinganesvirkjun verður rennslisvirkjun með dægurmiðlunarlóni. Gert er ráð fyrir að venjuleg yfirvatnshæð verði 153 m. y. s., en undirvatnsborð 96.5 m. y. s. Verg fallhæð verður því 56.5.

Þá er þess að geta, að í Jökulsánum í Skagafirði eru nokkrir aðrir álitlegir virkjunaráfangar, þannig að þarna virðist vera um að ræða álitlega staðhætti til raforkuöflunar miðað við þarfir landsmanna sjálfra.

Það var skoðun okkar flm. þáltill. að samtenging raforkukerfisins sé hið brýnasta verkefni og eðlilegt sé síðan með tilliti til öryggis og atvinnusjónarmiða að reisa virkjanir af hæfilegri stærð í hinum ýmsu landshlutum. Orkuvinnslugeta Villinganesvirkjunar, miðað við samrekstur Norðurlandskerfis og Landsvirkjunarkerfis, eftir að Sigölduvirkjun og Kröfluvirkjun hafa tekið til starfa, er 175 gwst. á ári. Kostnaður við hvert framleitt mw. var í maí 1975 áætlað um 2.18 kr. Þess ber að geta að um þennan virkjunarstað gildir það sama og um Blöndu, að hann er ekki á eldvirku svæði.

Þá mun ég — með leyfi forseta — lesa nokkrar ályktanir sem sýna þann hug sem heimamenn, þeir menn sem málið snertir mest, bera til þessara valkosta. Þá byrja ég á því að segja frá sveitungum mínum sem samþ. á sveitarfundi sínum 15. júlí 1975 svo hljóðandi ályktun:

„Sveitarfundur í Svínavatnshreppi, haldinn á Húnavöllum 15. júlí 1975, telur að ástæðulaust sé að halda áfram rannsóknum vegna hugsanlegrar Blönduvirkjunar, þar sem hún mun óhjákvæmilega hafa stórkostleg landspjöll í för með sér. Telur fundurinn að orkumál Norðurlands vestra verði betur og farsællegar leyst með áfangavirkjunum í Héraðsvötnum og Jökulsá eystri, enda hafa þær virkjanir ekki geigvænleg landspjöll í för með sér og fullnægja betur orkumarkaði norðlendinga, þannig að þeir geta hagnýtt orkuna sjálfir, en þurfi ekki að selja hana til erlendrar stóriðju, svo sem óhjákvæmilegt yrði að gera um orku frá Blöndu.“

Búnaðarfélag Lýtingsstaðahrepps samþ. á fundi sínum eftirfarandi ályktun um virkjunarmál :

„Aðalfundur Búnaðarfélags Lýtingsstaðahrepps, haldinn í Ásgarði þriðjudaginn 22. apríl 1975, fagnar loforðum stjórnvalda um úrbætur í raforkumálum á Norðurlandi vestra við virkjun á svæðinu.

Jafnframt skorar fundurinn eindregið á yfirstjórn orkumála að hraða undirbúningsrannsóknum á Jökulsá í Skagafirði og stefna að virkjun þar sem allra fyrst, en fresta ákvörðun um Blönduvirkjun:

Þá er frá almennum hreppsfundi í Seyluhreppi sem haldinn var í Miðgarði 14. júní 1975. Hann lýsir ánægju sinni yfir þeim áhuga ráðamanna raforkumála fyrir virkjun á Norðurlandi vestra sem fram hefur komið.

Jafnframt mótmælir fundurinn eindregið fyrirhugaðri Blönduvirkjun vegna þeirra geysilegu landspjalla, sem þar koma til með að verða og vart eða ekki verða bætt, en valda muni verulegri röskun á búskaparaðstöðu margra bænda á svæðinu.

Þá vill fundurinn benda á að samkv. upplýsingum fagmanna getur Jökulsárvirkjun í Skagafirði komið fyrr að gagni til að fullnægja þeirri orkuþörf sem nú er og verða mun í næstu framtíð á þessu svæði. Þess vegna vill fundurinn leggja mikla áherslu á að í þá virkjun verði ráðist, sem allra fyrst“

Ofanrituð till. var samþ. með öllum greiddum atkvæðum. Rétta útskrift úr fundargerð vottar Halldór Benediktsson fundarstjóri.

Þá er ályktun fundar sveitarstjórnarmanna í Miðgarði 20. jan. 1976:

„Fundur sveitarstjórnarmanna í Upprekstrarfélagi Eyvindarstaðaheiðar, haldinn í Miðgarði 20. jan. 1976 lítur svo á að yfirlýsing iðnrh. um að frv. um Blönduvirkjun verði nú á næstunni lagt fyrir Alþ. sé algjörlega óeðlileg og ótímabær eins og málum þessum er háttað.

Lýsir fundurinn furðu sinni á því, að ekki verði flutt frv. um virkjun Héraðsvatna hjá Villinganesi, og vekur athygli á því, að með þessari yfirlýsingu hefur iðnrh. algjörlega gengið gegn margítrekuðum samþykktum Upprekstrarfélagsins og ýmissa fleiri heimaaðila um að sú virkjun skuli vera hið fyrsta stig virkjana á Norðurlandi vestra. Fundurinn ítrekar enn áskorun til ríkisstj. um að stefna beri að virkjun við Villinganes að undangengnum samningum við landeigendur með flutningi frv. þar að lútandi.“

Ég vek sérstaka athygli á því, að þetta er svar sveitarstjórnarmanna úr Bólstaðarhlíðar-, Seylu- og Lýtingsstaðahreppum við tilboði því um bætur er iðnrh. gerði í nóv. 1975 og er prentað sem fskj. með frv. um Blönduvirkjun.

Þeir viku að því, að þeir óskuðu eftir að leitað yrði eftir samningum við landeigendur, og land.eigendur hafa sent frá sér yfirlýsingu:

„Við undirritaðir landeigendur við Héraðsvötn og Jökulsár í Skagafirði gjörum kunnugt, að við erum reiðubúnir til viðræðna um samninga um fyrirhugaða virkjun, sem kennd er við Villinganes, að því tilskildu, að hvers konar tjón á mannvirkjum, landi og hlunnindum verði að fullu bætt.

Jafnframt áskiljum við okkur rétt til samninga um verktilhögun, t. d. að tryggt sé að vatn flæði aldrei vestur úr yfirfalli í stórflóðum. — Varmahlíð, 4. febr. 1976.“ Undir þetta skrifa Hjálmar Guðjónsson, Tunguhálsi II, Guðsteinn Guðjónsson Tunguhálsi, Stefám Hrólfsson, Keldulandi, Ólafur Þorsteinsson, Tyrfingsstöðum, Grétar Símonarson, Goðdölum, Borgar Símonarson, Goðdölum, Guðrún Eiríksdóttir, Villinganesi, Leifur Hreggviðsson, Birgisskarði, Trausti Símonarson, Hverhólum, Sigurður Friðriksson, Stekkjarflötum, Aðalsteinn Eiríksson, Villinganesi.

Þá vil ég leyfa mér að lesa ályktun frá sýslunefnd Skagafjarðarsýslu:

„Sýslunefnd Skagafjarðarsýslu fagnar yfirlýsingu iðnrh. frá s. l. vetri um að tekin verði ákvörðun um vatnsaflsvirkjun í Norðurlandskjördæmi vestra þegar á þessu ári. Jafnframt skorar n. á iðnrn.. að sjá um, að það grundvallarsjónarmið ríki við alla áætlunargerð og ákvörðunartöku að virkjunin miðist fyrst og fremst við að fullnægt sé orkuþörf innlends markaðar, — þar með talin upphitun alls íbúðarhúsnæðis, sem ekki fær notið jarðhita, — áður en orkunni er ráðstafað til stórfyrirtækja í eigu erlendra aðila. Það er skoðun sýslunefndar, að þegar um er að ræða tvo áþekka kosti (Blanda og Jökulsá) beri að hafa eftirfarandi í huga:

1. Gert er ráð fyrir, að með virkjun Blöndu sökkvi undir vatn a. m. k. 60 ferkm gróins beitilands á afréttum, þar sem beitarþröng er þegar fyrir. Allir viðurkenna, að gróðurlendi landsins sé of lítið og sífellt á undanhaldi, m. a. vegna ofbeitar á vissum landssvæðum svo og vegna áhrifa af völdum óviðráðanlegra náttúruafla. Af þeim sökum verja íslendingar árlega verulegum fjármunum til þess að græða sárin á örfoka afréttum, oft með misjöfnum árangri. Með því að sökkva tugum ferkm gróins lands undir vatn sýnist því að verið sé að taka með annarri hendinni það, sem gefið er með hinni. Af þessari ástæðu fyrst og fremst virðist ljóst orðið að samstaða um virkjun Blöndu muni ekki nást meðal íbúa í Norðurlandskjördæmi vestra.

2. Að framansögðu telur sýslunefndin einsýnt, að ráðamenn raforkumála snúi sér þegar að þeim valkosti, sem næst liggur, þ. e. fullnaðarrannsóknum á hagkvæmni Jökulsárvirkjunar eystri. Fyrir liggur, að virkjun Jökulsár verði framkvæmd í áföngum. Forsenda hennar er því ekki orkusala til stóriðjureksturs, svo sem virðist vera með Blönduvirkjun, stærðin er í samræmi við innlenda orkuþörf, landspjöll verða lítil sem engin og loks er líklegt, að fullkomin samstaða heimaaðila sé um þá framkvæmd,

3. Sýslunefndin skorar því á þm. þessa kjördæmis að beita sér fyrir því, að virkjun Héraðsvatna hjá Villinganesi og Jökulsá eystri njóti forgangs, svo að nægilegt fjármagn fáist á þessu ári til rannsóknar á virkjunarmöguleikum þar, og leggur á það þunga áherslu, að á næsta Alþ. verði sett lög um virkjun þessa.

Sauðárkróki 29. júlí 1975.“

Þá vil ég leyfa mér að lesa ályktun aðalfundar Kaupfélags Skagfirðinga árið 1975: „Aðalfundur KS 1975 mótmælir eindregið framkomnum hugmyndum um Blönduvirkjun, þar sem áformað er að sökkva undir vatn og eyða 60–70 ferkm af gróðurlendi á afréttum skagfirðinga og húnvetninga.

Þvílíkar landeyðingarframkvæmdir eru á engan hátt réttlætanlegar, þar sem ljóst er að á Norðurlandi vestra eru margir hagkvæmir virkjunarmöguleikar án þess að teljandi landspjöll fylgi.

Bendir fundurinn á virkjunarstaði í Héraðsvötnum og Jökulsá eystri og vísar til áskorunar þar um frá síðasta aðalfundi.

Einnig vill fundurinn minna á hugmyndir um virkjun Blöndu í farvegi sínum.

Krefst því fundurinn að strax verði hafist handa við undirbúning og framkvæmdir virkjunar sem fullnægir orkuþörf vaxandi atvinnulífs í þessum landshluta og landeyðingaráform verði ei látin tefja framgang mála.“

Þá vil ég lesa ályktun úr Akrahreppi: „Almennur hreppsfundur í Akrahreppi, haldinu að Héðinsminni 23. júní 1975, samþ. eftirfarandi ályktun um orkumál.

Fundurinn fagnar vaxandi áhuga og umræðum, sem fram hafa farið um raforkumál og virkjanir á Norðurlandi vestra. Ber þar hæst yfirlýsingu iðnrh., Gunnars Thoroddsen, um að ákvörðun verði tekin um virkjun í þessum landshluta á þessu ári.

Orkuskortur er tilfinnanlegur í landshlutanum og stendur athafnalífi og búsetuþróun mjög fyrir þrifum. Er því vissulega tími til kominn að úr verði bætt. Í því sambandi hvetur fundurinn til að samtengingu rafveitnanna verði hraðað sem kostur er og að unnið verði að styrkingu dreifikerfisins.

Um virkjun í fjórðungnum er það að segja, að velja verður á milli virkjunar Blöndu eða Héraðsvatna í fyrsta áfanga. Fundurinn mælir eindregið með, að Villinganesvirkjun í Héraðsvötnum verði látin ganga fyrir, og bendir því til stuðnings á þessi rök:

1. Virkjunin er af heppilegri stærð sem áfangavirkjun og tryggir næga orku fyrir vaxandi framleiðslu og búsetu á Norðvesturlandi um nokkurt árabil. Blönduvirkjun er aftur á móti of stór fyrir heimamarkað. Yrði því að leita eftir orkufrekum iðnaði til þess að kaupa orkuna. Væri þá eins líklegt að heimaaðilar byggju eftir sem áður við orkuskort. Nógu langt mun gengið á þeirri braut að selja raforku úr landi á lágmarksverði meðan inn er flutt olíuorka á margföldu verði.

2. Villinganesvirkjun fyrir hverfandi landspjöll, Blönduvirkjun fylgja geigvænleg landspjöll.

3. Undirbúningur og bygging Villinganesvirkjunar tekur mun skemmri tíma og kæmi hún því til nota mun fyrr.

4. Telja má að auðvelt verði að ná samstöðu og samningum við heimamenn um Villinganesvirkjun. Samstaða óhugsandi um Blönduvirkjun vegna landeyðingar, sem henni fylgir.

5. Í Jökulsá eystri eru möguleika fyrir frekari virkjunum, smærri eða stærri. Einnig hugsanleg vatnsmiðlun er hefði verulegt gildi fyrir Villinganesvirkjun.

Fundurinn skorar því á hæstv. iðnrh., alþm., orkumálastjóra og hvern þann, er lagt gæti málum lið, að hlutast til um að rannsóknum og undirbúningi við Villinganesvirkjun verði lokið á þessu ári, ákvörðun tekin og framkvæmdir hafnar svo fljótt sem aðstæður leyfa:

Þetta var samþ. með atkv. allra fundarmanna. Ég gæti haldið svona áfram allt til kvölds að lesa ályktanir sem mér hafa borist og borist hafa í iðnrn. og eru í þessum dúr. Ég mun nú láta hér staðar numið og þakka hæstv. forseta fyrir þá þolinmæði sem hann hefur sýnt mér. En við látum fylgja þáltill. okkar eitt fskj. enn, og ég ætla að óska eftir leyfi til þess að lesa það líka vegna þess að það kemur mjög verulega inn á þetta mál. Það er þál. um landgræðslu- og gróðurverndaráætlun til minningar um 1100 ára búsetu þjóðarinnar í landinu:

„Alþingi ályktar, að á árunum 1975–1979, að báðum árum meðtöldum, skuli framkvæma eftirfarandi áætlun um landgræðslu og gróðurvernd til minningar um 1100 ára búsetu þjóðarinnar í landinu og verja til þess ríkisfé í samræmi við hana :

1. Landgræðsla ríkisins: Stöðvun sandfoks, jarðvegs- og gróðureyðingar. Gróðurvernd og landgræðsla. 700 millj. kr.

2. Skógrækt ríkisins: Skóggræðslukönnun, skógvernd og skógrækt. 170 millj. kr.

3. Rannsóknastofnun landbúnaðarins: Rannsóknir á nýtingu beitargróðurs, aðrar tilraunir og gróðurkortagerð. 80 millj. kr.

4. Ráðstafanir til bættrar landnýtingar og stuðningur við fræðslustarf samtaka áhugamanna. 50 millj. kr.“

Samtals eru þetta 1000 millj. kr.

„Árlegar fjárveitingar af ríkisfé til áætlunar þessarar miðist við, að hún haldi núverandi framkvæmdagildi sínu hliðstætt því, sem gildir um jarðræktarframlög samkv. 12. gr. jarðræktarlaga, og að áætlunin komi til framkvæmda í jöfnum árlegum áföngum á árunum 1975–79. Fjárveitingar til áætlunarinnar skulu ekki blandast saman við venjulegar fjárveitingar til þeirra málaflokka, sem áætlunin tekur til, og ekki rýra þær. Landbrh. setur á fót samstarfsnefnd til þess að efla samvinnu þeirra stofnana, sem hafa með höndum framkvæmd áætlunar þessarar. Ráðh. skipar formann n. að eigin vali, en aðrir nm. verði þessir: landgræðslustjóri, búnaðarmálastjóri, skógræktarstjóri og framkvæmdarstjóri Rannsóknastofnunar landbúnaðarins.“

Þetta var samþ. á Alþ. 28. júlí 1974. Ég veit að við munum allir eftir þeim degi og þess vegna skýtur hér nokkuð skökku við.

Herra forseti. Senn læt ég máli mínu lokið. Ég á þó margt ósagt, en þetta verður að nægja í bili. Það er alveg ljóst að friður og eining verður ekki um Blönduvirkjun. Einhverjum kann að sýnast að þess megi freista að skapa einingu um Blönduvirkjun með því að hækka skaðabætur. Ég fullyrði að svo muni ekki vera, og ég mæli af þekkingu. Ég þekki þetta fólk og veit að það breytir ekki skoðun sinni og lífsviðhorfi fyrir peninga, rafmagn eða áburð eða önnur fríðindi. Ég mæli einnig af þekkingu að því leyti, að ég þekki þetta land sjálfur er þarna er fyrirhugað að eyðileggja. Það gerðu forfeður mínir líka í nokkur hundruð ár. Og þeir höfðu aldrei hugsað sér fremur en ég það fullyrði ég — að Blanda rynni til sjávar fyrir Aksjeselskapet Norsk Hydro.