24.03.1977
Neðri deild: 63. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2827 í B-deild Alþingistíðinda. (2102)

199. mál, virkjun Blöndu

Pálmi Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að fagna því, að frv. þetta er fram komið, og þakka hæstv. iðnrh. fyrir forustu hans í þessu máli. Ég vil einnig láta í ljós þá von mína, að hv. Alþ. beri gæfu til að samþykkja þetta frv. á þessu Alþ., en það mundi tákna þáttaskil í orkumálum okkar íslendinga. Þau þáttaskil væru fólgin í því að tekin væri ákveðin stefna í þá átt að reisa stórvirkjun utan hinna eldvirku svæða landsins. Því hygg ég að öll þjóðin mundi fagna.

Þeir kostir, sem fylgja Blönduvirkjun, eru ótvíræðir og margir, eins og fram kom í máli hæstv. iðnrh., en þessa kosti má flokka einkum í þrennt: 1. hagkvæmni, 2. öryggi, 3. staðsetningu.

Það kemur fram í grg. þessa frv. og einnig glögglega í framsöguræðu hæstv. ráðh., að Blönduvirkjun yrði meðal hagkvæmustu virkjana landsins. Ég sé ekki ástæðu til að fara um þann þátt málsins öllu fleiri orðum, heldur aðeins lýsa því, að sá þáttur verður ævinlega veigamikill. Þó er það svo í mínum huga, að aðrir þættir þessa máls vega þyngra. Annar þátturinn, sem ég nefndi, er öryggi. Gömul og ný saga okkar lands bendir til þess, að óvarlegt sé að reisa hin þýðingarmestu mannvirki þar sem hættan er mest á stórumbrotum náttúruaflanna.

Sú virkjun, sem hér er um að tefla, hefur þann meginkost að vera utan hinna eldvirku svæða landsins og utan aðaljarðskjálftasvæða landsins. Það er að minni hyggju ákaflega óhyggilegt að stefna áfram í þá átt að öll stærstu orkuver landsins yrðu á hinu eldvirka svæði. Staðsetning Blönduvirkjunar er þannig einn aðalkostur þessa máls. Ekki virðist þurfa að óttast eldsumbrot, vegna þess að í Húnavatnssýslu er ekkert hraun nær en Kjalhraun, sem er uppi á Kili. Jarðfræðilegir eiginleikar henda því ekki til eldgosa, enda skilja þau venjulega eftir sig hraun.

Fleira kemur hér til er snertir öryggi í sambandi við Blönduvirkjun. Eins og fram kom í máli hæstv. ráðh. er gert ráð fyrir stóru miðlunarlóni og löngum aðdraganda í gegnum vötn að virkjunarstaðnum. Þetta hefur það í för með sér, að vatnsrennsli verður jafnt og það er hægt að búast við því, að þetta stóra lón og þessi langi aðdragandi verði til þess að jökulleir og annar framburður árinnar botnfalli á leið til orkuversins. Ég hygg að þetta hafi einnig stórkostlega þýðingu þar sem um jökulvatn er að ræða. Reynsla okkar af virkjun jökulvatna er ekki löng. Við vitum ekki með vissu hve skjótt framburður jökulvatnanna vinnur á vélum orkufyrirtækjanna sjálfra. Vonandi er að þær standi af sér leirframburð jökulvatnanna. En a. m. k. er óhætt að fullyrða það, að það er mjög mikill kostur við þessa virkjun að aðdragandi að orkuverinu sjálfu er langur í gegnum stórt miðlunarlón og þrjú stöðuvötn önnur, þannig að ætla má að sá aðdragandi verki sem sía og eftir því sem mögulegt er hreinsi vatnið af framburði.

Enn er það álit þeirra manna, sem komið hafa að rannsóknum á Blönduvirkjunarsvæði, að þar hagi þannig til náttúrlegum staðháttum, að auðvelt sé að tryggja eins og best má verða öryggi mannvirkjanna.

Þriðji kosturinn, sem ég nefni hér, er staðsetningin, og hafa þegar nokkrir kostir hvað staðsetningu varðar verið raktir. Ég vil þó enn nefna það, sem fram kom einnig í máli hæstv. ráðh., að virkjunin liggur vel við aðalflutningslínukerfi landsins. Hún liggur einnig vel við markaði um allt norðanvert og vestanvert landið, allt til aðalorkuneyslusvæðisins hér við Faxaflóa. Þessi virkjun væri því sannkallaður öryggisventill ef eitthvað brygði út af við stórvirkjanirnar við Þjórsá og Tungnaá, sem vonandi er að við verðum svo gæfusamir að aldrei gerist. En virkjunin væri samt ómetanlegur öryggisventill fyrir það fólk sem býr um allt vestanvert og norðanvert Ísland og raunar um landið í heild þegar samtenging hefur tekist umhverfis landið allt.

Enn má nefna byggðasjónarmið og fleiri þætti hvað staðsetningu snertir, sem ég tel að ekki skipti jafnmiklu máli og hin sem snerta alþjóð. Þessir eru að mínum dómi höfuðkostir þess að virkja Blöndu.

Ég hafði ekki hugsað mér hér að ræða mikið um kosti og galla þessa máls fyrir heimamenn sjálfa. Það liggur þó fyrir að sá ókostur fylgir virkjunarframkvæmdum við Blöndu, að þar hverfa 56 ferkm af góðu beitilandi undir vatn. Þetta er vissulega ókostur sem ekki skal gert lítið úr. En það er skoðun vísindamanna sem styðst við allmikla reynslu, að það tjón, sem af þessu verður, megi bæta.

Ég sé mig knúinn til að fara örfáum orðum um þessa þætti málsins að því er snertir kosti og galla þess fyrir heimaaðila vegna ræðu hv. síðasta ræðumanns, hv. 3. þm. Norðurl. v. Ræða hans var næsta dapurleg. Ég get mjög vel skilið þá þætti hennar er spretta af skoðun hans um að ekki skuli ráðist í stórvirkjanir á Íslandi vegna þess að hans skoðun er að þeim fylgi annmarkar sem ég skal koma að síðar Hins vegar voru í ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v. bæði rangfærslur og dylgjur í garð einstakra opinberra stofnana og einstakra manna, og það tel ég óviðeigandi.

Hv. þm. Páll Pétursson sagði í upphafi síns máls að frv. þetta væri tekið til umr. með óðagoti og beitt hefði verið óeðlilegum vinnubrögðum. Þetta get ég ekki tekið undir og tel rangt. Ég tel, að það sé fjarri því að það sé tekið fyrr til umr. en venja er til um stjfrv., og bendi á, að í gærdag var farið fram hjá þessu máli á dagskrá þessarar hv. d. og því frestað. Um óeðlileg vinnubrögð við undirbúning þessa máls vil ég segja það, að ég hygg að fá mál hafi verið kynnt betur og rædd meira heima í þeim byggðum, sem þau sérstaklega snerta, og meðal alþjóðar en einmitt þetta mál.

Hv. þm. Páll Pétursson taldi, að Ingvi Þorsteinsson hefði verið fenginn til að semja tiltekna grg., og lét í skina að með óeðlilegum hætti væri. Ég tel að hafi falist í máli hv. þm. óeðlilegur tónn í garð þessa manns og þeirra starfa sem hann hefur unnið um árabil. Enn fremur sagði hv. þm. að tiltekinn starfsmaður Orkustofnunar hefði samið „áróðursrit“ um einn þátt þessa máls. Vil ég mótmæla því að slík orð séu höfð uppi hér á hv. Alþ. um starfsmenn stofnana sem eiga þess ekki kost að svara hér fyrir sig. Þetta er það sem ég kalla dylgjur í garð einstaklinga og opinberra stofnana sem hér eru ekki við hæfi.

Ef vikið er að þeim þætti málsins, með hverjum hætti unnt er að bæta það land sem undir vatn fer við þær framkvæmdir sem hér eru fyrirhugaðar, þá er það álit þeirra manna, sem rannsóknir hafa stundað á þessu sviði, og þá fyrst og fremst Ingva Þorsteinssonar magisters og forráðamanna Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, dr. Björns Sigurbjörnssonar og annarra starfsmanna þeirrar stofnunar, að unnt sé að græða örfoka land á því svæði, sem hér er um að tefla, eða á hálendinu, a. m. k. miðað við þá hæðarlínu, sem hér um ræðir, eða 480–600 m. y. s. Þessi skoðun vísindamanna er byggð á rannsóknum sem að vísu hafa ekki staðið um marga áratugi, en þó um allmörg ár og hafa sannað þetta að því er teknir til þess tíma. Enn fremur má á það benda að nú er hafin einmitt á þessu svæði tilraun á vegum Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og í tengslum við FAO um beit og áburð á land, ýmist lítt gróið eða ógróið, og hefur sú tilraun þegar staðið í tvö ár. Víst er að þessi tilraun bendir til þess að áburður á lítt gróið eða ógróið land á þessu svæði gefi ótrúlega góða raun. Ég vil segja það hér, að tvö ár eru auðvitað ekki langur tími, og enn á þessi tilraun eftir að standa í 3 ár til viðbótar og því ekki tímabært að segja um þau mál, eins og sakir standa, annað en það, að ég hygg að allir, sem sáu þá tilraunareiti og þau beitarhólf, sem borið var á á þessu svæði, s. l. haust og raunar þegar á fyrsta ári, haustið 1975, hafi orðið furðu lostnir vegna þess hve geysilega hefur gróið upp og hversu gífurlega það hefur verið vanmetið af hálfu þeirra sem spáð hafa um þessi mál, hve mikinn beitarbunga megi hafa á ábornum reitum.

Hv. þm. Páll Pétursson sagði samt að hugmyndir um uppgræðslu væru rugl. Þessi hv. þm. telur sig þannig umkominn að telja það rugl sem tilraunir, sem gerðar hafa verið á vegum íslenskra vísindamanna með uppgræðslu á hálendi Íslands og á heiðum í 400–600 m hæð hafa leitt í ljós, það, sem sagt hefur verið um möguleika á þessu sviði sé bara rugl. Hann um það. Ég get ekki tekið undir með honum. Allt, sem ég hef séð um þessi mál af persónulegri reynslu og af niðurstöðum vísindamanna, sannar hið gagnstæða.

Hv. þm. Páll Pétursson vék að ályktun frá SUNN, Samtökum um náttúruvernd á Norðurlandi. Í þeirri ályktun er um skekkju að ræða sem byggist vafalaust á vanþekkingu, þar sem rætt er um mikinn hluta af upptakakvíslum Vatnsdalsár sem muni renna til Blöndu með þeim hætti sem fyrirhugað er að standa að framkvæmdum. Það er rétt, að tekið er fyrir eina af upphakakvíslum Vatnsdalsár. En sú kvísl er mjög veigalítill þáttur í vatnsmagni Vatnsdalsár, enda mun væntanlega, eins og þm. sjálfur sagði, eitthvað síast í gegn á því svæði. Hins vegar kom hann sjálfur með enn verri rangfærslur þegar hann gerði því skóna að í bígerð væri að taka Vatnsdalsá við Eyjavatnsbungu og flytja yfir í Blöndulón með þeim afleiðingum að sökkva undir vatn stórkostlega miklu landi til biðbótar og auka þannig vatnsmagn Blöndu. Þetta eru algerar rangfærslur. Það eru engar áætlanir um að gera slíkt og hefur engum manni dottið í hug á seinustu árum og enginn vilji fyrir slíku af hálfu ráðamanna í orkumálum. Þetta eru því rangfærslur af hálfu hv. þm.

Ég skal ekki fara mörgum orðum um þessa þætti í ræðu hv. þm. Það er ljóst að slíkum stórframkvæmdum fylgja alltaf nokkrir ókostir. Það er alveg sama hvað það er. Það þarf alltaf land undir mannvirki, það þarf land undir vegi og það fer mikið land undir miðlunarlón. Allt þetta má bæta og kostirnir, sem þessum framkvæmdum fylgja, eru svo gífurlegir að þeir vega miklu þyngra.

Hv. þm. gerði t. d. lítið úr því sem hann kallaði áróðursrit tiltekins starfsmanns Orkustofnunar. Ég hygg að það muni, þó að ekki sé mjög veigamikið atriði, vera strax miklir kostir því samfara að rennsli Blöndu í byggð verður jafnara. Það má vænta þess að áin verði hlýrri, og það má vænta þess að áin verði tærari, og þar með má vænta þess að áin verði betri laxveiðiá. Alls þessa má vænta, þvert ofan í það sem hv. þm. sagði. Það er hins vegar rétt, að ekki er vitað hvernig fer um murtuveiði í þremur og þó sérstaklega tveimur vötnum sem þarna er um að tefla. Þá veiði, ef hún hverfur, er vitaskuld sjálfsagt að bæta þeim hótum sem það verður metið, en hér er um þá hluti að ræða sem ég tel ekki mjög miklu máli skipta í svona stórmáli.

Ef ráðist verður í þessa virkjun, þá fylgir það auknu jafnrennsli árinnar niðri í byggð að unnt er að vinna land í Langadal með lagningu vegarins um framanverðan dalinn niðri á eyrum og sú vegagerð verður þar ofan í kaupið mun ódýrari en ella. Bak við þann veg vinnst land sem kemur þeim býlum, sem þar eiga hlut að máli, að verulegu haldi vegna þess hvað þau eru landþröng á láglendi. Það eru ekki sömu býlin og þau er missa land á Auðkúluheiði og Eyvindarstaðaheiði, en land vinnst eigi að síður og það mætti í rauninni draga frá því er tapast.

Um ýmsa kosti þessa máls fyrir heimamenn sjálfa skal ég ekki fara út í að ræða. Það er ljóst, að þetta er stærsta hagsmunamál sem borið hefur á góma fyrir byggðir á vestanverðu Norðurlandi. En hitt er miklu veigameira, að þetta er eitt af þeim stórmálum, sem hafa ómetanlega þýðingu fyrir þjóðina í heild með tilliti til öryggis í orkumálum.

Hv. þm. Páll Pétursson las hér upp margar ályktanir frá sveitarstjórnum og sveitarfundum og öðrum samtökum heima fyrir. Hann sagðist mundu geta haldið áfram að lesa svo til kvölds. Vel má það vera. En þá færi líklega dagurinn sem eftir væri í að lesa þær ályktanir sem eru jákvæðar í þessu máli, því að þær eru einnig margar. Ég hef ekki hirt um að koma með þær ályktanir hér upp í pontuna og mun ekki lesa þær upp. Hins vegar má minna á að bæði sýslunefnd Austur-Húnavatnssýslu og sveitarstjórnir á Blönduósi og í Torfalækjarhreppi og raunar miklu víðar um Austur-Húnavatnssýslu hafa lýst eindregnum stuðningi og fylgi við þetta mál, og sveitarstjórnin í Svínavatnshreppi hefur lýst því að hún sé fús að ganga til samningaviðræðna um þetta mál á grundvelli þess tilboðs sem fram hefur verið lagt af hálfu iðnrn., og sveitarstjórnin í Svínavatnshreppi er í heimasveit hv. 3. þm. Norðurl. v. Ógetið er þó t. d. ályktana frá hinum geysifjölmenna almenna fundi sem haldinn var á Blönduósi síðari hluta jan. 1976, þar sem nær einróma var lýst stuðningi og miklum og sterkum áhuga heimamanna á þessu máli.

Ég skal ekki gera lítið úr þeim ályktunum sem gerðar hafa verið gegn málinu, og er fjarri mér að gera það. Hitt veit ég, að sumir hafa mótað þá neikvæðu skoðun sina af vafasömum upplýsingum um þetta mál sem dreift virðist hafa verið, og a. m. k. sumir þeirra manna, sem hafa sent frá sér neikvætt álit, hafa breytt þeirri afstöðu sinni þegar réttar upplýsingar hafa legið fyrir.

Það er ekkert sérkennilegt við það þó að skagfirðingar vilji heldur fá virkjun í sínu héraði. Það mundi svo fara fyrir mörgum, hvar sem þeir væru staddir á landinu, að þeir vilji fá stórframkvæmdir til sín og mannvirki eins og raforkuver í eigið hérað. Lái þeim hver sem vill. Ég geri það ekki.

Stefnan, sem tekin var í sambandi við Blönduvirkjun af hálfu iðnrn., var hins vegar byggð á því, að virkjun við Villinganes var talin um 40% dýrari en í Blöndu og er þá miðað við orkueiningu og sambærilegt verðlag. Enn fremur er sú virkjun ein út af fyrir sig næsta óörugg vegna þess að þar er um lítið miðlunarlón að ræða, eða aðeins í gljúfrum, og rennsli árinnar er ákaflega misjafnt. Þó má á það benda að rennslismælingar við Jökulsá hafa staðið í mjög skamman tíma og miklu skemur en við Blöndu. Enn má nefna að þessi rennslismismunur þýðir það, að orkuvinnslan fellur niður þegar mest þarf á orkunni að halda eða í frostaköflum að vetrarlagi. Þessar ástæður valda því, að stefnan var tekin á Blöndu. Enn fremur er það að segja í sambandi við virkjun Jökulsár, að þar er vissulega um álitlega virkjunarkosti að ræða. Það má virkja aðra smávirkjun til fyrir ofan Villinganes. En þær framkvæmdir yrðu þó væntanlega háðar því og óskynsamlegt að ráðast í þær án þess að gerð væru stórkostleg miðlunarmannvirki uppi á hálendinu, á Hofsafrétt, og stefnt að stórvirkjun Jökulsánna frá þeim miðlunarstað. Slík miðlun mundi þá um leið verða til þess að um verulegt jafnrennsli yrði að ræða í hinum litlu virkjunum við Villinganes og Merkigil. Þær hugmyndir eru lítt rannsakaðar og skemmra á veg komnar en rannsóknir við Blöndu og ekki hægt um það að segja á þessu stigi hvað af þeim mundi hljótast. En hitt sýnist nokkuð ljóst, að helstu gróðurtorfurnar á Hofsafrétt mundu hverfa undir vatn. Það má vel vera að það teljist lítill skaði af þeim sem hæst tala um náttúruvernd, en ég vil benda á að þær stórframkvæmdir verða ekki unnar án þess að landspjöll verði og er ekki fyllilega rétt með farið ef það er ekki sagt.

Ég held að ég láti þessi orð mín duga í sambandi við það sem hv. þm. Páll Pétursson sagði um vilja heimamanna og um Villinganesvirkjun og aðrar þær samþykktir sem hann las. Hann gæti væntanlega komið hér á eftir og lesið samþykktir sem borist hafa og væru allar jákvæðar með þessu sama máli. Svo er um hin stærri mál, að í fyrstu verður jafnan nokkur ágreiningur. Það er ekki alltaf að öllum sýnist hið sama. En þann ágreining þarf að jafna að sem mestu og vonandi er að það takist í sambandi við það mál sem hér er á ferðinni.

Ég vil þá víkja örfáum orðum að fyrirætlunum um notkun þessarar miklu orku.

Í orkuspá, sem hæstv. iðnrh. vitnaði til og birt er sem fskj. með þessu frv., kemur fram að aukning á aflþörf raforku á næstu árum er á 5 ára fresti eins og hér verður greint. Ef miðað er við árið 1976 er talið að á árinu 1981 þurfi að hafa bæst við 194 mw. 5 árum síðar, 1986. þurfa enn að hafa bæst við 134 mw. 1991 þarf viðbótin að vera 133 mw., 1996 152 mw. og ári.ð 2000 141 mw., eða á 5 ára fresti fyrst nærri 200 mw. og síðan frá 130—150 mw. á hverjum 5 árum til þess að fullnægja orkuþörf þjóðarinnar sjálfrar. Hér er ekki gert ráð fyrir stóriðju, utan þess að gert hefur verið ráð fyrir að samningurinn um járnblendiverksmiðju verði staðfestur og lítils háttar aukning verði á orku til álversins í Straumsvík á fyrstu tveimur árum eða til ársins 1979. Annað er ekki reiknað samkv. þessari orkuspá til stóriðju. Og svo kemur hv. þm. Páll Pétursson sem því miður er nú genginn úr salnum, hér ferð eftir ferð upp í þennan ræðustól og flytur þennan dapurlega boðskap, að íslendingar eigi að virkja smátt og smátt, þeir eigi að forðast stórvirkjanir vegna þess að ef við virkjum stórt muni orkan verða seld til útlendinga. Ég get sagt það fyrir mitt leyti, að ég virði vitsmuni þessa hv. þm. og þekkingu. En ég tel vafasamt að þeir vitsmunir og sú þekking nái miklu lengra en þeirra sérfræðinga sem hafa fjallað um þessa orkuspá. Þrátt fyrir það er þessi orkuspá byggð á næsta varlegum forsendum, eins og fram kom í máli hæstv. ráðh., þannig að t. d. á Norðurlandi er gert ráð fyrir að orkunotkunin aukist á fyrstu árunum einungis um 7%, síðan um 6%, þá um 5% og enn um 4%, þegar vitað er að nú um hríð hefur orkuneysla í heilum landshlutum vaxið um 15–20% og jafnvel meira ár frá ári. Svo varfærnisleg er þessi orkuspá. Samt bendir hún til þess að við þurfum 130–150 mw á 5 ára fresti til viðbótar til þess að fullnægja orkuneysluþörf íslendinga sjálfra.

Það má vel vera að einhver taki það sem góða og gilda vöru að við þurfum samt ekki að virkja nema smáar virkjanir og hugsa sem skemmst og gera sem minnst í þessum málum. En þá hljóta þeir hinir sömu menn að ætlast til þess að íslenska þjóðin fái ekki mætt þörfum sínum fyrir innlenda orku á komandi tímum. Það hlýtur að vera niðurstaða þeirra.

Ég skal taka það fram, að ég er enginn sérstakur stóriðjumaður og hef aldrei verið. Ég tel að við eigum að fara varlega í öllum áætlunum um stóriðju. Ég tel að við eigum samt ekki að slá neinu föstu um framtíð slíks atvinnurekstrar á Íslandi á t. d. þessari stundu, heldur verði að taka ákvörðun hverju sinni eftir því sem samningar bjóðast. En það er ljóst, eins og glögglega kom fram í umr. hér fyrir nokkrum dögum, m. a. hjá hv. 2. þm. Austurl., sem var að mínum dómi hárrétt, að íslenska þjóðin hefur ekki þörf fyrir stóriðjuframkvæmdir nú til þess að geta virkjað stórt, eins og var á þeim tíma sem virkjað var við Búrfell. Það er alveg ljóst. Möguleikar okkar íslendinga sjálfra í atvinnumálum eru slíkir, að þó engin stóriðja komi til, þá er nóg við að fást og hvarvetna blasa verkefnin við og hvarvetna er þörf fyrir orku, eins og þessi varlega orkuspá sannar. Þess vegna er ég því sammála að fara hægt í sambandi við allar áætlanir á þeim vettvangi. En ef til kæmi að meiri framkvæmdir yrðu í stóriðjumálum, þá er alveg ljóst að við þurfum að virkja umfram það sem segir í þessari orkuspá um þörf okkar. Er í rauninni ekkert um það frekar að segja en það. að ég tel að bestu virkjunarkosti okkar íslendinga eigum við að nota fyrir fólkið sjálft í landinu, og einn af þeim virkjunarkostum er í Blöndu.

Hæstv. iðnrh. gat í sinni frumræðu um nokkra þætti iðnaðaruppbyggingar sem hugað væri að og mundu krefjast mikillar orku. Þau iðnfyrirtæki voru að mínum dómi öll af þeim toga að sjálfsagt er að þau séu alfarið í eigu og umsjá íslendinga sjálfra og það verði að meta, hversu hagkvæm þau eru, og haga framkvæmdum í samræmi við það. Ég vil víkja örfáum setningum að tveimur af þessum þáttum sem hæstv. ráðh. drap á. Í fyrsta lagi í sambandi við iðnað úr jarðefnum, þ. e. steinullarframleiðslu.

Ég hef spurnir af því frá byggingarfróðum mönnum að t. d. vestanhafs séu menn mikið að hverfa frá því að nota plast til einangrunar og vaxandi markaður sé fyrir steinullarvörur til einangrunar mannvirkja. Þetta gefur bendingar um að þessi framleiðsla verði mun þýðingarmeiri í framtíðinni en verið hefur nú um alllangt skeið.

Í sambandi við það sem hæstv. ráðh. minnti á graskögglaverksmiðjur og fóðuriðnað, þá eru enn ekki komnar niðurstöður um hversu hagkvæmt sé að nota raforku til hraðþurrkunar grass, og ég vil nota þetta tækifæri til þess að leggja á það þunga áherslu að þeim rannsóknum verði hraðað og lokið, vegna þess að við eigum mikil verkefni óunnin fram undan á þessum vettvangi. Nokkrar athuganir hafa verið gerðar, m. a. af svokallaðri raforkunýtingarnefnd árin 1973 og 1974, sbr. skýrslur þeirrar n., dags. 3. maí 1974, þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að raforka sé vel nýtanleg til hraðþurrkunar grass og orkuverðið sé sá liður sem ráði þar úrslitum. Þar segir, að til þess að breyta raforku í hita komi aðallega þrjár aðferðir til greina: Í fyrsta lagi notkun elektróðukatla, í annan stað upphitun lofts með hitaelementum og í þriðja lagi hitadæluaðferð. Þessari þriðju leið virðist vera gefinn mestur gaumur, en sú leið er byggð í grundvallaratriðum á sömu forsendum og um kælivél sé að ræða, dæminu bara snúið við, að í stað þess að kæla niður vatn eða loft er það hitað. Ég vænti þess, þrátt fyrir vankunnáttu mína í tæknilegum efnum, að þessi aðferð mundi tengja saman notkun raforku og jarðvarma og þarna sé e. t. v. fundin lausn sem hafa muni stórkostlega þýðingu fyrir orkunotkun, t. d. til heykögglaverksmiðja og fleiri fyrirtækja, þegar um er að ræða jarðvarma sem er af lægra hítastigi en æskilegt og nauðsynlegt er talið.

Ég tel sem sé að það séu óteljandi viðfangsefni á sviði atvinnumála, iðnaðaruppbyggingar sem þarna koma til greina og gefa því fullt gildi að ekki sé að minni verkefnum stefnt í orkumálum en því að fullnægja raforkuþörf þjóðarinnar miðað við þá orkuspá sem fyrir liggur. Ef reynslan sker úr um að það er ófullnægjandi þá eigum við að mæta því með meiri framkvæmdum því að það á að vera keppikefli okkar að nota fyrir okkur sjálfa íslenska orkugjafa og innlent afl. Okkur er títt að miða verðútreikning við verð á erlendum orkugjöfum. En hitt vitum við einnig, að þó að það sé gert, þá er þar um hæpinn verðgrundvöll að ræða, vegna þess að við höfum engin tök á að ráða verði hinna erlendu orkugjafa sem fer síhækkandi, og er hætt við að svo muni enn til ganga.

Ég vil að síðustu, til þess að lengja ekki þetta meira, segja það, að þrátt fyrir það að þessu stórmáli, Blönduvirkjun, fylgi vissulega gallar, sem eru þeir að land sekkur undir vatn, þá er ég fullviss og trúi orðum og skýrslum vísindamanna sem sýna að það má bæta með uppgræðslu örfoka lands, og það örfoka land og lítt gróna land eigum við í gífurlega miklum mæli. Ég hef fulla trú á að sá ávinningur sem af þessum stórframkvæmdum mundi hljótast, væri svo miklu meiri en það sem við teljum að tapist að engu sé saman að jafna. Og að síðustu vil ég segja að um leið og ég vænti þess, að hv. Alþ. afgreiði þetta frv. á þessu þingi, þá erum við ekki þar með að slá föstum neinum framkvæmdum í ár eða næsta ár utan rannsókna. En ég tel nauðsynlegt að við högum vinnubrögðum í orkumálum á þá lund að ekki þurfi sífellt að hlaupa til og ráðast í stórframkvæmdir að lítt athuguðu máli þegar í nauðir hefur rekið vegna orkuskorts. Hætt er við að svo mundi fara ef leið hv. 3. þm. Norðurl. v. yrði valin, að hugsa smátt og vinna sem minnst á þessum vettvangi. Ég tel hins vegar að við eigum að mæta þessum málum af fyrirhyggju og undirbúa stórverkefni með eðlilegum aðdraganda og haga framkvæmdum eftir því sem skynsamlegt er á nokkrum árum, en þurfa ekki að sæta því að ráðast í stærri verkefni að lítt eða ekki athuguðu máli, eins og dæmi sanna að orðið hefur að gera í okkar landi vegna þess að rannsóknum og undirbúningi hefur ekki verið sinnt í tæka tíð. Þetta er veigamikill þáttur þessa máls, og ég hygg að flestir muni taka undir það, að það sé nauðsynleg ákvörðun að byggja stefnuna í orkumálum á fyrirhyggju og starfa samkv. því.

Hæstv. forseti. Ég mun þá láta máli mínu lokið þó að margt sé ósagt.