24.03.1977
Neðri deild: 63. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2835 í B-deild Alþingistíðinda. (2104)

199. mál, virkjun Blöndu

Forseti (Magnús T. Ólafsson) :

Út af orðum hv. 8. landsk. þm. vil ég taka fram, að eins og allir hv. þm. vita er það misjafnt eftir vikudögum hver er hinn eðlilegi þingfundatími. Þá daga, mánudag og miðvikudag, sem þingflokkafundir eru, er föst regla að deildarfundum lýkur um þær mundir sem þingflokkafundir eiga að hefjast. Þessu er ekki til að dreifa á fimmtudögum, eins og nú er, þegar, eins og allir þm. vita, þingfundir standa gjarnan, jafnvel án hlés, allt fram til kvöldmatartíma. Þar að auki hefur enginn formaður kjördæmishóps tilkynnt mér, hvað sem um aðra forseta er að segja, að fundir séu boðaðir í þeirra hópum.