26.03.1977
Sameinað þing: 68. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2875 í B-deild Alþingistíðinda. (2110)

Minnst látins fyrrv. alþingsmanns

Forseti (Ásgeir Bjarnason):

Á þessum fyrsta fundi Sþ. eftir andlát Einars Sigurðssonar útgerðarmanns vil ég minnast hans hér með nokkrum orðum. Hann átti að vísu aldrei fast sæti hér á Alþ., en var varaþm. eitt kjörtímabil, tók nokkrum sinnum sæti á þingi á árunum 1960–1963. Þingsetutími hans nam samanlagt u. þ. b. sex mánuðum. Hann andaðist í Landakotsspítala s. l. þriðjudag, 22. mars, 71 árs að aldri.

Einar Sigurðsson var fæddur að Heiði í Vestmannaeyjum 7. febrúar 1906. Foreldrar hans voru Sigurður bóndi þar og formaður Sigurfinnsson bónda í Ystabæli undir Austur-Eyjafjöllum Runólfssonar og kona hans, Guðríður Jónsdóttir bónda í Káragerði í Landeyjum Einarssonar. Hann hóf ungur kaupsýslustörf í Vestmannaeyjum. Nám stundaði hann í Verslunarskóla Íslands og brautskráðist þaðan vorið 1924. Að námi loknu sneri hann sér aðallega að útgerð og rekstri fiskvinnslustöðva. Hann átti heima í Vestmannaeyjum fram til ársins 1950, en fluttist þá til Reykjavíkur og átti hér heimili síðan og rak útgerð og fiskiðnað í Vestmannaeyjum, Reykjavík og víðar um landið.

Einar Sigurðsson gegndi mörgum trúnaðarstörfum og forustustörfum í samtökum á sviði útgerðar og fiskiðnaðar. Hann var varaformaður stjórnar Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, stjórnarformaður skipafélagsins Jökla, átti sæti í stjórn Tryggingamiðstöðvarinnar, var formaður stjórnar Umbúðamiðstöðvarinnar, átti sæti í stjórn Síldar- og fiskimjölsverksmiðjunnar í Reykjavík og var stjórnarformaður Coldwater Seafood Corporation í Bandaríkjunum. Hann var bæjarfulltrúi í Vestmannaeyjum á árunum 1942–1950.

Einar Sigurðsson var áhugamaður um íþróttir og var um árabil formaður Knattspyrnufélags Vestmannaeyja. Hann var sundmaður góður og iðkaði sund í sjónum við Vestmannaeyjar. Fræg er þrekraun hans, er hann var staddur undir Eyjafjöllum sumarið 1940 og þurfti að komast til Vestmannaeyja, báturinn, sem skyldi sækja hann, gat ekki lent sökum brims og hann synti gegnum brimgarðinn til móts við bátinn. Áræði hans, dugur og kappgirni, sem þetta afrek ber glöggt vitni um, kom víða fram í athöfnum hans við atvinnurekstur. Hann var stórhuga og mikilvirkur í framkvæmdum, og víða fór orð af stórkostlegum umsvifum hans í sjávarútvegsmálum. Hann var hugulsamur vinnuveitandi og kom m. a. upp bókasafni fyrir starfsfólk sitt í Vestmannaeyjum. Hann var ritstjóri blaðsins Víðis árin 1942 og 1946–1953 og skrifaði auk þess fjölda greina í önnur blöð, einkum um sjávarútvegsmál. Þórbergur Þórðarson skráði eftir frásögn Einars hluta af mikilli athafnasögu hans. Í störfum á Alþingi stefndi hugur Einars Sigurðssonar einkum að hag og eflingu íslensks sjávarútvegs. Við fráfall hans er á bak að sjá einum stórbrotnasta athafnamanni úr stétt íslenskra atvinnurekenda.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Einars Sigurðssonar með því að risa úr sætum. — [Þm. risu úr sætum].