28.03.1977
Sameinað þing: 69. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2879 í B-deild Alþingistíðinda. (2115)

Skýrsla samgönguráðherra um framkvæmd vegáætlunar

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 406 er skýrsla samgrh. um vegaframkvæmdir á vegáætlun 1976.

Þegar litið er á tekjur Vegasjóðs árið 1976 kemur í ljós að nokkuð vantar á að þær hafi innheimst samkvæmt tekjuáætlun. Þannig urðu rauntekjur af bensíngjaldi 1762.7 millj. kr. í stað 1923 millj. sem áætlað var. Af þungaskatti 556.1 milljón í stað 612 millj. og af gúmmígjaldi 62.4 millj. í stað 77 millj. Ríkisframlag varð hins vegar 630 millj. kr. í stað 530 millj. kr. og heildartekjur á þessum liðum 3011.2 millj. kr., en voru áætlaðar 3114 millj. í áætluninni. Auk þessara tekna hafði verið gert ráð fyrir að ríkissjóður aflaði almenns lánsfjár að fjárhæð 1350 millj. kr. og afla mætti til viðbótar verktakalána sem næmu 250 millj. kr. Hvorugt þetta tókst alveg. Almenn fjáröflun var 1300 millj. kr. og verktakalán 160 millj. kr. Ekki fór hjá því að tekjurýrnun þessi kæmi fram í minni framkvæmdum.

Í þeim hluta skýrslunnar, sem snýr að skiptingu útgjalda, eru viðhaldinu gerð betri skil en oft áður, enda full þörf á að þm. sé gerð grein fyrir því fé er varið er til viðhalds vega. Það var 1381 millj. kr. í vegáætlun fyrir árið 1976. Viðhaldsfé er fyrst skipt í þrennt: sumarviðhald, sem fær bróðurpartinn eða 1099 millj. kr., vetrarviðhald, sem nemur 264 millj. kr. og vegmerkingar, sem fá í sinn hlut 18 millj. kr. Sumarviðhaldinu er síðan skipt í 7 undirliði: viðhald vega, brauta og brúa, heflun, rykbindingu og vinnslu efnis og loks vatnaskemmdir og ófyrirsjáanlegt. Hverjum þessara undirliða eru gerð skil í skýrslunni og verður ekki vikið að þeim hér nema að litlu leyti.

Það mun hverjum vegfaranda ljóst, að þótt öllu sé til haga haldið er hvergi skammtað um of, heldur er sparað á öllum þáttum. Kemur m. a. í ljós að til að halda vorviðgerðum í lágmarki þarf að takmarka öxulþunga í flestum héruðum landsins um lengri eða skemmri tíma, sums staðar allt að hálfum öðrum mánuði, því að frá því að frost fer að fara úr vegi í byggð þar til sami vegur er úr hættu á heiðum uppi líður oft langur tími.

Ekki var þó komist hjá allverulegum vorskemmdum á s. l. ári og var aurhlaup mikið á vegum vestanlands og á vestanverðu Norðurlandi. Einnig urðu verulegar skemmdir af vatnavöxtum. Tilfinnanlegastar urðu þær í Fróðárhreppi á Snæfellsnesi þar sem brú eyðilagðist á Holtsá, en tvær aðrar skemmdust. Snjóalög voru óvenjuleg á árinu 1976 og kostnaður við snjómokstur nokkuð með öðrum hætti en í venjulegu árferði. Mest snjóaði á vestanvert landið og reyndist Holtavörðuheiði dýrasti fjallvegurinn. Kostaði snjómokstur á henni 15 millj. kr. Vegna þess, hvað snjólétt var í öðrum héruðum, var snjómokstur þó ekki eins mikill og stundum áður, eins og fram kemur í töflu yfir kostnað við vetrarviðhald síðustu 10 árin.

Af nýbyggingum vega skal getið þess helsta, fyrst hraðbrautarframkvæmda: Endurbyggingu á Suðurlandsvegi austan Þjórsár, en þar voru undirbyggðir 2.4 km. Í Flóa var lagður 3.1 km kafli austan Skeiðavegar og á hann lögð olíumöl. Á Vesturlandsvegi var endurbyggður 3.2 km kafli um Kiðafell. Sverrir Runólfsson lauk við tilraunakafla sinn á Kjalarnesi, en sá kafli kostar 30 millj. kr. og er 1.2 km langur. Unnið var áfram við hraðbraut í Kópavogi og í framhaldi af henni byggð akbraut frá Fífuhvammsvegi suður yfir Arnarnes. Slitlag var lagt á Garðskagaveg úi. fyrir Garð. Í brúargerð á Borgarfjörð var alls 390 millj. kr. fjárveiting. Steyptir voru 6 stöplar og bitasteypa undirbúin. Hafin var vegagerð út frá Akranesi og lagður 2 km kafli af Vesturlandsvegi í Norðurárdal. Í Húnavatnssýslu var unnið að lögn hraðbrautar á Hrútafjarðarhálsi, einnig á sama vegi vestan Laugarbakka, vestan Blönduóss og um Vallhólm. Í Eyjafirði var haldið áfram vegagerð norðan Akureyrar og þar lokið við undirbyggingu tveggja kafla, 2.3 km langra, og haldið áfram vegagerð á Svalbarðsströnd í átt að Víkurskarði.

Í þjóðbrautum voru víða gerð myndarleg átök. Nægir þar að nefna endurbætur á Mýrdalssandi, á Biskupstungnabraut við Spóastaði, við Ólafsvík, um Hörgsnes, en þar var gert vetrarfært til bráðabirgða. Þá var og byggður kafli við Guðlaugsvík á Strandavegi. Í Skagafirði bar hæst byggingu brúar á austurós Héraðsvatna, vegagerð í Fljótum o. fl. Á Austurlandi má nefna göngin undir Oddsskarð, endurbyggingu veganna á Vopnafjarðarheiði og Fjarðarheiði og margt fleira.

Á árinu voru byggðar 10 brýr 10 m á lengd og lengri, þar af 3 á sýsluvegum. 9 smábrýr voru byggðar.

Alls var lagt malarslitlag á 201 km nýrra vega og 12 km af bundnu slitlagi, svo segja má að um 213 km þjóðvega hafi verið lokið á árinu.

Hlutur ríkisins í lagningu og viðhaldi sýsluvega var 109 millj. kr. á árinu, en heimaframlög námu 62 millj. kr., þannig að þeirra hlutur varð 171 millj. kr.

Til vegagerðar í kaupstöðum og kauptúnum voru veittar tæpar 294 millj. kr., auk 18 millj. kr. sem geymdar voru í 25% sjóði frá árinu áður. Af þessu fé var 220 millj. kr. úthlutað eftir höfðatölureglu, en 91 millj. kr. úr 25% sjóði. Að vanda var fé veitt til vélakaupa til viðbótar því sem vélar Vegagerðarinnar höfðu til afskrifta. En Vegagerðin á í sömu erfiðleikum um rekstur sinna véla og aðrir vélaeigendur vegna hækkana, bæði innanlands og erlendis. Vélakaupin voru fyrst og fremst í því fólgin að afla véla sem ekki fást leigðar á almennum markaði, eins og veghefla og snjóruðningstækja.

Fjárveiting til áhaldahúsa var 30 millj. kr. og hún notuð til að fullgera hús í Vík í Mýrdal, á Hvolsvelli og á Hvammstanga. Enn fremur var keypt á Reyðarfirði íbúðarhús fyrir umdæmisverkfræðinginn. Rannsóknir voru með svipuðu sniði og áður, nema hvað þær hafa verið af fremur skornum skammti síðan 1974 vegna þess að tilraunakafli Sverris Runólfssonar hefur verið unninn fyrir fé úr þessum sjóði.

Nokkur greiðsluhalli varð á árinu og var honum að verulegu leyti mætt með umframgreiðslu úr ríkissjóði.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessa framsögu lengri, enda skýrslan það vel úr garði gerð að hún skýrir það sem á kann að vanta í ræðu minni.