28.03.1977
Sameinað þing: 69. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2924 í B-deild Alþingistíðinda. (2124)

162. mál, vegáætlun 1977-1980

Sigurður Magnússon:

Forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka þátt í almennum umr. um þá þáltill. sem hér liggur fyrir um vegamál. Ég ætla fyrst og fremst að tala fyrir brtt. er ég hef flutt ásamt fleiri þm. og liggur fyrir á þskj. 426, en ég get nú stytt mál mitt um hana mikið vegna þeirra yfirlýsinga sem hæstv. samgrh. hefur haft hér frammi í umr. varðandi þessa brtt., og vík ég að því aðeins á eftir.

Við flm. þessarar brtt., sem erum úr öllum flokkum, þm. Reykv., ákváðum að flytja hana eftir að okkur hafði borist erindi frá fulltrúum samstarfsnefndarinnar um fólkvang sem sveitarfélögin á þéttbýlinu hér standa að og nýlega barst okkur, þar sem vakin var athygli á ástandi þess vegar sem um ræðir. Vegur þessi var lagður 1972, 11 km langur vegur upp í Bláfjöll. og einkum að því stefnt með lagningu hans að skapa möguleika á aðstöðu til útivistar fyrir fólkið hér í þéttbýlinu, svo sem til skíðaiðkana. Síðan 1972 hefur ekki verið varið neinu fé í þennan veg af hálfu ríkisins eða Vegagerðarinnar, þrátt fyrir það að með tilkomu vegarins hafi umferð um þetta svæði aukist mikið og mannvirkjagerð verið mikil, svo sem í skíðamannvirkjum. En segja má að umferðin sé orðin það mikil um þetta svæði, einkum á frídögum að vetri til þegar viðrar til skíðaiðkana, að hættuástand hafi skapast á veginum, og hafa þessir aðilar, sem að fólkvanginum standa, haft af þessu þungar áhyggjur. Og þetta útivistarsvæði fólksins hér í þéttbýlinu er einnig mikið sótt og jafnvel langt að, þannig er mikið um að skólafólk úr skólum hér austanfjalls sæki þetta skíðasvæði á vetrum á vegum skóla sinna og sama gildir einnig um skóla hér vestanlands.

Hugmyndir eru uppi um miklar framkvæmdir á þessu svæði af hálfu sveitarfélaganna, sem að fólkvanginum standa. M. a. hefur verið talað um að framlengja þennan veg suður í átt til Hafnarfjarðar og opna þar með nýja samgönguleið sem gerði alla umferð um þetta svæði miklu öruggari. Á prjónunum eru einnig framkvæmdir við gerð bílastæða á þessu skíðasvæði til þess að greiða fyrir umferð um svæðið. Og samstarfsnefndin hefur nú þegar áformað að leggja milli 40 og 50 millj. kr. í framkvæmdir á þessu svæði og einar 20 millj. af þeirri upphæð til vegabóta.

En sem sagt, vegna þeirrar yfirlýsingar, sem hæstv. samgrh. flutti hér áðan, tel ég ekki ástæðu til að tala fyrir þessari till. sérstaklega. Það kom fram í máli hans að hann hefur þegar í viðræðum við vegamálastjóra ríkisins tryggt, að á yfirstandandi ári verði veittar 3 millj. kr. til þessa vegar og hann vildi stuðla að því að í framtíðinni yrði tryggt að vegur þessi kæmi að fullum notum. Jafnframt lagði hann til að við flm. þessarar brtt. drægjum hana til baka. Í trausti þess, að þessi yfirlýsing samgrh. sé jafngildi þess að Alþ. samþ. þetta mál, og jafnframt, að tryggt sé að áfram verði veitt fé til vegarins til víðhalds honum í öryggisskyni, þá mun ég beita mér fyrir því að þessi till. verði dregin til baka.