28.03.1977
Sameinað þing: 69. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2951 í B-deild Alþingistíðinda. (2134)

162. mál, vegáætlun 1977-1980

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að lengja þessar umr. þegar hér er komið. Ég er óánægður með það að ekki skuli vera meira fjármagn til vegagerðar samkvæmt því sem hér liggur fyrir um vegáætlun á næstu 4 árum. Ég held að allir, sem hafa látið hér til sín heyra, hafi verið óánægðir. Formaður fjvn. var óánægður, hæstv. samgrh. var óánægður, og það verður að líta svo á, að hæstv. ríkisstj. sé óánægð, því að á annan veg verður ekki skilin sú yfirlýsing sem hæstv. samgrh. flutti hér fyrr í umr., að það væri ákveðið að taka vegáætlunina til endurskoðunar þegar fyrir næsta ár.

Ég vil taka undir það, sem aðrir hafa sagt í þessum umr., ánægju með þessa yfirlýsingu. Ég vona, að hún verði raunhæf, og treysti því og hef ekki ástæðu til annars en að treysta því að hún verði raunhæf í því formi, að það verði gerð veruleg bragarbót.

Í þessum umr. hefur Vestfirði borið allmikið á góma. Það hefur verið lýst yfir óánægju með skiptingu milli kjördæma, þannig að hlutur vestfirðinga sé ekki nægilega góður. Ég tek undir þetta. Ég held að mér sé óhætt að segja að allir þm. Vestf. séu óánægðir. Ég skal ekki hér fara að fjölyrða um það, hversu mikil þörf væri að veita meira fjármagni til Vestfjarða og taka fyrir stór verkefni o. s. frv. Ég sé ekki ástæðu til þess að vera að fjölyrða um það. Ég hef í undirbúningi þessa máls og ég veit að allir stjórnarþm. frá Vestfjörðum hafa lagt áherslu á þetta og ekki síst hv. 4. þm. Vestf. sem á sæti í fjvn. Ég veit líka að fyrir þessa baráttu hefur nokkuð áunnist þó að við séum ekki ánægðir.

En hér hefur staðið upp einn maður, hv. 5. þm. Vestf., sem telur sig vera sérstaklega kjörinn til þess að lýsa yfir óánægju og vandlætingu og talar eins og hann sé sá maður sem hefði getað breytt hér um, að því er virðist, eða maður verður að ætla, ef hann hefði verið í aðstöðu stjórnarþm. Það er leiðinlegt að þurfa að vera að benda á það, að einmitt þegar þessi þm., hv. 5. þm. Vestf., var og hét og hafði meira en málfrelsi í fjvn., há var hlutur vestfirðinga lakari en nokkru sinni fyrr eða síðar. Tölurnar tala. Auðvitað er ekkert óeðlilegt við að það séu nokkrar sveiflur í þessum efnum milli kjördæma á löngum tíma innan hvers kjördæmis. Við vestfirðingar höfum líka notið góðs af því. T. d. 1968 höfðum við um 29% eða tæp 30% af öllu vegafé. 1969 höfðum við rúm 20% eða 22–23%. En það er hörmulegt, eins og ég sagði áðan, að þurfa að segja það, hvað þá heldur að þola það, eins og vestfirðingar urðu að þola á þeirri tíð þegar hv. 5. þm. Vestf. var í stjórnaraðstöðu og sérstakur fulltrúi þeirra til þess að gæta þeirra hagsmuna í fjvn. og á öðrum vettvangi, að þá hrapaði þetta hlutfall niður í 6% eða um 6–7%.

Eftir að þessi þm. hætti að hafa þessa aðstöðu hefur hlutur okkar heldur farið batnandi. Við höfum verið síðan í 10–11%. Ég legg ekki sjálfur mikið upp úr tölum í þessu sambandi og sérstaklega ekki prósentutölum Það er vandfarið með þá hluti og að túlka rétt og leggja rétta merkingu í þær tölur. En ég hef aðeins vikið að þessu til þess að þessi hv. þm., hv. 5. þm. Vestf., skilji það að hann geti ekki talað af neinu sérstöku yfirlæti í þessu máli eða einhverju sérstöku yfirlæti til okkar þm. sem fylgjum núv. ríkisstj. Ég held að hv. þm. ætti ekki að hætta sér út á þá braut. En kannske það ömurlegasta í þessu — og það er vissulega ekkert gamanmál — það er nú það, að málflutningur, sem þessi hv. þm. hefur tamið sér, er öðru fremur til þess fallinn að veikja málstað vestfirðinga í hverju einu sem þessi hv. þm. ræðir um, og það á vissulega líka við um þetta mál.