28.03.1977
Sameinað þing: 69. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2952 í B-deild Alþingistíðinda. (2136)

162. mál, vegáætlun 1977-1980

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt aths., en þó nauðsynleg. Það eru sumir hv. þm. með því marki brenndir að þeir eru oftast seinheppnir, og það á við hv. 3. þm. Vestf. þegar hann var að segja hér að á þeim árum, sem ég var stjórnarsinni og átti sæti í fjvn., hefði hlutur Vestfjarðakjördæmis hríðversnað, þ. e. a. s. frá árinu 1972 til 1974. Við höfum um þetta tölur frá hæstv. samgrh., og þó að hv. 3. þm. Vestf. trúi honum ekki, þá held ég að ég trúi honum núna. Þessar tölur eru þannig: 1971, síðasta ár viðreisnarstjórnarinnar sem þessi hv. þm. studdi, 196.6 millj. 1972, fyrsta ár vinstri stjórnarinnar, Vestfjarðakjördæmi 267.1 millj. úr 196.6. 1973, annað ár vinstri stjórnarinnar, 413.7 millj. Ósköp hefur hv. 3. þm. Vestf. litla hæfileika til að reikna. (Gripið fram í.) 1975, fyrsta ár núv. hæstv. ríkisstj., fer Vestfjarðakjördæmi úr 413.7 millj. 1974 í 255.6 millj. Þetta er að hrapa, segir hv. þm. Þorvaldur Garðar Kristjánsson. Þvílík öfugmæli ! Ég skil ekkert í hv. þm. að hann skildi taka sér þessi orð í munn því hann hefur plaggið, hann hefur bara ekki litið á það áður en hann talaði, en það hefði verið betra.