29.03.1977
Sameinað þing: 70. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2955 í B-deild Alþingistíðinda. (2141)

162. mál, vegáætlun 1977-1980

Forseti (Ásgeir Bjarnason):

Ég vil taka það fram í sambandi við þessa till., að það orkar mjög tvímælis hvort hún á heima hér í sambandi við vegáætlun vegna þess að hér er farið fram á hækkun á bensíngjaldi sem er ákveðið samkv. sérstökum lögum, sem eru lög frá 29. apríl 1953, og þar segir í 1. gr. þeirra laga: „Söluverð á gasolíu, brennsluolíu, ljósolíu og bensíni skal vera hið sama á öllum útsölustöðum á landinn.“ Því sýnist mér að þar sem hér er um að ræða að hækka verð á bensíni og olíu á einstaka stöðum, þá brjóti það í bága við þessa löggjöf sem þar um fjallar og því þurfi breytingu á þeim lögum ef till. þessi á að hafa lagalegt gildi. Ég tel ekki þinglegt að bera upp till. sem hefur ekki lagalegt gildi í sambandi við það mál sem hér er um að ræða, sem er þáltill. um vegáætlun. Það þarf breytingu á löggjöfinni eigi að síður. Þetta vildi ég að kæmi fram. (EggÞ: Er 95. gr. vegalaga til?) Hún er fallin úr gildi fyrir nokkuð löngu. En ef maður ber þá grein saman við það lagalega gildi sem bensínskattur hefur, þá þarf breytingu á þeim lögum ef nýtt gjald á að koma til. Því mun ég ekki bera upp þessa till., og ég vænti þess að hv. flm. fallist á það.