28.10.1976
Sameinað þing: 11. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í B-deild Alþingistíðinda. (215)

1. mál, fjárlög 1977

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Þegar núv. ríkisstj. var mynduð að loknum kosningum árið 1974 var ekki hægt að segja að sérstök ánægja eða hrifning réði ríkjum, hvorki innan stjórnarfl. sjálfra né hjá almenningi. Aðdragandi þessarar stjórnarmyndunar var harla óvenjulegur og óhætt að segja að foreldrarnir, Sjálfstfl. og Framsfl., hafi komið með þá reynslu hvor af öðrum út úr tilbugalífinu að þeir hafi aldrei getað fyllilega fyrirgefið hvor öðrum að króginn skyldi hafa orðið til. Hjónabönd við slíkar aðstæður eru að vísu ekki með öllu dæmalaus, en reynslan mun hafa sýnt að þau endast ekki ýkja lengi og þá hvað síst þegar afkvæmið, sem á að halda hjónunum saman, er ekki lánlegra en afkvæmi sambúðar Sjálfstfl. og Framsfl., hæstv. ríkisstjórn, enda mun sú vera raunin á að misklíðin á stjórnarheimilinu hafi aukist fremur en hitt þau þrjú ár sem stjórnarfl. hafa byggt eina sæng.

Það eina, sem enn heldur þessari hæstv. ríkisstj. saman, er að í þessum tveimur flokkum er að finna íhaldsöflin sem til eru með þessari þjóð, og þegar þau ná höndum saman í einni ríkisstj. er eins og þau magni hvort annað upp og kefji þær frjálslyndisraddir sem ella gætir í flokkum þessum báðum og geta á stundum notið sin í samvinnu frjálslynda og viðsýna stjórnmálaflokka. Þessi íhaldsöfl í stjórnarfl. báðum hafa gripið höndum saman, og á því handtaki og því handtaki einu hangir hæstv. ríkisstj. enn við völd.

Flestum þeim, sem enn muna samstjórn þessara flokka á sjötta áratugnum, var ljós þessi hætta. Reynslan hefur sýnt, að samstjórnir Sjálfstfl. og Framsfl. eru verstu ríkisstj. sem dæmi eru um á Íslandi, og vissulega var ástæða til að óttast að sú reynsla mundi endurtaka sig, enda hefur sú orðið raunin á. Núv. ríkisstj. er að þessu leyti til enginn eftirbátur fyrrv. samstjórna Sjálfstfl. og Framsfl., og þessa staðreynd hafa frjálslyndari menn í flokkunum báðum löngu gert sér ljósa, eins og t.d. má marka af skrifum fjölmargra manna í blöð, sem talin eru stuðningsblöð hæstv. ríkisstj. Þessara sjónarmiða er meira að segja farið að gæta í leiðaraskrifum þessara blaða.

En hæstv. ríkisstj. hefur ekki aðeins reynst vera vond stjórn í þessum skilningi, þ.e.a.s. íhaldssöm stjórn, Hún hefur einnig reynst vond stjórn í þeim skilningi að hún hefur stjórnað illa. Auðvitað eru margar skilgreiningar til á orðinu íhaldssamur. Þeir, sem leggja jákvæðan skilning í það orð, viðurkenna að vísu að ekki sé mikilla framkvæmda eða félagslegra umsvifa að vænta af íhaldsstjórn, slík stjórn sé ekki líkleg til að hafa mikil afskipti af atvinnumálum, félagsmálum og öðrum slíkum málaflokkum, en hins vegar megi vænta þess, að hún haldi styrkum höndum á fjármálastjórn, sé í þeim efnum varfærin, aðsjál og stjórnsöm. Eftir að fjármálastjórn ríkisstj. Framsfl. og Alþb. og SF hafði gersamlega gengið fram af þjóðinni í óráðsíu voru landsmenn sem í örvæntingu sinni sneru sér til Sjálfstfl. og hugsuðu sem svo, að þótt ekki mætti búast víð, að hann hefði forustu um mikil umsvif eða umbætur í félags- og atvinnumálum, mætti þó e.t.v. vænta þess að umskipti gætu orðíð í stjórnun fjármála þjóðarbúsins undir hans forustu og að þar yrði beitt nauðsynlegu aðhaldi og æskilegri forsjálni. En þeir landsmenn, sem þannig hafa hugsað, hafa orðið fyrir geipilegum vonbrigðum. Ef nokkuð er, þá hefur stjórn fjármála þjóðarinnar farið núv. hæstv. ríkisstj. enn verr úr hendi en þeirri fyrri. Aldrei hefur meira ábyrgðarleysi eða meira stjórnleysi ríkt í þeim málum en einmitt nú. Þetta birtist á mörgum sviðum sem endalaust er hægt upp að telja, en ekki hvað síst í fjárlagaafgreiðslu ríkisstj, frá upphafi — og svo er enn.

Sjálfstæðismenn og stuðningsmenn þess flokks hafa sjálfsagt margir átt von á því að fjárlagagerð vinstri stjórnarinnar rangnefndu, samstjórnar Framsfl., Alþb. og SF, yrði nokkurs konar eilíf viðmiðun um ranga fjármálastjórn, nokkurs konar mælikvarði sem hægt yrði að vega og meta gerðir annarrar ríkisstj. eftir. En hvernig dæmist núv. ríkisstj. ef hún yrði dæmd eftir þeim mælikvarða sem flestir voru sammála um í síðustu kosningum að væri sá mælikvarði sem sennilega yrði aldrei sleginn út? Við skulum lita á nokkur dæmi þar um.

Aldrei hefur orðið meiri hækkun á útgjöldum fjárlaga milli ára en nú er stefnt að. Það er ráðgerð yfir 40% hækkun á útgjöldum fjárl. frá fyrra ári og eru þó ekki öll kurl til grafar komin því enn vantar að taka tillit til útgjaldahækkana sem fyrirsjáanlega verða í meðförum Alþ. Ríkisstj. Framsfl., Alþb. og SF., sem mikið var átalin, m.a. af forustumönnum Sjálfstfl., fyrir ráðleysi í fjármálum, lagði á þriggja ára ferli sínum fram þrjú fjárlagafrv., árin 1972, 1973 og 1974. Í þessu fyrsta frv., sem lagt var fram af þessari ríkisstj. fyrir árið 1972, var niðurstaða gjalda ríkissjóðs 14 miljarðar kr., í því síðasta 27 milljarðar. Hækkunin í fjárlagafrv. vinstri stjórnarinnar sálugu á þremur árum nam því 13 miljörðum eða innan við 100%. Núv, ríkisstj. hefur einnig lagt fram þrjú fjárlagafrv., 1975, 1976 og nú 1977. Á þessum þremur árum hafa útgjöld ríkissjóðs, ef miðað er við tölur í núverandi fjárlagafrv., hækkað um 60000 millj. kr. Krónutöluhækkun þriggja fjárlagafrv. núv, ríkisstj. er yfir 350% meiri en á þremur árum þeirrar fyrrv. Hér er að vísu miðað við krónutölu eina, og kynni einhver að halda því fram að skýringin á þessu sé sú metverðbólga sem gengið hefur yfir á þessu tímabili. Sú verðbólga hefur reynst vera meiri en dæmi eru til um, mun meiri en verðbólga var hér í landi á árum tveggja heimsstyrjalda þegar allar aðflutningsleiðir til landsins voru lokaðar.

Þarna er verðbólgan jafnvel fremur afleiðing en orsök. Stjórnleysið í fjármálum og efnahagsmálum í tíð þessarar hæstv. ríkisstj , sem nú situr, hefur verið einn meginverðbólguvaldurinn. Skuldasafnanirnar innanlands hjá Seðlabanka og almenningi hafa náð nýjum metupphæðum, eins og sjást má af því, að nú 30. sept. nam skuld ríkissjóðs við Seðlabankann skv. tölum fjárlaga- og hagsýslustofnunarinnar 12 774 millj. kr. eða um 480 þús. kr. á hvern framteljanda í landinu, og eru það engir smámunir. Þá hafa skuldasafnanirnar utanlands ekki verið minni, til þess m.a. að standa undir framkvæmdum eins og þeim sem nú eru unnar við Kröflu og almenningur þekkir dæmi um.

Reynslan hefur orðið sú, að í tíð þessarar hæstv. ríkisstj, og raunar þeirrar fyrrv. hefur orðið um meiri verðbólguvöxt að ræða á Íslandi heldur en fyrir tilverknað tveggja heimsstyrjalda. En jafnvel þessar framkvæmdir, þessar lántökur sem ég hef víkið að hér, eru ekki nægileg skýring á því hvernig farið hefur. Eftir miklar yfirlýsingar Sjálfstfl. og flokksforustumanna hans, meðan sá flokkur sat í stjórnarandstöðu fyrir nokkrum árum, um óráðsíu í almennum rekstrarútgjöldum ríkisins, þ.e.a.s. um almenna eyðslu sem ekkert skildi eftir sig, mætti ætla að undir forustu hans yrði gerð gangskör að því að draga úr almennri eyðslu hins opinbera. Margir hafa sjálfsagt vænst þess, sem greiddu flokknum atkv. í síðustu kosningum, að það yrði gert. En nú ber svo við að skv. aths. þessa frv., sem hér er til umr., er gert ráð fyrir því að önnur rekstrargjöld ríkissjóðs en laun hækki frá fyrra ári um hvorki meira né minna en 58.2%, á sama tíma og hækkun til hreinna ríkisframkvæmda er 18.9%, en hækkun framkvæmdaframlaga almennt um 32%. Hvaða vísbendingu gefur þetta um þá jákvæðu íhaldssemi sem margir kjósendur Sjálfstfl. í síðustu kosningum voru að vonast eftir þegar þeir greiddu flokknum atkv.? Ótal afsakanir koma að sjálfsögðu fram til þess að reyna að fela þessar staðreyndir. En hver stefnan hefur verið þegar litið er til stjórnaráranna þriggja dylst samt ekki.

Við skulum enn vega þessi þrjú ár á mælikvarða hinnar rangnefndu vinstri stjórnar. Sú ríkisstj. lagði sitt síðasta fjárlagafrv. fram á Alþ. haustið 1973, frv. til fjárlaga fyrir árið 1974. Skv. þessu síðasta fjárlagafrv. vinstri stjórnarinnar, þegar efnahagsstefna hennar var u.þ.b. að bíða gjaldþrot, nam almennur rekstrarkostnaður ríkisins, þ.e.a.s. kaup ríkisins á vörum og þjónustu, 8.2 milljörðum af 27 milljarða heildartekjum eða um 30% heildartekna. Í því fjárlagafrv., sem nú er til umr., nemur þessi almenni rekstrarkostnaður ríkisins 32.2 milljörðum af um 84 milljarða ríkistekjum eða um 38% heildartekna ríkissjóðs. Á starfstímabili núv. ríkisstj. hafa almenn rekstrarútgjöld ríkisins því vaxið úr 30% ríkistekna í 38% ríkistekna, en það var einmitt í þessum þætti ríkisfjármálanna, almennum kostnaði við ríkisreksturinn, sem margir töldu að einmitt íhaldssöm ríkisstj. mundi koma sparnaði við. En það hefur sannarlega ekki orðið. Þvert á móti hefur hlutfall almennra rekstrarútgjalda ríkissjóðs af ríkissjóðstekjum aukist á þessum þremur árum, starfstímabili núv. hæstv. ríkisstj., um hvorki meira né minna en fjórðung af því sem þetta hlutfall var í síðasta fjárlagafrv. ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar.

Þetta er ekki íhaldsstjórn. Þetta er óstjórn og óstjórnin blasir hvarvetna við. Tvívegis hefur núv. þingmeirihl. afgr. fjárl., bæði skiptin með þeim eindæmum að ríkisstj. sjálf neyddist til þess í fyrra skiptið að gefa út yfirlýsingu, fáum víkum eftir að afgreiðslu hinna nýsamþykktu fjárl. lauk, um að það þessi afgreiðsla væri dauð og ómerk. Það stóð ekki steinn yfir steini af nýsamþykktum fjárl., hvorki í fyrra né hitteðfyrra, aðeins örfáum víkum eftir að samþykkt þeirra var lokið hér á hinu háa Alþ. Í fyrra skiptið, veturinn 1975, voru hin nýsamþykktu fjárl. rifin upp og ýmsar framkvæmdir ráðnar í framhaldi af því, jafnvel án vitundar fjvn. og þar með væntanlega í heimildarleysi. Og í fyrra var enn sama uppi á teningnum, því nauðsynlegt þótti þá að hræra í nýsamþykktum fjárl., fyrst á þinginu sjálfu, eins og með samþykkt laga frá því í maí í vor um hækkun vörugjaldsins og jafnvel fram eftir sumri með brbl. til þess að leiðrétta misfellur á skattkerfi, einum megintekjustofni fjárl. Og enn á að fara eins að. Þetta fjárlagafrv. er í rauninni dæmt til þess að vera jafnómerkt í upphafi og hin fyrri voru.

Raunar er ekki hægt að tala um þetta frv. á einn eða annan veg. Það er ekki hægt að taka það alvarlega, eins og það blasir við nú, því svo mikið vantar enn af upplýsingum sem þar ættu að vera. T.d. hafa verið boðuð, m.a. í ræðu hæstv. ráðh. hér áðan, ný skattalög sem að sjálfsögðu eru undirstaða a.m.k. mikils tekjuöflunarþáttar fjárl. Þessi skattalög hefur enginn séð, og fyrr en þm. hafa séð þau skattalög er að sjálfsögðu vart unnt að afgr. fjárl. eða fjalla um þau endanlega. Þó er vitað að hæstv. ríkisstj. stefnir að hækkun skattbyrðar, t.d. með því að framlengja 18% vörugjaldið út allt næsta ár, en sú prósentuupphæð í vörugjaldi var ekki tekin nema hluta yfirstandandi árs. Þessi stefna er í fullu samræmi við þá staðreynd, að á undanförnum árum hefur ríkisstj. smátt og smátt verið að auka skattbyrðina, eins og sést af því, sem raunar kemur fram í aths. fjárlagafrv., að hún hefur verið hækkuð úr 15.3% árið 1975 í 16 .9% nú.

Þá er einnig gert ráð fyrir að endurskoðaðir séu ýmsir aðrir mikilvægir þættir frv., t.d. varðandi félagsmál þar sem eru sjúkratryggingar. Þar á að setja nýjar reglur um kostnað og kostnaðarskiptingu, en ekkert er vitað um það mikilvæga atriði enn.

Þá hefur hæstv. ríkisstj. enn fremur skipað n. til þess að fjalla um meginvanda efnahagsmálanna í landinu og þá um leið meginvanda sem við er að etja við gerð fjárl. hverju sinni, en það er verðbólguþróun, og að leita möguleika til að spyrna við fótum þar. Það er ekki ætlunin að þessi n. skili álíti, að mér skilst, fyrr en í febrúar. Hvernig á að vera hægt að afgr. einn meginþátt efnahagsmála hvers árs, fjárl. sjálf, ef jafnmikilvæg niðurstaða eins og n. er væntanlega ætlað að komast að liggur ekki fyrir fyrr en 2–3 mánuðum eftir að fjárl. hafa verið afgr.? Er þarna raunverulega ekki verið að boða að þau fjárl., sem á að afgr. í desembermánuði í ár væntanlega, séu raunar frá upphafi ómerk og það sé ekki gert ráð fyrir því af hæstv, ríkisstj. að slík fjárlagaafgreiðsla geti lagt grundvöllinn að fjárhagsbúskap ríkissjóðs á næsta ári? Er ekki raunar með þessu verið að boða það, að það hljóti að gerast á þessu ári eða öllu heldur á árinu 1977, eins og gerst hefur á þessu ári og árinu í fyrra, að nokkrum víkum, kannske örfáum mánuðum eftir að afgreiðslu fjárlaga er lokið, þá verði þau tekin upp til nýrrar endurskoðunar og allt ónýtt sem áður hefur verið gert?

Það er hægt að halda lengi áfram upptalningunni um það, hvernig hæstv. ríkisstj. hefur raunar gefist upp við þau meginverkefni sem við henni blasa. En við skulum láta nægja að taka eitt dæmi til viðbótar, — dæmi sem minnst hefur verið á hér í umr. áður.

Við afgreiðslu síðustu fjárl. fyrir ári, var þess getið að til stæði að breyta ákvæðum laga um uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir. Sú endurskoðun laganna átti að fara fram að tilhlutan ríkisstj. á yfirstandandi ári. Í samræmi við það var ákveðið í fjárl, yfirstandandi árs að 890 millj. kr, gengju til greiðslu uppbóta á útfluttar landbúnaðarafurðir. Með þessu viðurkenndu stjórnarfl. báðir í raun, að þetta útflutningsuppbótakerfi væri komið út í algjörar ógöngur, og lýstu því beinlínis yfir að nauðsynlegt væri og að þeir mundu hafa frumkvæði að því að þetta kerfi yrði tekið til endurskoðunar og væntanlega gert ódýrara. Vissulega er hér um talsvert stórt vandamál að ræða, að breyta reglum, um þessa framkvæmd. En það er með þetta vandamál eins og flest önnur, að hæstv. ríkisstj. hreinlega gafst upp. Niðurstaðan er sú, að fjárveitingar, sem ráð var fyrir gert í fjárl. yfirstandandi árs, eru hvergi nærri nægjanlegar til þess að standa undir þeim skyldum sem ríkissjóður lögum samkv. verður að standa undir hvað varðar greiðslu útflutningsuppbóta á landbúnaðarafurðir. Í aths. fjárlagafrv. kemur fram að horfur séu á því, að sú fjárhæð, sem verja þarf til útflutningsuppbóta á yfirstandandi ári, muni nema 1550 millj. kr. Vantar því hvorki meira né minna en 660 millj. kr. til viðbótar við þær 890, sem ætlaðar voru til þessara þarfa í fjárl, yfirstandandi árs. Gagnvart þeim óleysta vanda stöndum við nú, og sá vandi hefur skapast aðeins vegna þess að ríkisstj. stóð ekki við það fyrirbeit um endurskoðun reglna um greiðslu uppbóta á útfluttar landbúnaðarafurðir sem hún í raun gaf í fyrra. Einnig gagnvart þessu vandamáli gafst hún upp. Að því er mér skilst er ráð fyrir því gert í fjárlagafrv. því, sem hér er til umr., að mál þetta verði leyst með þeim hætti að ríkisstj. verði gert að greiða til viðbótar við þær 890 millj. kr., sem fjárl. yfirstandandi árs heimiluðu í útflutningsuppbætur, 500 millj. af þeim 660 sem eftir standa. Bætist sá fjárhagsvandi ofan á það að reiknað er með í frv. að útflutningsuppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir þurfi að nema 2200 millj. kr. á næsta ári að óbreyttum reglum. Fjárlagafrv. gerir hins vegar ráð fyrir því að sá vandi verði ekki allur leystur, að aðeins 1800 millj. kr. af þessum 2200 verði varið til þessara þarfa, og er þá enn sem fyrr beitið endurskoðun — þeirri endurskoðun sem ríkisstj. lofaði í fyrra, en heyktist á.

Þegar saman eru lagðar þær ógreiddu eftirstöðvar útflutningsuppbóta frá yfirstandandi ári, sem ég rakti hér áðan, svo og þær fjárhæðir sem verja þarf til uppbóta á útfluttar landbúnaðarafurðir á næsta ári, þarf að verja úr ríkissjóði á árinu 1977 til þess að greiða bætur á útfluttar landbúnaðarafurðir upphæð sem er á bilinu frá 2300 millj. kr. minnst til 2700 millj. kr. mest. Þetta samsvarar um 5011 þús. kr. á hvern framleiðanda landbúnaðarvöru og nemur upphæð sem samsvarar því hvað bærri tölur varðar, 2700 millj. kr., að allar samanlagðar tekjur ríkisins af persónusköttum gengju til þessara þarfa einna, og hvað lægri töluna, 2300 millj. kr., varðar að allar tekjur ríkissjóðs af innflutningsgjaldi af bensíni að viðbættu gúmmígjaldi færu rakleiðis í að greiða niður útfluttar landbúnaðarafurðir. Þetta eru engir smávægis fjármunir sem hlyti að vera bægt að verja með öðrum betri og varanlegri hætti til eflingar landbúnaði, framleiðniaukningu í þeirri atvinnugrein, og þar með til að skapa þeim, sem landbúnað stunda, varanlegar kjarabætur.

Nauðsyn þessa er fyrir margt löngu orðin ljós, jafnvel hæstv. ríkisstj. En í þessu máli fer henni eins og flestum öðrum, hún ýtir vandanum frá sér.

Það má rétt til gamans, til þess að gefa nokkra mynd af því, hvernig komið er, vitna í nokkrar tölur frá Hagstofu Íslands um það hvað við fáum í raun og veru fyrir þann útflutning á þessu sviði sem við höfum ráðist í að undanförnu, hvað verð þeirra landbúnaðarafurða sem við seljum úr landi og útlendingar greiða, er mikill hluti af því sem þarf að greiða, þ.e.a.s. mikill hluti af því sem innanlandsverðið er. Fyrir útflutt dilkakjöt fáum við 47.3% af því verði sem ríkir innanlands. Fyrir útflutt ærkjöt fáum við 29% af því verði sem við þurfum að greiða innanlands. Fyrir útflutning á lifur, hjörtum og nýrum fáum við 25.7% af því verði sem þarf fyrir þessa afurð að fást hér innanlands. Fyrir útflutt svið, tólg, mör o.s.frv. fáum við 40.8% af því verði, sem þarf að fást hér innanlands. Fyrir útflutta ull fáum við 57.5% af því verði sem þarf að fást hér innanlands. Fyrir útflutt kálfa- og kýrkjöt fáum við 20% af því verði sem verður að greiða hér innanlands. Fyrir útfluttan ost fáum við 33.3% af því verði sem þarf að greiða innanlands. Fyrir útflutt ostaefni fáum við 32.2% af því verði sem þarf að greiða innanlands. Fyrir útflutt undanrennuduft fáum við 25.1% af því verði sem þarf að greiðast innanlands. M.ö.o.: íslenskir skattborgarar verða fyrir þessar afurðir að greiða frá 75% og niður í helming af því verði sem fyrir þær þarf að fást.

Ég vek athygli á því, að í ræðu hæstv. fjmrh. hér áðan komu fram ýmsar athyglisverðar hugmyndir um hvernig ætti að breyta þessu kerfi útflutningsuppbóta. Ég tel að þær hugmyndir séu mjög skynsamlegar að verulegu leyti. En ég er jafnsannfærður um að þessar hugmyndir lágu fyrir fyrir einu ári, og að þær skuli ekki hafa verið framkvæmdar sýnir að um þetta má segja eins og um svo fjölmargt annað: Það virðist ríkja um þetta samstaða í ríkisstj., og fremur en að reyna að leysa vandann er honum þá ýtt til hliðar.

Þessi dæmi, sem ég hef hér nefnt, og fjölmörg önnur, sem hægt er að nefna, sýna að núv. hæstv. ríkisstj. er ekki aðeins íhaldsstjórn, heldur ekki síður óstjórn. Ég hef varið miklum hluta ræðu minnar til þess að vekja athygli á þessum þætti stjórnarstarfanna, þ.e.a.s. óstjórninni, sýna fram á hve verulega skortir á stjórnsemi, aðgát, varfærni og forsjálni í fjármálastjórn núv. ríkisstj. Þetta hef ég gert til að sýna ljóslega fram á með einstökum dæmum að það er rétt, sem almenningur er raunar fyrir löngu farinn að hafa á tilfinningunni, að hjá þessari ríkisstj. sé ekki þeirra kosta að leita sem þeir eiga við er leggja jákvæðasta merkingu í orðið íhaldssemi.

Á hinu áttu menn hins vegar von, að stefna þeirrar stjórnar, er Sjálfstfl. og Framsfl. stæðu saman um, bæri á sér sömu afturhaldsummerkin og einkennt hafa fyrri stjórnir þessara afla. Í þeim efnum hefur núv. hæstv. ríkisstj. ekki komið á óvart. Það fjárlagafrv., sem nú er lagt fram, er einn af mörgum vottum þar um. Margar stofnanir hins opinbera, ýmsar framkvæmdir þess og þjónusta sem það veitir eru í raun réttri tæki til tekjuöflunar, aðferðir til þess að tryggja þeim efnaminnstu afkomuöryggi og lífsbjörg. Mikilvægustu þættir þessara mála eru t.d. hvað varðar ókeypis fræðslu og menntun, almannatryggingar, heilbrigðismál o.fl. Einkenni ríkisstj., þar sem áhrifa vinstri afla gætir, er að mikil áhersla er jafnan lögð á eflingu þessara þátta. Einkenni ríkisstj. íhaldsafla er hins vegar það, að öll uppbygging á sviði félagslegra málefna er stöðvuð. Þar er jafnvel um afturför að ræða. Og hvað sýnir reynsla undanfarinna ára okkur um stefnu núv. hæstv. ríkisstj. í þessum málum? Verkin sýna merkin.

Í frv. til fjárl. fyrir árið 1974, síðasta fjárlagafrv. sem lagt var fram áður en núv. ríkisstj. settist á valdastóla, námu útgjöld til tryggingamála alls 33.6% af heildarútgjöldum ríkissjóðs. Strax á fyrsta valdaári núv. hæstv. ríkisstj, fór þess að gæta, fulltrúar hvaða afla voru komnir í ráðherrastólana. Þá höfðu framlög til tryggingamála verið skorin niður miðað við fjárlagafrv. 1974 úr 33.6% niður í 30.7% eða lækkuð um 3% frá árinu áður. Þessi öfugþróun hefur svo jafnt og þétt haldið áfram uns nú í þriðja fjárlagafrv. þessarar hæstv, ríkisstj. er svo komið að framlög til tryggingamála nema aðeins 25.5%. Á aðeins þremur árum hefur árangurinn af starfi núv. hæstv. ríkisstj. sem sé orðið sá, að framlög til tryggingamála hafa lækkað úr 33.6% í 25.5% af heildarútgjöldum ríkissjóðs eða hvorki meira né minna en um því sem næst 1/4 hluta miðað við jafnverðmætar fjárlagakrónur. Það er ekki furða þótt lítilmögnum í þjóðfélaginu þyki að sér sótt. En þannig er ásýnd íhaldsstjórnar.

Nú verður því að sjálfsögðu borið við, að þessi samanburður sé ekki einhlítur þar sem á tímabilinu hafa verið gerðar talsverðar skipulagsbreytingar á tryggingamálum, m.a. með því að taka upp svonefndar barnabætur, þ.e.a.s. fella fjölskyldubætur inn í skattakerfið. En slíkar viðbárur duga ekki heldur. Lítum t.d. á hvað hefur gerst í einstökum þáttum tryggingamála. Á þriggja ára valdatíma núv. ríkisstj. hefur hlutur ellilífeyrisþega í heildarútgjöldum ríkissjóðs lækkað úr um 9% skv. fjárlagafrv. 1974 í ca. 7.2% í frv. nú. Svo langt er frá því að núv. hæstv. ríkisstj. hafi haldið í horfinu gagnvart ellilífeyrisþegum. Á sömu þremur árum hefur örorkustyrkur í hlutfalli af heildarútgjöldum ríkissjóðs lækkað úr 0.60% í 0.48%. Þannig hefur ríkisstj. staðið að málefnum öryrkja í þessu landi. Á sömu þremur árum hefur framlag ríkissjóðs til mæðralauna lækkað úr 0.54% í 0.40%. Þannig hefur ríkisstj. hæstv. staðið í ístaðinu í þessum málaflokki. Og á sömu þremur árum hafa framlögin til greiðslu barnalífeyris lækkað úr röskum 0.60% af heildarútgjöldum ríkissjóðs niður í um 0.50%. Allt ber þetta að sama brunni og sýnir hvernig núv. ríkisstj, hæstv. hefur ekki einu sinni baldið í horfinu í tryggingamálum í fjárlagagerðum sínum. Svo kemur hæstv. heilbrrh. og fær mikið lof í Morgunblaðinu í morgun, minnir mig, fyrir ákaflega góða frammistöðu í þessum málaflokki.

Sjúkratryggingarnar eru sérstök saga, raunar sorgarsaga. Útgjöldin þeim samfara hafa verið flutt að verulegu leyti yfir á sjúklingana sjálfa, bæði með sérstökum skatti á útsvarsgjaldstofn og eins með aukinni hlutdeild sjúklinga í kostnaði við sérfræðiþjónustu og lyf. Og enn stendur til að hækka þennan kostnað. Það er boðað í athugasemdum þessa fjárlagafrv.

Og hvað um fræðslumálin, annan þátt ríkisútgjalda sem meta má sem tæki til tekjuöflunar? Sá þýðingarmikli málaflokkur hefur verið á stöðugri niðurleið allt frá því Alþfl. lét af stjórn þeirra mála. En á því tímabili óx vegur mennta- og menningarmála í þessu landi svo að útgjöldin til menntamála sem hlutfall af þjóðarframleiðslu, en það er almennur mælikvarði á stöðu þessara mála í einstökum þjóðlöndum, jukust þannig að Ísland færðist frá því að vera í neðstu sætum Evrópulanda í slíkum samanburði við upphaf stjórnartímabils Alþfl. í menntamálum upp í að vera í öðru til þriðja sæti í þessum samanburði við lok þess tímabils. En síðan hefur leiðin stöðugt legið niður á við, og sama öfugþróun hefur haldið áfram í tíð núv. ríkisstj. en á þriggja ára valdatímabili hennar hafa útgjöld ríkisins til fræðslumála sem hlutfall af heildarútgjöldum ríkisins lækkað úr 16.1% í 14.2%. Og sömu sögu er, eins og vænta mátti, að segja af framlögum til atvinnumála almennt. Miðað við fjárlagafrv. 1974 er lagt til nú að framlög til iðnaðarmála lækki samtals úr 0 8% af heildarútgjöldum fjárlaga í 0.6%, framlög til vegamála úr 7.1 % í 6.5% og framlög til útvegsmála úr 2.3% í 2%. En framlög til búnaðarmála hafa hækkað úr 4.2% í 5.4%, og munar þar að sjálfsögðu mest um hinar miklu hækkanir á útgjöldum ríkissjóðs vegna uppbóta á útfluttar landbúnaðarafurðir sem ég ræddi um hér áðan og eru með öllu „ópródúktífar“ og til engrar varanlegrar aðstoðar við landbúnaðinn.

Allt ber þetta þannig að sama brunni. Núv. hæstv, ríkisstj. er ekki aðeins afturhaldssöm, hún er einnig óstjórnunarsöm, ekki aðeins að ríkisstj. hafi reynst óhæf að leysa þau vandamál sem skapast hafa við ytri aðstæður, heldur hefur hún einnig verið svo ógæfusöm að búa sjálfri sér og þjóðinni til jafnvel fleiri vandamál og stærri sem augljóst er að aðrir þurfa að leysa. Þeim mun lengur sem þessi ríkisstj. situr að völdum, þeim mun harðari verður sá hnútur og torleystari. Mesti greiði, sem ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl. gæti gert þjóðinni, og eini greiði á þriggja ára valdaferli hennar væri að segja af sér.