29.03.1977
Sameinað þing: 71. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2957 í B-deild Alþingistíðinda. (2150)

Umræður utan dagskrár

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ástæðan fyrir því, að ég kveð mér hljóðs utan dagskrár, eru þær æsifregnir sem birst hafa í blöðunum að undanförnu um hag og afkomu Útvegsbanka Íslands. Síðasta fregnin varðandi þetta mál var í einu dagblaði s. l. laugardag, og er því haldið fram að heyrst hafi úr hópi bankamanna, eins og blaðið orðar það, að skynsamlegast mundi vera að leggja bankann hreinlega niður. Ég tel að hér sé um svo mikla fjarstæðu að ræða og öfgar að hv. Alþ. eigi fulla heimtingu á að gerð sé grein fyrir málefnum Útvegsbankans, sérstaklega með tilliti til þess að bankinn er ríkisbanki og Alþ. skipar bankaráð hans. Reikningar bankans eru að sjálfsögðu prentaðir og gefnir út í byrjun hvers árs og geta því allir, sem áhuga hafa á, kynnt sér rekstrarafkomu bankans, eins og hún er um hver áramót, og fjárhagsstöðu að því er eignir og skuldir varðar.

Reikningar bankans fyrir árið 1976 eru í prentun, en munu verða gefnir út eins og venja er þegar því verki er lokið, sem mér er tjáð að muni verða í næsta mánuði. Sem bankaráðsmaður hef ég reikninga bankans fyrir árið 1976 undir höndum í handriti eins og endanlega hefur verið gengið frá þeim til prentunar, og samkv. reikningnum var rúmlega 30 millj. kr. rekstrarhagnaður hjá bankanum árið 1976 og eigið fé bankans í árslok 1976 rúmlega 280 millj. kr. Þess ber þó að geta í þessu sambandi, að brunabótamat fasteigna bankans mun vera um 1200 millj. kr. hærra en bókfært verð þeirra í reikningum bankans, svo að segja má að það séu hrein öfugmæli þegar verið er að tala um slæma fjárhagsstöðu bankans. Raunverulegar eignir bankans nema um 11/2 milljarði umfram skuldbindingar hans.

Í þeim umr., sem orðið hafa um málefni Útvegsbankans, hefur því verið haldið fram að innlánaaukning hafi verið minni hjá bankanum en eðlilegt er. Einnig þetta er rangt. Samkv. skýrslu, sem ég hef undir höndum um aukningu sparifjár í bankakerfinu nú fyrir s. l. 3 ár, kemur í ljós að aukning sparifjár hjá Útvegsbankanum er með eðlilegum hætti og í hlutfalli við stærð bankans. Hlutur sparifjár og aukning útlána er mest hjá Landsbankanum, þar næst hjá Búnaðarbankanum, en Útvegsbankinn er í þriðja sæti, aðrir bankar koma þar á eftir.

Þá hefur því verið haldið fram að staða bankans gagnvart Seðlabankanum hafi verið erfið um s. l. áramót. Ef lítið er á þá skyldu, sem á Útvegsbankann er lögð í sambandi við rekstrarfjármögnun sjávarútvegs og fiskvinnslu, hlýtur bankinn á vissum tíma að verða að nota þá yfirdráttarheimild sem hann hefur á hinum almenna viðskiptareikningi sínum hjá Seðlabankanum. Sú skylda er lögð á herðar bæði Landsbankanum og einnig Útvegsbankanum að veita bátaflotanum hin svokölluðu útgerðarlán, sem á hverjum tíma eru innan ramma sem settur er í samráði við Seðlabankann. Auk þess er einnig lögð sú skylda á þessa banka að lána til viðbótar þeim afurðalánum, sem Seðlabankinn endurkaupir, og nema þau lán 28–30% til viðbótar afurðalánum. Um síðustu áramót námu endurseld afurðalán hjá Útvegsbankanum rúmlega 2400 millj. kr. og viðbótarlánin, sem bankinn varð að inna af hendi, því um 700 millj. kr. Vertíðarundirbúningur bátaflotans fer venjulega fram á haustmánuðum ár hvert og eru útgerðarlánin þá veitt. Ég hygg að um síðustu áramót hafi þessir tveir málaflokkar, hin svokölluðu skyldulán til útgerðar og fiskvinnslu, numið hjá Útvegsbankanum rúmlega 1100 millj. kr. Er það sú upphæð sem bankinn var með á yfirdráttarreikningi sínum um síðustu áramót hjá Seðlabankanum.

Þegar þess er gætt, að um 60% af öllum lánum Útvegsbankans fara til sjávarútvegs og fiskvinnslu og að á bankann er lögð sú skylda að lána bæði útgerðarlán til bátaflotans og veruleg viðbótarlán til fiskvinnslunnar umfram afurðalánin, er sannarlega ekkert óeðlilegt við það þó að bankinn þurfi á vissum tíma á yfirdrætti hjá Seðlabankanum að halda. Eins og áður sagði nam þessi yfirdráttur um síðustu áramót um 1100 millj. kr., en hefur farið nokkuð lækkandi síðan, og geri ég ráð fyrir, ef allt fer með felldu, að hann verði að miklu leyti horfinn í vertíðarlok.

Ég vil að lokum geta þess, að ég held að það sé engin ástæða til að ætla annað en að viðskiptabankarnir muni fara eins varlega og frekast er kostur með að nota þá yfirdráttarheimild sem þeir hafa hjá Seðlabankanum vegna þeirra vaxtakjara sem á þessum reikningum eru. Á árinu 1976 voru vextir þessara reikninga ákveðnir 24%, en urðu í raun 30.6% að því er Útvegsbankann varðar, þar sem vextirnir eru reiknaðir af hæstu upphæð á 10 daga fresti þótt skuldin standi mun skemur. Nokkur leiðrétting mun þó í vissum tilfellum hafa verið á þessu gerð um s. l. áramót. Nú hafa þessir vextir verið hækkaðir í 36% sem getur þýtt 43% raunvexti með sömu þróun og varð hjá Útvegsbankanum á síðasta ári. Vona ég að hér sé aðeins um bráðabirgðaákvörðun að ræða hjá Seðlabankanum.

Herra forseti. Ég taldi nauðsynlegt að ræða málefni Útvegsbankans hér á Alþ., svo að þjóðin hefði eitthvað annað en æsifregnir blaðanna að byggja mat sitt á þegar um er að ræða stöðu Útvegsbankans og fjárhagsafkomu hans.