29.03.1977
Sameinað þing: 71. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2961 í B-deild Alþingistíðinda. (2152)

Umræður utan dagskrár

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég held að þessi síðustu orð hæstv. viðskrh. og bankamrh. séu tímabær hugvekja. Að sjálfsögðu veit alþjóð að annaðhvort fer ríkið allt á hausinn eða ríkisbankarnir standa undir þeim skuldbindingum sem á þeim hvíla. En í sambandi við þessi ummæli, áður en ég fer út í það sem ég hef punktað hér niður, þá held ég að vandamálið, sem verður til þess að vekja upp umr. um stöðu Útvegsbankans í þessu tilfelli, sé kannske að finna í öðrum stað í bankakerfinu. Ég er ekki frá því að svo sé, að það frjálsræði í athöfnum og alls konar ráðstöfunum sem Seðlabanki Íslands hefur til athafna, geti verið orsök þess að bankarnir komast í vanda. Það, sem kemur fram í blaðaskrifum sem hér er verið að vitna í sem æsifregnir, virðist ekki vera meiri æsifregnir en það, að bankamrh. upplýsir að bankastjórn Útvegsbankans hafi gengið á fund hans til þess eins að ræða vandamál bankans, og það þarf talsvert að bjáta á til þess að slík pílagrímsganga sé farin. En þessi skrif sem áttu sér stað í Frjálsri verslun, 2. tbl. 1977, og er þar vitnað í ummæli mín um vanda Útvegsbanka Íslands, og svo haldið áfram í Dagblaðinu fyrir nokkrum dögum og vitnað einnig í það, sem skrifað er í Frjálsa verslun, eru svo hljóðandi:

„Afkoma Útvegsbankans hefur verið mjög til umræðu manna á meðal undanfarið. Er ljóst að bankinn hefur um áraraðir verið að sligast undan þungum byrðum vegna fyrirgreiðslu við fyrirtæki í sjávarútvegi. Sjaldan mun staða bankans þó hafa verið jafnslæm og nú. Það vakti athygli að Albert Guðmundsson alþm., sem þekkir manna best til viðskipta og fjármála í landinu, lýsti yfir því á fundi nýverið að Útvegsbankinn yrði gjaldþrota innan skamms.“

Það, sem vantar inn í þessi ummæli mín, er það, að ég gat þess að það væri alveg útilokað að nokkurt fyrirtæki, hvort sem það er banki eða einkafyrirtæki eða ríkið sjálft, gæti staðið undir þeim kvöðum að taka lán, eftir þeim upplýsingum sem komu fram hjá Guðlaugi Gíslasyni sem hóf þessar umr., þegar vextir eru komnir upp í það að vera 36% og yfir 40%, á sama tíma sem bankanum er gert að skyldu, eftir því sem mér skilst í þessum ramma, sem vitnað var í, að Seðlabankinn setti, að lána út fé með 11% vöxtum. Hvaða fjármálastofnun eða hvaða aðili er svo sterkur að hann geti ausið út mismun á því sem hann fær og verður að láta af hendi sem getur svarað til allt að 20–30%?

Ég held að það sé augljóst, að það er kominn tími til að athuga hvað er að ske í Seðlabankanum. Hvernig stendur á því að það skuli ekki vera rætt á Alþ. þegar Seðlabankinn getur hagað sér svona? Því vil ég segja það, að það er fyllilega tímabært — og ég undirstrika það — að endurskoða lög um Seðlabanka Íslands og setja honum einhvern ramma sem er þrengri en sá sem er í dag.

Ég held að þessar fregnir, þó að ég persónulega hafi haft talsverð óþægindi af að þessi ummæli mín í Frjálsri verslun voru slitin úr samhengi við það sem ég sagði, hafi vakið menn til umhugsunar um ekki einungis Útvegsbankann, því að Útvegsbankinn er virt stofnun sem hefur gegnt sínu hlutverki með prýði hér í Reykjavík og um landið allt, heldur um bankamál almennt. Útvegsbankinn hefur gegnt bankastarfsemi og hlutverki annarra banka á stöðum úti á landi þar sem aðrar bankastofnanir hafa útibú, en ekki veitt sjávarútveginum fyrirgreiðslu, og aðilarnir frá þeim stöðum hafa verið viðskiptavinir Útvegsbankans bæði hér í Reykjavík og annars staðar, og það út af fyrir síg er athugunarefni. Hvernig stendur á því að t. d. bankar eins og Samvinnubankinn og önnur útibú hafa svo að segja einkarétt á peningamarkaðinum á ákveðnum stöðum, en koma sér undan að veita fé í atvinnurekstur staðarins, bann undirstöðuatvinnurekstur sem er á hverjum stað og oftast nær er sjávarútvegur? Aðrir bankar telja sig ekki bera sömu skyldu til þess að hlaupa undir þagga með útveginum nema að því marki sem Landsbankinn að sjálfsögðu gerir. Ég held að aðrir bankar fari afskaplega varlega í að koma nálægt útveginum, þó má finna undantekningar.

Ég hleypti ekki af stað þessum umr. á Alþ., en ég sé mig neyddan til að taka þátt í þeim vegna þeirra ummæla og vegna þess að ég hef verið flæktur inn í þetta mál á byrjunarstigi. En það hefur komið fram að það er alger óþarfi að kalla þær fregnir og blaðaskrif, sem hafa orðið um Útvegsbankann og stöðu hans og eru sennilega afleiðing af gerðum annarra aðila eins og t. d. Seðlabankans, æsifregnir. Ég held að það hafi verið tímabært fyrir Alþ. að fá þessi mál, peningamál þjóðarinnar almennt, til umræðna í sölum Alþ. Ég vona að þetta sé aðeins byrjunin, því að ég mun hér í lok, hæstv. forseti, óska eftir því að þessum umr. verði frestað til þess að okkur gefist kostur á að kynna okkur málið betur og kynna okkur þá einnig þær fullyrðingar sem komu hér fram.

Guðlaugur Gíslason segir, ef ég fer rétt með, að það sé samkv. reikningum Útvegsbanka Íslands, sem ekki eru komnir út, um 30 millj. kr. rekstrarhagnaður á s. l. ári hjá bankanum og hann hafi nú 280 millj. kr. eigið fé. Ég vona að ég fari hér rétt með, skrifaði það eftir Guðlaugi Gíslasyni, ef ekki, þá verður það leiðrétt, að eignir séu um 1200 millj. til 1.5 milljarðar umfram skuldir. Og mér skildist á honum, að það væri allt í lagi með rekstur bankans þrátt fyrir þessa háu vexti sem bankinn greiðir Seðlabankanum, og þrátt fyrir þessa lágu vexti sem Útvegsbankinn tekur af útlánum. Ég trúi því ekki. En þetta eru fullyrðingar sem ég vil fá tíma til að athuga vel áður en þessari umr. verður slitið. En ég skal viðurkenna það, að ég veit ekki hvaða ramma Seðlabankinn setur Útvegsbankanum. Það kom fram í máli Guðlaugs Gíslasonar áðan, að Útvegsbankanum væri ákveðinn rammi settur og honum væri gert að skyldu að hlaupa undir bagga með sjávarútveginum og fiskvinnsluframleiðslutækjum landsins. Hvaða rammi er þetta sem við erum að tala um? Er bankanum skylt að taka peningana í yfirdrætti frá Seðlabankanum, vegna þess að hann á ekki nógu mikið eigið fé sjálfur til þess að þola að standa að 60% undir fiskvinnslunni eða undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar? Og á sama tíma innan þessa ramma er honum skylt að taka 11% vexti af þeim, sem fá lánin, en á sama tíma er honum gert að skyldu að greiða 40% fyrir lánin. Hver er þessi rammi sem Seðlabankinn setur, sem er svo ranglátur að bankinn er í vandræðum, — banki sem hefur verið fram til síðustu ára einn af virtustu peningastofnunum þessa lands?

Það er 1100 millj. kr. yfirdráttur hjá Seðlabankanum um áramót, segir Guðlaugur Gíslason. Ég trúi því. En hvað hefur skeð áður, úr því að þetta er komið til umr.? Hvað hefur skeð áður? Er búið að breyta öðrum yfirdráttum í löng lán? Er búið að breyta erlendum lánum í innlend lán til langs tíma? Hvað hefur skeð? Þetta veit ég ekki. Þetta vil ég fá að kynna mér áður en við ljúkum þessum umr.

Það er mjög alvarlegt mál, eða a. m. k. lít ég þannig á, ef þær upplýsingar eru réttar, sem komu fram hjá Guðlaugi Gíslasyni í hans framsögu um þetta mál, að vextir skuli vera komnir yfir 40%, eða á s. l. ári frá 36% og yfir 40%. Þetta er meira en lítið athugunarefni fyrir ríkisstj. og ekkert síður fyrir Alþ. Og ég tel að þetta sé ekki viðkvæmt mál. Það kom fram hjá viðskrh. að þetta væri viðkvæmt mál þar sem um viðskiptabanka væri að ræða. Þetta er ekkert viðkvæmnismál. Fyrir hvern er það viðkvæmt mál? Það er viðkvæmt mál fyrir ríkisstj., það er viðkvæmt mál fyrir Seðlabankann, en það er ekki viðkvæmt mál fyrir almenning, það er ekki viðkvæmt mál fyrir Útvegsbankann, vegna þess að honum er settur rammi sem hann ræður ekki við, eftir því sem frsm. sagði hér áðan. Og það er ekki viðkvæmt mál fyrir viðskiptavini vegna þess, eins og hæstv. viðskrh. sagði réttilega að þetta er ríkisbanki. En svo er spursmálið: Hvaða kvaðir hefur ríkið sjálft kallað yfir sig? Er það nokkuð betur statt heldur en Útvegsbankinn ef til mergjar verður krufið?

Peningamál þjóðarinnar eru þess eðlis að þau þarf að taka til athugunar, og það verður ekki gert hér í stuttri umr. um Útvegsbanka Íslands einan. Málið er miklu stærra. Og þennan vanda á að leysa, eftir því sem kom fram hjá ráðh., með því að greiða fyrir tilfærslu á viðskiptum fyrir sjávarútveginn til annarra banka. Sem sagt, það er búið að koma þessum banka í vanda, og það á að færa vandann yfir á aðra banka svo mikið sem þeir þola það. Endanlega hlýtur vandinn að verða sá sami hjá þeim, annað er alveg útilokað með þessu áframhaldi.

Ég hef alltaf álitið að þessir sektarvextir eigi alls ekki rétt á sér, þeir eigi engan rétt á sér. Ef menn geta ekki staðið í skilum, þá er það af einhverjum ástæðum. Það er ekki alltaf af hreinum aumingjaskap. Það er ekki alltaf af því að þeir séu að fjárfesta í eigin húsnæði, eigin bílum eða lífi í lúxus. Það er vegna þess að atvinnuvegirnir hafa ekki borið sig að undanförnu. Og þetta verðum við að fara að skilja. Hvað skeður svo þegar jafnvel ríkissjóður stendur ekki í skilum við sjóðina og sjóðirnir standa ekki í skilum við þá sem fá samþykkt lán úr þeim, og útgerðin stendur ekki í skilum við smiðjurnar og smiðjurnar standa ekki í skilum við innflytjendur sem lána efnivið í reikning — og hvar endar þetta? Þetta endar í sektarvöxtum með sektarvöxtum í Gjaldheimtunni. Þjóðin er öll komin á sektarvexti einhvers staðar, og svo dynja rukkunarhótanir yfir þjóðina, eins og réttilega hefur komið fram og mjög réttilega kom fram hjá Bjarna Guðnasyni fyrrv. alþm. nýlega í sjónvarpsviðtali. Þetta er orðið óþolandi, hreint sagt óþolandi kvaðir komnar bæði á einstaklinga, fyrirtæki og nú er það að knésetja bankastofnun. Það er fjöldinn allur af einstaklingum og fyrirtækjum í nákvæmlega sömu aðstöðu og Útvegsbankinn.

Og hvað þýðir að tala um að leysa vanda Útvegsbankans með fleiri útibúum í nágrenni Reykjavíkur, á Seltjarnarnesi og í Kópavogi? Á að spýta þar inn peningum frá Seðlabankanum, eða á bara að opna þarna afgreiðslustofnun fyrir sparifé til þess eins að fá enn þá harðari samkeppni um spariféð á þessum stöðum inn í þennan taprekstur? Maður skyldi ætla að það kæmi þó a. m. k. fram við hverja Útvegsbankinn á að keppa um sparifé í Kópavogi. Er nokkur annar banki í Kópavogi en Útvegsbankinn, fyrir utan Sparisjóð Kópavogs? Það held ég ekki. Hann er sem sagt að fjölga afgreiðslustöðum í þessu byggðarlagi. Ég held að það sé enginn banki á Seltjarnarnesi. Þar á að koma útibú frá Útvegsbankanum. Það getur verið að það komi þar eitthvað inn af peningum, ég skal ekki segja um það. En hvaðan kemur þetta fé. Þetta er sparifé sem er í öðrum bönkum í Reykjavik. Vinnumarkaður þessara staða er Reykjavík. Aftur á móti eru opinber gjöld greidd á þessum stöðum. Eini vinnumarkaðurinn, sem eitthvað kveður að fyrir Kópavog, er Reykjavik, þó að það séu að skapast þar fleiri og fleiri atvinnuskapandi fyrirtæki. Á Seltjarnarnesi er svo til ekkert, enginn atvinnurekstur, einstaka verslun og eitt útgerðarfyrirtæki, þannig að þetta er sparifé sem þegar er í umferð í Reykjavík og er þá dregið frá öðrum bönkum í þessi útibú. Ég hef ekki trú á að það leysi vanda Útvegsbankans.

Ég reikna með að það verði greiður aðgangur fyrir mig að fá upplýsingar um stöðu ekki bara Útvegsbankans, heldur bankanna almennt við Seðlabankann, að ég fái aðgang að skýrslu Seðlabankans um stöðu bankanna, sem að vísu er, að mér skilst, trúnaðarplagg. Ég mun óska eftir henni sem trúnaðarskýrslu og ekki hafa annað úr þeirri skýrslu við málflutning en það sem hæstv. ráðh. leyfir mér að fara með. En ég vil vita sjálfur hvort ég er að fara með rétt mál eða ekki. Það get ég ekki nema hafa aðgang að upplýsingum. Ég trúi ekki að alþm. verði meinað um þær upplýsingar sem þeir telja sig þurfa til þess að taka þátt í umr. um stærstu vandamál þjóðarinnar sem peningamálín og efnahagsmálin eru orðin.

Ég vil fá eftir það sem kom fram hjá Guðlaugi Gíslasyni, hv. 3. þm. Suðurl., sem er bankaráðsmaður, ýmsar upplýsingar um mál Útvegsbankans. Ég óskaði ekki eftir þessum umr., það gerðu aðrir. Ég vil fá að vita hverju hefur verið breytt af yfirdráttarlánum í langtímalán. Ég vil fá að vita hvort erlendum lánum hefur verið breytt í innlend langtímalán. Ég vil fá að vita hvernig staða bankans var orðin og hefði verið ef engu hefði verið breytt og hvernig hún er í dag. Og við skulum þá hjálpast að því að komast að kjarna málsins. Af hverju er staðan svona alvarleg? Þá getum við líka vitað hvort Seðlabankinn hefur sett bönkunum óeðlilegan ramma, Útvegsbankanum og öðrum bönkum. Ég tel að öllu viðskipta- og athafnalífi þjóðarinnar hafi verið skorinn svo þröngur stakkur með alls konar bindingum, — ekki eingöngu með innlánsbindingum, heldur alls konar öðrum ráðstöfunum, að það er orðið of lítið svigrúm fyrir frjálst athafnalíf í landinu. Og nú á þessu augnabliki og frá áramótum hefur verið takmörkun á útlánum hjá bönkunum við afgreiðslu á rekstrarfé til fyrirtækja almennt og mörg fyrirtæki þurft að selja eignir til að fara ekki á hausinn.

Ég sé ekki ástæðu til þess — og tek undir það með hæstv. viðskrh., að nokkur sá sem á sparifé í bönkunum, hvort sem það er í Landsbankanum eða Útvegsbankanum, þurfi að óttast um inneign sína. Sparifjáreigendur í Útvegsbankanum eru ekkert öðruvísi settir en sparifjáreigendur í Landsbankanum. Það er engin hætta að þeir tapi sínu fé. Ég undirstrika, að ef fólk fer að halda annað, þá er það ástæðulaus ótti. Það er svo vitað mál að fólk kaupir hvað sem það getur hönd á fest til þess að eiga ekki peninga. Af hverju það? Það hlýtur að vera eitthvað mikið að okkar peningamálum.

En ég er sammála um að það þarf að gera ráðstafanir til þess að styrkja stöðu Útvegsbankans. Og ég er enn þá vissari um að það þarf að gera enn þá meira átak til þess að styrkja stöðu ríkissjóðs og landsins í heild og þá sérstaklega út á við. Sú skuldasöfnun, sem við erum allir sammála um að er orðin allt of mikil, er að sliga okkur, á sama hátt og skuldasöfnun einkaaðila og fyrirtækja og þá bankans í þessu tilfelli, er að sliga kerfið í heild.